Miðvikudagur 16.02.2011 - 11:05 - 10 ummæli

Svartur dagur í sögu lýðveldisins

Í dag féll dómur í Nímenningamálinu.  Þrátt fyrir að ákæruvaldið hafi farið fram með einhverja svívirðilegustu ákæru sem um getur í sögu lýðveldisins vonuðu margir, og töldu augljóst, að sakborningar yrðu sýknaðir af öllum ákærum.  Þrátt fyrir að Pétur Guðgeirsson dómari hafi sýnt verjendum sakborninga skammarlega lítilsvirðingu í þinghaldinu, og ekki heldur lýst saksóknarann vanhæfan þrátt fyrir mikil tengsl við brotaþolann, þá neituðu margir að trúa því að hann gengi erinda þeirra fasísku tilhneiginga sem ríkisvaldið hefur sýnt í þessu máli.  Annað kom á daginn.

Þrátt fyrir að dómendur hafi lýst flestallar ákærurnar fráleitar gátu þeir ekki stillt sig um að dæma nokkra sakborninga fyrir „brot gegn valdstjórninni“.  Ljóst er að þar er um slík matsatriði að ræða að dómurum hefði verið í lófa lagið að sýkna einnig fyrir þau meintu „brot“.  Það hefðu þeir átt að gera, í ljósi þess að hér var um að ræða mótmæli sem eru vernduð af tjáningarfrelsinu, og óskynsamlegt að ætlast til að slík mótmæli séu ávallt sótthreinsuð af öllum átökum þegar valdstjórnin ákveður að beita valdi.

Þetta mál mun ekki gleymast næstu áratugina, og það mun verða fjölda fólks  til skammar svo lengi sem það lifir, að minnsta kosti svo lengi sem það stígur ekki fram og biðst opinberlega fyrirgefningar á svívirðilegri framkomu sinni eða afskiptaleysi.

Gleymum því ekki að mótmælin sem sakborningar tóku þátt í fóru friðsamlega fram af hálfu mótmælendanna.

Gleymum því ekki að mótmælendur neyttu stjórnarskrárvarins réttar síns, sem nú hefur verið svívirtur af stjórnvöldum.

Gleymum því ekki að mótmælin sem dæmt var fyrir voru lítill hluti af gríðarlegum mótmælum sem stóðu mánuðum saman, og sem áttu rætur sínar að rekja til algers hruns íslenska efnahagskerfisins, og skipbrots íslenskra stjórnmála.  Skipbrots þeirra stjórnvalda sem nú fara fram með ofsóknum á hendur þeim sem mótmæltu vanhæfi og spillingu þessara sömu stjórnvalda.

Gleymum því ekki að engir þeirra sem ollu hruninu hafa verið saksóttir.

Gleymum því ekki að starfsmenn Alþingis völdu úr mikilvægustu sönnunargögnunum, myndupptökum úr þinghúsinu, það sem þeim fannst „áhugaverðast“ fyrir sig, en eyddu hinu.

Gleymum því ekki að forseti Alþingis ásakaði nímenningana um að hafa slasað starfsfólk Alþingis, og neitaði að draga þá staðhæfingu tilbaka þrátt fyrir að í ljós kæmi á upptökum úr þinghúsinu að þetta var rangt.

Gleymum því ekki að saksóknarinn, Lára V. Júlíusdóttir, pantaði ákæru fyrir húsbrot frá skrifstofustjóra Alþingis, Helga Bernódussyni.

Gleymum því ekki að bæði Lára og Helgi lugu því að þau hefðu ekkert samráð haft um ákæruna.

Gleymum því ekki að þrátt fyrir að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, og fjölmargir stuðningsmenn hennar, hafi gagnrýnt þingforseta harðlega fyrir framgöngu sína, þá situr Ásta Ragnheiður á stóli þingforseta í skjóli  Samfylkingarinnar.

Gleymum því ekki að Lára V. Júlíusdóttir er innanbúðarmanneskja í Samfylkingunni, og hjá „brotaþolanum“ Alþingi.

Gleymum því ekki að Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra neitaði að stöðva þessa ógeðfelldu saksókn.

Íslenskur almenningur hefur áður gengið í gegnum svívirðilegar ofsóknir af þessu tagi, eftir mótmælin við inngönguna í NATO 1949.  Þau sár sem valdastéttin veitti þá greru seint, og ennþá sjást örin eftir þau.  Þá voru það hatursfullir og óttaslegnir hægrimenn sem beittu þunga valdsins til að kúga þá sem dirfðust að mótmæla.  Nú fer kúgunin og svívirðan fram í nafni Samfylkingarinnar, með þegjandi samþykki forystu Vinstri Grænna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • „Verður með engu móti talið að fyrir þeim hafi vakað að reyna að kúga Alþingi eða að athafnir þeirra geti talist vera sú árás á þingið að sjálfræði þess hafi verið hætta búin. Ber samkvæmt þessu að sýkna öll ákærðu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga.“

    Þetta skipti höfuðmáli og svo hitt hvað Hæstiréttur segir. Í raun og veru geta hin ákærðu borið höfuðið hátt, að hafa gerst sek um brot gegn valdstjórninni undir þeim kringumstæðum sem ríktu. Þau þurfa ekkert að væla yfir þessu smáræði, sómir sér jafnvel vel á CV-um framtíðarinnar. Meðan ekkert 100. greinar bull varð ofan á þá leyfi ég mér að túlka þetta sem sigur á sinn hátt.

  • lydur arnason

    Íslenzkt réttarkerfi nýtur ekki aðgreiningar frá löggjafar- og framkvæmdavaldi, íslenzkt réttarkerfi er þessu samrassa og hætt að þjóna almannahag. Á þegnum þessa lands hvílir sú skylda að gefa gömlu valdablokkunum rauða spjaldið í næstu alþingiskosningum.
    Lýður Árnason

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Íslendingar reistu sér, með nýrri stjórnarskrá, lýðveldi á Þingvöllum
    þann 17. júní 1944.

    Það verður sífellt fleirum ljóst að þetta lýðveldi er í raun HRUNIÐ.

    Íslendingar hafa undanfarin ár verið mjög uppteknir af peningum,
    þeir hafa allt of margir metið ALLT í peningum.

    Fjármálahrunið var sannarlega alvarlegt en ég tel þó að siðferðis-
    hrunið eigi eftir að reynast MUN ALVARLEGRA.

    BISKUPINN kom fram í beinni útsendingu Kastljóss og lýgur þar,
    upp í opið geðið á þjóðinni, að hann hafi ekki tekið þátt í þöggun kynferðisofbeldis innar kirkjunnar 1996.

    HÆSTIRÉTTUR hélt því fram í nýlegum dómi sínum að kjörseðlar í
    kosningum til stjórnlagaþings væru í raun rekjanlegir.

    Allir sem kunna grundvallarreglur rökfræðinnar skilja að þetta er NON-SENSE.

    Á hvaða leið er þjóðfélag sem hefur Hæstarétt sem kemur fram með svona
    DJÖFULSINS dellu !!!

    HÆSTIRÉTTUR nýtur ekki lengur trausts almennings !!

    Einkavinavæðing SjálfstæðisFLokksins á dómskerfinu hefur rifið niður
    eina af grundvallarstoðum réttarríkisins.

    Sögulegur tími Björns Bjarnasonar í dómsmálaráðuneytinu hefur hlotið
    einkunarorðin:

    „Náfrændinn, bridsfélaginn og einkasonurinn“

    Skiljanlega !!!

  • Sæll

    Ég tek það fram að mér þótti þetta mál rugl frá upphafi til enda. Hins vegar skrifar þú eftirfarandi: „Gleymum því ekki að Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra neitaði að stöðva þessa ógeðfelldu saksókn.“

    Hefur Ögmundur, eða hvaða dómsmálaráðherra sem er ef út í það er farið, einhver völd til að stöðva sakamál sem liggja hjá saksóknara? Það er þá eitthvað nýtt (og frekar ógnvænlegt) í íslensku réttarfari. Varstu að meina eitthvað annað?

  • Að ógleymdum kostnaði fyrir ákærðu, að mér skilst um 800.000 per haus.

    800 kall í sekt ef þú mótmælir á íslandi.

    Viðbjóður….

  • Einar Steingrímsson

    Já, Örn, samkvæmt 29. grein stjórnarskrárinnar getur forseti (en ráðherra fer með vald hans í þessu) stöðvað saksókn. Það hefði átt að gera hér, þ.e.a.s. saksóknina á grundvelli 100. greinar, alveg eins og það ætti að stöðva saksókn gegn þér ef þú værir ákærður fyrir að drepa mann sem er enn á lífi.

    Annar aðaltilgangurinn með þrískiptingu ríkisvaldsins er að greinarnar þrjár tempri hver aðra, og komi í veg fyrir að hinar geri hluti sem eru algerlega glórulausir, eins og það var að ákæra Nímenningana fyrir að reyna að svipta Alþingi sjálfræði þess.

    Það er ekki í lagi að ákæra fólk fyrir glæp sem ekki hefur verið framinn, og það er alvarleg árás á tjáningarfrelsið að draga saklaust fólk í gegnum dómskerfið í heilt ár á fölskum forsendum.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Það er annað mál sem við ættum öll að kynna okkur og það er ráðning
    tengdasonar biskupsins í embætti sóknarprests í London fyrir nokkrum árum.

    Fyrir þetta var biskupsembættið dæmt fyrir brot á jafnréttislögum. Síðar var
    embættið dæmt til greiðslu skaðabóta í sama máli.

    Morgunblaðið fjallaði ítarlega um þetta mál á sínum tíma. Það var reyndar
    áður en Davíð Oddsson gerðist ritstjóri.

    Sjá t.d. grein bls. 10 þann 9. desember 2004
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=258896&pageId=3619579〈=is&q=tengdasonur+biskupsins

    Fyrir dómi hélt biskupinn því fram að hann hafi ekki vitað að tengdasonurinn hefði ætlað að sækja um embættið.

    Þetta er athyglisvert í ljósi þess að sama dag og staðan var fyrst auglýst, barst
    biskupsstofunni umsókn frá áðurnefndum tengdasyni sem þá var búsettur í London.

    Þrátt fyrir að tengdasonurinn hafi sótt um starfið skipaði Karl Sigurbjörnsson dómnefndina.

    Ísland er YNDISLEGT land !!!!

  • Takk fyrir svarið. Þetta stenst nú samt ekki alveg hjá þér þótt þetta standi svona í stjórnarskránni.

    „Þar sem 29. gr. tilgreinir engin skilyrði fyrir niðurfellingu saksóknar mætti ætla að forsetinn sé ekki bundinn af lögákveðnum skilyrðum sem sett hafa verið fyrir þessu úrræði. Hins vegar má slá því föstu að miðað við nútímahugmyndir um sjálfstæði ákæruvaldsins gagnvart æðstu handhöfum framkvæmdarvalds myndi forseti eða með öðrum orðum ráðherra, sem framkvæmir vald hans, ekki beita því nema við mjög afbrigðilegar aðstæður. Engin dæmi eru um að það hafi verið gert síðustu áratugi.“

    Heimild: http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/skyringar.pdf

    Það getur vel verið að þér og mér hafi fundist þetta fáránlegar ákærur en ég er nokkuð viss um það sé vond hugmynd að dómsmálaráðherra sé að fella niður ákærur eftir eigin geðþótta. Enda er engin hefð fyrir slíku. Það gildir hvort sem dómsmálaráðherrann er Ögmundur Jónasson, Björn Bjarnason eða einhver annar.

    Dæmið þitt er einkennilegt líka. Ef ég yrði ákærður fyrir morð á manni sem væri á lífi þá væri frekar erfitt fyrir ákæruvaldið að færa rök fyrir því í réttarsal. Þótt við séum að tala um íslenskt réttarfar ætla ég rétt að vona að ákæruvaldið myndi láta slíkt mál niður falla.

  • Einar Steingrímsson

    Örn: Við erum einmitt að tala um að ákæruvaldið hafi ákært fyrir alvarlegan glæp sem öllum var ljóst að ekki hafði verið framinn. Þ.e.a.s., engum nema saksóknara datt í hug að Nímenningarnir hefðu ætlað að fremja valdarán (hvað þá að þeir hefðu getað það). Það er um slíkt sem 100. grein fjallar, og til að hægt sé að sakfella fyrir hegningarlagabrot verður þar að auki að vera til staðar ásetningur. Þetta voru sem sé „mjög afbrigðilegar aðstæður“ því ákæran er algerlega glórulaus.

    Og, það er til a.m.k. einn Hæstaréttardómur þar sem rétturinn kemst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði átt að beita sér fyrir niðurfellingu saksóknar á grundvelli 29. greinar stjórnarskrárinnar.

  • Afhverju segir þú að mótmælin hafi farið friðsamlega fram? Beit ekki einn sakborninga lögreglumann?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur