Laugardagur 14.05.2011 - 12:36 - 11 ummæli

Langt mál Karls Th. — lítil svör

Ritstjóri Eyjunnar, Karl Th. Birgisson, reynir í pistli að útskýra hvað ritstjórn Eyjunnar var að hugsa þegar hún birti númerið á bíl manns sem grunaður er um morð.  Einnig er fjallað um málið í þessari frétt á Eyjunni.

Þetta er langt mál hjá Karli, þar sem hann reynir að réttlæta birtinguna.  Rök hans eru þau að „Fyrir lá að lík stúlkunnar fannst í nokkurra ára gömlum dökkgráum Mitsubishi Galant“ og að þar með hafi fallið grunur á alla sem ættu slíkan bíl.

Spurningin sem Karl svarar ekki í þessu langa máli er af hverju Eyjan ætti að flýta sér að taka af vafa um eiganda bílsins, þótt myndir af bílnum hafi birst í öðrum fjölmiðlum.  Vilji fjölmiðlar vernda alla aðstandendur segja þeir frá málavöxtum með þeim hætti að ekki sé hægt að tengja þá við einstaklinga.  Þannig fá aðstandendur fréttirnar eftir öðrum leiðum áður en gert er opinbert um hvaða fólk er að ræða.  Það er vandalaust, og jafnan gert við svipleg dauðsföll þar sem ekki er glæpum til að dreifa.

Þótt aðrir fjölmiðlar hafi leyft sér að birta strax myndir af bílnum er vandséð af hverju Eyjan ætti að blanda sér í þann subbuskap.  Gruninum um að Eyjan hafi einfaldlega misst sig í sorpblaðamennsku hefur því ekki verið eytt.  Og langloka ritstjórans lítur enn út eins og aumlegt yfirklór, í stað þeirrar afsökunarbeiðnar sem honum hefði verið meiri sómi að.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Anna María Sverrisdóttir

    Ég veit ekki. Ég veit t.d. ekki af hverju Eyjan hefði átt að sleppa því að flytja fréttir sem voru þegar komnar í aðra fjölmiðla. Er fjölmiðill betri ef hann sleppir því að flytja eða skýra vondar fréttir sem aðrir fjölmiðlar hafa flutt? Ég ætla ekki að verja fréttaflutning Eyjunnar en ég meðtek skýringar Karls þar sem hann reynir að svara gagnrýninni.
    Svona fréttir eru alltaf skelfilegar og mjög vandmeðfarnar en það er alveg rétt hjá Karli að sögusagnirnar sem fljúga af stað, þegar enginn veit neitt og getgáturnar ráða för, geta orðið enn erfiðari en ef upplýst er strax um hvaða fólk á í hlut, eða einsog Karl hugsar það; hvaða fólk á EKKI Í HLUT. Ég er blessunarlega laus við að þurfa að taka ákvarðanir um svona lagað.

    En ég vil nota þetta tækifæri til að votta öllum sem að þessu máli koma djúpa samúð. Það er varla hægt að horfast í augu við erfiðari aðstæður en þessar.

  • Þvílíkt andskotans kjaftæði sem ritstjóri Eyjunnar heldur fram.

  • Ég rann yfir þessa tilraun hjá þessum Karli. Þvílíkt yfirklór og aumingjaskapur. Það á að gangast við mistökum sínum en ekki reyna jafn herfilega ömurlega réttlætingu. Þessi maður er aumingi.

  • Aumt yfirklór.

    Skortur á fagmennsku og óbrenglaðri hugsun.

  • Gagarýnir

    „Birtingin var mistök og á henni biðst ég afsökunar hér og nú. Skilyrðislaust. Vonandi gerist slíkt aldrei aftur.“
    Bara að vitna í orð ritstjórans. En snýst þetta um eitthvað annað en mistök í fréttamennsku?

  • Anna María Sverrisdóttir

    Viðbrögðin eru hörð og það er að stórum hluta til af því að fréttin er um atburð sem allir þrá að hefði ekki gerst, enginn vildi fá þessar fréttir. Það er mjög skiljanlegt. Ég vil samt ekki fella dóma um hvað var rétt og hvað var rangt í fréttaflutningnum.

  • Jakob Jónsson

    Ritstjóri Eyjunnar horfir framhjá því sem er þó aðalatriði málsins: birtar voru upplýsingar, sem báru böndin að bæði geranda og fórnarlambi áður en aðstandendur fórnarlambsins vissu hvað gerst hafði. Þetta er það, sem er ámælisvert. Hitt, sem ritstjórinn gerir að aðalmáli í svonefndri skýringu – sem engin er! – er algert aukaatriði og raunar bara rugl. Það hefur hingað til ekki talist frétt, hverjir séu saklausir.

  • Karl Th. segir: „Voru þetta réttar ákvarðanir? Ekki gerist ég dómari í eigin sök og læt aðra um að kveða upp úr um það.“

    En leyfir engin ummæli!

  • Hann biðst afsökunar á nafnbirtingunni um leið og hann réttlætir það að birta bílnúmerið. Rétt eins og það jafngildi ekki nafnbirtingu. Mikið skelfing er þetta nú hallærislegt dæmi um hræsni.

  • Haraldur Finnsson

    Karl Th : Slepptu langhundum til afsökunar. Þeir gagnast ekki. Afsökunarbeiðni með loforði um að svona gerist ekki aftur og að staðið verði við það er það eina sem þú átt að gera. Ekki velta þér og okkur sem lesum þennan fréttamiðil upp úr harmleikjum sem þessum. Og alls ekki í nánast í beinni útsendingu. Svo vildi til að ég var á netinu þegar þessi frétt kom og mér ofbauð. Við viljum alvöru fréttamiðil sem tekur á málum sem koma okkur við.

  • Bryndís Þórisdóttir

    Ég fékk þetta lánað hjá kunningja mínum því hann kemur betur að þssu orðum en ég…

    Ritstjóri Eyjunnar horfir framhjá því sem er þó aðalatriði málsins: birtar voru upplýsingar, sem báru böndin að bæði geranda og fórnarlambi áður en aðstandendur fórnarlambsins og gerandans vissu hvað gerst hafði. Þetta er það, sem er ámælisvert. Hitt, sem ritstjórinn gerir að aðalmáli í svonefndri skýringu – sem engin er! – er algert aukaatriði og raunar bara rugl. Það hefur hingað til ekki talist frétt, hverjir séu saklausir

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur