Þriðjudagur 20.09.2011 - 12:31 - 16 ummæli

Dómstólar sniðganga stjórnarskrána

Eitt mikilvægasta einkenni réttarrríkis er að dómstólar dæma eftir lögum, og þar er stjórnarskrá æðri öllum öðrum lögum.  Á Íslandi hefur það gerst oftar en einu sinni síðustu árin að dómstólar sniðganga stjórnarskrána í málum sem augljóslega varða hana.

Í gær var vísað frá frávísunarkröfu í máli  ákæruvaldsins gegn Lárusi Páli Birgissyni, sem er ákærður fyrir að hafa staðið með skilti fyrir framan Bandaríska sendiráðið á Laufásvegi.  Lárus var reyndar sakfelldur fyrir sams konar „brot“ í sumar, og þann dóm má lesa hér.   Sá dómur er afar athyglisverður, svo ekki sé meira sagt.

Í stuttu máli var Lárus kærður fyrir að neita að hlýðnast lögreglu, sem vildi færa hann frá gangstéttinni við sendiráðið, þar sem hann stóð með mótmælaskilti, yfir á gangstéttina hinum megin við götuna.  Í dómnum er sagt að lögregla hafi ráðfært sig við (ótilgreinda) starfsmenn sendiráðsins, sem hafi farið fram á að Lárus yrði fjarlægður, og kemst rétturinn að þeirri niðurstöðu að það hafi verið „hófleg beiðni“, og er vísað í lög um skyldu íslenskra stjórnvalda til að verja sendiráð erlendra ríkja, en ekki útskýrt gegn hverju þurfti að verjast.

Það sem gerir þennan dóm sérkennilegan, og ámælisverðan, er að í honum er ekki vikið að stjórnarskrárbundnum rétti til skoðana- og tjáningarfrelsis, sem málið snýst þó augljóslega um, heldur er haldið til streitu þeim praxís að borgurunum beri skýlaust að hlýða boðum lögreglu, jafnvel þegar hún brýtur gegn stjórnarskrárvörðum réttindum.  Því er varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en að dómurinn hafi viljandi sniðgengið stjórnarskrána.  Slíkt gera ekki dómstólar sem bera nokkra virðingu fyrir réttarríkinu.

Þessi endurteknu málaferli gegn Lárusi eru því miður ekki einsdæmi.  Skemmst er að minnast Nímenningamálsins, þar sem níu manns sættu glórulausum ákærum um valdarán, fyrir að hafa neytt réttar síns til að mótmæla.  Í þeim dómi voru fjórir sakfelldir, en einungis fyrir að óhlýðnast fyrirmælum valdstjórnarinnar.  Þar gaf rétturinn stjórnarskránni líka langt nef, og setti rétt valdsmanna ofar henni, þótt sakborningar væru sýknaðir af öllum öðrum ákærum.

Dómstólar sem endurtekið hunsa ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eiga ekki skilið þá virðingu sem dómstólar i réttarríki þurfa að njóta.  Hins vegar er við fleiri að sakast, því mál af þessu tagi ættu aldrei að koma til kasta dómstólanna.  Ákæruvaldinu virðist þykja það nauðsynlegt að ofsækja fólk sem leyfir sér að hafa skoðanir sem eru yfirvöldum ekki þóknanlegar.  Það eru nefnilega ofsóknir að draga fólk gegnum réttarkerfið, með ærnum tilkostnaði og tímatapi, svo ekki sé minnst á þá árás á eðlilega sálarró sem það er að þurfa að verja sig gegn upplognum sökum fyrir dómstólum.

Á bak við þessar ofsóknir ákæruvaldsins, og þetta löglausa framferði dómstólanna, er fólk, því svona hlutir gerast ekki sjálfkrafa, heldur er það fólk af holdi og blóði sem tekur ákvarðanirnar.  Þetta fólk ætti að hugsa sinn gang, því það gerir sig að verkfærum fyrir kúgun sem ekki ætti að þekkjast í lýðræðisríki.

Mikilvægara er þó að uppræta þennan praxís, bæði hjá ákæruvaldinu, og dómstólunum.  Hvernig það verður gert er ekki einfalt mál, því það á að vera innbyggt í réttarkerfið að þessir aðilar fari að þeim lögum sem þeir eiga að vinna eftir, en brjóti ekki gegn þeim.  Þegar ákæru- og dómsvaldið leyfir sér að ganga endurtekið gegn stjórnarskránni er úr vöndu að ráða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

 • Hverjir eru þetta þarna í Hæstarétti ?
  Maður gæti haldið að dómarar nir væru flestir skipaðir af FLokknu.

 • lydur arnason

  Það er leitt að íslenzk stjórnvöld skuli æ ofan í æ draga taum Golíats.
  Bankarnir, LÍÚ, útrásarplebbarnir, læknamafian, stjórnsýslumafían, stjórnmálamafían, flokksskrípin, stórveldin, allt ber að sama brunni.
  Kjósum þetta út í næstu kosningum.

 • Pétur Örn Björnsson

  Vel mælt Lýður og vonandi eru þær kosningar sem þú minnist á
  … bara rétt handan við hálsinn … eins og segir í dægurlaginu.
  Vonandi lætur þjóðin ekki bjóða sér 2 vetur af „seim óld sjitt.“

 • Pétur Örn Björnsson

  „Kyrkt’ann!“ æptu maurarnir í hvatningaræsingnum til Emils
  … eina maursins sem tókst að komast upp á táberg fílsins.
  Alltaf jafn yndislega bjartsýnn brandari og tekur biblíulegri
  líkingunni langtum fram … muniði baráttu-anda Emils.

 • Magnús Karl Magnússon

  Sæll Einar
  Svo sannarlega athyglisverður dómur sem þú vísar í. Í dómnum er meira að segja sagt að sakborningur hafi sjálfur vísað í stjórnarskrárbundin rétt sinn: “ Ákærði kvaðst alsaklaus. Hann hafi staðið á rétti sínum til tjáningar.“
  En stjórnarskráin segir: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. …. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
  Í dómnum sjálfum segir einnig „Sérstaklega aðspurður kvað Baldur (innsk: lögregluþjónninn sjálfur) enga ógn hafa stafað af ákærða eða hinum mótmælendunum.“
  Málsatvik eru sem sagt þau að mótmælandi sem enginn ógn stóð af neitaði að færa sig af almannafæri án þess að af honum stæði nein ógn. Hann er handtekinn og dómarinn sér enga ástæðu til að velta fyrir sér hvort hann hafi stjórnarskrábundinn rétt til að mótmæla við sendiráðið. Já – það er óhætt að segja að virðing fyrir grundvallaratriðum er ekki í hávegum höfð fyrir íslenskum dómstólum! Af hverju heyrist ekkert í lögfræðingum um svona augljós grundvallarmál?

 • Athyglisvert að lydur arnason tiltaki „læknamafiuna“ sem eina af hagsmuna-mafíum valda-strúktúrsins.
  Og hvað vill sú mafía með hátækni-sjúkrahús, á sama tíma og verið er að leggja heilbrigðiskerfið í rúst og almúganum blæðir. Lifir sú mafía í eigin besta heimi, veruleikafirrt? Einu sinni sagði héraðslæknir í Húnaþingi, að lífið væri dásamlegt. Hann var í tengslum við almúgann og augnlæknirinn, bróðir hans, einnig. Þá voru læknar stétt, sem fólk bar verðskuldaða virðingu fyrir. Sú er ekki lengur raunin, því hún er að stærstum hluta sérhagsmunatengd mafía, eins og lydur arnason segir, réttilega. Koma svo læknar, sýnið þið forverum ykkar sóma og standið með almúga landsins.

 • Og notabene, sú fróma ósk mín um að læknar landsins sýni forverum sínum sóma, eins og td. Jónasi og Kristjáni Sveinssyni og Sigurði landlækni, þeim hinum heitna úr Húnaþingi, og standi með almúga landsins, gildir einnig um prófessorana.

 • Segi svo sem Brynjúlfur frá Minna Núpi sagði af spöku viti:

  Menntun á að gera menn að MEIRA mönnum
  (þeas. hvað varðar sam-mennskuna og hið jákvæða og góða),
  en ekki að MEIRI mönnum (þeas. hvað varðar yfir-mennsku).

 • Magnus Jonsson

  @Magnús Karl Magnússon
  „Af hverju heyrist ekkert í lögfræðingum um svona augljós grundvallarmál? “

  Liggur það ekki í augum uppi ?? Það eru enga aura að sækja, öngvir milljarðar !! Réttarkerfið gengur fyrir það.

 • Leifur A. Benediktsson

  Munið 1. okt. mæting tímanlega á Völlinn.

  Viva La Revolúcion.

 • Pétur Örn Björnsson

  Leifur A. Benediktsson

  Ég mæti með baráttu-anda Emils, litla nóboddía maursins.
  Við kyrkjum bleika fílinn, sem var endurreistur af ríkis-valdinu
  og banka-glæpamönnum með aðstoð hrægamma heimsins.
  Prómeþeifur sendir okkur svo eldinn, blússandi beint í æð.

 • Frikki Gunn.

  Einar Steingrímsson:

  Eigum við ekki að tala um málareksturinn gegn Geir H. Haarde?

  Ákæruvaldinu virðist þykja það nauðsynlegt að ofsækja fólk sem leyfir sér að hafa aðrar pólitískar skoðanir en þær sem eru yfirvöldum ekki þóknanlegar.

  Það eru nefnilega ofsóknir að draga Geir H. Haarde gegnum réttarkerfið, með ærnum tilkostnaði og tímatapi, svo ekki sé minnst á þá árás á eðlilega sálarró sem það er að þurfa að verja sig gegn upplognum sökum fyrir dómstólum.

 • Páll Jónsson

  Ósammála. Mér er sama í hversu miklum rétti maður er þegar lögreglan skipar manni að fara frá A til B, ef þú ert ekki að verja líf og heilsu þína eða annarra þá átt þú að hlýða.

  Síðan kærir maður lögregluna eftir á ef hún hefur brotið á rétti manns.

  Þetta er e.t.v. ekki algild regla en þetta er prinsippið. Og það er klárlega í gildi þegar misvitrir lögreglumenn skipa manni að færa skiltið sitt.

 • Einar Steingrimsson

  Páll: Stjórnarskráin er æðstu lög í landinu. Í henni eru ákvæði sem tryggja skoðana- og tjáningarfrelsi. Í henni er hvergi talað um það prinsíp sem þú nefnir, að alltaf beri að hlýða lögreglu skilyrðislaust. Því ætti að vera ljóst að rétturinn til tjáningar skoðana er æðri þessum rétti valdstjórnarinnar.

  Málið er heldur ekki svo einfalt að „Síðan kærir maður lögregluna eftir á ef hún hefur brotið á rétti manns.“

  Í fyrsta lagi gæti lögreglan verið búin að brjóta á rétti manns með þeim hætti að skaðinn verði ekki bættur eftir á (t.d. ef fólki er meinað að mótmæla við aðstæður þar sem þau mótmæli gætu haft einhver áhrif).

  Í öðru lagi, og það er það sem ég lagði áherslu á hér, þá hafa dómstólarnir einfaldlega sniðgengið stjórnarskrána í málum af þessu tagi (eins og Magnús Karl undirstrikar hér að ofan). Þeir hafa nefnilega búið til þetta „prinsíp“ sem þú nefnir, um óskoraðan rétt valdstjórnarinnar til að gera það sem henni sýnist, og þeir neita að fjalla um þau ákvæði í stjórnarskránni sem málin snúast um.

  Það er alvarlegt þegar dómstólar sniðganga þau lög sem þeir eiga að dæma eftir. Svo alvarlegt að ekki er hægt að segja annað en að í því felist fullkomin lítilsvirðing á réttarríkinu.

 • Páll Jónsson

  Það er í raun aukaatriði hvort maður hafi á réttu að standa eða ekki. Sem þegn í borgaralegu samfélagi þá er ég búinn að gefa frá mér réttinn til að framfylgja réttindum mínum með valdi nema í algjörum undantekningatilvikum. Það er t.d. ástæðan fyrir því að innheimtufyrirtækin geta ekki ýtt fólki í burtu og tekið bílana, jafn vel þegar bílarnir eru eru skráðir eign annarra.

  Prinsippið er alls ekki að valdstjórnin hafi óskoraðan rétt til að gera það sem henni sýnist, heldur að þú verður að fara löglegar leiðir til að refsa henni ef hún gengur of langt.

  Kannski ert þú á því að þetta sem þú nefnir sé eitt af undantekningatilvikunum, þ.e. ef fólki er meinað að mótmæla við aðstæður þar sem þau mótmæli gætu haft einhver áhrif. Ég get haft samúð með því. En ég held að við séum flest sammála um að þetta sé þá einmitt það: undantekningartilvik.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur