Föstudagur 23.09.2011 - 21:38 - 14 ummæli

Svör Guðfríðar Lilju og Sigríðar Ingibjargar

Í síðustu viku birti ég hér opið bréf til Alþingismannanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þar sem ég spurði hvað þær hygðust gera varðandi skuldavanda þeirra sem eru með  stökkbreytt húsnæðislán, samtímis því sem bankarnir raka saman ofsagróða.  Þær hafa nú báðar svarað, og birtast svörin hér að neðan.

Ég er þakklátur þeim Sigríði og Guðfríði fyrir svörin.  En ég hef ekki skipt um skoðun í þessum málum, þótt ég  ætli ekki að segja meira um það núna, umfram það að benda á þennan pistil minn.


Svar Guðfríðar Lilju:

Takk fyrir bréfið Einar og fyrirgefðu mér að hafa ekki svarað fyrr. Málið er margþætt en tvíþætt að því leyti að það vísar inn í fortíð og framtíð. Því miður náðist ekki samstaða um að fara almenna niðurfærsluleið eins og grasrótarsamtök heimilanna vildu og við mörg hver á þingi (þvert á flokka). Sú leið – sem lögð var til af hálfu grasótarsamtaka og nokkurra þingmanna – að eindurreikna lán aftur í tímann þar sem aðeins hluti verðbótanna væri reiknaður inn í höfuðstólinn, var skynsamleg og réttlát. Þannig hefðu lánin verið leiðrétt í réttlætisátt hjá öllum. Þetta var hins vegar ekki gert eins og við vitum, heldur farið í sértækar aðgerðir sem eru því miður háðar því hvar lánin voru tekin en ekki forsendubrestinum. Þessar sérstæku aðgerðir hafa hjálpað ýmsum sem fengið hafa verulega lækkun á lánum sínum. Það á hins vegar ekki við um alla! Þeir sem lögðu verulegt sparifé í fasteignakaupin og hafa greitt samviskusamlega af lánum sínum hafa séð spariféð verða að engu vegna verðbólgunnar. Margir berjast í bökkum við að ná endum saman án þess að eiga rétt á aðstoð. Fyrir þennan hóp skipta auknar vaxtabætur máli. Sú staðreynd að fjármálakerfinu er ætlað að borga þær með sérstökum skatti er ígildi eins konar niðurfærslu – það er að segja, fyrir þá sem eiga rétt á vaxtabótum. Enn á eftir að koma í ljós hverju greiðsluaðlögun skilar, sem minnir á að mikilvægt er að hafa eftirfylgni með því að þau úrræði sem gripið hefur verið til virki sem skyldi. En þótt ýmislegt hafi verið gert breytir það ekki því að mikill fjöldi fólks á í gríðarlegum erfiðleikum og nýtt fólk kemur til með að bætast inn í þann hóp svo lengi sem vextir verða háir og verðtryggingin við lýði. Þess vegna verður verðtryggingin að hverfa og vextir að lækka – verðtrygginguna verður að afnema.
Það væri hægt að skrifa margar síður um þetta efni en ég læt þetta nægja a.m.k. að sinni og sendi góðar kveðjur,
Guðfríður Lilja


Svarið frá Sigríði Ingibjörgu:

Sæll Einar og afsakaðu hversu seint ég svara.

Ég þakka þér fyrir hlý orð í garð okkar Guðfríðar Lilju.
Skuldavandi fyrirtækja og heimila er einn erfiðasti fylgifiskur hrunsins. Ég skil vel reiði fólks yfir stöðu mála en í orðum þínum liggur þó sú ásökun að ekkert hafi verið gert, en það er fjarri lagi. Þegar hrunið skall á var engin heildstæð löggjöf til um málefni skuldara, þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi flutt tillögu um slíkt á Alþingi sjö þing í röð. Frá hruni hafa verið sett lög um umboðsmann skuldara, greiðsluaðlögun og lögum um gjaldþrotaskipti breytt. Löggjöf um skilvirka skuldaniðurfellingu er flóknari en við geðrum ráð fyrir í upphafi, enda réttarstaða kröfuhafa mjög sterk í íslensku réttarfari. Halda þarf áfram að finna lausn fyrir þá sem eru í vanda vegna lánsveða og ábyrgðarmanna. Það hefur reynst flókið m.a. vegna þess að veðin eru varin af eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru mikilvægir áfangar sem, þegar upp er staðið, munu bjarga mjög mörgum heimilum frá alvarlegum fjárhagsvanda. Markmið þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til er að hjálpa þeim sem verst fóru út úr hruninu og forða þeim frá þroti. Skuldastaða verður með þessu færð að greiðslugetu. Þá býðst þeim sem eru með verðtryggð lán greiðslujöfnun mánaðarlegra greiðslna og vaxtabætur greiða niður um þriðjung vaxtakostnaðar heimilanna vegna húsnæðisskulda. Húsnæðisskuldir eru stór hluti vandans, en bílalán, yfirdráttur og önnur neyslulán hafa ekki síður reynst mörgum erfiður hjalli. Það er mikilvægt að bæta enn frekar stöðu fólks gagnvart fjármálafyrirtækjum og mun ég beita mér fyrir því að það verði gert.
Eftir stendur að verðtryggð húsnæðislán hafa verið færð niður að 110% veðsetningu en að örðu leyti ekki með almennum hætti, þannig að flestir sitja uppi með stórhækkuð lán. Vandamálið hér er að kostnaðurinn við slíka niðurfærslu er gríðarlegur og fylgismenn hennar hafa ekki getað bent á hvar finna eigi slíkt fjármagn. Kostnaður ríkissjóðs vegna afskrifta Íbúðarlánasjóðs verður ekki minni en 30 milljarðar. Þessi upphæð mun margfaldast ef lán verða færð niður með almennum hætti. Hér er okkur því vandi á höndum.
Hvað bankana varðar vil ég segja tvennt: í fyrsta lagi má spyrja hvort afkomutölur gefi rétta mynd af rekstri þeirra, en bankakerfið er of stórt og óhagkvæmt og ekki hefur verið skilið á milli bankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Það er nauðsynlegt að mínu mati. Að bankarnir skuli berja sér á brjóst með þessum hætti er með ólíkindum. Og í öðru lagi eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi afskriftir lána til einstaklinga og fyrirtækja. Bankarnir hafa dregið fæturna hvað þetta varðar og furðanlega seint gengið að afskrifa lán með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Tryggja þarf að bankarnir afskrifi í samræmi við sett lög og samþykktir, en ef í ljós kemur að herða þarf löggjöfina enn frekar verður það gert. Viðskiptanefnd Alþingis hefur þegar hafið skoðun á þessu.
Umræðan hefur mikið snúist um verðtrygginguna og vandamál henni tengd. Hátt vaxtastig hefur fengið minni umfjöllun, en er þó ekki síður alvarlegt vandamál til lengri tíma. Vandinn ristir þó dýpra. Í Bandaríkjunum er engin verðtrygging á húsnæðislánum, en þar eru samt um fjórðungur allra húsnæðislána hærri en verðgildi eignanna. Bæði í Bandaríkjunum og hér heima varð eignabóla með of mikilli skuldsetningu. Í ofanálag olli fall krónunnar mikilli verðbólgu. Þó enginn banki hefði farið í þrot árið 2008 hefðu eftirköst eignabólu og gengishruns farið illa með heimili og fyrirtæki.
Þegar skuldamálin eru annars vegar hef ég ekki trú á einföldum patentlausnum eða því að hægt sé að vinda ofan af margra ára óstjórn í efnahagsmálum í einni svipan. Þá er ég ekki að segja að mér finnist viðunandi gangur í afskriftum heimila og fyrirtækja og fagna aðhaldi almennings.
Með kveðju
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Semsagt búið að gera helling en þyrfti að gera meira en þetta meira er samt ekkert sem þær eru að fara að ýta á eftir?

  • Hákon Hrafn

    Fyrst ber að þakka fyrir svörin.
    Svar Guðfríðar er ágætt eins og við mátti búast.
    Hinsvegar er ljóst að Sigríður Ingibjörg hefur verið algjörlega heilaþvegin af Jóhönnu og Steingrími sem voru plötuð af bönkunum.
    Hún trúir því virkilega að almenningur eigi að borga Hrunið og þá helst þeir sem mest skulda og eru því ólíklegastir til að geta borgað yfirleitt.
    Hún segir t.d. að „Kostnaður ríkissjóðs vegna afskrifta Íbúðarlánasjóðs verður ekki minni en 30 milljarðar“
    en hér kemur fram fyrir mánuði að „kostnaðurinn“ er einungis 12 milljarðar. http://www.ruv.is/frett/tharf-ekki-19-milljarda
    Veit hún ekki betur eða er hún að reyna að villa um fyrir lesendum? Hvort er verra eiginlega verra í ljósi þess að hún er Alþingismaður ?
    Ef hún getur ekki fundið 30 milljarða í niðurfærsluna, hvar fann hún þá tugi milljarða sem ríkið dældi í fjármálakerfið ?
    í vösum skuldara kannski?

  • Jón Jón Jónsson

    Guðfríður Lilja meinar vel, en hún ætti að hætta þessu kjaftæði um
    einhverja grasrót. Hvaða þúfa er það?
    Ég er orðinn hundleiður á þannig niðurtali til almúgans,
    eða „venjulega fólksins“ sem formaður Guðfríðar Lilju kýs að kalla svo.
    En ég ítreka að ég dreg það ekki í efa að Guðfríður Lilja vill vel,
    en það er ekki nóg að vilja, það hjálpar engum og hún veit það.

    Um Sigríði nenni ég ekki að fjölyrða; hún er ekki stafkróksvirði;
    hún er á pari með Magnúsi Orra Schram og öðru bankahyski.

    Niðurstaða:

    Tími þessarar hræsnisfullu stjórnar er löngu útrunninn.

    Sauðsvartur almúginn mætir á Austurvöll 1. október 2011
    og hrjóðar þingið af samtryggðum gungum og druslum !!!!

  • Jón Jón Jónsson

    Vanhæf ríkisstjórn !
    Vanhæft alþingi !

  • Ágætar konur, held ég.

    En rýr svör – guð minn góður!

    Stofnanavædd kerfishugsun.

    Orsök hrunsins.

  • Jón Ólafs

    Það var níðingsverk af verstu gerð, af norrænu velferðarstjórninni, að gefa erlendum vogunarsjóðum, ótakmarkað skotleyfi á atvinnulaus íslensk heimili, og fjárvana fyrirtæki, vegna ólöglegra gengisbundinna lána, og vegna stökkbreytra verðtryggðra lána, vegna forsendubrests sem varð við hrun krónunnar, 36gr. Laga nr. 7/1936.

    Þennan Forsendubrest sem varð við hrunið, verður að laga, og ef einhverjar vöblur verða á norrænu velferðarstjórninni, þá er ekki nema eitt til ráða, alsherjar verkfall yfir allt landið, þar til samþykki fæst fyrir nýjum kosningum sem fyrst.

    Þetta eru einhver mestu efnahgsmistök sem gerð hafa verið á Íslandi, þessi mistök verður að laga, með góðu eða illu.

  • Leifur A. Benediktsson

    Ég tek undir með Jóni J Jónssyni,

    Einkunnarorð okkar á Austurvelli á laugardagsmorgninum 1.okt. verður hið sama og í Búsó: Vanhæf Ríkisstjórn,Vanhæf Ríkisstjórn,Vanhæft Alþingi,Vanhæft Alþingi. Komum með potta og pönnur og ekki gleyma Tunnunum góðu.

    Látum ekki kúga OKKUR til að greiða bankabófunum fyrir Hrunið sem þeir hafa valdið okkur og börnunum okkar . Draga verður alla þessa bófa og ræningja til saka með öllum tiltækum ráðum, Með góðu eða ILLU.

    Þar hefur dóms-og löggjafarvaldið gjörsamlega BRUGÐIST. Við krefjumst tafarlauss RÉTTLÆTIS. Tíminn er NÚNA. Tökum þetta í okkar hendur og mætum í þúsundavís á Austurvöll tímanlega 1. okt.

    Viva La Revolúcion.

  • Gunnar Skúli Ármannsson

    Ummæli beggja kvennanna ættu að opna augu lesenda fyrir því að þær og aðrir þingmenn eru algjörlega valdalausir gagnvart bönkunum. Þingmenn og réðherrar eru strengjabrúður bankakerfisins.
    Þær og sérstaklega Sígríður lýsa því vel hvernig Alþingi reynir að kjökra utaní bankastofnanir en árangurslaust. Hörmungar hins almenna Íslendings gagnvart ofsagróða bankanna staðfesta þá stöðu.

    Einkabankar hafa einkaleyfi á því að búa til lögeyri landsins. Allir( ríki og einstaklingar) verða að taka hann að láni hjá bönkunum. Þeir sem skulda stjórna ekki!

    Meðan þessu er ekki breytt breytist ekkert.

  • Sigurður Pálsson

    í seinustu kosningu vonaði ég að þessar tvær konur ásamt fleirum myndu taka boltan og láta til sín taka af alvöru fyrir fólkið í landinu. Spurningin Einar sem þú berð fram er mjög EINFÖLD en svörin eins og þau birtast annars frá þessum sómakonum hafa enga merkingu né tilgang enda er spurningunni í raun ekki svarað. Nú eru við völd stjórnmálaflokkar sem hafa MEIRIHLUTA á alþingi Íslendinga. Meirihlutinn hefur vald og krafta til að taka á þessum hlutum ef vilji er fyrir hendi. Á meðan það er ekki gert eru Guðfríðu Lilja og Sigríður Ingibjörg ekkert annað en, afsakið orðalagið aular á þingi sme stiðja vödlin umfram almannahagsmuni.

  • Vanhæft alþingi og óhæf ef ekki beinínis spilt ríkisstjórn.

    ‘eg mæti eins og í búsó en ætla einhverjir að mæta?

    Ha?

    Kom on -sameinmst um andúð okkar fólki í þessum andsk fjórum flokkum.

    Hvers vegna rís ekki fókið sem studdi þessi ósköp upp’

    Varla býst grasrótin við öðru eða meira?

    Er grasrótin annras til í fjórflokknum, hefur hún ekki reynst algjörlea ófær um að koma á breytingum, uppgjörum innan þessara fjögurra flokks sem við vitum nú eru allir eins.

    Grasróin hefur aldrei verið, þetta er afmarkaða klíkur kunningja og vina sem eðlilega vilja bara halda óbreyttu ástandi til þess að þessir sjálfir einstaklingar taki sér stöðu og feti í fótspor þessara stórkostulega manna og kerfa sem á undan fóru.

    Já einmitt, klíkunum.

    Grasrótin í fjórflokknum er ónyt – hefur enga skilning á lýðræði og bara fattar ekki hvað hér gerðistst á síðustu þremur árum. Þetta eru litlir, samansúrraðir og innvígðir hagsmunahópar – sem ætla fyrst og fremst að ná
    st langt í pólitik fjórflokksins.
    Taka við af þessum ömurlega liði sem stýrir landinu nú og aumingjunum sem stýrðu því hruninu.

    Ávþessi þjóð enga von?

    Ekki á meðan ónyt og algjörlega fylgispök grasrót lætur ekki til sín taka og spúlar spillingunni út úr öllum fjórflokknum.

    Kon on people, there’s a train a comin’.

    !. okt. er dagurinn.

    Mætum öll – skolum þessu liði, stjórn og stjórnarandstöðu út úr þinghúsinu og gamala fangelsinu sem er – með réttu – stjórnarráð

    Köstum loksins helvítís fjórflokks – hlekkjunum.

    Koma svo!

    Byltingin verður friðsöm en tekur þessar helv. klíkur allar úr sambandi.

    Kom on people.

    We need a frevolucion – now. Steypum fjórflokknum og fámennum klíkum hasn sem verja auðvadlið – bankaafskfriftarinar – og eru sáttar við almenningur blæðir.

    !, okt. er dagurinn.

  • Leifur A. Benediktsson

    Rósa,

    Við mætum, ekki örvænta, það munu þúsundir mæta þann 1. okt. á Völlinn.
    Þetta er allt í undirbúningi. Lýðræðið mun virka með þáttöku fjöldans,annars missir þetta marks. Látum fjármagnsöflin á Alþingi finna til tevatnsins. Don´t worry ,we will overcome.

    Einkunnarorð El Grande Búsó eru: Vanhæf Ríkisstjórn, Vanhæft Alþingi.

    Viva La Revolucíón. Venceremos!!!!

  • Spurningin er hvað stjórnvöldum er stætt á að gera án þess að skattgreiðendur birgi brúsann.

  • Jón Jón Jónsson

    Skúli, vonandi meinarðu ekki að við eigum bara að borga áfram
    fyrir syndir banka- og fjármálastofnana, þegjandi og hljóðalaust?
    Láta ræna okkur áfram þegjandi og hljóðalaust?

    Málið snýst einungis um og á einungis að snúast um
    sanngjarnt, heiðarlegt og gegnsætt uppgjör í kjölfar hrunsins.
    Það uppgjör hefur ekki farið fram.

    Þvert á móti hefur þessi vesalings, vanhæfa ríkisstjórn og þing í stíl
    unnið sem handbendi banka- og fjármálastofnana og endurreist það,
    eins og uppvakninga andskotans.

    Það helvíti gengur ekki lengur.

    Þú veist þetta, ég veit þetta og við vitum þetta öll.

    Málið snýst um sanngirni og heiðarleika … og gegnsætt uppgjör.
    Ég ítreka, að 3 árum eftir hrun, hefur það uppgjör enn ekki farið fram.
    Þar til það uppgjör hefur farið fram mun eðlilegt líf ekki þrífast hér.

    Þess vegna og einkum þess vegna mótmælum við öll,
    því við viljum bara sanngirni, heiðarleika … og gegnsætt uppgjör.

    Hvað hefur Vanhæf Ríkissjórn og Vanhæft Alþingi að fela ????
    Hví fara kosnir fulltrúar OKKAR undan í flæmingi ????

  • Jón Jón Jónsson

    Mig langar til að benda fólki á pistil eftir Gunnar Skúla lækni, sem útskýrir þessa hluti á greinargóðan hátt:

    http://blog.eyjan.is/gunnarsa/2011/09/23/ertu-null-eda-komma-i-bokhaldi-bankanna/#comments

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur