Sunnudagur 31.07.2011 - 17:55 - 23 ummæli

Árás hafin á stjórnarskrártillöguna

Þótt tillaga Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sé ekki mjög róttæk er nokkuð öruggt að hún muni mæta mikilli andstöðu  þeirra afla sem ekki mega til þess hugsa að hróflað verði við því stjórnarfari sem hér hefur ríkt í áratugi.  Þar á meðal eru ýmis voldug hagsmunasamtök (t.d. LÍÚ) og allir stjórnmálaflokkarnir fjórir sem hafa drottnað yfir ríkisvaldinu og notað það fyrir ýmislegt annað en hagsmuni þess almennings sem það ætti  að þjóna.  Þessum öflum hefur tekist að koma í veg fyrir teljandi breytingar á stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun, þótt lagt hafi verið upp með að hana ætti að endurskoða fljótlega þegar hún var tekin upp fyrir sextíu og sjö árum.

Það var ef til vill bjartsýni að vona hið gagnstæða, en svolítil vonbrigði að Þorsteinn Pálsson skyldi ríða á vaðið gegn þeirri tilraun sem nú stendur yfir til að bæta stjórnarskrána.  Hér eru nokkrar úrklippur úr grein hans í Fréttablaðinu í gær:

Stjórnlagaráð hefur lokið störfum og hugmyndir að nýrri stjórnarskrá litið dagsins ljós, sumar nýtilegar og aðrar ekki eins og gengur.

Forsætisráðherra kaus í byrjun ríkisstjórnarsamstarfsins vorið 2009 að nota stjórnarskrármálið til þess að dýpka ágreining við Sjálfstæðisflokkinn.

Engin dæmi munu vera um að annars staðar hafi heildarendurskoðun stjórnarskrár lokið án samvinnu við næststærsta flokk þjóðþings.

Lokavinna stjórnlagaráðsins er því í raun áfangi á leið til fullbúinnar tillögu að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi ber nú ábyrgð á að sjái dagsins ljós.

Áður en menn fara að efna til þrætubókarumræðu um einstakar hugmyndir stjórnlagaráðsins væri ekki úr vegi að í næsta áfanga færi fram fræðileg úttekt á þeim hugmyndum sem fyrir liggja.

Hér þarf ekki bara lögfræðilegt mat. Einnig ætti að kalla til sérfræðinga á sviði réttarheimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði.

Lítil sem engin almenn umræða hefur farið fram um ýmsar kjarnaspurningar varðandi eðli stjórnskipunarreglna. Hvað er markmiðið með þeim? Hvar á að draga markalínuna milli stjórnskipunarlaga og almennra laga? Ráðið hefur sýnilega ekki haft aðstöðu til að ígrunda af kostgæfni álitaefni af þessu tagi.

Þorsteinn talar um „hugmyndir“ Stjórnlagaráðs, og „áfanga“ og hamrar á nauðsyn aðkomu Sjálfstæðisflokksins.  Ef til vill áttar hann sig ekki á þessu, en hér talar hann af sérkennilegri lítilsvirðingu um störf þess fólks sem hefur nú tekist þokkalega (á jafn skömmum tíma og tók að semja bandarísku stjórnarskrána) það sem íslensku stjórnmálastéttinni hefur ekki tekist allan þann tíma sem Þorsteinn hefur lifað.  Það er dapurlegt að heyra Þorstein tala um það eins og sjálfsagðan hlut að Alþingi, og Sjálfstæðisflokkurinn alveg sérstaklega, muni nú taka við þessum „hugmyndum“ Stjórnlagaráðs, og úrskurða hvað sé „nýtilegt“ í augum valdastéttarinnar.

Þorsteinn var alþingismaður í sextán ár og sat í ríkisstjórn í tæp fjórtán, þar af eitt ár sem forsætisráðherra (auk setu í stjórnarskrárnefnd  2005-2010).  Á þessum sextán árum gerðist það sama í stjórnarskrármálunum og hin fimmtíu árin frá lýðveldisstofnun, nefnilega ekki neitt.  Það var ekki af leti eða önnum við annað, heldur af því að valdastéttin, þar sem Þorsteinn var yfirleitt framarlega í flokki, vildi ekki færa almenningi neinar bætur á stjórnarfarinu.  Þessi valdastétt mátti einfaldlega ekki til þess hugsa að arðrán hennar og valdníðsla væri með nokkrum hætti skert.  Að maður sem ekki hefur staðið sig betur en raun ber vitni í vinnu við þetta mál skuli nú tala niður til þeirra sem eru að vinna verkið er sorglegt, en því miður dæmigert fyrir ósvífni íslensku valdastéttarinnar.

Þetta er sennilega ekki meðvitaður hroki (enda er Þorsteinn með prúðari mönnum á ritvellinum og oft skarpur greinandi þegar hann fæst við hluti þar sem ekki þarf víðari sjóndeildarhring en bakkana á þeim andapolli sem íslensk stjórnmál eru).  En yfirlæti sem byggir á því skilningsleysi sem hrjáir Þorstein verður hins vegar sjálfkrafa hrokafullt.  Til að yfirlæti verði það ekki þarf viðkomandi að minnsta kosti að búa yfir þekkingu sem réttlætir að talað sé niður til lesenda.

Þorsteinn býr ekki yfir sérstakri þekkingu á stjórnarskrármálum (a.m.k. ekki „nýtilegri“ þekkingu).  Eins skarpur greinandi og hann hefur verið á séríslensk stjórnmál  megnar hann ekki hugsa út fyrir það þrönga box sem valdastéttin hefur smiðað utan um sig.  Hvað þá að hann geti hugsað sér veruleika þar sem það er ekki náttúrulögmál að framámenn í Sjálfstæðisflokknum leiki  stórt hlutverk.

Lokaorð Þorsteins í greininni eru þessi:

Stjórnarskráin er ekki hrifningarverkefni eða tilfinningamál fyrir líðandi stund.

Eigi þetta að vera lýsing á starfi Stjórnlagaráðs virðist Þorsteinn hvorki hafa fylgst vel með vinnu þess né skoðað afraksturinn.  Og ef til vill er þetta einfaldlega rangt hjá honum.  Ef til vill þarf hrifningu og tilfinningar (auk vandaðrar vinnu) til að vinna þetta verk, en ekki þann steingelda skotgrafahernað sem félagar Þorsteins hafa stundað í áratugi.  Ég ætla frekar að gera orð Steinunnar Stefánsdóttur, í leiðara Fréttablaðsins í gær, að mínum:

Með starfi sínu hefur stjórnlagaráðið sett fordæmi sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar, meðal annars alþingismenn og ýmsir aðrir sem láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Stjórnlagaráð hefur vonandi með starfi sínu og umræðuhefð lagt grunninn að málefnalegri umræðu um það frumvarp að stjórnarskrá sem nú liggur fyrir. Dapurlegt væri í það minnsta ef frumvarpið yrði ómálefnalegri hatursumræðu að bráð eins og svo margt annað sem rætt er um í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Góður.
    Kveðja að norðan.

  • HEYR, Heyr!

    Þakkir fyrir góða grein og sanna.

  • Vel mælt og þakka góða grein.

  • Brilljant, kærar þakkir! 🙂

  • Sigurður

    Takk fyrir góða grein Einar.

  • Guðmundur Sigurðsson

    Er eðlilegt að óska eftir því við vini stjórnarskrárinnar að þeir virði hana? Viljið þið að stjórnlagaráð, Alþingi og aðrir brjóti stjórnaskrána?

    Umboð stjórnlagaráðs byggist á ályktun Alþingis. Grein Þorsteins Pálssonar góð greining á stöðu málsins og hann er jákvæðari en langflestir Íslendingar í garð stjórnlagaráðs og tillagna þess sem eru ferlega þversagnakenndar á köflum, t.d. með því að tala á eina höndina um „þingræðisstjórn“ en á hina höndina um „svissneskt kerfi beins lýðræðis“. Gengur auðvitað ekki upp eins og allir geta séð sem vilja.

  • Ellert Grétarsson

    Ég á ekki alltaf auðvelt með að koma hugsunum mínum í orð. Þess vegna er svo gott að hafa menn eins og þig. Takk fyrir góða grein!

  • Guðrún Jónsdóttir

    Áhugavert. Nú á sem sagt að hrauna yfir alla þá sem voga sér að gagnrýna þetta plagg? Hjarðhugsunin á sem sagt algerlega að ráða… enn eina ferðina? Merkilegt hvað þið sem setjið ykkur á háan hest trekk í trekk og þykist vera þess umkomnir að segja öllum hvernig best sé að haga lífinu eruð viðkvæm fyrir því að taka rökræðuna.

    Mér finnst sumt gott í þessum tillögum, annað slæmt og enn annað hreinlega heimskulegt. Ég ætla ekki að samþykkja þetta plagg svona, því þetta er ekki stjórnarskrá frekar en uppskriftabók ömmu minnar, þetta er meira svona manífestó lýðskrumarans.

    Þið ykkar sem mótmælið hvað harðast vinnubrögðum fyrir hrun viljið taka upp nákvæmlega sömu vinnubrögð, bara með ykkar formerkjum. Bannað að rökræða (nema menn séu sammála ykkur), bannað að gagnrýna (því þá er maður útsendari LÍÚ), bannað að setja spurningarmerki við tillögur ráðsins (þá er maður varðhundur gamla kerfisins). Nei, við skulum vesgú bara gleypa við þessu þegjandi og hljóðalaust því ÞÉR finnst þetta svo gott plagg.

  • Sig. Kári

    Jóhanna Sig. vildi umfram allt að stjórnlagaráðið tæki til starfa og skilaði tillögum. Hvers vegna skyldi hún vilja þær tillögur feigar?

    Engin ástæða er til að fullyrða slíkt eins og Eiríkur gerir.

    Það er hins vegar ljóst að Sjálfgræðismenn munu berjast með kjafti og klónum á þeim Styrmi og Davíð gegn öllum tillögunum. Ætli þeir beiti ekki afturendanum á Hannesi Hólmsteini líka gegn öllum góðum og lýðræðislegum tillögum!

  • Einar Steingrímsson

    Guðrún: Ástæða þess að ég „hrauna“ yfir Þorstein er ekki að hann sé með gagnrýni á plaggið. Hann hefur ekki komið með neina efnislega gagnrýni, en samt haldið fram að það sé lélegt, og hamrað á því að Alþingi, og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega, verði að ráða þessu.

    Það gæti verið áhugavert að heyra raunverulega gagnrýni frá Þorsteini, og síst dytti mér í hug að vilja banna nokkrum að taka þátt í þessari umræðu. En það er óhugnanlegt að sjá viðbrögð hans, sem fulltrúa þeirra sem öllu hafa ráðið hér árum saman: Engin rök, en klifun á því að engir aðrir en núverandi valdastétt geti og megi hrófla við valdakerfinu.

  • „Hér þarf ekki bara lögfræðilegt mat. Einnig ætti að kalla til sérfræðinga á sviði réttarheimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði.“

    Hérna rann mér kallt vatn milli skinns og hörunds, nú á að reyna að steingelda hið nýja plagg með fræðimannalanglokum um hitt og þetta *hrollur*

  • Hlynur Jörundsson

    Jamm … fyrrum þingmenn eru fljótir að sjá að nýju tillögurnar eru ansi skarpari en fyrri stjórnarskrá sem þeir hafa haft til hliðsjónar um sniðgöngu við. Persónulega finnst mér hún afgreidd alltof hratt og alltof loðin og ekki nógu afgerandi … auðvitað er enginn alveg ánægður. En svona í ljósi þess hver Þorsteinn er … feril hans og hverra hagsmunir hafa alltaf verið að leiðarljósi í hans hug …. eru þá ummæli hans þess virði að taka mark á þeim ?

    En ég stóð í þeirri trú að lögfræði … stjórnmálafræði og hagfræði væru afleiður af stjórnarskránni … en hún ekki afleiða af þeim … svo slíkt mat hefði enga þýðingu. Stjórnarskráin væri grunnleikreglurnar … fræðin væru bara útfærsla og leikfléttur byggðar á leikreglunum.

  • Halldór Halldórsson

    Til Einars Steingrímssonar:

    Nú er ég algerlega andvígur tillögum „nefndarinnar“ um ákvæði um forsetaembættið. Ef allt klabbið kemur til atkvæða þjóðarinnar, óbreytt frá „nefndinni“? Finnst þér ekki eðlilegt að ég segi NEI við öllu klabbinu?

  • Einar Steingrímsson

    Halldór: Ég hefði viljað afnema forsetaembættið, enda sé ég ekki tilganginn með því lengur. Það finnst mér hins vegar frekar lítilvægt í þessu sambandi. Það er annað sem mér finnst verra, aðallega hversu mikið svigrúm löggjafinn fær til að ráðskast með kosninga- og kjördæmafyrirkomulag (auk þess sem ég hefði viljað hreint persónukjör í stórum kjördæmum, eða bara einu, og engin listaframboð). Svo eru ákvæði sem mér finnast stangast á við það sem ættu að vera grundvallaratriði, eins og ákvæði um kynjakvóta í kosningum (sem fer í bága við frjálsan atvkvæðisrétt og jafnt vægi atkvæða), og ríkiskirkju (sem brýtur gegn hugmyndunum um trúfrelsi og jafnræði).

    Eftir stendur valið milli þessarar tillögu og þeirrar stjórnarskrár sem við höfum nú. Mér sýnist að nýja tillagan muni bæta afar margt (og gera fremur fátt verra). Auk þess held ég það gæti orðið mikilvægur sigur að koma í veg fyrir að valdastéttin snúi niður þessa tilraun til að láta almenning ráða einhverju um þjóðskipulagið. Eigi að verða einhverjar breytingar til batnaðar er nauðsynlegt að núverandi flokkar missi þau tök sem þeir hafa á valdakerfinu.

  • Ekki vil ég nú segja allt slæmt um störf Stjórnlagaráðs.
    Þar held ég að hafi að mörgu leyti farið fram merkilegt starf og margt var þar af ágætu fólki sem örugglega lagði sig fram í vinnu sinni.

    En ef við tökum líkindadæmi og líkjum Stjórnlagaráðinu við hafskip, M.S. Stjórnlagaráð RE 25 og tillögur Ráðsins eru svo farmur skipsins.

    Þá því miður er það svo að innan um annars um margt ágætan farm í lestum skipsins þá hefur því miður einnig verið smyglað líki í lestar skipsins, þ.e. Samfylkingar-líki, með þessum lymskulegu tillögum um „fullveldisframssal“.

    Slík fásinna og skemmdarverk verður því miður aðeins til þess að eyðileggja allt starf Stjórnlagaráðsins.

    Þetta skip M.S. Stjórnlagaráð RE 25 mun því verða eitt af þeim skipum sem aldrei landi ná !

  • Sævar Finnbogason

    Góð grein Einar og því miður kemur ekkert á óvart í þessu og þeim tekst ábyggilega að stöðva þetta mál.

  • Halldór Halldórsson

    Einar Steingrímsson: Þú ert þegar búinn að nefna atriði sem ég get EKKI samþykkt í nýrri stjórnarskrá. Þetta er allt nóg fyrir mig að segja NEI!

  • Gallinn við þessa stjórnarskrártillögu er sú að hún er á köflum loðin. Víða er kveðið á um að hafa megi hlutina einhvernveginn öðruvísi „ef nauðsyn beri til“ án þess að skorið sé úr um hver eigi að meta þá nauðsyn og á hvaða forsendum. Ég efast hinsvegar stórlega um að það séu þau ákvæði sem Sjálfstæðisflokkurinn myndi lagfæra ef hann fengi að „leiðbeina“ gráum almúganum.

  • Þórdís Bachmann

    Loksins, loksins, amk síðan 1848, er hópur hæfs fólks reiðubúinn að standa við það að Íslendingar séu manneskjur og eigi sem slíkar að vera mannréttinda aðnjótandi.
    Hópur sem er tilbúinn að láta til sín taka í þjóðmálaumræðu.
    Umræðu sem er málefnaleg, af okkur, um okkur og fyrir okkur.

  • Góð grein Einar.

    Tillaga stjórnlagaráðs er að mörgu leyti of mikil málamiðlun efnislega – – en vinnubrögð ráðsins og afgreiðsla er til slíkrar fyrirmyndar að eg tel ekki annað koma til greina en að samþykkja tillöguna óbreytta – – þar sem hún byggist á einróma afgreiðslu ráðsins – – óháð því að mér hefði prívat líkað betur að sjá einstök atriði afgreidd með öðrum hætti. Valkosturinn er skýr; óbreytt ástand – eða ný tillaga sem liggur fyrir. Duttlungavaldi stjórnmálaflokka og foringja eru settar afar miklar skoður með þessarri breytingu – – – – og almnningi færðir möguleikar til frumkvæðis . . . . + + + + + +

  • Mér fynst undarlegt að lesa sumar athugasemdir hér. Með nýrri stjórnarskrá er verið að færa fólkinu í landinu möguleika til frumkvæðis, jafna atkvæðisrétt, binda auðlindir í eigu þjóðarinnar, koma í veg fyrir veðseningu auðlinda, setja skýrar reglur um veitingu embætta, takmarka þaulsetu stjórnmálamanna o.s.f.v. en margir snúa bara uppá sig og hengja hatt sinn á titlingaskít. Ef þetta fólk fær ráðið niðurstöðu málsins er þessu landi einfaldlega ekki viðbjargandi.

  • Olafur Jónsson

    Góð grein Einar. Já að sjálfsögðu verður rætt og deilt um tillögurnar en vonadi næst niðurstaða sem þjóðin getur sætt sig við.

    Þú nefnir LÍÚ. Hvað hefur LÍÚ með stjórnarskránna að gera? Þjóðin verður að vera á varðbergi gagnvart kvótahyskinu. Hér er þar sem áróður þeirra endar og álit þjóðarinnar talar. Á engan hátt má forysta útgerðamanna eða leigu erindreka þeirra hafa áhrif á niðurstöður í stjórnarskrármálinu.

    Kvótakerfið er ástæða hrunsins og ástæða þess að þjóðin nær ekki að rétta úr kútnum. Þessi stjórnarskrá gefur okkur þjóðinni tækifæri að leiðrétta þetta og færa okkur aftur arðinn af fiskimiðunum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur