Þriðjudagur 22.02.2011 - 13:05 - 29 ummæli

Karl Th. og Bingi vinur hans

Karl Th. Birgisson skrifaði bloggpistil á Eyjunni skömmu eftir að hann tók við sem ritstjóri.  Pistillinn er í spaugsömum og vingjarnlegum tón, og svo sem gott að vita að Karl geti brugðið fyrir sig þeim betri fæti.    Hann talar kumpánlega um fótboltafréttamanninn Binga, svo kumpánlega að ætla má að þeir séu bestu vinir.  Sem er líka í fínu lagi í sjálfu sér, og það jafnvel þótt maður trúi því að vinir manns segi til um hvers konar manneskja hann sé sjálfur.

Hitt er verra, að það hafa ekki fengist nein svör við þeim spurningum sem margir hafa spurt sig, sumir upphátt, hver verði ristjórnarstefna fótboltafréttamannsins Binga, vinar Karls, en Bingi þessi er titlaður útgefandi Eyjunnar, þótt Karli virðist hugnast betur fótboltafréttamannstitillinn, enda mun krúttlegri.

Í gær fékkst e.t.v. svar við þessari spurningu að hluta, þegar slúðurmeistarinn Eiríkur Jónsson, og Facebookvinateljarinn Jakob Bjarnar Grétarsson voru kynntir sem „Öflugur liðsauki Eyjunnar“.  Gott væri að fá á hreint  hvort þessi liðsauki lýsi því liði sem ætlunin er að byggja upp, fremur en „gamla liðið“ á Eyjunni.  Alveg sérstaklega er ástæða til að hafa í huga að á þeim stalli sem Eiríkur og Jakob standa nú var áður blogg Láru Hönnu Einarsdóttur, sem óhætt er að segja að hafi verið með öðrum blæ en hjá nýliðunum tveim.  Að ekki sé nú minnst á innihaldið.

Vegna slæmrar reynslu landsmanna af eignarhaldi og stjórn braskara af ýmsu tagi á fjölmiðlum, og af því að Björn þessi Ingi (sem Karli Th. finnst óþarfi að verið sé að röfla mikið um) hefur verið bendlaður við fjármálagjörninga sem hafa á sér oggulítið vafasamt yfirbragð, þá væri líka við hæfi að maðurinn sá gerði hreint fyrir sínum dyrum, svo lesendur Eyjunnar viti hverra hagsmuna hann hefur að gæta í þeirri umræðu sem vonandi visnar ekki strax, þ.e.a.s. um hvernig eigi að taka á þeim sem léku umtalsverð hlutverk í því geðveika sukki sem setti landið á hausinn og fjölda saklauss fólks á vonarvöl.

Sé Bingi vinur Karls Th. að mestu saklaus af því að vera hrunvaldur eða samsekur þeim væri gott að vita það, og fá nægar upplýsingar til að lesendur geti metið það sjálfir.  Sama gildir auðvitað um Róbert Wessman, sem er líka orðinn einn eigenda Eyjunnar, að maðurinn sá hefur, meðal annars af Eyjunni, verið bendlaður við ýmislegt vafasamt í tengslum við hið svokallaða hrun.  Ekki væri úr vegi að Eyjan segði frá stöðu  hans mála, þar sem hún er nú orðin háð vilja hans sem eiganda.

Sem sagt, sleppum röflinu í bili, Karl, en tölum í staðinn tæpitungulaust um fortíð þeirra manna sem þú hefur nú ráðið þig til að þjóna.  Það mætti t.d. gera með ítarlegri úttekt á starfsemi Björns Inga Hrafnssonar og Róberts Wessman síðustu 5-6 árin.  Slíkt myndi taka af allan vafa um að þú vildir láta líta á þig sem sjálfstæðan ritstjóra með bein í nefinu og fréttamannsheiðurinn í fyrirrúmi.  Á því er ekki vanþörf í þessu hrunda landi.  Að því loknu væri gaman að lesa fleiri pistla frá þér í spaugsama tóninum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

 • Snæbjörn

  Ég sakna eyjunnar. Hún var pínu ljós í myrkri ásamt DV, fréttamiðill sem ég vissi að hefði eigendur sem ekki höfðu neitt á samviskunni. Ef þetta verður Bingavætt þá hætti ég að lesa.

 • Jenný Anna Baldursdóttir

  Ég blogga hér og ég sakna eyjunnar.

 • fridrik indridason

  ég þekki þá báða eirík og jakob, baunann og baunateljarann á facebook. þú átt ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim enda endurspegla þeír ákveðinn raunveruleika á blogginu rétt eins og þú og lára hanna. Raunar kæmi mér ekki á óvart að eiríkur léti af þessu örbloggi sínu og jakob færi að tjá sig um það sem máli skiptir.

 • Sverrir Kr.

  Er eiginlega hættur að lesa það sem á að heita fréttir á Eyjunni eftir að ómerkingurinn Bingi tók við taumunum. Ekki batnar það væntanlega með þessum tveimur „öflugu“ nýju liðsmönnum. Undir liðinn „almennt“ er farið að troða slúðri af Pressunni og Bleiku.is ásamt öðru poppi sem ætti betur heima undir „fólk“. Ennþá les ég Pennana meðan gott fólk þar heldur út undir Binga og R. Wessman. Það er í góðu lagi að vinsa út verstu illyrðin, (hvað skyldi Binga annars finnast um orðið „ómerkingur?) en ef útiloka á allar athugasemdir nema fullt nafn fylgi, er hætt við að fínum fjöðum fækki.

 • Raggi Noname

  Sanngjarn pistill og hafðu þakkir fyrir.

 • Sverrir Kr.

  „fínum fjöðrum“ átti þetta að vera. Auðvitað á alltaf að lesa yfir áður en ýtt er á „Senda“!

 • Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer inn á eyjuna eftir að hún varð ómarktæk.

  Einar og Jenný – í öllum bænum farið eitthvað annað með ykkar frábæra blogg!

 • Sigurður #1

  Ætli ritstjórnarstefnan birtist ekki ágætlega hér.
  http://www.dv.is/sandkorn/2011/2/22/hannes-og-bingi/

 • Pistill Einars er að því leyti til áhugaverður að hann fjallar um eignarhald braskara á fjölmiðlum og lætur að því liggja að blaðamenn selji sálu sína. Braskarar og útrásarvíkingar eru auðvitað vondir menn og eiga sér fáa formælendur. En að mati pistlahöfundar eiga þeir góðan bakhjarl en það er blaðamannastéttin. Hún veitir vonda fólkinu skjól en fær í staðinn brauð og nokkur korn af salti í grautinn.
  Undir þessi sjónarmið má taka því blaðamannastéttin virðist fátt hafa lært af hruninu. Blaðamannafélag Íslands hefur ekki svo opinbert sé farið í greiningu á því hvers vegna stéttin brást svo hrapallega í aðdraganda hrunsins. Fréttaflutningur var grunnfærinn, fráleitt hlutlægur en litaður pólitískum sjónarmiðum og hallur undir eigendur sína. Og niðurstaðan af þessu getuleysi og viljaleysi forystu blaðamanna er sú að ekkert hefur breyst til batnaðar í fjölmiðlun hér á landi. Siðareglur blaðamanna eru þverbrotnar nótt sem nýtan dag en þær kveða meðal annars á um hlutlægni í fréttamiðlun og að leita eigi sannleikans í öllum málum. Fjórða valdinu var sem sagt ætlað samkvæmt siðareglunum að veita öflugt aðhald í samfélaginu og veita almenningi sem sannastar upplýsingar. En því miður er fréttamennskan enn sem áður í áróðurskenndum farvegi; þjónkun ýmist við flokkspólitísk sjónarmið eða eigendur fjölmiðlanna með því að fegra aðkomu þeirra að fjármálasukki eða þegja um afglöp þeirra og fjárglæfra. Það heitir að ljúga með þögninni.
  Það má þó segja blaðamannastéttinni til vorkunnar að á síðari árum hafa fréttastofurnar ráðið til sín ódýrt vinnuafl nýútskrifaðra stúdenta sem hvorki hafa þekkingu, getu né reynslu til þess að fjalla um mál af neinu viti né veita öflugt aðhald í þjóðfélaginu. Og því miður eru líka til eldri haukar í stéttinni sem aldrei hafa náð að þroskast né læra af reynslunni og hafa því ekki verið þeim yngri holl fyrirmynd. Nægir þar að nefna Jónas Kristjánsson sem fer fram í pistlaskrifum af þvílíku offorsi, hatri og níði að með ólíkndum er og hefur sjaldnast eitthvað til síns máls. Lygin er honum oftast tamari. Hann hefur því engu jákvæðu að miðla til ungra blaðamanna en Háskóli Íslands er á öðru máli og segir það sitthvað um þá stofnun.
  Annar öldungur sem náði þeim frama að vera valinn blaðamaður ársins hefur hvað eftir annað orðið sér og stéttinni til háðungar. Það var raunalegt að horfa á Jóhann Hauksson, aðlaðan af blaðamannastéttinni, eldrauðan í andliti og froðufellandi af heift á Bessastöðum.
  Það er af þessum ástæðum og ýmsum öðrum heillandi verkefni fyrir Einar Steingrímsson að taka fyrir vanda blaðamannastéttarinnar í næsta pistli. Vandasamt verkefni og vissulega vanþakklátt en nauðsynlegt ef fjórða valdið á að verða einhvers virði í því að móta nýtt Ísland þar sem sannleikurinn og siðferðið verður haft í hávegum.

 • Einar, ætlarðu virkilega að halda áfram að blogga hér? Ég sagði upp Mogganum á sínum tíma og fer aldrei inn á mbl.is. Hér með hætti ég að skoða Eyjuna. Fólk verður að vera með prinsippin sín alveg á hreinu svo mark sé á því takandi. Solong, loddarar og smákarlar!

 • Elfa Jóns

  Ég sakna líka Eyjunnar sem var … með sínum risastóru göllum.
  Þrátt fyrir ágætis efnistök Karls Th. þá nennir maður minna að lesa fréttapistlana eftir að ummælin eru horfin.

  Eiríkur hefur aldrei verið minn tebolli, en aftur finnst mér mjög gaman að lesa Jakob Bjarnar. Hann mætti sossum líka skrifa alvarlegri pistla.

  Ég tek undir með þeim sem finnst Eyjan færast skuggalega í áttina að Bleikt.is … þetta er sossum ágætt eins og er … en í guðanna bænum ekki ganga lengra í þá átt.

 • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

  Nýju „eigendur“ ( sjálfsagt skuldsett yfirtaka a la 2007 ) Eyjunnar
  hafa nú þegar tekið til við að herða tökin.

  Þessi fýrar þola ekki opin skoðanaskipti á miðlinum

  Ég spái því að hinn opinskái Einar Steingrímsson verði bráðum rekinn.

  BINGÓ !!!!

 • Eyjan, minn uppáhaldsvefur virðist vera að fara í einhverja átt sem mörgum líkar ekki. Ég vona að það sé ekki raunin.
  Kveðja að norðan.

 • Ég veit það nú ekki – eru nokkur merkileg teikn um eitt né neitt fyrir utan þá léttmetisbræður Jakob og Eirík – og svo þessa stórundarlegu langtímalokun kommentakerfisins?

  Annars sýnist mér þetta vera á sömu nótum – og er maður þó með krítísku gleraugun á.

 • Eyjólfur

  Ég hef ekki lesið eina einstu frétt hérna síðan lokað var á skoðanir hoi polloi. Var áður ALLTAF með opinn Eyjuflipa í vefráparanum og commentaði töluvert með tilheyrandi hamagangi á F5.

  Ég þrjóskast enn við að skoða eitt og eitt blog, en áróðurinn er gjörsamlega að keyra um þverbak á því þekktasta þessa dagana. Ætli maður fari ekki að gefast upp á því líka. Þá verður ekki margt hingað að sækja, því miður.

 • Elfa Jóns

  Þorgeir, þú hefur greinilega ekki tekið eftir hinu fjölmörgu linkum á bleikt.is. Það er nýjabrum. En það þarf auðvitað að þjóna herranum, það er ljóst. Eignarhaldið sýnir sig.

 • Hef stillt opnunarsíðu á browsernum upp á nýtt. Nú er það Veðurstofan í stað Eyjunnar áður.
  Bingi hefur nú verið hægri armi Samfylkingarinnar innan handar með eitt og annað um langa hríð og þar í millum ríkt góður samstarfsandi, jafnvel á tímum Binga í pólitíkinni.

 • Mér finnst að Einar oftúlki algjörlega þessa atburðarás.

  Þessir miðlar eru ekki neitt neitt.

  Taka upp fréttir annarra miðla og birta.

  Þetta er engin eiginleg ritstjórn eða fréttamiðlun.

  Og þótt einhverjir vitleysingar séu fengnir til að blogga reglulega á Eyjunni sé ég bara ekki að það skipti máli.

  Það les enginn óbrjálaður maður þessi skrif.

 • … nei Elfa ég kem ekki auga á neitt bleikt, allavega núna.

 • Einar Steingrímsson fer mikinn og tekur stórt upp í sig. Sumt af því er ágætt, enginn hefur lýst forsetanum betur en hann gerði í Silfri Egils. Ásakanir hans um vanhæfni saksóknara í níumenninga-málinu eru að mínu mati verulega vafasamar svo ekki verður meira sagt.

  Þegar maður eins og Einar fær svona mikla athygli fjölmiðla finnst mér að það eigi að upplýsa tengsl manna við málefnin ef þau eru einhver. Af hverju er Einar Steingrímsson stærðfræðingur svona reiður? Ef til vill hefur Einar óvenjumikla réttlætiskennt, hvað veit ég?

  Mér finnst Bingi bara nokkuð flottur og hef enga ástæðu til ergja mig yfir því að hann skuli hafa Eyjuna.
  kv
  Jth

 • Einar Steingrímsson

  Sæll jth.

  Það má deila um vanhæfi saksóknara hvað varðar tengsl hennar við Alþingi. Hins vegar veit ég ekki betur en að hún hafi beinlínis brotið lög með því að segja ekki frá fjölskyldutengslum sínum við einn sakborninga, og með því að segja sig ekki frá málinu þá.

  Ég þekki engan sakborninganna í Nímenningamálinu, hef átt nokkur stutt símtöl og póstskipti við tvo þeirra áður en dómur féll (og einn til viðbótar í gær) til að fá upplýsingar um málið. Ég hef ekki hitt neinn þeirra í eigin persónu, nema Sólveigu einu sinni, þegar við vorum bæði í Silfri Egils 3. okt.

  Ég hef engin tengsl við fólk eða stofnanir sem ég held að þættu áhugverð varðandi Eyjuna. Ég svara hins vegar gjarnan spurningum sem þú kynnir að hafa um það.

  Ég hef oft verið reiður vegna Nímenningamálsins, og sjálfsagt hefur sú reiði stundum skinið í gegnum málflutning minn. Hún á sér engar aðrar rætur en þær að mér finnst viðurstyggilegt hvernig ríkisvaldið hefur ofsótt þetta fólk fyrir að reyna að neyta stjórnarskrárvarins réttar síns, og hvernig fulltrúar þessa ríkisvalds hafa ekki hikað við að ljúga um þátt sinn í málinu, og bera saklaust fólk röngum og mjög alvarlegum sökum. Þetta eru hryllileg brot á mannréttindum, og hættuleg fyrir tjáningarfrelsið í landinu.

 • Ég tek undir með flestum, að mér sýnist Eyjan vera orðin allt önnur
  og verri en hún var. Það er mjög miður á þessum viðsjárverðu tímum.
  Frjáls skoðanaskipti eru nauðsynleg nú, sem kannski aldrei fyrr,
  í kjölfar þess hruns sem hér varð.

 • KVERÚLANTINN

  Eyjan er nú handstýrður Framsóknarsnepill í eigu Björns Inga.

  Öll gagnrýni sem ég skrifa á Egil , Björn – eða ummælakerfi Eyjunnar er umsvifalaust fjarlægð. Þannig er nú þessi vettvangur orðinn hjá nýjum ritstjóra og eigendum.

  Ég kveð nú þennan PÓLITÍSKT-GERILSNEYDDA vettvang um leið og ég þakka þeim sem stofnuðu og áttu Eyjuna fyrst.

  Eyjan; Þeirra fréttir – þeirra skoðun.

 • Eyjan er orðin svipður hjá sjón og ég sakna gömlu eyjunnar. Það að loka á nafnlausar athugasemdir er allt annað en að loka á þær alveg. Þessi kaup eru tilraun til þöggunar og er dæmd til að mistakast líkt og flest sem þessir kappar koma nálægt virðist á endanum gera.
  Eiríkur Jónsson er einhverskonar sendiherra tilgangsleysisins og fjallar ætíð um algerlega merkingarlaust rugl. Fréttaritari þeirra sem helst hafa áhyggjur af París Hilton eða álíka heimsviðburðum. Reyndar algerlega ótrúlegt að hægt sé að skrifa svona marga pistla sem allir eiga það sameigilegt að vera innihaldslausir með öllu. Til þess þarf vissulega hæfileika.

  Vonandi reisir einhver fljótlega nýjan miðil sem tekur við og fyllir það tómarúm sem eyðilegging Eyjunnar skilur eftir sig. En er það ekki merkilegt hvernig að sumir menn ná að eyðileggja allt sem þeir koma höndum á! Merkilegur andskoti.

 • Komment nr. 2 er alveg frábært, en það er frá Jenný Önnu.

  Ég setti inn athugasemd í gær, þar sem ég gat þess að hún bloggaði í boði Björns Inga.

  Innleggið hvarf.

 • Magnus Björgvinsson

  Ofboðslegt er að lesa skrif manna hér að ofan! Eru menn t.d. að halda því fram að Björn Ingi svínbeygji bloggara til að breyta um skoðun á bloggum sínum? Eða að bloggarar hér á eyjunni séu algjörir aumingjar sem geri það sem þeim er sagt? Man ekki betur en að Lára Hanna hafi tilkynnt að hún ætlaði að draga úr bloggi hjá sér vegna þess að hún vill vanda það sem hún skrifar og hefur ekki efni á að gefa vinnu sína.
  Er ekki rétt sjá hvað breytist áður en menn fara að æsa sig yfir einhverju sem hefur ekki gerst ennþá. Hef ekki séð miklar breytingar nema að mér finnst gaman að létta manni aðeins lesturinn með því að kíkja á Eirík með skemmtilegar myndir og setningar og Jakob að fara yfir facebookið hjá fræga fólkinu.

 • Einar, takk fyrir að bregðast við athugasemd minni. Ég sé að þú ert hugsjónamaður. Sennilega á svipaðan hátt og Ragnar Aðalsteinsson sem hefur varið lítilmagnann svo lengi sem elstu menn muna. Ég met hugsjónamenn mikils þrátt fyrir að ég sé ekki alltaf sammála þeim.
  kv
  Jth

 • Magnús,
  Finnst þér virkilega undarlegt þótt fólk sé tortryggið út í Björn Inga, í ljósi ferils hans í pólitík og tengsla við útrásarvíkinga?
  .
  Held að sé ekki ofmælt að hann sé trausti rúinn hjá almenningi. Það telst frekar til ókosta þegar menn vilja eitthvað með rekstur fjölmiðla. Er ekki svo?
  .
  Mér finnst þetta frábær pistill hjá Einari og orð í tíma töluð.

 • Sigurgeir Sigmundsson

  Sammála ykkur öllum. Ég sakna eyjunar eins og hún var og það er kominn dapurlegur „Séð og heyrt“ stíll á fréttirnar. Þó svo að ég sé ekki hrifinn af nafnlausum skrifum var hún eini tengillinn milli fólksins og þeirra sem völdin fara hvort sem það er í skjóli falins peningavalds eða í gegnum kosningar. Þarna gátu menn tjáð sig og í skrifunum voru falin skilaboð til valdstjórnarinnar og þjófanna sem komu fjármunum okkar undan. Vafalaust hafa þessi skrif truflað þetta ágæt fólk við sína iðju.
  Dapurlegt finnst mér að þegar forsetinn okkar beitir þeim völdum sem stjórnarskráin gefur honum fer þingið í það að breyta þessum ákvæðum þannig að hann geti ekki gert þetta aftur. Frumkvæðið að þessum breytingum á Steingrímur Sigfússon innvígður í Alþingismannaspillingarklíkuna eftur 28 ára veru innan stofnunarinnar. Bent hefur verið á að það er ekki nokkrum manni hollt að vera lengur en 5-10 ár á sama stað en þarna liggja þessir einstaklingar margir hverjir afvelta og hjálparlausir í sinni valdafíkn sem er ekkert skárri en aðrar fíknir. Nær hefði verið að setja lög um hámarkstíma sem Alþingismenn mega sitja t.d. 2-3 kjörtímabil. Eftir 28 ár eru menn löngu búnir að missa sjónar á í umboði hvers þeir eru á þingi.
  Það vantar einhvern öflugan málsvara fólksins og því miður hefur Eyjan þróast frá fólkinu yfir í það að verða bissnismótel fjárglæframanna og málsvari þeirra og það er miður. Ég efast því um að heimsóknir mína þangað verði mikið fleiri.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur