Laugardagur 20.08.2011 - 14:18 - 25 ummæli

Leggjum niður Landsvirkjun

Landsvirkjun er fyrirtæki sem byggir og rekur virkjanir, og á að vinna í þágu almannahagsmuna.

Samkvæmt þessari frétt kom það núverandi forstjóra Landsvirkjunar á óvart að „margir virkjunarkostir hafi hafnað á verndarlista“ í nýlegri rammaáætlun.  Fyrr í sumar lét sami forstjóri gera skýrslu um þau gríðarlegu auðæfi sem Landsvirkjun gæti fært þjóðinni ef hún fengi bara að virkja nógu mikið.  Meðal skýrsluhöfunda voru hátt settir menn úr greiningardeild Kaupþings sáluga sem látlaust spáðu áframhaldandi gulli og grænum skógum alveg þangað til spilaborgirnar hrundu yfir þá.

Þótt núverandi forstjóri Landsvirkjunar hafi hingað til virst auðmýkri en fyrirrennari hans er ljóst að forysta fyrirtækisins er í bullandi pólítískum áróðri.  Það er ef til vill óhjákvæmilegt, og kannski ekkert óeðlilegt, að forstjóri stórfyrirtækis vilji að veltan og gróðinn séu sem mest.  Vandamálið er að hér takast á afar ólíkir hagsmunir, þ.e.a.s. virkjanagróði annars vegar og náttúruvernd hins vegar (auk alls konar annarra vandræða, eins og t.d. ruðningsáhrifanna vegna byggingar Kárahnúkavirkjunar).

Af því að hlutverk Landsvirkjunar er að byggja og reka virkjanir, en ekki að vernda náttúruauðæfi, er óumflýjanlegt að áróður fyrirtækisins sé einhliða.  Þar er hins vegar augljóslega um að ræða hagsmunaárekstra sem ófært er að búa við.  Landsvirkjun ætti eingöngu að fást við byggingu og rekstur virkjana sem ákvarðanir hafa verið teknar um af aðilum sem bera ábyrgð á þeim ákvörðunum, sem Landsvirkjun gerir ekki.

Af því að það er vonlítið að kenna gömlum hundi að sitja er líklega nauðsynlegt að leggja Landsvirkjun niður í núverandi mynd.  Hana ætti svo að endurreisa með það hlutverk eitt að byggja og reka virkjanir, en leggja blátt bann við að hún noti fé skattgreiðenda til að standa í blygðunarlausum pólitískum áróðri fyrir meiri virkjunum, þvert á öll náttúruverndarsjónarmið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Árni kristjánsson

    Flottur að vanda.
    Árni Hó

  • Pétur Henry Petersen

    Já, sbr ameríska herinn sem finnur sér eitthvað að gera ef skapast of mikill friður.

  • Leifur A. Benediktsson

    Hverju orði sannara Einar, náttúran okkar yndislega á ávallt að njóta vafans. Nóg er komið af tröllauknum virkjunum í þágu erlendra auðhringa sem hafa „keypt“ íslenska pólitíkusa. Ég hafði mikla trú á Herði Arnarssyni forstjóra Landsvirkjunar þegar hann leysti af spilltan FLokksmann,sem kom sér vel fyrir innan bankakerfisins eftir starfslok sín hjá Landsvirkjun.

    Það jákvæða við Hörð er það, hve vel honum fórst að upplýsa okkur um raforkuverð til stóriðjunnar,sem hafði verið „leyndó“ áratugum saman. Hann verður því að fara afar varlega í yfirlýsingum sínum varðandi virkjanakosti ef við eigum að treysta honum fyrir auðlindum okkar í þágu þjóðarinnar. Ekki að vekja upp deilur og togstreitu,nóg er komið af slíku.

    Kv.

  • Landsvirkjun er þarft og gott fyrirtæki og á drjúgan þátt í þróun þjóðfélagsins úr bænda- og fiskimannaþjóðfélagi í nútímaþjóðfélag með nokkuð góðum lífskjörum, sé litið til heimsins alls, þó erfiðleikar steðji að okkur nú um stundir. Okkur brygði við ef slíkar hamfarir yrðu að stóru virkjanirnar yrðu óstarfhæfar og þar með öll fyrirtækin sem nýta þeirra orku.
    Mér finnst ekkert óeðlilegt að Landsvirkjun líti til framtíðar og velti fyrir sér virkjanakostum og hagkvæmni þeirra og kynni þjóðinni álit sitt í þeim efnum.
    Náttúruverndarstofnanir sjá svo um hina hliðina, að kynna verndarsjónarmiðin.

  • Einar Steingrímsson

    Guðmundur: Mér finnst heldur ekkert óeðlilegt að litið sé til framtíðar og hugað að virkjunarkostum (þótt ég vilji hins vegar alls ekki láta virkja meira, en það er annað mál, og þar sætti ég mig við að geta lent í minnihluta).

    Það er hins vegar ekki í lagi að Landsvirkjun sé að skipta sér af því hvar og hversu mikið verði virkjað, hvað þá að reka áróður fyrir meiri virkjunum. Það er svipað og ef LÍÚ fengi ótakmarkað opinbert fé til að reka áróður fyrir því hversu mikinn fisk mætti veiða.

    Hér er um að ræða hagsmunaárekstur sem þarf að leysa, og sem hægt er að leysa einfaldlega með því að sjá til þess að Landsvirkjun sjái um að byggja og reka virkjanir, en önnur stofnun, með enga hagsmuni af að byggja virkjanir, rannsaki virkjunarmöguleika.

    Sá hugsunarháttur sem leyfir Landsvirkjun að standa í þessum pólitíska áróðri um hvert hlutverk hennar eigi að vera er allt of algengur á Íslandi, og er hluti af því fúski (og spillingu) sem gegnsýrir íslenska stjórnkerfið.

  • Bjarni Gunnlaugur

    Hverju orði sannara. Ég sem landeigandi við Þjórsá furða mig á því að Landsvirkjun skuli koma fram sem bæði framkvæmdaraðili eða verktaki við virkjunina og svo líka sem vatnsréttarhafi eða eigandi auðlindarinnar. Að vísu er smá fyrirstaða í því að enn á fólk á bökkum árinnar rétt í henni en það stendur nú lítið í stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun sem ýmist hótar eignarnámi eða gerir smánarsamninga við einn og einn hræddan landeiganda í einu.
    Það er ójafn leikur!

  • Einar Steingrímsson

    Nú þekki ég ekki málavöxtu í því sem Bjarni nefnir hér, en það er meðal annars hættan á misnotkun og yfirgangi af þessu tagi sem er óhjákvæmileg ef sama fyrirtækið sér um framkvæmdir og fær að hafa áhrif á hvað er gert. Slíkir hagsmunaárekstrar leiða nánast alltaf til spillingar og valdníðslu.

  • Jón Sigurðsson

    Leggjum niður ríkin í ríkinu.

  • Landeigendur sem átt hafa land að fallvötnum landsins hafa sumir hagað sér eins og ósvífnir fjárkúgarar og og reynt að veiða ógrynni fjár upp úr vösum almennings.

    Vona að Landsvirkjun standi áfram vörð um hagsmuni þjóðarinnar!

  • Ég held að það sé misskilningur að Landsvirkjun hafi haft ákvörðunarvald um það hvar sé virkjað.
    Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknaleyfi og svo virkjanaleyfi á grundvelli rannsókna, en það er umhverfisráðuneytið sem veitir leyfin og ákveður því hvar er virkjað og hvar er ekki virkjað (Sif Friðleifsdóttir á Kárahnjúkum).
    Eðlilega sækir Landsvirkjun um rannsóknaleyfi þar sem þeir telja hagkvæmast að virkja, mestan gróða að hafa.
    Landsvirkjun heyrir svo undir fjármálaráðherra.
    Landsvirkjun er bara tæki í höndum þjóðkjörinna stjórnmálamanna og virkjar bara þar sem ráðherrarnir okkar ákveða að skuli virkja og kemur fram við landeigendur og náttúruna á þann hátt sem stjórnmálamennirnir ákveða.
    Það er satt að Landsvirkjun er öflug maskína, en það er ekkert bogið við það. Það sem veldur ójafnvæginu er hversu máttlítil samtök Landvernd eru.

  • Amen. LV hefur alltaf hagað sér eins og ríki við hliðina á ríkinu, með eigin stefnu og aðgerðir þegar þeir eiga bara eiginlega að taka við stefnumörkun frá kjörnum fulltrúunum.

    Haha já Sverrir, heldurðu að bændur og landeigendur taki því bara létt þegar á að sökkva þeirra eigin landi?? Ef þeir sjá ekki framá að þeir haldi landi sínu gegn virkjanamaskínunni þá auðvitað verja þeir sína hagsmuni með því að krefjast skaðabóta!

  • Einar Steingrímsson

    Jens: Landsvirkjun hefur lengi staðið í hörðum pólitískum áróðri fyrir virkjunum, og gegn náttúruvernd. Tilefni þessa pistils míns var að forstjóri LV lýsti því yfir að það kæmi á óvart að “margir virkjunarkostir hafi hafnað á verndarlista”. Augljóst er að hann telur sig eiga að hafa skoðanir á því hvað eigi að vernda og hvað ekki.

    Skýrslan sem sami forstjóri lét gera gengur út á að Landsvirkjun geti malað gull fyrir þjóðina, ef hún fái að virkja nógu mikið. Burtséð frá því að hér er um að ræða kristalkúluspádóma fólks sem hingað til hefur ekki tekist sérlega vel að spá um framtíðina er ljóst að LV gerir þessa skýrslu til að reyna að sannfæra almenning um að hún eigi að fá að virkja sem mest.

    Þetta sýnir svo ekki verður um villst að Landsvirkjun virkjar ekki „bara þar sem ráðherrarnir okkar ákveða að skuli virkja“, heldur reynir hún að hafa áhrif á hvað og hversu mikið er virkjað. Til þess notar hún þau ótakmörkuðu fjárráð sem hún hefur, fé sem almenningur borgar en LV notar í skefjalausan áróður fyrir því sem forysta hennar telur vera sína hagsmuni.

  • Eðlilega vill forstjóri Landsvirkjunar hafa eitthvað um það að segja hvar er virkjað og hvar ekki. Hann bendir t.d. á norðlingaöldu virkjun sem er í verndarflokki en þó eru umhverfisáhrif af henni ekki mikil og heilt yfir yrði hún einn hagkvæmasti virkjunarkostur Íslendinga. Eðlilega talar hann um það. Ég hef ekki orið var við rándýrar herferðir sem kosta skattgreiðendur mikið fé í þeim tilgangi að breyta áliti nefnda.
    Einnig væri ágætt að fá skýringu frá þér Einar afhverju þú vilt ekki virkja meira? Það er lítil auðlind sem ekki er nýtt. En allir eru sammála um að stíga skuli varlega til jarðar og reyna að finna hagkvæma kosti sem hafa lítil umhverfisáhrif.

  • Einar Steingrímsson

    Jóhann: Ég vil ekki virkja meira af því að allar virkjanir munu kosta fórnir á óspilltri náttúru, sem er mér miklu meira virði en svolítill hagvöxtur. Það er samt aukaatriði hér, því ég geri mér grein fyrir, og sætti mig við, að geta lent í minnihluta varðandi slíkar ákvarðanir.

    Það sem er að hér er að Landsvirkjun er fyrirtæki í almenningseign, og hlutverk þess er að byggja og reka virkjanir. Að virkja fer í bága við aðra hagsmuni, nefnilega náttúruvernd. Það er hlutverk stjórnmálamanna, sem eru ábyrgir gagnvart almenningi, að taka ákvarðanir um hvað má virkja og hvað á að vernda. Það er afar slæmt þegar fyrirtæki sem hefur einhliða hagsmuni (að virkja) fær að reka áróður gegn gagnstæðu hagsmununum, án þess að það beri nokkra ábyrgð á þeim hagsmunum. Þetta er eitt af mörgum dæmum um vald án ábyrgðar í íslenskri stjórnsýslu, og slíkt leiðir nánast alltaf til valdníðslu.

  • Frikki Gunn.

    Óspillt náttúra gefa ekki af sér nein verðmæti sem bætir þjóðarhag.

    Öll atvinnusköpun kallar á fórnir, hvort sem er í náttúrunni eða í byggðum bólum.

    Norðmenn væru ekki svona ríkir ef þeir væru ekki að vinna olíu af sjávarbotni.
    Þeir hefðu jú getað valið að verna sjávarbotnin. En væru þeir svona velmegandi þjóð í dag?

    Svíar urðu leiðandi iðnveldi, en þurftu að fórna hluta af umhverfinu til þessa. Það sama á við Þýskaland og önnur iðnveldi.

    Öll mannanna verk hafa umhverfisfórnir í för með sér.

    Ef við viljum framþróun og velmegun áfram hér í heimi, þá kostar það fórnir, m.a. umhverfisfórnir.

    Að öðrum kosti getum við lagt siðmenninguna niður eins og við þekkjum hana í dag.

    Einar, ertu með hugmyndir um það hvernig við getum skapað hér þúsundir starfa í framtíðinni?

    Komdu með tillögur að því?

  • Ef Landsvirkjun rekur ekki áróður fyrir virkjunum, hver á þá að gera það?
    Ef Landvernd rekur ekki áróður fyrir verndarstefnu, hver á þá að gera það?

    Þetta eru andstæðir pólar, hvor á sínum enda. Það er hlutverk kjósenda og kjörinna fulltrúa þeirra að hlusta á bæði sjónarmiðin og ákveða hvar mörkin skuli dregin. Svo er það umhverfisráðherra að fylgja þeirri stefnu sem kjósendur hafa markað.

    Að gefa út skýrslu um hugsanlegan gróða af hinum og þessum virkjunum er hið besta mál, þá höfum við kjósendur eitthvað í höndunum um hvaða fjárhagslegu hagsmunir almennings eru í húfi.
    Auðvitað ætti Landvernd að fá ríkisstyrk til að gefa út sambærilega skýrslu um náttúrugæði þeirra svæða sem um ræðir, svo við kjósendur höfum eitthað í höndunum um náttúrugæðin sem eru í húfi.
    Reyndar er þessi vinna orðin svolítið óþarfari eftir að rammaáætlunin kláraðist.

    Einar, getur þú bent á virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar sem ekki hafa verið heimilaðar af ráðherra?

    Landsvirkjun er ekki sjálfseignarstofnun. Það er fjármálaráðherra sem fer með eigendavald yfir Landsvirkjun í umboði okkar kjósendanna. Ef við kjósendur sem heild erum óánægð með stefnu Landsvirkjunar eða framkvæmd stefnunnar, þá er það fjármálaráðherrans að koma breytingum á.

  • Einar Steingrímsson

    Frikki: Það þarf ekki annað en að líta til velmegunarinnar í Danmörku til að sjá að auðlindir þarf ekki til að byggja ríkt samfélag; þær eru engar í Danmörku.

    Svíar og Norðmenn hafa, eftir því sem ég best veit, fyrir löngu ákveðið að aldrei framar verði virkjað meira vatnsafl, vegna náttúruverndar.

    Jens: Svo ég endurtaki það sem ég var að reyna að segja, þá tel ég óbærilegan hagsmunaárekstur felast í því að fyrirtæki sem hefur það hlutverk að virkja það sem teknar eru pólitískar ákvarðanir um stundi áróður fyrir því að meira verði virkjað.

    Það er vont mál, en ekki gott, að Landsvirkjun láti gera skýrslu þar sem lofað er gulli og grænum skógum ef við bara virkjum nóg. Slíkir spádómar eru afar óáreiðanlegir, og það er hollt að muna að meðal þeirra sem gerðu umrædda skýrslu eru menn sem störfuðu í greiningardeild Kaupþings árin fyrir hrun. Það ætti að vera komið meira en nóg af slíkum fantasíum, og vonandi lærum við eitthvað af hruninu, frekar en að endurtaka sama ruglið aftur og aftur.

  • Jón Þórisson

    Frikki Gunn spyr:

    Einar, ertu með hugmyndir um það hvernig við getum skapað hér þúsundir starfa í framtíðinni?

    Frikki, á síðastliðnum 50 árum hafa orðið til um 80.000 ný störf á Íslandi, þar af eru innan við 5000 í þungaiðnaði.

    Hvaðan komu þessi 75.000 störf?

    Hin svokallaða stór-iðja kaupir rafmagn á kostnaðarverði og allur hagnaður er fluttur úr landi.

    Landsvirkjun selur orkueininguna á um 19 dollara – en meðalverð á Europool markaðinum er yfir 70 dollara.

    Hið eina skynsamlega er að segja upp öllum samningum Landsvirkjunar. Þetta eru samningar sem gerðir eru með leynd og án lýðræðislegs eftirlits.

    Ef við seljum þá orku sem við framleiðum á eðlilegu verði, þarf ekki að virkja meira!

    Ísland er þegar orkustórveldi og framleiðir meiri orku pr íbúa en flest önnur ríki.

    Norska ríkið tekur meira en 70% af andvirði allrar olíu sem unnin er í Norðursjónum í sinn hlut.

    Til samanburðar má geta þess að Reykjanesbær fékk árið 2009 um 0,8% af bókfærðum hagnaði HS Orku/Magma Energy í leigutekjur af auðlindunum á Reykjanesi!

  • Thorsteinn

    Meginlærdómurinn af skýrslunni sem vísað er til er eiginlega sá að fram til þessa hafi orkan verið seld á fáránlega lágu verði. Skýrslan vekur samt fleiri spurningar en hún svarar. Sérstaklega er sú spurning ofarlega í huganum eftir lesturinn hversu raunhæft það er að ætla að stórhækka orkuverð. Því er slegið fram sem sjálfsögðum hlut en þá gleymist að orka er aðeins einn hluti rekstrarkostnaðar stórkaupenda. Álver þurfa til dæmis að greiða hærra verð hérlendis fyrir ýmis aðföng og þjónustu en þau greiða annars staðar. Svigrúmið til að greiða meira fyrir orku er því ekki endilega mikið ef nokkuð. Það er því ekki endilega svo að þeir sem hingað til hafa samið um þessi mál fyrir okkar hönd hafi verið eintómir aular. Líklegra er að þeir hafi náð eins háu verði og unnt var.

  • Ég sá þessa skýrslu og það fyrsta sem ég fletti að var heimildaskráin, sem ætti að vera ágætis mælikvarði þegar kemur að gæðum. –Og lo and behold! Skýrsluhöfundar notuðu meðal annars Google sem heimild.

  • Fyrst ætti að leggja niður umhverfisráðuneytið. Það hefur sýnt sig að vera dragbítur framfara og hefur valdið þjóðinni tugmiljarða tjóni.

    Talað er um að vernda þurfi landið handa kynslóðum framtíðarinnar. Hvaða kynslóðum? A.m.k. ekki afkomendum þeirra sem hafa hrökklast burt frá Íslandi vegna atvinnuleysis sem stafar af öfgakenndum umhverfissinnum.

  • Einar Steingrímsson

    Borgari: Síðustu árin hefur fjöldi fólks hrökklast frá Íslandi, sem hefur annars verið sjaldgæft. Það var vegna hrunsins, sem stafaði af öðru en „öfgakenndum umhverfissinnum.“

  • Ekki hvarflar að Borgara að kenna umhverfissinnum um bankahrunið. En þeir nota hvert tækifæri til að bregða fæti fyrir allar tilraunir til þess að við getum unnið okkur út úr kreppunni sbr. framgöngu umhverfisráðherra.

    Sem hópur virðast umhverfissinnar einkennast af opinberum starfsmönnum á höfuðborgarsvæðinu sem eru fullkomlega lausir við skilning á því hvernig það er að komast af án þess að vera á ríkisjötunni. Hafa aldrei upplifað áhyggjur af því hvort þeir fái útborgað um næstu mánaðamót eða hvort þeir yfirleitt hafi vinnu áfram. Opinberir starfsmenn núna eru álika margir og fyrir hrun, á sama tíma og mjög hefur fækkað annars staðar í atvinnulífinu.

    Það flest lika viss 2007 hugsunaháttur í afstöðu umhverfissinna. Ekki virðist vera talið neitt athugavert við að fórna tugmiljarða raunverulegum verðmætum fyrir gæluverkefni. Fólk sem byggir afkomu sína á skattpeningum annarra virðist ekki geta skilið að flestir þurfa að byggja afkomu sína á raunverulegri verðmætasköpun.

  • Borgari. Snýst þetta ekki um hvað þú telur „raunveruleg verðmæti“, í þínum þrönga skilningi er það bara það sem hefur peningagildi. Þú myndir væntanlega selja af þér hægri handlegginn fyrir rétt verð, þá fyrst væri hann orðinn „verðmætur“ í þínum augum. Kallaðu hlutina allavegana sínum réttu nöfnum, ekki setja samansem merki á milli verðmæta og gjaldeyrirs.

    Thorsteinn: Hafa líklega sýnt sömu snilldar samningstækni og íslendingar urðu frægir fyrir á uppgangstímunum fyrir Hrun. Reyndir erlendir viðsemjendur þeirra hafa hlegið alla leiðina í bankann.

  • @ek: Atvinnulaust fólk sem er að hrökklast af landi brott getur útskýrt fyrir þér hvað eru raunveruleg verðmæti. Það borgar ekki mat og klæði fyrir börnin sín með óraskaðri náttúru.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur