Föstudagur 12.08.2011 - 23:16 - 18 ummæli

Svar Helga Áss um háskóla og kostun

Þann 26. júní skrifaði ég bloggfærslu um kostun hagsmunaaðila á akademískum stöðum við háskóla, og um þjónkun háskóla við hagsmunaaðila.  Þar nefndi ég stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun Háskóla Íslands, sem kostuð er af LÍÚ.  Við Helgi höfum síðan rætt þessi mál og niðurstaðan varð sú að ég birti hér athugasemdir hans við pistil minn.  Þær koma hér að neðan.  Í athugasemd hér á eftir (í athugasemdakerfinu) geri ég svo grein fyrir afstöðu minni til málsins.

—————————————————————————————————-

Sérfræðingur svarar fyrir sig

(Eftir Helga Áss Grétarsson)

Bakgrunnurinn

Fyrir fimm árum hóf ég, Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, störf hjá Lagastofnun Háskóla Íslands sem sérfræðingur á sviði auðlindaréttar með áherslu á að rannsaka fiskveiðistjórnkerfi. Staðan sem ég gegni hefur verið fjármögnuð á grundvelli tveggja samstarfssamninga Lagastofnunar við Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), dags. 6. apríl 2006 og 4. maí 2009 en nánari upplýsingar um þessa samninga má finna á heimasíðu Háskóla Íslands, sjá t.d. hér.

Háskóli Íslands hefur gert við mig tvo þriggja ára ráðningarsamninga. Ég er því starfsmaður háskólans, ekki LÍÚ. Yfirboðarar mínir eru innan háskólans. Hafi menn athugasemdir við framgöngu mína í starfi geta þeir beint þeim til yfirboðara minna innan háskólans eða til mín persónulega.

Á starfsferli mínum sem sérfræðingur hef ég m.a. ritað tvær ritrýndar fræðibækur um stjórn fiskveiða á Íslandi og þrjár ritrýndar fræðigreinar um efnið. Fyrir utan fræðiskrif hef ég einnig birt umtalsvert efni um stjórn fiskveiða sem ætlað er almenningi, sbr. ritaskrá mín sem er aðgengileg á heimasíðu háskólans.

Hafi menn áhuga á að efna til fræðilegra rökræðna við mig um stjórn fiskveiða eru öll gögn til reiðu, m.a. skrif mín um efnið og ummæli á opinberum vettvangi. Ef ástæða er til að gagnrýna rannsóknir mínar á efnislegum og málefnalegum forsendum væri æskilegt og jafnvel brýnt að fá slíka gagnrýni fram.

Tilefnið

Hinn 26. júní 2011 birti Einar Steingrímsson, stærðfræðingur, bloggfærslu á Eyjan.is og var upphaf hennar svohljóðandi:

Þjónkun háskóla við valda– og hagsmunaaðila

Í nýlegri frétt á RÚV er sagt frá athugasemdum Ólínu Þorvarðardóttur við kostun á stöðum starfsmanna háskóla, en hún nefndi sérstaklega stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun HÍ, sem kostuð er af LÍÚ.  Hér verður ekki rakið það sem Helgi hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum, en augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum.

Í umræddri frétt er vitnað í forseta Félagsvísindasviðs HÍ, Ólaf Þ. Harðarson, en hann “segir skólann huga vel að þessum málum, mestu máli skipti að fyrirkomulagið sé gagnsætt.”  Það þætti þó varla nóg í háskólum sem annt er um orðstír sinn sem sjálfstæðra rannsóknastofnana.

Það ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann.“

Athugasemdirnar

Í hinum tilvitnaða texta tel ég ástæðu til að andmæli sérstaklega ummælunum „augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum“ og „[það] ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann“.

Aðfinnslur mínar styðjast m.a. við eftirfarandi:

  1. Fyrst ber að nefna að samstarf háskólastofnana og einkaaðila við að fjármagna rannsóknir er alþekkt hér á landi sem og annars staðar, sbr. t.d. hér og hér. Þessi tilhögun við að fjármagna rannsóknir haggar því ekki að allar rannsóknir, sem unnar eru á vegum háskóla, skulu byggja á viðurkenndum akademískum gildum, svo sem með tilliti til aðferðafræði, heimildaöflunar og efnislegrar nálgunar. Ríkisreknar rannsóknir geta vera vel eða illa unnar rétt eins og þær sem fjármagnaðar eru í samstarfi einkaaðila og ríkisháskóla.
  2. Einnig vil ég benda á að rektor Harvard–háskóla í Bandaríkjunum gaf það út í nóvember 2010 að skólinn hygðist auka fjárhagslegt samstarf við einkaaðila/hagsmunaaðila í því skyni að standa vörð um rannsóknarstarf skólans, hér. Fyrir skemmstu var gerð úttekt á bestu háskólum heims á sviði félagsvísinda og vermdi Harvard–háskólinn fyrsta sætið í mörgum af þeim fögum sem rannsökuð voru, sjá hér.
  3. Framangreint gefur til kynna að eðlilegt getur talist að háskólar og einkaaðilar í samfélaginu vinni saman að rannsóknum enda sé m.a. tryggt að rannsóknarniðurstöður samrýmist fræðilegum og siðfræðilegum kröfum.
  4. LÍÚ fjármagnar rannsóknir sem Lagastofnun HÍ og lagadeild HÍ leggja áherslu á og telja nauðsynlegt að séu stundaðar. Stefán Már Stefánsson, prófessor, hefur haft faglegt eftirlit með þessari rannsókn og framvindu hennar. Sem sérfræðingur við Lagastofnun HÍ hef ég sinnt þessum rannsóknum.
  5. Margir háskólamenn og einstaklingar með háskólagráður hafa í gegnum árin talið sig hafa nægja þekkingu og yfirsýn til að tjá sig opinberlega um ýmsa þætti íslenskrar fiskveiðistjórnar. Í þeirri orðræðu allri hafa ósjaldan hugtök á borð við sameign þjóðar, réttlæti og önnur álíka verið sett fram án þess að þau séu skilgreind. Í mörgum skrifum um efnið hafa staðreyndavillur verið algengar, m.a. með tilliti til þróun reglna um myndun aflaheimilda.
  6. Í ljósi þessarar áralöngu áráttu ýmissa aðila að skilgreina ekki grundvallarhugtök í umræðu um stjórn fiskveiða og fara rangt með staðreyndir um þróun íslenska fiskveiðistjórnkerfisins, hlýtur mér, sem háskólamanni að vera heimilt að taka þátt í opinberri umræðu um málefnið, ef það væri ekki bara fyrir að leiðrétta rangfærslur.
  7. Ég vísa því til föðurhúsanna að skrif mín fyrir almenning séu reist á vafasömum fræðum og þau hafi skert traust „á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann“. Fullyrðing af þessu tagi er ósanngjörn og illa rökstudd. Ég tel mína nálgun á viðfangsefnið vera reista á traustum fræðilegum grundvelli og engu máli skiptir hvort þau meginatriði, sem ég hef sett fram, séu hagfelld Jóni eða séra Jóni. Það sem skiptir mestu máli er hvort þau standist skoðun.
  8. Framanrakin ummæli Einars Steingrímssonar setja tiltekinn merkimiða á mína fræðimennsku og hafa væntanlega varpað rýrð á orðspor mitt. Ummælin eru ekki reist á fullnægjandi könnun á framlagi mínu til fræða og vísinda. Þau eru vanhugsuð.

Það er mín skoðun að Einar Steingrímsson hafi margt til málanna að leggja um starf háskóla og rannsóknir á háskólastigi. Full ástæða er til að efna til almennra umræðna um hvernig haga eigi þessum málum á Íslandi til lengri tíma litið.

Að mínu mati er það grundvallaratriði að starfsmenn háskóla eiga að njóta fyllsta akademíska frelsis til að tjá sig hvort sem að staða þeirra sé ríkisrekin eða kostuð í samstarfi háskóla og einkaaðila. Einnig skiptir mestu máli við framkvæmd rannsókna að niðurstöður þeirra samrýmist fræðilegum og siðfræðilegum kröfum.

Reykjavík, 12. ágúst 2011,

Helgi Áss Grétarsson

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Einar Steingrímsson

    Ég hef eftirfarandi að segja um athugasemdir Helga:

    Mér finnst afar mikilvægt að málfrelsi akademískra starfsmanna háskóla sé í engu skert. Það gildir ekki bara um málflutning þeirra varðandi sitt eigið fræðasvið, heldur almennt, enda eiga allir að njóta málfrelsis, sama við hvað þeir starfa. Ég tel því ekki að Helgi hafi með skrifum sínum (meðal annars í blöð) brotið gegn góðum siðum háskólafólks. Ég er þó enn þeirrar skoðunar að eitt og annað sem hann hefur haldið fram í blaðagreinum sé ekki byggt á óyggjandi fræðilegum niðurstöðum, þ.e.a.s. niðurstöðum sem almenn sátt sé um innan fræðigreinar hans. Ég get hins vegar ekki metið framlag hans til fræða sinna á faglegum grundvelli, enda er ég leikmaður á því sviði, en ég hef sannarlega enga ástæðu til að efast um fræðilegan heiðarleika hans.

    Hins vegar tel ég rangt af háskólum að láta hagsmunaaðila kosta stöður fræðimanna sem fást við rannsóknir á hlutum þar sem þessir aðilar hafa mikilla hagsmuna að gæta, og sérstaklega ef ekki eru til reglur til að forðast hagsmunaárekstra (en það mun vera raunin, samanber svar Maríu Thejll, forstöðumanns Lagastofnunar HÍ, sem nefnt var í bloggpistli mínum). Að fjárframlög utanaðkomandi aðila séu algeng við (virta) erlenda háskóla segir lítið um hversu siðlega HÍ kemur fram í þessu tilliti, ekki síst þegar vantar allan samanburð á reglum sem um það gilda við þá skóla, en slíkum reglum er sem sagt ekki til að dreifa í umræddu tilfelli við HÍ.

    Ég tel sem sé ekki að Helgi Áss sé sekur um eitt eða neitt í þessu sambandi, né heldur að fræðimannsheiður hans rýrist af framgöngu hans í þessu. Hins vegar tel ég að það sé til vansa fyrir Háskóla Íslands að þiggja kostun á stöðu af þessu tagi frá aðilum sem eiga mikilla hagsmuna að gæta á því sviði sem um ræðir, og tvímælalaust að það rýri traustið á HÍ, þótt heiður Helga sé í engu skertur.

    Að síðustu vil ég ítreka að upphaflegur pistill minn fjallaði á breiðari grundvelli um afstöðu Háskóla Íslands og sumra rannsóknastofnana hans til hlutverks síns. Það er beinlínis sjokkerandi að lesa um svokallaðar rannsóknastofnanir þess skóla, sem vilja vera „þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera“ og starfa þess vegna með helstu hagsmunaaðilum á viðkomandi sviðum.

  • Það að Helgi Áss Grétarsson verji starfskröftum sínum í að réttlæta mannréttindabrot segir allt sem segja þarf um hvernig hann ver kröftum sínum.

  • Ég veit bara um einn launagreiðanda sem aldrei fær sanngjarna umfjöllun , það er það opinbera ( ríki og bæjarfélög) !

    Allt annað er um fyrirtæki eða LÍÚ !!!!!!!!!!

    Þar gilda allt önnur rök og gildi !!!

    Þetta vita allir sem vilja vita !

    Íslenskt þjóðfélag er ekki eins og neitt annað samfélag , það er klíkubræðra eða klíkusystra samfélag !

  • Þór Saari

    Þetta fyrirbæri, þ.e. kostun hagsmunaaðila á stöðum við háskóla þarf að stöðva. Það að líkja þessu betlistarfi Háskóla Íslands við Harvard háskóla er nöturleg staðfesting á þeirri vörn sem menn eru í. Það verður lögð fram fyrirspurn frá undirrituðum á Alþingi í næstu viku til menntamálaráðherra um umfang þessa sem margir kalla einfaldlega akademískt hórerí. Hín hljóðar svo:
    „Hversu margar stöður við skóla á háskólastigi hafa verið kostaðar af fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum frá árinu 1995 og hversu lengi? Óskað er eftir sundurliðun eftir skólum, auk upplýsinga um hverjir hafi gegnt umræddum stöðum, hversu lengi, svo og hver greiði kostnaðinn við þær?“
    Þetta er bara enn eitt afsprengi nýfrjálshyggjunnar sem þarf að svæla út, þ.e. ef menn vilja þá yfirhöfuð hafa eithvað sem kalla má Háskóla Íslands.

  • Þór; Lofarðu að nota orðin akademískt hórerí á alþingi?

  • „Það að líkja þessu betlistarfi Háskóla Íslands við Harvard háskóla er nöturleg staðfesting á þeirri vörn sem menn eru í.“

    Hver er munurinn? Þessi röksemdafærsla er nöturleg staðfesting á þeirri ömurlegu umræðuhefð íslenskra alþingismanna.

  • Ég segi eins og mar, hver er munurinn?
    En svona almennt þá finnst mér sumir lögfræðingar sem fjalla um þetta vera komnir ansi langt í orðhengilshætti. T. d. hefur Sig. Líndal sagt að ,,þjóðin“ eigi ekkert heldur sé það íslenska ríkið. Mér datt aldrei annað í hug þegar menn segja ,,þjóðin“ í þessu samhengi en að átt væri við ísl. ríkið. Það er munur á almennu talmáli og lögfræðilegum hugtökum. En þegar menn eru svo niðursokknir í fræðin að þeir eru hættir að gera greinarmun á almennu talmáli og fræðilegu lögfræðimáli þá má spyrja sig hversu hæfir þeir eru til að gera greinarmun á öðrum og flóknari hlutum?
    Úthlutun aflaheimilda (kvótaréttur) á sínum tíma var fest við ákveðin skip, ókeypis að ég best veit, og eignuðust þá eigendur skipa þessara gífurleg verðmæti í formi framseljanlegra aflaheimilda. Engu síður stendur skýrt í lögum um stjórn fiskveiða, frá upphafi, að slík úthlutun veiti ekki eignarétt. Sérfræðingar (sumir) í eignarétti hafa samt komist að þeirri niðurstöðu að ,,þegjandi samkomulag“ ef svo má segja, hafi skapað eignarétt á þessum aflaheimildum með tímanum því þær hafi verið keyptar í ,,góðri trú“ og/eða skv. ,,réttmætum væntingum“ svo einhver lögfræðileg hugtök séu notuð. En samt sem áður þvert á settan rétt, almenn lög.

    Það er ekki skrítið að margir telji þetta óréttlátt. Að allir hafi ekki setið við sama borð frá upphafi og takmörkuð auðlind þjóðar (ríkisins, Lýðveldisins Íslands) sé nú í raun í eigu fárra aðila. Hvað myndu Norðmenn segja ef olíunni hefði verið útdeilt á sínum tíma frítt til fárra einstaklinga og allur vinnslu- og nýtingarréttur væri nú í eigu fárra aðila? Og þeir hagnast með slíkum hætti að þeir væru ráðandi í norsku atvinnulífi?
    Allt í nafni þess að útflutningur á olíunni skapaði svo miklar gjaldeyristekjur að Noregur í heild sinni nyti góðs af og að einstaklingar myndu alltaf reka þetta með mestri hagkvæmni, sem aftur þýddi að öll þjóðin myndi græða mest á því?
    Sjá menn fyrir sér að þetta gengi upp? Það þarf ekki lögfræðing til að skilgreina ,,réttlæti“.

    Það er því alveg skiljanlegt að fólk sé tortryggið í garð lögfræðings í rannsóknarstarfi sem kostað er af þessum fáu aðilum sem ráða yfir auðlindinni. Þó enginn segi það upphátt þá liggur alltaf yfir að ef útkoman væri slæm fyrir LÍÚ þá væru ekki miklar líkur á að þeir héldu áfram að styrkja rannsóknirnar.
    Það eitt og sér er meira en nægt tilefni til að efast um að útkoman sé fullkomlega hlutlaus.
    Ég er viss um að undir það getur Helgi Áss tekið.

    Ég hef hins vegar ekki lesið neitt af því sem hann hefur látið frá sér um þessi mál þannig að ég tek enga afstöðu til þess, hvort það er hlutlaust eða ekki.

  • Stefán Snævarr

    Helga hefði verið nær að halda áfram að tefla.

  • Jónas Bjarnason

    Ég vil leyfa mér að benda á, að í fiskveiðistjórnun er engin viðurkennd fræði til á heimsvísu. Um þau mál eru deilur, rétt eins og hérlendis. – Auk þess vil ég banda Helga Áss á, að ritrýndar vísindagreinar og ritrýndar bækur eru ekki með sérstökum gæðastimplum því ritrýnar eru úr einhverjum röðum manna, sem starfa á sviði viðurkenningarleysis vegna þess, að fiskveiðistjórnun hefur hvergi fengið akademíska viðurkenningu sem atvinnugrein eða starfsgrein, sem styðst við viðurkenndar vísindaaðferðir.

  • Bandarísk tóbaksfyrirtæki reka sjálf rannsóknastofur, þar sem vísindamenn skrifa greinargerðir um, að ekkert marktækt samband sé að finna milli reykinga og krabbameins. Höfuðeinkenni rannsóknanna er, að niðurstöður þeirra eru gefnar fyrir fram og koma því aldrei á óvart. Háskólar, sem hýsa slíka rannsóknastarfsemi, sverta orðspor sitt. Ég þekki engan bandarískan háskóla, sem myndi hýsa rannsóknir á afleiðingum reykinga kostaðar af tóksframleiðendum.

  • Það kemur kannski ekki á óvart að Þorvaldur Gylfason þurfti að leita aftur til ársins 1960 til að finna jafn fráleitan samanburð.

  • Mjög góð greining hjá Finni.
    Gott að hafa í huga að mikið áróðurstríð er í gangi varðandi kvótann. Mikið er reynt til að snúa almenningsálitinu LÍÚ í vil… gefið út heilt dagblað og svo hefr Háskólanum verið flækt í málið.
    Hver borgar fyrir ransóknir er lykilatriði, alveg eins og hver borgar fyrir sérfræðiálit, geiningar (fjármálasvið), heilbriðisvottorð etc. etc. Sérfræðiálit eru til sölu, hvort sem mönnum líkar betur eða ver: vinkillinn, aðferðafræðin og þar með niðurstaðan, hlýtur altaf að mótast af því fyrir hvern er unnið -hver borgar! –sérstaklega þegar fjallað er um mikil pólitísk hitamál.

  • KAFLI I
    Kjarni þess álitaefnis er fyrst í veiðirágjöf Hafrannsóknarstofnunar.
    Veiðirágjöfin er KAFLI I – fyrsta alverlega áitaefnið. Hafið virðist ekki bankabók – þar sem hægt er að geyma fisk sem þá „ávaxtast“.

    Fiskveiðistjórn virðist miklu frekar eiga að líkjast akuryrkju frekar en að um bankabók sé að ræða. Þarna virðist stærsta og alvarlegasta villan.

    Aukin sókn virðist í sumum tilfellum efla vöxt og nýliðun í fiskistofnum eins og t.d. þorskstofninum hérlendis 1975-1980 og í Barentshafi 2000-2005 svo dæmi séu nefnd.

    Minnkuð sókn til að „byggja upp“ þorskstofninn hefur alltaf mistekist hérlendis. Dæmin eru t.d. 1980-1983 – og 1986-1992 – 1996-2000 og – aftur og aftur.

    Afleiðingarnar af þessari þvingun á náttúruna – virðist fallandi vaxtarhraði smáþorskss – og lækkaður kynþroskaaldur þorsks…. Mjög alvarlegar vísbendingar um að við séum að gera mikil mistök…

    Svo kemur lögfræðin sem KAFLI II.
    Lagaleg álitaefni í kafla II – verða fyrsta að fara í lagalegt álagspróf í KAFLA I, – en það er ekki leyft – einhverra hluta vegna.

    Faglega séð er þetta mál allt hálf strand – vegna þess að sífellt er verið að hártoga mikilfæg álitaefni – í stað þess að greina þau faglega af yfirvegaðri nákvæmni – fyrst álitaefni í KAFLA I – og svo í framhaldi – álitaefni í KAFLA II – byggst á faglegum niðurstöðum úr KAFLA I.

    EF/ÞEGAR – þessi umræða verður leyfð – þá vil ég gjarnan mæta og rökræða málefnin – út fram grundvallaratriðum í fiskilíffræði – fyrsta umræða – og svo getur lögfræðin komið sem framhald – þegar niðurstaða er fengin um rétt og rangt (fagleg rökstutt) í KAFLA I.

  • Gunnar Waage

    Ég las nú ekki upphaflegu greinina Einar en ég verð að segja að hér er verið að persónugera umræðu um stefnu Háskóla Íslands í styrkjamálum, við Helga Áss Grétarsson.

    Það er svolítið verið að skjóta fyrst og spyrja svo. Akademísk krafa hlýtur að vera fyrir það fyrsta að umræðan sé nákvæm, byggð á gagnrýni lið fyrir lið. Þá gengur ekki að ræða almennt eða í alhæfingum, það þarf að benda á einstök atriði, gagnrýna þau fræðilega og af nákvæmni.

    Þorvaldur Gylfason kýs að bera málið saman við rannsóknarstofur sem reknar eru af tóbaksframleiðendum. Ég vil benda Þorvaldi á til baka að þess háttar samlíking stenst bara ekki kröfur. Einnig vil ég benda Þorvaldi á að ýmsir einkaaðilar styrkja rannsóknir við virtustu háskólastofnannir heims, þar á meðal Howard Hughes Institute, hvar ætlar prófessorinn að draga mörkin ? Spurning hver sé vondi karlinn hérna, Helgi Áss, LÍÚ, eða bara latir ríkisstarfsmenn sem nenna ekki að setja sér neitt protocol ?

    Þór, „hórerí“ er ég ekki til í að samþykkja en orðalagið er frumlegt, thumbs up fyrir það !!

  • Geir Óli

    Geir,
    Þú ert alveg ótrúlega barnalegur eins og fyrri daginn. Auðvitað er hægt að koma með endalausar réttar niðurstöður í lagaflækjum. Þetta snýst um að mjög öflugur hagsmunaaðili sér um að fjármagna stöðu í virtum háskóla.
    Sérðu þetta virkilega ekki?? Þú sem froðufellir við minnstu agnúa sem fara í taugarnar á þér, setur þig í stellingar hér, og sérð ekki neitt athugavert. Magnaður karaketer. Mikið er ég feginn að það eru fá eintök til af þér í heiminum……

    …..gubbbb

  • Geir Óli

    Þessi síðasta athugasemd átti að vera beint til Gunnars Waage…svo það sé á hreinu…….gerpið at arna.

  • Hlynur Jörundsson

    Ergo: Lögfræðileg álit byggð á túlkunum á reglum sem eiga samkvæmt áliti fræðinga …. byggðum á takmörkuðum upplýsingum… um jafnvægistýringu á lífkerfi sem er ekki að fullu þekkt.

    Jamm … ég spyr bara eins og blondínan … „Erh … hvað er vandamálið ?“

  • Geir Óli

    Hlynur,
    Lol, nákvæmlega þessi loðna rotta sem þú ert 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur