Miðvikudagur 20.04.2011 - 13:40 - 6 ummæli

Leyndarhyggja sjálfhverfra stjórnmálamanna

Í frumvarpi að nýjum upplýsingalögum, sem haldið er fram að muni auka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum hins opinbera, er meðal annars að finna ákvæði um að sumum opinberum upplýsingum megi halda leyndum í 110 ár.  Vel má vera að hægt sé, með frjóu ímyndunarafl, að láta sér detta í hug opinberar upplýsingar sem slíkt ætti að gilda um.  Hitt er verra, að þetta ákvæði, sem og allur andi laganna, afhjúpar hugsunarhátt sem ætti að vera farinn á öskuhauga sögunnar, ekki síst í ljósi þeirra hörmunga sem hafa dunið yfir stjórnsýslu landsins síðustu árin.

Þótt ekki sé allt til fyrirmyndar í Svíþjóð má þó hrósa sænskum fyrir upplýsingalögin þar í landi.  Þau eru ítarleg og fest í stjórnarskrá.  Grundvallarregla þeirra, og hugsunin á bak við flest sem í þeim býr, er að allar upplýsingar sem opinberir aðilar búa yfir, skuli afhentar hverjum sem er, tafar- og undanbragðalaust.  Tafarlaust þýðir hér ekki að stjórnvöld geti tekið sér tíma til að hugsa málið, enda ekki þeirra að halda slíkum upplýsingum frá almenningi.  Heldur ber að afhenda samstundis upplýsingar þeim sem mætir á opinbera skrifstofu og biður um gögn, og gjarnan er miðað við einn dag ef beiðni berst í pósti.

Hugsunin á bak við sænsku upplýsingalögin er einföld:  Stjórnvöld eiga að vinna fyrir hagsmuni almennings og enga aðra, og mega því ekki láta hagsmuni þeirra sem gegna opinberum stöðum hverju sinni hafa nein áhrif á slíkar ákvarðanir.  Stjórnvöld eiga að þjóna almenningi.  Einfalt, ekki satt?

Á Íslandi er hins vegar enn við lýði viðhorf sem á frekar heima í lénsveldistímanum en nútíma lýðræðisríki:  Upplýsingalög miða ekki að því að takmarka völd opinberra aðila til að leyna upplýsingum sem þeir búa yfir. Heldur að hinu, að gera yfirvöldum kleift að skammta úr hnefa þær upplýsingar sem þeim þykir henta.  Íslenska stjórnmálastéttin lítur enn á ríkisvaldið sem tæki til að viðhalda eigin völdum og telur að  upplýsingalög eigi því að vernda hagsmuni hennar, en ekki almennings.

Hvað var aftur sagt um gagnsæi í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Verkefni fyrir Stjórnlagaráð.

  • Kærar þakkir fyrir góða grein og réttmæta gagnrýni.

    Ég vek athygli á því að „fjölmiðlamenn“ og „álitsgjafar“ á vinstri vængnum hafa ekkert við þetta frumvarp að athuga eða ótrúlegu lögin um fjölmiðla.

    Menn eins og Karl Th. Birgisson, Illugi Jökulsson, Guðmundur Andri og Egill Helgason þegja nú þunnu hljóði.

    Getur einhver séð fyrir sér að þessir menn myndu þegja ef Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyrir þessari fasísku lagasetningu?

    Ha?

    Einhver?

    Þetta sýnir að þessir menn eru fyrst og fremst flokkshestar. Þeir skora ekki valdið á hólm þegar við völd eru flokkar og fólk sem þeir styðja.

    Óheilindi þessara „álitsgjafa“ blasa nú við þjóðinni.

    Þeir hafa afhjúpað sig sem ómerkinga.

  • Hvað var leyndó árið 1901?

  • Á 8. áratugnum flúði breskur þingmaður land og sótti um hæli í Svíþjóð í bréfi beint til Olof Palme. Breskir blaðamenn spurðust fyrir um málið og fengu svarið „af hverju biðjið þið ekki bara um að fá sjá bréfið“. Ha sögðu þeir bresku, má það? Og fengu svarið „allt er opinbert nema það sem er stimplað leyndarmál“. Mona Sahlin varð að segja af sér á sínum tíma vegna þessa. Mig minnir að það hafi verið blaðamenn á Expressen sem báðu um útskriftina á notkun hennar á greiðslukorti ríkisins. Það var einfaldlega opinbert skjal. Heldur einhver að íslenskir ráðamenn heimili svoleiðis hnýsni.

  • !!Fasistaviðvörun!!
    !!Fasistaviðvörun!!
    !!Fasistaviðvörun!!
    !!Fasistaviðvörun!!
    Orðið hefur vart við stórhættulega fasistasvínaflensuveiru,sem smitast við pólitíska snertingu.Talið er að hún hafi stökkbreyst úr hinni hættulegu,og mannskæðu kapítalistasvínaflensu,meðan ríkisstjórnin var að reyna að troða ICESAVE-samningunum,ósmurðum,ofaní kok íslenskrar alþýðu.

  • Sigurður Ingi

    Það er gott til þess að hugsa að ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur til valda þá verður núverandi ríkisstjórn búinn að búa vel í haginn fyrir þá með nýjum upplýsingalögum, fjölmiðlalögum og lögum um forvikar rannsóknir.

    Takk Samfylking og V.G.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur