Mánudagur 18.07.2011 - 01:10 - 21 ummæli

Stjórnlagaráð, persónukjör og flokksræði

Í Stjórnlagaráði er nú tekist á um hvaða ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá um kosningafyrirkomulag.  Líklega er óhætt að segja að sú krafa eigi mikinn hljómgrunn meðal almennings að opnað verði fyrir persónukjör, enda margir búnir að fá nóg af flokksræðinu sem hefur tröllriðið valdakerfinu í áratugi, og á eflaust sinn þátt í að Alþingi hefur sjálft rúið sig öllu trausti.

Gegn þessari kröfu standa auðvitað þeir stjórnmálaflokkar sem hér hafa ráðið lögum og lofum, og sem ekki mega til þess hugsa að það valdakerfi riðlist sem þeir hafa gert út á.

Gegn þessum hugmyndum hefur líka verið teflt fram staðhæfingum um að flokkar, og flokkskjör, séu nauðsynlegir til að kjósendur viti hvers konar meginstefnu þeir séu að kjósa og það sé ógerlegt í hreinu persónukjöri, eins og í kosningunni til Stjórnlagaþings.  Við þetta er margt að athuga.

 1. Í fyrsta lagi er ekkert sem kemur í veg fyrir að flokkar dreifi listum yfir þá frambjóðendur sem þeir vilja koma á þing.  Slíkan lista gæti kjósandi sem vill bara kjósa frambjóðendur eins flokks tekið með sér á kjörstað.
 2. Í öðru lagi hefur sú málamiðlunarhugmynd verið sett fram að frambjóðandi mætti tilgreina stjórnmálasamtök sem hann tilheyrði á kjörseðlinum, þannig að þeir flokkshollu þyrftu ekki einu sinni að vera með tossalista með sér.
 3. Í þriðja lagi er engin ástæða til að ætla að hinn almenni kjósandi sé svo illa gefinn að hann sé ófær um að raða saman á lista fólki með skoðanir sem eru samhljóma hans í grundvallaratriðum.
 4. í fjórða lagi er persónukjör, þar sem kjósendur mega kjósa frambjóðendur af mörgum listum, notað víða í Þýskalandi (og e.t.v. víðar) og engar fréttir hafa borist þaðan um upplausnarástand eða einu sinni að hin fræga þýska reglusemi hafi riðlast fyrir vikið.
 5. Í fimmta lagi er vafasamt að halda fram að flokkar á Íslandi bjóði upp á skýra grundvallarstefnu, þannig að kjósendur viti hvað þeir kjósa yfir sig.  Þetta er ekki bara vegna þeirra málamiðlana sem óhjákvæmilegar eru við myndun samsteypustjórna, heldur líka af því að íslenskir stjórnmálaflokkar hafa yfirleitt  enga stefnu.  Að þeir eigi sér stefnuskrár, og jafnvel yfirlýsingar um stefnu í tilteknum málum er ekki nóg; stefna án aðgerðaáætlunar, að ekki sé nú talað um að fylgja stefnunni, er óskhyggja, ekki stefna.

Um síðastnefnda atriðið mætti nefna mýmörg dæmi.  Hér eru tvö:

 • Það var stefna bæði VG og Samfylkingar að endurheimta kvótann og koma á kerfi þar sem kvótinn væri ótvírætt eign þjóðarinnar, og hún nyti arðsins af auðlindinni.  Nú hafa þessir flokkar setið einir í ríkisstjórn í tvö og hálft ár, en ekkert bólar á niðurstöðu í þessa veru.  Þvert á móti lítur út fyrir að málið verði svæft, og ef til vill er þegar búið að byrla því ólyfjan, af manni sem einn virðist fara með völdin í því, sjávarútvegsráðherra.
 • Menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) ákvað 2007 að auka bein framlög ríkisins til rannsókna við HÍ um 3 milljarða á ári (þreföldun á framlaginu).  Aðeins hluti af þessu kom til framkvæmda, vegna hrunsins, en þótt telja megi HÍ vel að þessu kominn fer ekki á milli mála að  þetta fór þvert á yfirlýsta stefnu (Landsfundar) flokksins, um að efla samkeppnissjóði í stað þess að veita rannsóknafé beint til stofnana.  Ráðherra kom af fjöllum þegar henni var bent á stefnu flokksins, og það virðist fremur  regla en undantekning að íslenskir ráðherrar fari sínu fram, hvað sem líður yfirlýstri stefnu.

Af ofangreindri upptalningu ætti að vera ljóst að andstaðan við persónukjör á sér ekki rætur í rökréttum ótta við einhvers konar upplausnarástand.  Hún er sprottin af ótta flokkanna við að missa kverkatakið sem þeir hafa á völdunum í landinu.

Því hefur verið haldið fram að rannsóknir sýni að persónukjör sé ekki til þess fallið að ná fram þeim markmiðum sem flestir telji rétt að stefna að í lýðræðisþjóðfélagi.  Þetta er ef til vill ekki einfalt mál, en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma (sjá þó PS hér að neðan).  Hins vegar er óhætt að segja að afdráttarlausar staðhæfingar í þessa veru séu rangar.  Það er vegna þess að stjórnmálafræðingar eru alls ekki á einu máli um þetta, og því er ljóst að hér er ekki um að ræða áreiðanlega þekkingu af því tagi sem hægt er að kalla traust fræði.

Í Stjórnlagaráði er nú tekist á um eitthvert mikilvægasta atriði stjórnarskrárinnar, kosningafyrirkomulagið.  Það er ekki sjálfgefið að hreint persónukjör leiði til betri stjórnarhátta, en svo virðist sem starf Stjórnlagaráðs, sem þannig var kjörið, hafi gengið nokkuð vel, öfugt við þann forarpytt sem Alþingi hefst við í.  Það er slæmt ef ráðið gefst upp gegn þeirri sameiginlegu flokksmaskínu sem ekki má til þess hugsa að missa völdin yfir því spillingarkerfi sem hún hefur komið  upp.  Þá er borin von að við fáum að sjá umtalsvert betri stjórnarhætti en þá sem ríkt hafa hér, og sem almenningi ætti varla að vera eftirsjá í.

PS.  Ég hef rætt örlítið um kosningakerfi í tölvupósti við einn stjórnmálafræðing sem hefur ákveðnar skoðanir á málunum, og sem benti á ýmis gögn máli sínu til stuðnings (þótt ég sé eftir sem áður ósannfærður um áreiðanleika staðhæfinga hans).  Gott væri að efna til opinberrar umræðu um þessi mál, með þátttöku þeirra stjórnmálafræðinga sem telja sig búa yfir mikilvægri þekkingu á þessu sviði.  Þar ættu þeir að tjá sig í skýru máli, svo almenningur geti myndað sér skoðun á afstöðu þeirra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

 • Við ætlum að flytja tillögu um, að orðið persónukjör verði aftur fært inn í textann og kjósendum verði leyft að kjósa þvert á lista.

 • Illugi Jökulsson

  Það er mjög öflugur stuðningur við þetta viðhorf í ráðinu. Og við munum beita okkur fyrir því af öllum kröftum.

 • Einar Steingrímsson

  Gott að heyra, Þorvaldur og Illugi! Vona ykkur gangi vel með það.

 • Í guðanna bænum sleppið stjórnmálafræðingum þeir hafa ekkert vit á þessu, það hefur sýnt sig.

 • Sæll Einar,

  Flokkshugsunin virðist vera ansi föst í fólki. Þetta sést greinilega í umræðunni um varamenn. Viljálmur Þorsteinsson sagði t.d. í athugasemd við síðustu færslu þína: „Þingmenn munu þrátt fyrir allt bjóða sig fram á listum; það er m.a. nauðsynlegt svo unnt sé að kalla inn varamenn í þeirra stað.“

  Þetta er þvæla.

  Ef þingmaður er frá í stuttan tíma hlýtur Alþingi að geta starfað án hans án vandræða, nákvæmlega eins og ef ég og þú fáum flensu. Ef hann er frá í lengri tíma er sjálfsagt að kalla til e.k. varamann, en hann þarf ekki að koma úr sama flokki/lista. Hann getur einfaldlega verið sá sem komst næst því að komast á þing á landsvísu. Það er miklu sanngjarnara fyrirkomulag fyrir kjósendur, sem eru væntanlega að kjósa þingmenn en ekki varaþingmenn.

  Annars skrifaði ég um þetta hér

  Bestu kveðjur,

  Eiður

 • Einar Steingrímsson

  Góð ábending, Eiður. Það er vandamál hve margir eiga erfitt með að losa sig út úr þeim kassa sem núverandi fyrirkomulag er. Það er eitt að vera íhaldssamur á kerfið af því maður er ánægður með það eða almennt á móti miklum breytingum. Hitt er verra þegar fólk getur ekki rætt hlutina fordómalaust, af því það megnar ekki að hugsa um þá án þess að vera fast á klafa fortíðarinnar. Ég veit auðvitað ekki hvort það á við Vilhjálm í dæminu sem þú nefnir (þekki ekki samhengið), en maður verður mjög víða var við þetta viðhorf, jafnvel meðal fólks sem situr í Stjórnlagaráði.

 • Kjartan Valgarðsson

  Ég tel töluverðar líkur á því að hreint persónukjör muni færa okkur popúlisma í áður óþekktum hæðum. Hafi óþekktir einstaklingar átt erfitt uppdráttar í núverandi kerfi, þá verður það enn erfiðara í kerfi hreins persónukjörs. Stjórnlagaráðsfulltrúarnir eru ágæt sönnun þess. Það sem mér fannst frábærast við Kvennalistann í gamla daga var að við vorum alltaf að sjá ný og ný alveg óþekkt andlit á skjánum og í viðtölum annars staðar. Þær voru ekki jafn tunguliprar og atvinnupólitíkusarnir, en fluttu með sér ferska strauma og vida, og mér fannst beinlínis aðdáunarvert af Kvennalistanum að tefla þeim fram.

  Drögin sem nú liggja fyrir gera sem betur fer ráð fyrir að listar/framboð/flokkar bjóði fram til alþingiskosninga. Annars er 4% reglan óframkvæmanleg, er það ekki?

 • Magnus Björgvinsson

  Perónukjör í hreinustu mynd er að finna í USA. Er það fyrirmyndar fyrirkomulag Einars Steingrímssonar? Óþarfi að vera svona barnalegur í hugsun að halda að menn hópi sig ekki saman um hugmyndafræði hvort sem þeir eru kosnir persónukosningu eða sem listi sem kjósendur geta raðað á kjörseðli. Eins þá bendi ég að það má ekki gleyma öllu því fólki sem eru bakland væntanlegra þingmanna og eru einmitt í þeim flokkum sem þeir koma úr. Held að einstaklingar hafi sýnt sig að plummi sig ekki án stuðningsnets.

 • Einar Steingrímsson

  Kjartan: Ég held það sé fremur erfitt að trompa þann popúlisma sem við höfum séð í núverandi kerfi, t.d. einleik Jóns Bjarnasonar. Í stuttu máli er mér full alvara með að halda að það sé nánast útilokað að fá verra kerfi en það sem við höfum nú, með Alþingi eins og það hefur starfað síðustu áratugi.

  Magnús: Persónukjör í hreinustu mynd var kjörið til Stjórnlagaráðs, sem var að flestu leyti alger andstaða við bandarísku einmenningskjördæmin.

  Engum dettur í hug að „menn hópi sig ekki saman um hugmyndafræði hvort sem þeir eru kosnir persónukosningu eða sem listi sem kjósendur geta raðað á kjörseðli.“ Með listakjöri, eins og hefur verið, er hins vegar komið í veg fyrir að einstaklingar, eða jafnvel litlir hópar, geti boðið sig fram. Ég sé ekki hvernig almenningur hagnast á því, en auðvitað væri slíkt þyrnir í augum núverandi flokka.

  Þótt ég sé ekki ánægður með niðurstöðu Stjórnlagaráðs sé ég ekki annað en að einstaklingarnir þar hafi „plummað sig“ án stuðningsnets umfram það sem þeir höfðu.

 • takk fyrir áhugaverð og hvetjandi skrif Einar.

 • Valur Bjarnason

  Ég er sko ekki sáttur við þessi drög að nýrri stjórnarskrá. Það að þingmenn geti setið ótakmarkað á þingi býður heim hættunni á alls kyns spillingu og handsali við hagsmunasamtök og kjördæmapot. Í 86. gr. segir til að mynda að enginn geti gengt SAMA ráðherraembætti lengur en 8 ár. Þannig að eftir þessa grein geta stjórnmálamenn valsað á milli ráðherraembætta eins lengi og þá listir bara ekki SAMA ráðherraembætti og síðast. Ef ráðuneytin eru tíu, þá geta þingmenn orðið ráðherrar í 80 ár, ef ég er ekki að misskilja greinina. Þessi grein er að gulltryggja áframhaldandi völd flokkanna í landinu og við vitum alveg að hagsmunir fllokkanna hafa ítrekað verið settir fram fyrir hagsmuni almennings og þjóðar. Þess vegna er svo mikilvægt að dreifa þessum völdum með því að takmarka setu þingmanna, ekki bara ráðherra, á þingi t.d. við tvö kjörtímabil. Svo varðandi 16. greinina, tja, þvílík vonbrigði, segi ekki annað. 31. gr. um auðlindirnar er að mörgu leiti góð, en þar er samt stór galli, því það fer eftir túlkun þeirra sem ráða hverju sinni í hvað langan tíma hægt er að leigja aðgang að auðlindunum. Þetta er eins og óútfylltur tékki. Svo er heldur ekki tekið fram hve hár arðurinn af auðlindunum á að vera. Það er eins og blessað fólkið sem sat í nefndinni hafi af einhverjum orsökum skipt um skoðun. T.d. var meirihluti nefndarmanna á því að aðskilja ætti ríki og kirkju, en svo kemur 16. greinin og ég spyr, hvað er það, hvers vegna skiptir fólkið um skoðun frá því það var kosið?

 • Finnur Birgisson

  Í þingkosningum í Þýskalandi hefur hver kjósandi tvö atkvæði: Með öðru þeirra kýs hann einhvern þeirra sem eru í framboði í einmenningskjördæmi því sem hann býr í, en þeir bjóða sig almennt fram í nafni einhvers stjórnmálaflokksins. Með hinu atkvæðinu kýs hann einhvern þeirra lista sem boðnir eru fram af flokkunum í landi því sem hann býr í (Bundesland).
  Það er því ekki sérlega nákvæm framsetning hjá þér að „persónukjör, þar sem kjósendur mega kjósa frambjóðendur af mörgum listum, sé notað víða í Þýskalandi.“ Fremur mætti segja að í þessu þýska kerfi geti kjósandinn „splittað“ atkvæði sínu; – kosið frambjóðanda í einmenningskjördæminu úr einum flokki, og síðan landslista annars flokks. Þetta er raunar að mínu ivti mjög gott kerfi og gæti verið til eftirbreytni.

 • Finnur Birgisson

  … mínu viti …

 • lydur arnason

  Aðalmálið eru ekki jákvæð eða neikvæð áhrif persónukjörs á úrslit kosninga enda slíkt huglægt mat. Meginmálið er að auka val kjósenda þannig að úrslitin endurspegli sem best vilja þeirra en ekki flokkanna. Þetta er kallað lýðræði.

 • Tek undir með Lýð, og til að fyrirbyggja misskilning þá er ég einarðlega fylgjandi persónukjör þvert á lista og kjördæmi, og er fyrsti flutningsmaður breytingartillögu þessa efnis sem rædd verður á næsta ráðsfundi. En ég vek einfaldlega athygli á því að kosningakerfi nýrrar stjórnarskrár er svo haganlega gert að það leyfir þetta auk þess að halda því til haga hverjir séu réttir varamenn hvers þingmanns. Það er m.a. gert með því að menn bjóða sig fram á framboðslistum, annað hvort lands- eða kjördæmis- nema hvort tveggja sé. Val kjósenda má hins vegar vera þvert á lista eins og áður sagði, a.m.k. ef tillaga mín og fleiri nær fram að ganga. Sem ég hef ágætar vonir um.

 • Einar Steingrímsson

  Finnur: Ég er ekki mjög fróður um þessi mál sjálfur (og ef til vill var rangt að segja að kosning þvert á lista sé leyfð víða í Þýskalandi). En, mér skilst að í kosningum til sambandslagaþings í Bremen og Hamborg sé einmitt leyft að kjósa þvert á lista.

  Svo tek ég heilshugar undir það sem Lýður segir hér að ofan, og helst vildi ég sjá ákvæði í stjórnarskrá um að kosið yrði til Alþingis eins og til stjórnlagaþings. Það er glapræði að leyfa flokkunum sem drottnað hafa yfir valdakerfinu hér að ráða hvernig kosið er.

 • Finnur Birgisson

  @Einar: Það sem þú ert að vísa til eru örugglega Landsþingskosningar (Landtag) í hverju hinna 16 sambandslanda Þýskalands. Lýsing mín hér að ofan á við kosningar til sambandsþingsins (Bundestag).
  En það mun vera rétt að löndin hafa mismunandi kosningakerfi til landsþinganna. Skv. Wikipediu var nýtt kosningakerfi tekið upp í Hamborg eftir ákvörðun í almennri atkvæðagreiðslu sem fram fór 2004 og notað í fyrsta skipti 2008. Þar segir að með því geti kjósendur haft meiri áhrif en áður á það hvaða einstaklingar veljast á landsþingið, og væri fróðlegt að kynna sér nánar hvernig það kerfi er smíðað.

 • Ég bjóst við slæmum vinnubrögðum en þetta slær öll met!!! ÞESSI TILLAGA AÐ STJÓRNARSKRÁ ER AÐFÖR AÐ LÝÐRÆÐINU !!!

 • „31. grein. Náttúruauðlindir

  Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

  Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

  Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

  Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum. “

  Hvað með auðlindir sem verða að einkaeigu í framtíðinni??? Hvenær verður auðlind að auðlind??? Við nýtingu auðlindarinnar og þá kannski eftir að hún kemst í einkaeigu??? HVURSLAGS BULL ER ÞETTA???!!! ÞESSI 31. GREIN LYKTAR AF EINKAVÆÐINGAR ÓÞEFI OG MEÐ SLÍKRI VÐBJÓÐSLEGRI SKAMMSÝNI Á FRAMTÍÐINA !!! SKAMMIST YKKAR!!!

 • “ 64. grein. Þingmál að frumkvæði kjósenda

  Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

  Fimmtán af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi ákveður hvort þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi eða ráðgefandi.

  Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.“

  HVAÐA SÝNDAR LÝÐRÆÐIS TILBURÐIR ERU ÞETTA??? HVER NENNIR AÐ STANDA Í SVONA LÖGUÐU EF ALÞINGI ÁKVEÐUR HVORT VILJI ÞJÓÐARINNAR SÉ ALÞINGI ÞÓKNANLEGUR?!

 • „65. grein. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu

  Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal varða almannahag. Hvorki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni og ríkisborgararétt.

  Heimilt er að vísa frá málum sem uppfylla ekki ofangreind skilyrði eða eru ekki þingtæk að öðru leyti.

  Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.“

  „ALMANNAHAGSMUNIR“ ÞETTA ORÐ HEFÐI STJÓRNLAGARÁÐ ÁTT AÐ ÍHUGA ÁÐUR HÚN HRIPAÐI ÞESSA GREIN NIÐUR, ÞVÍ Í 70. GREIN ER GERT RÁÐ FYRIR AÐ STJÓRNVÖLD ÁBYRGIST SKULDBINDINGAR EINKAAÐILA VEGNA „ALMANNAHAGSMUNA“

  NEI ,ÁKVÖRÐUNARTAKA UM ALMANNAHAGSMUNI ÞJÓÐARINNAR VERÐUR Í HÖNDUM 63 MIS-GÁFAÐRA OG SPILLTRA EINSTAKLINGA.

  EN EKKI ÞEIRRA 227843 KOSNINGABÆRRA MANNA!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur