Í nýlegri frétt á RÚV er sagt frá athugasemdum Ólínu Þorvarðardóttur við kostun á stöðum starfsmanna háskóla, en hún nefndi sérstaklega stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun HÍ, sem kostuð er af LÍÚ. Hér verður ekki rakið það sem Helgi hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum, en augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum.
Í umræddri frétt er vitnað í forseta Félagsvísindavsviðs HÍ, Ólaf Þ. Harðarson, en hann „segir skólann huga vel að þessum málum, mestu máli skipti að fyrirkomulagið sé gagnsætt.“ Það þætti þó varla nóg í háskólum sem annt er um orðstír sinn sem sjálfstæðra rannsóknastofnana.
Það ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann. Ég spurði forstöðumann Lagastofnunar, Maríu Thejll, hvort stofnunin hefði reglur um kostun utanaðkomandi aðila. Svar hennar var svohljóðandi (auk vísunar í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 85/2008, um að háskólar megi semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki um ráðningu kennara og annarra starfsmanna):
Lagastofnun hefur ekki sett sérstakar reglur um kostaðar stöður og er ekki kunnugt um slíkar reglur á vegum Háskóla Íslands. Starfsmenn í kostuðum stöðum eru ráðnir í samræmi við ráðingarferli samkvæmt reglum Háskóla Íslands og lúta nákvæmlega sömu reglum og starfsskilyrðum og aðrir starfsmenn háskólans við störf sín.
En það eru fleiri dæmi um blygðunarlausa (skilningsvana?) samtvinnun HÍ og valda- og hagsmunaaðila. Á vef Alþjóðamálastofnunar HÍ stendur meðal annars þetta:
Markmið Alþjóðamálastofnunar er að vera leiðandi í rannsóknum um alþjóðamál og smáríki í heiminum, að auka gæði og framboð náms um alþjóðamál og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, og að vera þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera. Stofnunin starfar með utanríkisráðuneytinu, Varnarmálastofnun Íslands, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.
Að vera „þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera“ fer augljóslega í bága við hugmyndina um sjálfstæða rannsóknastofnun, og um það ætti ekki að þurfa að deila. Enda segir Ólafur Þ., í ofangreindri frétt RÚV:
En hins vegar hefur það iðulega gerst varðandi starfsmenn sem eru í stöðum sem eru kostaðar af ríkinu, og þá eru það stjórnmálamenn sem eru að gera athugasemdir við ummæli eða niðurstöður einstakra fræðimanna við Háskólann.
Það er e.t.v. ekki skrítið, því sumar deildir HÍ virðast lengi hafa litið á sig sem þjónustustofnanir við ríkisvaldið (og jafnvel hið svokallaða „atvinnulíf“, þ.e.a.s. atvinnurekendur af ýmsu tagi). Starfsmenn Lagadeildar HÍ hafa margir eytt gífurlegum tíma í vinnu fyrir hið opinbera (eins og fram hefur komið í fréttum nýlega, sjá t.d. hér), og vandséð að þeir stundi á meðan mikið af þeim fræðistörfum sem háskólafólki er ætlað (og sem það fær greitt fyrir stóran hluta af launum sínum við ríkisháskólana).
Það lýsir líka sérkennilegri afstöðu til háskólarannsókna að forstöðumenn „rannsóknastofnana“ við HÍ eru gjarnan fólk sem hefur lítinn eða engan rannsóknaferil að baki. Það gildir t.d. um ofangreinda Alþjóðamálastofnun, en einnig, að því er virðist, um Lagastofnun og sama gilti til skamms tíma um Félagsvísindastofnun, en algengt hefur verið að forstöðumenn þessara stofnana hafi ekki einu sinn lokið doktorsprófi, hvað þá að þeir hafi haslað sér völl sem öflugir fræðimenn.
Það er ástæða fyrir því að góðum háskólum erlendis dettur ekki í hug að setja í akademískar forystustöður fólk sem ekki hefur að baki umtalsverðan feril sem háskóla- og fræðafólk. Þetta vita allir sem kynnst hafa sæmilegu háskólastarfi á alþjóðavettvangi, en á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum virðist valdafólk í íslensku háskólunum enn halda í hugmyndina að Ísland sé svo „sérstakt“ og Íslendingar svo miklir snillingar að hér geti hver sem er leitt háskólastarf sem sómi sér meðal bestu háskóla heims. Það er væntanlega af sömu ástæðu að meðal æðstu forystumanna HÍ og HR (um fimmtán talsins) er aðeins ein manneskja sem hefur reynslu af starfi á þeim alþjóðavettvangi þar sem þessir skólar segjast ætla að skara fram úr.
Til að þjóna þeim sem með völdin fara á Íslandi, bæði í stjórnkerfinu og efnahagslífinu, þarf hins vegar ekki annað en sæmilega þjónslund, og raunveruleg fræðimennska og gagnrýnin hugsun er þar bara til trafala.
PS. Rétt er og skylt að geta þess að innan HÍ og HR (og e.t.v. fleiri háskóla hér) er að finna talsvert af góðu vísindafólki, sem margt stendur framarlega á alþjóðavettvangi háskólasamfélagsins. Þetta fólk á hins vegar gjarnan undir högg að sækja, enda er starf þessara skóla meira og minna skipulagt með annað fyrir augum en að efla vísindastarf. Þar er oftar lögð áhersla á að styggja ekki þá sem ekki ná máli í því alþjóðasamfélagi sem vísindastarf er. Um það var lítillega fjallað hér, og meira verður e.t.v. gert af því í þessu bloggi síðar.
Vó (hljóð sem þýðir: þetta er ekkert smávegis rasskelling á háskólaliðið) eða böööörn
Þeir eru margir innan háskólasamfélagsins sem hafa orðið berir að þjónkun við ríkisvald og atvinnulíf og fyrirgert akademískum heiðri sínum fyrir fáeina skildinga. Ólína Þorvarðardóttir nefndi Helga Áss til sögunnar en átakanlegasta dæmið er Þórólfur Matthíasson. Nú er svo komið að þegar sá maður birtist á skjánum eða lætur hafa eitthvað eftir sér í blöðum sér fólk ekki fyrir sér trúverðugan akademiker heldur mann sem hefur selt sál sína pólitískum sjónarmiðum og þiggur peninga fyrir.
Ég minni á að núverandi rektor HÍ hefur sett það markmið að skólinn verði talinn í hópi 100 bestu í veröldinni.
Þetta markmið er svo fullkomnlega galið að bara það að lýsa því yfir opinberlega er sönnun þess að rektorinn er algjörlega óhæfur.
Nýlega eyrnamerkti Alþingi fjárveitingu til prófessorsstöðu sem staðsetja á Vestfjörðum?
–Er eðlismunur á því þegar Alþingi ákvarðar hvernig verja skuli rannsóknarfé, og því þegar fyrirtæki, stofnanir eða sjóðir stofna slíkar stöður?
Góð færsla hjá þér Einar, endilega meira af þessu.
Nei, það er ekki eðlismunur Árni.
Enda voru margir á móti þessari stöðu. Háskólinn á hvorki að taka við skipunum frá ríkjum eða fyrirtækjum.
Ef fólk vill styrkja háskólann ætti það að vera sjálfsagt mál. (Með ströngum reglum samt sem áður). Sjóðir, styrkir ættu að vera vel þegnir en hverjir eru ráðnir ætti að fara eftir faglegum en ekki pólitískum forsendum.
Góð færsla!
Í lóðbeinu framhaldi af þessu væri rökrétt að fara yfir kostun hins opinbera á rannsóknum. Óeðlilega hátt hlutfall af fjármagni til rannsókna er „í áskrift“ á meðan samkeppnissjóðir hafa úr allt of litlu að moða.
Prinsippin sem ráða því að við viljum ekki beina kostun frá atvinnulífinu eiga jafnvel við þegar kemst á vanheilagt samband á milli fræðimanns og stjórnmálamanns eða embættismanns sem ræður hvort hann heldur kostun.
Hver er niðurstaða 15 milljón króna rannsókna LOGOS á reglum um eftirlit stjórnvalda með starfsemi á fjármálamarkaði?
http://www.visir.is/logos-kostar-stodu-lektors-i-hi/article/2007102210090
Ég leyfi mér að mótmæla orðum GSS um Þórólf Matthíasson prófessor. Ég hef aldrei reynt Þórólf að öðru en að taka almannahag fram yfir sérhagsmuni. Hann er strangheiðarlegur.
Þegar rætt er um háskólavændið skulum við ekki gleyma Tryggva Þór Herbertssyni. Eins og menn muna fékk hann a.m.k. 2.000.000 ÍSK og skotveiðifélagi hans Miskin 124.000 USD frá Viðskiptaráði Íslands fyrir “rannsóknarskýrslu” sína
Frederic S. Miskin, Tryggvi T. Herbertsson,
Financial Stability in Iceland,
Iceland Chamber of Commerce (2006)
http://www.vi.is/files/555877819Financial%20Stability%20in%20Iceland%20Screen%20Version.pdf
Hér er svo ógleymanleg umfjöllun um skýrsluna úr verðlaunaðri kvikmynd
http://www.youtube.com/watch?v=8lHvTKzfu8Q&feature=related
Þetta varpar fram eftirfarandi spurningu: Hvað eru rannsóknir og hvað eru ekki rannsóknir ??
Hagvöxtur er aukapródúkt fjrálsrar þekkingarleitar háskóla.
Áhugamenn um hagvöxt eiga því að láta háskólann hafa það rannsóknarfé sem hann biður um og láta hann svo í friði.
Allra síst eiga atvinnufyrirtæki að puttast í akademíunni.
Þó ekki væri nema af því að það kæfir hagvöxtinn.
Lilja Móses benti nýlega á… að háskólakennarar sem ekki rugga bátnum ná lengst innan skólans…
… Þórólfur Matthíasson hefur ítrekað komið fram með rangar greiningar… t.d. í Icesave ofl… ávallt stjórnvöldum í hag…
… Helgi Ás hefur gengið undir viðurnefninu „málaliðinn“… en hann sem sérfræðingur í kvótamálum hefur skilað skýrslum hagstæðum L.Í.Ú. …og sem sérfræðingur í kvótamálum… virtist Helgi rökþrota í gagnrýni á „litla kvótafrumvarp“ Jóns Bjarna…
… í Lögbergi húsi lagadeildar er innréttaður réttarsalur… með silfurplötu… áletraðri gjöf frá L.Í.Ú…
…Stefán Ólafsson prófessor hefur verið staðinn að fölsunum… sem HHG afhjúpaði… sem og falsanir sagnfræði prófessors um íslensk tengsl og vopnaþjálfun íslenskra kommúnista í Sovét á stalínstímanum…
… nauðsynlegt er að prófessorar/kennarar gagnrýni „pólitísk“ álit innan akademíunnar…
… 1 doktor er í lagadeild H.Í… 5 í lagadeild H.R….
Mig grunar að Einar Steingrímsson stundi ritskoðun.
Hann er kannski ekki allur þar sem hann er séður !!!!
Þessi meinta ritskoðun snýst um misskilning. 🙂
Ég gerði mér ekki grein fyrir að ég þyrfti að samþykkja tilteknar athugasemdir, því ég hélt að sjálfkrafa væri opið fyrir allar athugasemdir. Svo virðist sem athugasemdir sem innihalda slóðir á vefsíður séu sjálfkrafa stoppaðar og að ég þurfi að samþykkja þær „handvirkt“. Það hef ég gert við ummælin sem Sigmundur vísar í, og þau birtast nú hér að ofan (27.6 2011 kl. 20:10).