Sunnudagur 13.03.2011 - 17:54 - 15 ummæli

Tryggvi Þór kastar grjóti úr glerhöllinni

Í bloggpistli í dag varar Tryggvi Þór Herbertsson við fólki sem „hljómar eins og hagfræðingar“.  Ég held að slíkt fólk sé upp til hópa mun hættuminna en þeir „alvöru“ hagfræðingar sem, eins og Tryggvi,  bæði spiluðu með í bóluhagkerfinu og lýstu í sífellu yfir hvað það væri traust.  Tryggvi bítur höfuðið af skömminni með því að tala eins og hann hafi meira vit en aðrir á hagfræði.  Það hefur hann greinilega ekki, því bóluhagkerfið hafði einmitt öll einkenni bólu, sem talsvert hefur verið fjallað um í hagfræðinni.  Nema hann sé svo siðlaus að hafa makað krókinn á kerfi sem hann vissi að myndi hrynja og valda fjölda fólks gríðarlegum búsifjum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Anna María Sverrisdóttir

    Í niðurlagi bloggfærslunnar hjá þér liggur merkilega mikilvæg spurning sem eflaust verður erfitt fyrir Tryggva að svara. Enda er lokað á athugasemdir í hans bloggi svo hann virðist ekki kæra sig sérstaklega um rökræður. Sem „alvöru“ hagfræðingur hefði Tryggvi nefnilega átt að vita þetta ef hann er sjálfum sér samkvæmur.

  • Tryggvi Þór

    Einar,

    Þú ert klár maður. Ég er búinn að reyna næstum allt til að opna fyrir athugasemdakerfið. Í tilefni af ummælum Önnu Maríu: HVERNIG GERIR MAÐUR ÞAÐ?

    Jafnframt spyr ég: Er Það hrokafullt af þér að halda því fram að þú hafir meira vit á stærðfræði en flestir aðrir?

  • Einar Steingrímsson

    Tryggvi: Það væri ekki hrokafullt af mér að halda fram að ég viti meira en flestir um stærðfræði, þótt reyndar sé til mikið af stærðfræði sem ég skil ekkert í. En, spurningin er hvar mörk þekkingar minnar liggja. Þannig veit ég t.d. meira en flestir á Íslandi um kosningakerfið þar, en miklu minna en þeir sem gerst þekkja það. Ég gæti þó auðveldlega kynnt mér það nógu vel til að skilja hvernig það virkar (sem er nokkuð flókin stærðfræði, og alls ekki á færi nema fólks sem hefur lært talsverða stærðfræði á háskólastigi). Gerði ég það gæti ég svarað alls kyns spurningum sem aðrir gætu ekki. Hins vegar gæti ég EKKI svarað því frekar en maðurinn á götunni hvort þetta kerfi væri réttlátt eða skynsamlegt (nema hægt væri að skilgreina með stærðfræðilegum hætti hvað maður ætti við með því).

    Vandamálið með hagfræðina er að þótt hagfræðingar viti eitt og annað um hagfræði sem er líklega nokkuð traustur sannleikur, þá eru mörkin miklu þrengri þar, og óljósari. Til dæmis er greinilega ekki til nógu traust þekking í hagfræðinni til að segja óyggjandi fyrir um hrun, og ekki einu sinni djúpar niðursveiflur, með nokkurri vissu, eins og við höfum oft fengið að reyna síðustu áratugina. Að hluta til stafar þetta e.t.v. af því að markaðir stjórnast talsvert af „sálfræði“, þ.e.a.s. upplifun fólks af ástandi, sem er ekki endilega í samræmi við ástandið sjálft, að því leyti sem hægt er að meta það áreiðanlega. Að hluta til stafar þetta væntanlega af því að það er of mikil óvissa í spilinu, sem gerir alla útreikninga langt fram í tímann marklausa, alveg eins og með veðurspár.

    Þetta er ekki eins slæmt með hagfræðina og stjórnmálafræðina á Íslandi, þar sem fjölmiðlar eru sífellt að spyrja stjórnmálafræðinga um hluti sem þeir vita ALLS EKKERT meira en maðurinn á götunni, þ.e.a.s. stjórnmálaástand líðandi stundar og hvers sé helst að vænta. (Þetta er reyndar séríslenskur ósiður.)

    En, það hefur komið glöggt í ljós að það er mjög takmarkað sem hagfræðingar geta sagt um framtíð hagkerfisins, sem sannast meðal annars af því hvað þeir eru oft ósammála í staðhæfingum sínum um hluti sem skipta miklu máli fyrir þjóðarbúið og almenning.

    Þess vegna er nauðsynlegt fyrir hagfræðinga sem vilja láta taka mark á sér, að byrja á því að gera grein fyrir þeim alvarlegu mistökum sem þeir hafa gert í fortíðinni. Áður en þeir horfast í augu við þau, og útskýra hvar mörk sérfræðiþekkingar þeirra liggja, er afar erfitt að taka þá alvarlega.

  • Tryggvi Þór

    Þetta er ágætt svar Einar. Í tilefni þess að þú segir: „Til dæmis er greinilega ekki til nógu traust þekking í hagfræðinni til að segja óyggjandi fyrir um hrun, og ekki einu sinni djúpar niðursveiflur, með nokkurri vissu“ þá langar mig að spyrja. Þekkirðu einhverja vísindagrein sem getur sagt fyrir um farmtíðina með einverrri vissu. Geta jarðvísindamenn sagt fyrir um jarðskjálfta eða eldgos með þeim fyrir varar að það gagnis okkur. Geta lögfræðingar sagt okkur um niðurstöður dómsmála, sálfræðingar um hvaða áhrif áföll hafa á okkur, læknar hvernig menn munu bregðast með tiltekinni meðferð. Af hverju vilt þú gera meiri kröfur til hagfræði en annarra vísindagreina? Svo er eitt Einar. Þeir sem halda sig vita allt um hagfræði telja oft að hún gangi út að spá fyrir um hlutina. Svo er alls ekki. Megnið af fræðilegri hagfræði gengur út á að kanna viðbrög kerfa við áreiti.

  • Einar Steingrímsson

    Tryggvi: Það eru til vísindagreinar sem geta sagt nákvæmlega fyrir um margt af því sem þær fást við. Eitt dæmi er gangur himintunglanna.

    Ég geri ekki meiri kröfur til hagfræði en annarra greina, heldur fer ég bara fram á að hagfræðingar gefi ekki yfirlýsingar sem slíkir um hluti sem þeir geta ekki spáð fyrir um. Þ.e.a.s. að þeir geri ljóst hvenær þeir eru að tala um hluti sem er a.m.k. alger samstaða um innan fræðanna, og hvenær þeir segja hluti sem ekki byggja á óyggjandi vitneskju. Alveg eins og í dæminu sem ég nefndi að ofan: Þorkell Helgason getur útskýrt íslensku kosningakerfin í þaula, því þar er um að ræða óyggjandi þekkingu. Hann getur hins vegar ekki skorið úr um hvort þessi kerfi eru réttlát eða skynsamleg.

    Mér finnst gilda um allt of mikið af fjölmiðlaframkomu hagfræðinga á Íslandi að þeir tala um hluti sem ekki byggja á óyggjandi þekkingu, án þess að taka þetta skýrt fram. Þetta er auðvitað ekki síður sök fjölmiðlafólks, sem einlægt lætur meinta sérfræðinga um hitt og þetta tjá sig um hluti sem þeir vita ekkert um frekar en maðurinn á götunni. En ég geri mjög strangar kröfur til fræðimanna að þeir komi ekki fram sem slíkir nema þeir séu að tala um sameiginlega þekkingu fræða sinna.

  • Ólafur Ágúst

    Tryggvi

    Uhh Já. Stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði eru vísindi sem geta spáð fyrir um framtíðina í afmörkuðum dæmum

    Félagsvísindi eru langt frá því að geta það hinsvegar, en það er enginn skortur á félagsvísinda-prestum, eins og þér, Hannesi H, Þórólfi, Þorvaldi, Milton Freidman, Allan Greenspan, Ayn Rand – og fleiri ofvitum sem vilja telja okkur trú um að þekking þeirra á eitthvað af þessum félagsvísindum sé nógu góð að hún jafnist á við hin ofangreindu hörðu vísindi.

    Staðreyndin er sú að Hagfræði (og félagsfræði) hefur álíka mikið vísindalegt gildi fyrir síkvík flóknustu-kerfi veraldar (samfélög manna) og stjörnuspeki hefur fyrir stjarneðlisfræði.

    Hagfræðingar geta hinsvegar alveg bent á stór trend – líkt og stjörnuspekingar gátu reiknað út (með mátulegri nákvæmni) gang himintunglanna – en frekari afleiðu-pælingar hagfræðinga útfrá stóru trend-unum ætti fólk ekki að treysta þeim fyrir – og sýst þegar þeir stunda jafn bullandi true-beliver trúarbragða-pólitík (sem þeir vilja reyndar meina að séu semi-bláköld vísind) og þú Tryggvi.

  • Mr. Crane

    Ólafur Ágúst… Raunvísindahroki?
    Stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði geta spáð því að ákveðinn hlutur gerist ef ákveðnar forsendur halda.
    Nákvæmlega eins og félagsvísindi.

  • Einar Steingrímsson

    Mr. Crane: Það er ekki oft sem hægt er að spá nákvæmlega fyrir um framvindu hluta sem félagsvísindi fást við, jafnvel þótt forsendur séu þekktar. (Vandamálið er oft að það sem hefur áhrif á tiltekna atburðarás er of margslungið til að hægt sé að henda reiður á því.) Mestöll eðlisfræði snýst hins vegar einmitt um hluti sem eru í eðli sínu nógu „einfaldir“ til að hægt er að einangra það sem máli skiptir fyrir framvinduna, eins og t.d. gildir um gang himintungla eða hversu mikil orka leysist úr læðingi þegar tilteknir atómkjarnar klofna.

    Þetta þýðir samt ekki að það eigi að gera raunvísindum almennt hærra undir höfði en félagsvísindum. Á báðum sviðum eru til góð og slæm vísindi, þótt af ólíkum toga séu, og þótt það sé auðveldara fyrir loddara að leika félagsvísindamenn en raunvísindamenn.

  • Tek undir það sem höfundur segir hér um viðtöl fjölmiðla við „stjórnmálafræðinga“.

    Algjörlega óþolandi að hlusta á menn endursegja almælt sannindi í nafni „fræða“ og „þekkingar“.

    Íslenskur ósiður af verstu sort.

    Kemur sennilega til vegna þess að fylla þarf útsendingartíma eða blaðsíður með helst engum tilkostnaði.

  • Ólafur Ágúst

    Hroki á stundum fullan rétt á sér

    Það að „ákveðnar forsendur halda“ – er nákvæmlega vandi félagsvísindanna – þau byrja að mæla forsendur sem eru of loðnar, óskilgreindar og með allt0f marga lausa enda til að geta verið mældar og þykjast geta fengið einhverja haldbæra niðurstöðu útfrá því, sem fólk eigi að taka mark á líkt og um skilgreindar stæður væri að ræða.

    Þessvegna tvístrast félagsfræðin, hagfræðin (að ég tali ekki um kynjafræðina) uppí bunch af cult sértrúarsamstæðum sem eru nánast alltaf bullandi pólitískar.

    Og hroki minn gagnvart því fólki er fyllilega réttlætanlegur – hvort sem um ræðir frelsis Cult eins og Tryggva – eða sjálfbærnis cult eins og Andra Snæs

  • Ólafur Ágúst

    Það besta við Tryggva er að hann er alveg tilbúinn að sjá að Andri Snær sé Cult leader – en sér ekkert Cult-legt við sinn eigin hóp sem ennþá trúir því að viðskiptafrelsi (sem þeir kalla einu nafni „frelsi“ ) sé einhverskonar Universal constant fyrir allt annað „frelsi“

    Af tvennu íllu myndi ég frekar skrá mig í Scientology heldur en íslenskan stjórnmálaflokk

  • Ólafur: Ég er viss um að einhver barnaskólabilljardkúlueðlisfræði getur spáð ágætlega fyrir niðurstöðu í afmörkuðum dæmum, en hvernig hefur gengið í erfiðari dæmum? Reglulega berast fréttir af eðlisfræðingum sem telja sig hafa reiknað út aldur alheimsins og þá kemur iðulega fram að í fyrri útreikningum hafi menn of eða vanmetið aldurinn um… milljarða ára. Ekki gæfuleg nákvæmni það!

  • Ólafur Ágúst

    Nákvæmlega Már

    En þeir eru ekki að reyna að sannfæra okkur um að taka veigamiklar samfélagslegar ákvarðanir útfra þessum slump-niðurstöðum – það er hinsvegar Tryggvi og fleiri æðstuprestar tilbúnir að gera (á þvers og kurs) í nafni slump vísinda sem hafa jafnvel verri feril en aldursgreining alheims

    Og af einni ástæðu – Æðstu prestarnir eru alltaf til í að mikla það sem þeir trúa á og gera lítið úr þeirri óvissu sem veldisvaxandi ósýnilegar og ófyrirsjánlegar fyrstu forsendur dæma okkur til að lifa í.

    Við lifum á tímum þar sem Hagfræðingar, Félagsfræðingar, Viðskiptafræðingar og Stjórnmálafræðingar ráða alltof miklu, vegna eigin þvermóðsku, menntasnobbi og með þeirri aðferðarfræði að slá ryk í augu þeirra sem átta sig ekki á að vilji þessara fólks til að segja öðrum fyrir fer langt frammúr getu þeirra (on record) til að spá fyrir um.

    Og alltaf tekst útungunarstöðum þessara hópa (ungliðahreyfingar) að klekja út nýjum vitleysingjum (lömbum til slátrunar) með hreinan sköld til að deyja pólitískum dauðdaga fyrir trú sína

    Vandamálið með pólitík er síðan bara það að, eins og Davíð Oddson sagði — hún er ekki nógu lík fótbolta – því í fótbolta eru maneger-ar reknir innan þriggja mánaða frá því að þeir byrja að klúðra — Tryggvi Þór og Bjarni Ben, og þorgerður og Árni Johnsen (ekki að það sé ekki af nógu að taka í öðrum flokkum) þetta fólk er allt ennþá við störf

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Fyrir nokkrum árum var Tryggvi Þór Herbertsson prófessor við Háskóla
    Íslands og þá jafnframt forstöðumaður Hagfræðistofnunar skólans.

    Árið 2006 skrifaði prófessor Tryggvi Þór Herbertsson mikla
    „rannsóknarskýrslu“ ásamt skotveiðifélaga sínum Frederic Mishkin.
    Skýrslan fjallaði um stöðugleika íslenska efnahagskerfisins og var
    fjármögnuð af hinu „óháða“ Viðskiptaráði.

    Það hefur komið fram opinberlega að fyrir þetta verk fékk Tryggvi Þór
    a.m.k. tvær miljónir íslenskra kóna og Mishkin 135 þúsundir Bandaríkjadala.

    http://www.vi.is/files/555877819Financial%20Stability%20in%20Iceland%20Screen%20Version.pdf

    Samkvæmt vef HR er Tryggvi Þór Herbertsson nú prófessor við þann skóla.

    Til eru fleiri sannar sögur af þessu tagi.

    Er ekki kominn tími til að skera upp herör gegn íslenska háskólavændinu ??

    *********************************************************

    Ég legg til að Háskóli Íslands skipi óháða rannsóknarnefnd líkt og
    Alþingi hefur nýlega gert (RNA) með ágætum árangri.

    Rannsóknarnefnd Háskóla Íslands (RNHÍ) fái það hlutverk að gera úttekt á
    því háskólavændi sem hefur verið stundað innan stofnunarinnar eftir árið
    2000. Þá fái nefndin það hlutverk að skila tillögum að úrbótum.

    Til þess að auka trúverðugleika nefndarinnar verði hún að hluta til
    skipuð erlendum sérfræðingum.

    *********************************************************

    Þöggunin hefur alltof lengi einkennt íslenskt samfélag og náði hápunkti
    sínum á seinni hluta Davíðstímans. Honum lauk ekki fyrr en hinn geðprúði
    neyddist til þess að yfirgefa Seðlabankann.

    Ennþá er þó til nóg af tabúum. Háskólavændið er eitt þeirra. Ég hlakka
    til þeirra tíma þegar samfélagið þolir þá umræðu.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Ágætu háskóla og fjölmiðlamenn !!

    Ég var rétt í þessu að frétta af eftirfarandi.

    http://www.dv.is/frettir/2011/3/28/verkefni-hannesar-fekk-10-milljonir-fra-rikinu/

    Telur þú að þetta komi illa við yfirstjórn H.Í. eða skiptir þetta hana engu máli ?

    HVERS VEGNA Í ÓSKÖPUNUM BREGST FÉLAG PRÓFESSORA EKKI VIÐ ÞEIM
    FJÖLMÖRGU DÆMUM UM HÁSKÓLAVÆNDI VIÐ H.Í. SEM NÚ ERU ÞEKKT ?

    Eru starfsmenn Háskóla Íslands ánægðir, jafnvel stoltir af háskólavændinu ?

    Bestu kveðjur, Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur