Sunnudagur 06.03.2011 - 23:52 - 12 ummæli

Besta kaffi á Íslandi

Það var stórkostleg framför þegar farið var að brenna gott kaffi á Íslandi, og gera það vel, eins og sumar af litlu kaffibrennslunum með metnað gerðu í upphafi, í kringum 1990.  Það var sorglegt að sú kaffibrennsla sem náði undirtökunum á markaðnum (Kaffitár) og sem átti drýgstan þátt í að stórbæta kaffimenninguna hér, skyldi á endanum hætta að selja kaffi sem er nógu mikið brennt til að hægt sé að gera úr því alvöru espresso í vél.  Ennþá sorglegra var þegar Kaffitár hætti að selja (og nota á eigin kaffihúsum) nýbrennt kaffi, og lét sér nægja að selja kaffi sem var brennt nokkrum vikum áður en það var til sölu.  Það þarf engan sérfræðing til að finna muninn á slíku kaffi og því sem er brennt fáum dögum áður en það er malað og lagað.

Í dag var ég svo lánsamur að kaupa kaffi í lítilli kaffibrennslu þar sem fólk veit hversu mikið þarf að brenna kaffi til að góðar espressovélar nái út úr því öllum þeim blæbrigðum bragðs sem hægt er (og til þess að losna við moldarbragðið sem loðir við of lítið brennt kaffi í slíkum vélum).  Það leyndi sér heldur ekki munurinn á því að drekka loksins aftur nýlega brennt kaffi, miðað við gamalt.

Kaffibrennslan sem selur alvöru espressokaffi, og það nýbrennt, heitir Café Haiti.  Loksins er margra ára þrautagöngu lokið.  Í bili að minnsta kosti, og nú er bara að vona að þetta fyrirtæki lifi áfram, og komist ekki að þeirri niðurstöðu að það gæti grætt meira á að búa til lélegra kaffi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

 • Haíti kaffið er nógu sterkt til að endast vikuna. Góð viðbót í kaffiflóruna í Reykjavík.

  Er ekki Kaffismiðjan líka að selja nýbrennt kaffi?

  http://www.kaffismidja.is/kaffibrennslan/

 • Einar Guðjónsson

  Svo brenna margir kaffi heima aftur nú orðið en slíkt var alsiða á Íslandi vel fram yfir 1970.

 • Einar Steingrímsson

  Kalli: Kaffismiðjan selur vissulega nýbrennt kaffi. En þar á bæ hafa menn aðrar skoðanir á því hversu mikið þurfi að brenna kaffi til að ná úr því öllu sem hægt er að ná. 🙂

  Einar: Veistu hvar þeir kaupa baunir sem brenna kaffi heima hér á landi?

 • Einar Guðjónsson

  Held þær séu fáanlegar hjá öllum kaffiverksmiðjum hér og víðar.

 • Ég man vel eftir alvörubrennda kaffinu frá Kaffitári. Það heitir víst enn Vínarkaffi en er brennt MIKLU minna og hefur enga sérstöðu lengur!
  Algjör synd, þetta var eitt besta kaffið þeirra og ég sakna þess enn.
  Sammála með kaffið á Haiti, það er dúndurgott!

  Held að ekki margir geri sér grein fyrir því að eftir því sem kaffið er meira brennt því MINNA koffín er í því.

 • Stefán Þór Sigfinnsson

  Kalli þetta er svo mikið bull sem þú ert að segja.

  Kaffi er ekkert sterkt eða veikt eftir því hversu mikið brennt það er. Styrkleiki kaffis fer eftir því hversu mikið kaffi þú notar á móti vatni.

  Og það skiptir líka miklu máli að vigta kaffið því ein kaffiskeið af þessu rosaleg mikið brennda kaffi frá Café Haiti vegur ekki það sama og ein kaffiskeið af meðal brenndu kaffi.

  Eftir því sem kaffi er meira brennt því minna af séreinkennum kafftegundarinnar finnuru og eftir situr reikt bragð og barasta kolabragð af því.

  Bendi á að Tumi Ferrer kaffibarþjón hjá Kaffitár var að vinna Íslandsmót kaffibarþjóna og notaði Gvatemala kaffi brennt minna en Kaffitár brennir það vanalega. Veit ekki brennslustigið nákvæmlega því Guðrún brennslumeistari er í fríi.

 • Olafur Sveinsson

  Fékk þrælgott expresso kaffi á Höfninni. Þeir hafa kannski fengið baunirnar hjá Cafe Haiti, sem er við hliðina?

 • kyle Blinder Clunies-Ross

  Ég verð að vera ósammála ykkur öllum, ég hef aldrei fengið á ævinni jafn vont kaffi! Það er eins og að drekka“ kolte“. Það snýst samt um smekk, en kaffið sem fæst á kaffihaiti er að mínu mati REFSING!

 • Mér finnst menn rugla svolítið þegar menn rífast um brennslustig og gæði kaffis. Fyrir það fyrsta ER ekki neitt í þessum fræðum nema smekkur manna. Og ekki geta menn rifist að gagni um svoleiðis.

  Kaffi Haiti gerir langa expressóa með mjög brenndu kaffi, svona eins og búast má við í París, eða á Haiti. Franska leiðin til að gera kaffi. Er það betra en t.d. ítalska leiðin?

  Kaffitár brennir baunirnar í húsblönduna aðeins minna en þetta. Kaffihúsin fá þetta kaffi nýbrennt (innan vikugamalt) og opna það þrem dögum fyrir notkun til að það nái að ryðja CO2 úr, en það hindrar að kaffið gefi fyllingu.

  Kaffismiðja Íslands brennir sitt kaffi enn minna en Kaffitár og notar ferskara kaffi í drykki sína. Ef ekki er vandað til verksins getur kaffið virst dálítið súrara en það sem er lengur brennt eða hefur staðið ögn lengur.

  Rétt er það að Tumi vann með mjög lítið brennt kaffi, svona eins og gengur og gerist meðal þeirra bestu á Norðurlöndum. Þeir hjá Coffee Collective eða Tim Wendelboe hafa það svo lítið brennt, að sumir kalla þetta meira ávaxtadrykk en kaffi.

  Niðurstaða umræðu eins og þessarar ætti að vera sú að minna brennt kaffi leggur áherslu á ávaxtakeim kaffis en mikið brennt á brenndan sykur og fyllingu. Hvað mönnum finnst gott er síðan smekksatriði.

  Í bestum allra heima, ætti eitt og sama kaffihús að bjóða gestum sínum upp á að velja brennslustig þess kaffis sem það pantar, og gera síðan eins góðan bolla af því og hægt er að ná fram, held ég.

  Tek það fram að yfirritaður er kaffibarþjónn hjá Kaffitár, f.v. Íslandsmeistari í Kaffi í góðum vínanda og faðir Tuma Ferrer.

 • Já, það er varla hægt að rífast um smekk á kaffi. Þekki marga sem elska hið lítið brennda Kenya-kaffi en ég er ekki ein af þeim.
  Það er t.d. sagt um Starbucks að þeir ofbrenni allt kaffi, líka það sem þolir ekki mikla brennslu, en Vínarkaffið (gamla tegundin) var vínarbrennt Gvatemala og líka hægt var að fá það minna brennt. Báðar tegundir mjög góðar … og ólíkar.
  Ég er ekki sammála með að það sé ekki lengur ferskt kaffið í kaffihúsum Kaffitárs. Mér finnst ekkert hafa verið gefið eftir í gæðakröfunum þar. Ég kaupi yfirleitt alltaf Espressó húsblöndu þaðan og annað slagið espressó frá Haíti, og er mjög hrifin af báðum tegundum þótt ólíkar séu.

 • Stefán Þór Sigfinnsson

  Einar læturu órökstudda fullyrðingu og róg hanga hér inni í að verða 6 mánuði um að Kaffitár selji hvorki né noti nýbrennt kaffi á kaffihúsum sínum ?

  Í lokin ýjaru að því að þetta sé gert(sem engar sannanir eru fyrir) til þess að græða á þá væntanlega kúnna sem veit ekki betur um kaffi. Þetta eru nokkuð alvarlegar ásakanir hjá þér og ég get fullyrt að þær eru allar hægt að hrekja.

  Það er vissulega hægt að hella upp á kaffi sem er 3-4 vikna frá ristun vilji maður það en það er algjörlega ónothæft í espresso. Meira að segja 8-10 dagar eftir ristun er maður farinn að finna fyrir því. Espressóinn rennur miklu hraðar í gegn og kaffið verður súrt og kreman ekki eins góð.

  Kaffitár sendir espressó húsblönduna sína nýristaða á kaffihúsin sín á hverjum einasasta degi. Ég drekk mikið kaffi,mala það sjálfur og helli upp á eftir kúnstarinnar reglum og er mjög glöggur í því að finna hvort kaffi sé 2 daga gamalt eða viku gamalt og ég myndi finna það strax ef að Kaffitár væri að nota gamlar baunir á kaffihúsum sínum.

  Ættir að sjá sóma þinn í því að draga þessa staðlausu vitleysu til baka!!!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur