Laugardagur 25.06.2011 - 01:27 - 22 ummæli

Álfatrúartrú Íslendinga

Því er stundum haldið fram að Íslendingar trúi á álfa og huldufólk.  Um þetta má deila, en fæstir vita þó uppruna þessarar trúar á álfatrú landsmanna.  Lausleg athugun leiðir eftirfarandi í ljós (í samræmi við þær hefðir sem virðast gilda í umræðum um þessi mál og skyld verður hér vandlega forðast að geta heimilda eða áreiðanlegra gagna):

Seint á áttunda áratug síðustu aldar átti ung bandarísk stúlka að nafni Li E., nýútskrifuð úr þarlendum háskóla, nokkra íslenska vini sem hún hafði kynnst í skólanum, og sem hana dauðlangaði að heimsækja.  Hún var auralítil og brá því á það ráð að fá Wall Street Journal til að borga undir sig far til Íslands, gegn því að hún skrifaði „human interest“ grein um þetta frumstæða land, en stöku slíkar greinar birtir blaðið til að lífga upp á annars dapurlegt líf helstu lesenda sinna, sem flestir eyða ævinni í að flytja tölur á milli bréfsnifsa í gluggalausum skrifstofum á Manhattan.

Þegar Li kom til landsins biðu hennar höfðinglegar móttökur íslensku vinanna, sem fóru með hana út á lífið og héldu henni þar við efnið í þrjár nætur og tvo daga.  Þegar hún raknaði úr rotinu á hádegi þriðja dags, og átti að fljúga heim síðdegis, mundi hún eftir greininni sem skyldi borga ævintýrið.  Nú voru góð ráð dýr, en henni tókst að kría út góðan afslátt, enda með afbrigðum lunkin  eins og samningur hennar wið WSJ gefur til kynna.  Li fékk sem sé einn af vinunum íslensku til að keyra sig út á flugvöll, ákveðin í að rekja úr honum garnirnar á leiðinni, og spinna úr þeim söguþráð í greinina.  Það gekk í fyrstu treglega, enda vinurinn bæði fámáll að upplagi, grúttimbraður og með svæsna garnaflækju.  Þó missti hann út úr sér, skömmu eftir að hann keyrði fram hjá Kúagerði, að þarna hefði afi hans fótbrotnað í vegavinnu eftir að hann  sprengdi steininn sem amma hans hafði sagt honum að í byggju álfar.

Í flugvélinni á leiðinni tilbaka til New York skrifaði Li í snatri grein um þessa sérkennilegu þjóð sem virtist í flestu hafa tileinkað sér háttu vestrænna manna, en trúði enn á álfa og huldufólk.  Greinin birtist viku síðar, undir fyrirsögninni „Where elves are all the rage“.  Hún var að sjálfsögðu þýdd og birt í Morgunblaðinu, og þess getið að bandarískur sérfræðingur í trúarbragðafræði hefði komist að því eftir áralangar rannsóknir að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga tryði á álfa, enda hefðu birst um þetta greinar í virtum tímaritum erlendis.

Síðan hafa Íslendingar trúað að Íslendingar trúi á álfa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

 • Þetta er skrýtin álfasaga… 😉

 • Jón Daníelsson

  Fallegt 🙂

 • Á þeim tíma sem ég rak Nornabúðina kynntist ég undarlegustu hjátrú. Ég hitti marga sem trúðu því staðfastlega að álfatrú væri útbreidd á Íslandi. Margir segjast trúa á álfa af því að hugmyndin sé skemmtileg og margir segjast ekki vilja afskrifa að það sé ‘eitthvað í náttúrunni sem við skiljum ekki’. Ég man aðeins eftir einu samtali þar sem viðmælandi minn virtist í alvöru trúa á huldufólk.

  Ég held að flestir sem segjast álfatrúar líti það svipuðum augum og ásatrúarmenn líta ásatrú. Semsé sem viðleitni til að varðveita minjar um menninguna eftir að trúin á bak við hana er dauð.

 • Fannar Hjálmarsson

  Menn trúa á guð en geta ekki fært sönnur fyrir tilvist hans. afhverju ættum við að afskrifa trú á álfa víst við afskrifum ekki trú á guð? getur einhver sannað að álfar séu ekki til?

  Ég held annars að álfatrúin sé svipuð eðlis og þegar menn verða guðhræddir þegar þeir eru komnir að ævi lokum. Ef menn eru að sprengja steina og allt í vaskinn, er ekki betra að trúa á álfanna svona til öryggis heldur en að hætta á reiði þeirra ef ske kynni?

 • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur
 • Árni Björnsson

  Má ég benda á úttekt mína á þessu máli í Skírni 1996, s. 79-104, og Skírni 1998, s. 165-172.

 • Gaman væri að fá slóð á þessa grein Li E.

 • Eva: hvað veist þú um hvernig ásatrúarfólk lítur á ásatrú?
  Hvað vitið þið um fyrirbærin „álfar“, „huldufólk“ og „landvætti“?
  Hví þessi biturleiki Einar?

 • Já, ég gleymdi; …fullt af „vættum“ í Svíþjóð líka 😉 Allstaðar þar sem náttúran er í friði fyrir aggressívum homo-sapíens-sapíens 🙂

 • Einar Steingrímsson

  Árni: Takk fyrir ábendinguna um Skírnisgreinarnar.

  Gísli: Ég hafði samband við ristjóra WSJ og spurði hvort hægt væri að fá afrit af grein Li E. Eitthvað virðist hafa staðið illa á hjá þeim, því svarið var snubbótt, allt með lágstöfum, og nafn Li var ekki einu sinni rétt skrifað: „this lie has never been published in the wsj.“

  SiVala: Biturleiki? Hmmm…, ég var þvert á móti svo léttur í lund þegar ég rifjaði þetta upp og skrifaði niður eftir minni, því mér finnst þetta frábær álfasaga. 🙂

 • Er mögulegt að grein eftir skólasystur hennar, Pho Nee, hafi birst árið eftir í WSJ?

 • Ómar Kristjánsson

  þetta á fornar rætur í germönnskum ættbálkum og svipað var á Norðurlöndum en íslenska útgáfan virðist einnig skyld írsku álfunum eða hulduverunum. Kannanir hafa sýnt að um helmingur ísl. hefur trú á þessumeð einum eða öðrum hætti og konur meira.

  Sagt er að í nútímanum sé þetta mest horfið Evrópu – nema á Íslandi og á vissum stöðum a Írlandi.

  Eg hef td. orðið var við það að þjóðverjar sumir hafa áhuga á þessu. Og þá hefur sá áhugi verið skýrður þannig fyrir mér, að þessi eða álíka trú/skoðun hafi verið sterk í þýskalandi fyrr á tið – og þeim þyki áhugavert að ættbálkur skuli enn hafa þessa trú.

 • Einar Steingrímsson

  Þetta hljómar kunnuglega, Gísli. Geturðu reynt að finna þá grein, eða kannski skrifað upp eftir minni það sem stóð í henni?

 • Hlynur Þór Magnússon

  Hahaha, leyfi ég mér að segja. Ekki trúi ég á tilvist álfa og þekki ekki persónulega nokkra manneskju sem gerir það, svo ég viti.

 • SiVala, ég hef ekki neinar vísindalegar rannsóknir sem ég get bent á til að styðja mál mitt. Veit bara að ég þekki marga ásatrúarmenn en engan þó sem álítur að aðrir en hermenn fari til Heljar þegar þeir deyja eða að hrímþursar, forfeður mannkynsins hafi orðið til þegar fótur Ýmis gat hinum fætinum son.

 • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

  Einu sinni var maður sem hélt því fram, á opinberum fundi, að hann hefði haft samfarir við álf.

  Þegar nánar var að gáð kom í ljós að hann var heyrnarlítill og að hluta til málhaltur.

  Hann hafði ætlað að segja að hann hafi haft samfarir við kálf !!

 • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

  Ofangreinda (k)álfasögu má finna í upprunalegri gerð sinni í

  Richard Sale,
  Xenophobe´s Guide to The Icelanders,
  Ravette Book (1994)

 • Eitt er álfar og huldufólk, annað er þetta nútíma flipp með garðáflum, og grasálfum og ég veit ekki hvað.

  Amma mín, fædd 1912, sá í æsku sinni norður í landi um kvöld, ljósker sem hafði gleymst, borið upp úr lægð og hverfa inn í klett. Ég trúi henni, og ekki bara út af því að hún er amma mín. Margir fleiri en hún sáu þetta líka.

  Hins vegar ef ég sé e.k. tourist-attraction þar sem einhver kona talar um alla álfana sem hún talar við á hverjum degi, og eitthvað álíka, þá hristi ég hausinn.

 • Hver haldið þið í alvörunni að viðbrögðin séu þegar „venjulegt“ fólk viðurkennir að það geti talað við álfa. Í alvörunni?
  Ekki myndi ég leggja í það undir nafni miðað við commentin hér að ofan þó ég hafi oft átt samtöl við álfa. Ég hef eytt miklum tíma í íslenskri náttúru, og mér var kennt að ef maður hefði fyrir því að kynnast landinu og tala við álfana þá kæmu þeir. Og það gerðu þeir þegar ég lagði loksins í að kalla á þá. Ég er í ágætu sambandi við vætti landsins en segi engum frá því einmitt vegna þess að þegar ég geri það halda allir að ég sé kolklikkuð eða á lyfjum.
  Sumt fólk heyrir og sér hluti sem aðrir sjá ekki, og það er gríðarlega erfitt að sannfæra fólk um tilvist sjötta skilningarvitsins þegar það hefur það ekki. Það er eins og að lýsa heyrn fyrir heyrnarlausu fólki. Við myndum kalla litblinda lygara ea geðveika ef það væri ekki hægt að sanna að þeir eru litblindir.
  En svona er nú engu að síður raunveruleikinn, fullur af óútskýranlegum fyrirbærum og frábrigðum. Mér finnst heimurinn betri á meðan álfar lifa í honum. Líka jólasveinarnir þó ég hafi aldrei hitt þá í alvörunni.

 • Eva: Dettur þér ekki í hug að guðagestöltin séu táknmyndir fyrir sálrænar erkitýpur, osfr? Sömu týpurnar poppa upp í öðrum mytologíum.

  Við skynjum veruleikann mismunandi, kæra fólk, og erum ólíkt næm á víbra. Æskilegt væri ef við bærum virðingu fyrir hvers annars veruleikaskynjun og viðurkennum að við erum ekki öll steypt í sama mót.
  Ég hef skoðað þessi mál mikið um ævina og rekið mig á að í hópi ateista eru hatrammir fanatíkusar, ekki síður en í trúar-brögðunum, sem una sér ekki hvíldar á því að hæðast að hinum og gera lítið úr þeim. Spurningin hvers vegna er mér athyglisverð.

 • Að sjálfsögðu eru goðsagnirnar táknrænar. Á sama hátt eru álfar tákngervingar heillandi en varhugaverðra fyrirbæra í náttúrunni og margar sagnanna endurspegla ótta fólks og drauma. Þokan verður huldukona sem leiðir barn á villigötur. Draumur fátæku stúlkunnar um ríka, góða, gáfaða manninn verður að ljúflingssögu.

  Þetta eru skemmtilegar sögur en frekar dapurlegt að þurfi að grípa til þeirra til þess að menn velti fyrir sér hvaða áhrif framkvæmdagleði þeirra hefur á náttúruna. Stundum þarf hörmungar til að mannskepnan hrökkvi upp af hrokanum, því miður. Ég hef sjálf reynt að særa vættir landins til að stöðva framkvæmdirnar við Kárahnjúka en ekki hvarflaði nú samt að mér að þau öfl væru ósýnilegir bændur.

 • Eru álfar kannski menn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur