Föstudagur 22.04.2011 - 15:21 - 23 ummæli

Samtrygging, einelti, Ögmundur og Sigmundur

Það er ekki geðslegt að sjá Ögmund Jónasson taka til varna fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson hér, og ömurlegt að heyra íslenskt valdafólk tala eina ferðina enn um réttmætar spurningar fjölmiðla sem einelti.  Ögmundur gengur reyndar skrefi lengra, og líkir fjölmiðlum við morðingja, sennilega af því honum finnst einelti ekki nógu krassandi lýsing á þeim „ofsóknum“ sem hann og félagar hans verða fyrir.

Hér er samtryggingin, svikamylla íslensku stjórnmálastéttarinnar, ljóslifandi komin.  (Skemmst er að minnast hvernig Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur Sigfússon gerðu Baldur Guðlaugsson að ráðuneytisstjóra, Katrín lagði blessun sína yfir áframhaldandi starf Halldórs Ásgrímssonar hjá Norrænu ráðherranefndinni og Össur Skarphéðinsson skrifaði mærðarlegt meðmælabréf handa Árna Mathiesen svo hann gæti fengið feitt djobb hjá Sameinuðu þjóðunum.)

Ögmundi rennur blóðið til skyldunnar, því ekkert er heilagra honum (eins og flestum íslenskum stjórnmálamönnum) en vernd þess valdaklíkukerfis sem hann á allt sitt undir, auk þess sem hann hefur sjálfur nýlega neitað að svara spurningum um afstöðu sína í mikilvægu máli (þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave).  Í því máli reiddist hann líka fjölmiðlum fyrir þann dónaskap að leyfa sér að spyrja um afstöðu hans, og vék sér undan að svara.

Allir sem fylgst hafa með fjölmiðlum í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við (og köllum lýðræðisríki) vita að þar væri Sigmundur nú í miklum vanda, sem flestir væru sammála um að væri sjálfskaparvíti.  Hann hefur talað um menntun sína við fjölmiðla, og sagt misvísandi hluti um hana.  Þetta er smámál í sjálfu sér, enda skiptir skólaganga Sigmundar litlu máli fyrir stöðu hans sem oddvita stjórnmálaflokks.  Stóra málið er hins vegar að Sigmundur hefur neitað að skýra þetta með viðhlítandi hætti, svo enn eru mörg spurningarmerki á lofti.

Það er ekki bara í Bandaríkjunum sem stjórnmálamenn komast ekki upp með að segja ósatt, eða einu sinni að drepa sannleikanum á dreif með loðnum svörum, þegar ljóst er að til eru skýr svör og einfaldur sannleikur í málinu.  Þetta viðhorf er orðið ríkjandi í flestum löndum með óhefta fjölmiðlun og gildir um hvaðeina sem stjórnmálamenn kjósa að tjá sig um, jafnvel þegar um er að ræða hluti sem koma starfi þeirra lítið við.

Ástæðan er einföld:  Skólaganga gerir fólk ekki endilega að betri stjórnmálamönnum.  En sannsögli gerir það.  Á því prófi hafa bæði Sigmundur og Ögmundur fallið, þótt með óbeinum hætti sé.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Hvernig er hægt að falla á sannsöglisprófi með óbeinum hætti?

  • Einar Steingrímsson

    Marat: Maður fellur á sannsögliprófi með óbeinum hætti ef maður neitar að svara spurningum um hluti sem maður hefur áður tjáð sig um, og það með misvísandi hætti.

  • Þú gerir Evklíðskar siðferðiskröfur í Hilbertsku rými. Ef vandi þjóðarinnar væri siðferði Ögmundar Jónasson, þá held ég við værum í nokkuð góðum málum. Hitt er rétt að við stöndum frammi fyrir slag sem minnir á nítjándu öldina. Þá var barátta á milli konungssina og þingræðissinna. Nú stendur slagurinn á milli þingræðissinna og lýðræðissinna.

  • Ögmundur er að sanna sig sem ómerkilegasti stjórnmálamaður sem fram hefur komið í íslenskum stjórnmálum. Hann ber ávalt skikkjuna á báðum herðum, hann sveik formann sinn með ótrúlega ómerkilegum hætti þegar hann neitaði að opinbera persónulega stuðning sinn við jáið, hann hefur leynt og ljóst grafið undan flokknum sínum með stuðning við órólegu deildina, hann er popúlisti á öllum sviðum. Nú er ég ekki vinstri maður en SJS á virðingu mína fyrir viðleitni hans að til að halda þessu öllu saman, halda þessu óskiljanlega stjórnarsamstarfi gangandi. Þar hefur enginn starfað með jafn ósvífnum hætti gegm honum en Loki Laufeyjarson íslenskra stjórnmála öðru nafni Ögmundur Jónasson

  • Ágæti mar // 22.4 2011 kl. 16:21, þessi grein Sigmundar á slóðinni sem þú vísar á er reyndar fullkomlega óljós og óupplýsandi.
    Hann nefnir þar hvergi eða upplýsir hvar og hvenær hann hefur lokið neinum af þeim prófum eða gráðum sem hann hafur áður látið í veðri vaka að hann hafi numið og lokið eftir að hann tók fyrstu háskólagráðu við HÍ – Hér er hreinlega ósvarð þeirri spuringu hvort hann hefur lokið einhverju MA námi eða ekki – og eins þá kallar hann sig „hagfræðing“ án þess að vera það heimilt, en virðist gera það á grundvelli viðskitpafræðináms við HÍ – en þar sem „hagfræðingur“ er lögverndað starfsheiti þá hefur Sigmundur ekki unnið sér rétt til að nota það — nema hann hafi lokið einhverjum af þeim hagfræðigráðum sem hann hefur látið í verði vaka að hann hafi lokið en ekki staðfest nú þegar eftir er spurt.

    – Hér er engin önnur krafa gerð til Sigmundar Davíðs en að hann hafi sagt þokklega satt um sig og nám sitt og ekki titlað sig starfsheitum og gráðum sem hann hefur ekki unnið sér rétt til.

    http://sigmundurdavid.is/vegna-umfjollunar-fjolmi%C3%B0la-um-menntun-mina/

  • Ögmundur Jónasson segir allt um Ísland og íslensk stjórnmál.

    Neðar verður ekki komist.

  • Æi, Gunnar.

  • Egill Helgason

    Það sem mér finnst merkilegt við Ögmund er að hann tekur aldrei upp hanskann fyrir Steingrím J með þessum hætti.

  • Einar Steingrímsson

    mar: Á vefsíðu Sigmundar sem þú bendir á, stendur meðal annars þetta:

    „Ég var í alls 5 ár í Oxford en hef ekki lokið doktorsgráðu enda hefur lítill tími gefist til fræðistarfa síðan ég hóf afskipti af stjórnmálum.“

    Þetta má skilja sem svo að maðurinn hafi verið í doktorsnámi, og þegar hafið rannsóknir. Það er samt óljóst, og þetta er eitt af því sem auðvelt hefði verið að taka af allan vafa um. Það hefur Sigmundur ekki gert.

    (Ég endurtek hins vegar að mér finnst þessi skólaganga Sigmundar algert aukaatriði, og hann væri hvorki betri né verri stjórnmálamaður þótt hann væri með doktorsgráðu.)

  • Sammála því, fólk getur verið mjög furðulegt þó það hafi gráðu frá fínum háskóla.

  • Munurinn á Steingrími og Ögmundi er að Steingrímur er mun vinsælli meðal hægri manna en vinstri manna. Hægri mennirnir taka ekkert eftir því að Steingrímur sveik loforðin, heldur bara eftir því að Ögmundur vildi ekki taka þátt í því og kalla hægri menn það svik við Steingrím.

    Sumir telja það mikinn kost hjá Steingrími að lofa einu fyrir kosningar og svíkja það svo allt til að geta haldið saman stjórn. Ekki þykja mér það miklir mannkostir, og er ekki tjaldað til margra nátta með slíkum aðferðum. Hvort honum tekst að eyðileggja flokkinn, má einu gilda. Flokkur einsog VG er ónýtur. Hans svik eru orðin svo mörg, og dugar að nefna skjaldborg um heimili, endurreisn bankanna í óbreyttri mynd, leynd í stað gagnsæis, sala auðlindanýtingar til langs tíma, óbreytt stefna í kvótamálum, innlimun í ESB, Icesave, AGS undirlægjuháttur; í stuttu máli ÖLL stefnumálin. Það er ekki að furða að Sjálfstæðismenn séu hrifnir og kalli baráttu gegn þessu svik og óheiðarleik.

  • Þetta er ekki spurning um prófgráðu hjá Sigmundi heldur sannsögli og hreinskiftni, og skreyta sig ekki með stolnum fjöðrum.
    .
    Tortryggni í þessu máli eðlileg. Þar geldur hann ábyggilega föður síns, hjá mörgum.
    Ferill Gunnlaugs, og hvernig hann skaraði eld að eigin köku hjá Þróunarfélaginu og Kögun, er ófagur. Þar var notuð vitneskja innanbúðarmanns til að raka saman auðæfum á kostnað almennings.

  • Við skulum minnast þess að nýverið varð merkur, þýskur stjórnmálamaður varð að segja af sér fyrir skömmu vegna ámóta verknaðar. Þar er það litið alvarlegum augum ef þeir sem taka að sér störf á hinu stjórnmálalega leiksviði, reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Sigmundur þessi er hluti af einhverjum ljótasta hluta íslenskra stjórnmála, framsóknarmennskunni. Sú saga er löng, en loksins virðist vera að sjást fyrir endann á henni. Augu þjóðarinnar eru að opnast.

  • Kæra fífl. Sigmundur stundaði nám við besta háskóla heims, og þann sem erfiðast er að fá inngöngu í. Að námið var dreift, fjölgreina og þverfaglegt sýnir að það gerði hann af sönnum menntaþorsta, frekar en veraldlegri hvötum. Borin er meiri virðing fyrir slíkri námsdvöl í hinum stóra heimi, en doktorsprófum frá hvaða Háskóla Kópaskers sem þú menntaðist í, væni minn, og menntahroki þinn, menntaöfund og smáborgaraháttur sem skilur ekki alvöru nám, og mikilvægi gæða umfram magns, ber vott um heimsku þína, heimóttarskap, öfund, rætni og óheiðarleika.

  • PS: Listinn yfir þá sem sagðir eru hafa „stundað nám“ við Oxford, en ekki lokið, sem er algengt, innifelur heimsfræga vísindamenn, listamenn og fræðimenn…Það er nefnilega ekki nóg að hafa góðar einkunnir eða peninga til að komast í Oxford, þú þarft að hafa góðan karakter, leiðtogahæfileika og teljast afburðarmaður á einhverju sviði og inntökunefndin vandar valið mjög vel. Menn af því tagi sem sækjast eftir gráðum og titlum frekar en alvöru menntun, eru ekki velkomnir í þann skóla, sama hvaða doktorsprófum þeir veifa frá Seiðisfirði.

    Lifðu sæll og fáfróður í meðalmennsku þinni , smáborgarahætti, heimóttarskap, aumingjahætti og heimsku.

  • Einar Steingrímsson

    Einar: Nú veit ég ekki hvort ég er þetta „kæra fífl“ sem þú ávarpar. En, til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, þá gef ég ekkert fyrir prófgráður, né heldur finnst mér fólk merkilegra ef það hefur stundað nám við bestu háskóla í heimi, hvort sem viðkomandi hafa lokið því eða ekki. Allra síst tel ég að það geri fólk að betri stjórnmálamönnum að hafa eitthvert sérstakt nám að baki.

    En, svo ég endurtaki það sem ég sagði, þá gerir sannsögli fólk alla jafna að betri stjórnmálamönnum.

  • Meinyrði eru glæpur sem hægt er að hegna fyrir með nokkura ára fangelsisvist. Getir þú ekki sannað að Sigmundur hafi logið, slepptu því þá. Hann laug engu. „hefur stundað nám við“ þýðir ekki „hefur lokið námi“. Þú ert kannski ekki einu sinni nógu vel menntaður sjálfur til að kunna að lesa ferilskrár, hvað þá komast inn í heimsins besta háskóla eins og Sigmundur. Þú ert bara öfundsjúk kjaftakelling sem ferð með rógburð þinna líka, og hefur ekki manndóm til að reyna að sanna þitt mál. Maðurinn laug engu, hefur engu logið, og þeir sem ljúga öðru upp á hann eru glæpamenn sem ber að rréttilega að refsa samkvæmt íslenskum hengingarlögum. Mannorðsmorð er háalvarlegur glæpur, og það að hagræða sannleikanum til að fella pólítískan andstæðing er nokkuð sem aðeins þeir sem ekki eiga heima í frjálsu samfélagi gera. Frjálst samfélag byggir á jafnrétti allra, óháð trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum, uppruna, efnahag og svo framvegis, til mannvirðingar og sæmdar. Þeir sem ekki virða þetta, geta drullað sér með næstu flugvél til Kína eða Íran.

  • „Þeir sem ekki virða þetta, geta drullað sér með næstu flugvél til Kína eða Íran.“ Skemmtileg mótsögn sem þú komst sjálfum þér í!

  • Samkvæmt nýju fjólmiðlalögunum er þetta hatursáróður. Og ekki nógu oft minnst á konur?

  • Bensi // 22.4 2011 kl. 22:34 „Við skulum minnast þess að nýverið varð merkur, þýskur stjórnmálamaður varð að segja af sér fyrir skömmu vegna ámóta verknaðar. “
    —————————-

    Ekki rétt. Þ.s. sá ágæti maður gerði, var að stela verki annars manns sbr. „plagiarization“.

    Sá hafði lokið dr. ritgerð, en hún reyndist vera stolinn.

    Alls ekki sambærileg mál.

    Sumir seilast langt í því að leitast við að ata auri.

    Kv.

  • Einar Steingrímsson // 23.4 2011 kl. 03:38
    ———————————————-

    Sko, hann komst inn í Oxford. Þ.e. staðfest hve mörg ár hann var þar – og þú kemst ekki upp með sluks, svo þú þarf ekki nákvæma vitneskju um það hvaða námskeið hann tók.

    Sú eina vitneskja að hann var við Oxford tiltekin árafjöld, sem er það eina sem Oxford er til í að staðfesta, á að duga og vel það til að svara spurningum um ágæti náms.

    Ég sé ekki að þessi ítrekaða spurning, svari nokkrum öðrum tilgangi en pólitískum.

    Kv.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Það var bara heiðarlegt af Ögmundi að taka um hanskann fyrir Sigmund Davíð, þegar óvandaðir blaðamenn ráðast að honum með óhróðri og lygum.

    Ögmundur er maður að meiru fyrir.

    Þetta er heldur ekkert einsdæmi úr stjórnmálum úti í hinum stóra heimi.

    Þó menn greini á um mál þá geta menn samt oft orðið sammála eða að gagnrýni á pólitíska andstæðinga geti gengið of langt og sé beinlínis óheiðarleg eins og var í þessu tilviki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur