Föstudagur 07.10.2011 - 11:14 - 18 ummæli

Rannsóknarnefnd, ekki starfshóp! Ögmundur!

Ögmundur innanríkisráðherra hefur lýst yfir að hann ætli að skipa starfshóp til að fara yfir Geirfinns- og Guðmundarmálið.  Það gætu verið slæmar fréttir.  Skipan „starfshópa“ er því miður velþekkt aðferð til að þagga niður gagnrýni, án þess að nokkuð bitastætt sé gert.  Það ætti að vera ljóst að til að komast til botns í þessu máli þarf rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til gagnaöflunar og vitnaleiðslu.  Slíkar heimildir hefur starfshópur skipaður af ráðherra ekki.  Í lögum nr. 142/2008 um Rannsóknarnefnd Alþingis stendur meðal annars þetta:

Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar.

Nefndinni er heimilt að kalla einstaklinga til fundar við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og er viðkomandi þá skylt að mæta. Heimilt er að taka það sem fer fram á slíkum fundum upp á hljóð- eða myndband.

Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.

Engum dettur í hug að nefndinni hefði tekist að vinna það stórkostlega verk sem hún vann ef hún hefði ekki haft þessar heimildir.  Ef Ögmundur beitir sér ekki fyrir skipan rannsóknarnefndar með svipaðar heimildir til að rannsaka Geirfinns- og Guðmundarmálið læðist að manni sá grunur að hann hafi engan áhuga á að sannleikurinn verði grafinn upp, heldur sé hann bara að kaupa sér frið fyrir gagnrýninni á það viðbjóðslega réttarhneyksli sem málið var.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Sammála þér að Ögmundur er ekki að fullnægja réttlætinu með skipan starfshóps. Réttarkerfið brást í þessu máli og því þarf að skipa sáttanefnd eins og þingmenn vilja. Raunar þarf að skipa fleiri en eina sáttanefnd til að fara ofan í hin ýmsu soramál og leiða sannleikann í ljós t.d einkavæðinguna eins og hún lagði sig.

  • Sannleiks og sáttanefnd væri kannski meira réttnefni

  • Hrekkjalómur

    Einar,
    Hvernig væri að prófa smá-jákvæðni, svona einu sinni?

    Hrekkjalómur

  • Sammála bloggara, rannsóknarnefnd þyrfti það að vera.

  • Hrafn Arnarson

    Starfshópurinn getur kallað til sín sérfræðinga eftir þörfum. Þegar hann skilar áfangaskýrslu getur hann hæglega lagt til að skipuð verði rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir eða málið tekið upp að nýju. Að öðru leyti sammála bloggara.

  • Miðað við mönnun starfshópsins er einhverskonar hvítþvottur fyrirsjánlegur. Þar sem ekki verður tekið á hinum kerfislega glæpavanda hins rotna ísl. óréttlætiskerfis.

  • Jón Jón Jónsson

    Elín Sigurðardóttir, þó það sé kannski útúrdúr, þá er það gott verk og þarft hjá þér, að minna á Magma skandalinn með reglulegu millibili og vinnubrögð þess hóps.
    Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki, var td. í þeirri nefnd sem þú vísar til. Hann var valinn í þá nefnd eftir að hafa reynt að réttlæta gjörninga Steingríms við að koma þrælaklafa Icesave á þjóðina, með því að skrifa grein í smuguna. Sú grein er mér afskapaleg minnisstæð, því þar bjó dósentinn í heimspeki við HÍ, til nýtt heimaskíts hugtak,
    „valdatafls-lýðræði“ sem hann reyndi af veikum mætti að rökstyðja að væri yfir lýðræði hafið og nú skyldi tilgangurinn helga meðalið og þess vegna mætti Steingrímur fara sínu fram í anda nómenklatúru Kremlar og setja vistarbönd og þrælaklafa á þjóina í nafni „valdatafls-lýðræðis“.

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek undir orð Jóhannesar Laxdal, að það þarf umfram allt
    vafningalausa
    Sannleiks- og sáttanefnd um þetta mál
    og reyndar fleiri eins og Jóhannes bendir réttilega á.
    Einhvern veginn þarf að skapa frið með leit að umbúðalausum
    sannleikanum um illa gjörninga stjórnvaldsstofnana.
    Það væri því vel við hæfi að leita í smiðju til Nelson Mandela.

  • Ágæti Jón Jón Jónsson. Magma skandallinn er aukaatriði. Punkturinn er sá að ekkert varð af rannsókn vegna þess að rannsóknarheimildir vantaði.

  • Jón Jón Jónsson

    Hárétt athugað hjá þér Elín mín kær. Mjög góð ábending frá þér.

  • Jón Jón Jónsson

    Já, sporin hræða:
    „… ekkert varð af rannsókn vegna þess að rannsóknarheimildir vantaði.“

  • Valur Bjarnason

    Þetta er nákvæmlega það sem mér datt í hug þegar ég heyrði í útvarpinu að skipa ætti „STARFSHÓP“ að nú væri Ögmundur að sýna sitt rétta andlit, eina ferðina enn.

  • Valur Bjarnason

    Elín Sigurðardóttir bendir á eftirfarandi hér að framan:

    „Magma nefndin undir forystu Hjördísar Hákonardóttur hæstaréttardómara hvarf frá því verkefni að rannsaka einkavæðingu í orkugeiranum og tengsl hennar við stjórnmálamenn, þar sem hún hafði ekki rannsóknarheimildir samkvæmt lögum. Í fréttatilkynningu frá ríkisstjórninni kom fram að þetta væri eitt af hlutverkum nefndarinnar. Í erindisbréfi sem nefndin fékk var hinsvegar dregið úr þessum þætti. Til að Magma – nefndin fengi rannsóknarheimildir hefði Alþingi þurft að setja sérstök lög um nefndina.“

    Þetta er allur kraftur vinstri stjórnarinnar. Manni fer að verða illt af vonbrigðum með þessa stjórn, þessa stjórn sem maður batt svo miklar væntingar við í upphafi

  • Sigríður Kristinsdólttir

    Hvaða hagsmuni á Ögmundur að hafa ef þetta mál verður upplýst? Ekki hefur hann verið innmúraður inn í lögfræðistéttina eða embætiskerfið innan ríksins um margar aldir eins og sumir sem að þessu máli komu. Leyfið nendinni að hefja störf áður en þið kastið boltanum í vegginn.

  • Sigríður Kristinsdólttir

    Því miður var þetta ekki rétt skrifað áðan: Hvaða hagsmuni á Ögmundur að hafa ef þetta mál verður ekki upplýst? Ekki hefur hann verið innmúraður inn í lögfræðistéttina eða embætiskerfið innan ríksins um margar aldir eins og sumir sem að þessu máli komu. Leyfið nefndinni að hefja störf áður en þið kastið boltanum í vegginn.

  • Eftir að starfshópur skilar sinni niðurstöðu er hægt að skipa rannsóknarnefnd. Ekki er hægt að fara beint í að skipa rannsóknarnefnd af Alþingi þar sem málið fékk úrlausn í Hæstarétti. Þetta er gert svona vegna þrískipingu valdsins.

  • Jón Jón Jónsson

    Vel er skipað í starfshópinn, um það deilir enginn
    og ég get amk. alveg tekið skýringu Júlíu góða og gilda.

    En hvað er annars nýjast að frétta af Magma/Alterra
    og bankasýslu skan-dölunum, ríkir þar dalalæðan
    eða þistilfjarðar-brælan undir framsóknar-pilsfaldi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur