Þriðjudagur 18.10.2011 - 14:40 - 10 ummæli

Ögmundur ver meint lögbrot lögreglustjóra

Í nýlegri yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar segir um kaup embættis Ríkislögreglustjóra á ýmsum búnaði:

Að mati Ríkisendurskoðunar fór hluti þessara viðskipta í bága við lög um opinber innkaup.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra getur verið ósammála þessu, en það er vægast sagt sérkennilegt að þetta er haft eftir ráðherra á síðu ráðuneytisins:

Ég hef sannfærst um að embætti ríkislögreglustjóra hafi farið að lögum í innkaupum sínum.  Sú mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af embættinu er ómakleg og röng.

Hvað hefur verið sagt í fjölmiðlum annað en að embættið hafi að mati Ríkisendurskoðunar brotið lög, og um hvað þau mál snúast?

Hafi ráðherra einhver  rök fyrir staðhæfingum sínum ætti hann að skýra frá þeim.  Það hefði hann átt að gera strax, því það er alvarlegt mál að ráðherra dylgi um rangfærslur fjölmiðla.

Það er líka grafalvarlegt mál ef ríkislögreglustjóri fer ekki að lögum, og það er ekki nóg að ráðuneytið haldi fram á heimasíðu sinni að þetta sé rangt hjá Ríkisendurskoðun án þess að rökstyðja það með skýrum hætti.  Það er ljóst um hvaða ákvæði laga þetta snýst, en ráðherra hefur með engum hætti útskýrt af hverju hann telur að Ríkisendurskoðun hafi rangt fyrir sér.

Þetta er vond stjórnsýsla, sem eflir þann grun að Ögmundur og félagar hans í ríkisstjórn hafi engan áhuga á að taka til í því spillta valdakerfi sem hér ríkir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Elín, Þetta er þvæla sem þarna er fullyrt um. Enda er eingöngu tekið tímabilið eftir að umrædd lög voru sett.

  Ögmundur er því að verja spillingu og ekkert annað.

 • ,, .. með skýrum hætti ..“

  ,, .. með engum hætti ..“

 • Einar Steingríms farinn í háttinn eins og hinir.

 • Desmond&Nelson

  Bregðast krosstré sem önnur.

 • Hvet Einar og aðra sem tjá sig um málið til að kynna sér það.

  Það má gera síðu ráðuneytisins.

  Gagnrýni ríkisendurskoðunar er greinilega á misskilningi byggð.

  Þeir eru ekki alvitrir þar frekar en aðrir.

  Ekki fer á milli mála að afstaða Ögmundar byggir á því að hann hefur kynnt sér atriði málsins og rökstuðning.

  Það ættu fleiri að gera áður en þeir saka fólk um löbrot, spillingu osfrv.

 • Við vitum afhverju Siv virðist sturluð og vitskertari sem aldrei fyrr. En hvað ætli öryggislögruglan/Ríkisnjósnadeildin hafi á Ögmund?

 • Ljóst er að ég hefði átt að lesa þau skjöl sem vísað var í neðst á fréttasíðu ráðuneytisins. Ég biðst afsökunar á að hafa látið það fram hjá mér fara. Hins vegar leyfi ég mér að gagnrýna harðlega að í þessari „frétt“ á síðu ráðuneytisins, er alls enginn rökstuðningur, og heldur ekki minnst á að hann sé neins staðar að finna. Þótt ég hefði sem sagt ekki átt að láta þetta framhjá mér fara hika ég ekki við að segja að þetta séu ömurleg vinnubrögð hjá ráðuneytinu (og hjá þeim fjölmiðlum sem birtu fréttir um málið án þess að spyrja nokkurra spurninga um rökstuðning).

  Hitt er svo annað mál, að svör ráðherra um þetta, þ.e.a.s. rökstuðningurinn fyrir því að í lagi hafi verið að fara á svig við lög eru miklu óhuggulegri en meint lögbrot. Greinilegt er að þetta fólk, lögreglustjóri og núverandi og fyrrverandi ráðherra, lifa í sjúkum hugarheimi, þar sem það telur sér ógnað af almenningi. Það eitrar út frá sér, og er ekki þess konar hugsunarháttur sem við þurfum hjá fólki í æðstu valdastöðum.

 • „Hafi átt að fylgja til hins ýtrasta lögum um opinber innkaup, hefði það verið ógerlegt.“

  Svo segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra (úr frétt sem ekki er lengur tiltæk á vef rúv.). Um leið er þeirri þversögn er haldið fram að engin lög hafi verið brotin.

  Ég tek undir með Einari Steingrímsyni: „… svör ráðherra um þetta, þ.e.a.s. rökstuðningurinn fyrir því að í lagi hafi verið að fara á svig við lög eru miklu óhuggulegri en meint lögbrot. Greinilegt er að þetta fólk, lögreglustjóri og núverandi og fyrrverandi ráðherra, lifa í sjúkum hugarheimi, þar sem það telur sér ógnað af almenningi.“

 • „Hitt er svo annað mál, að svör ráðherra um þetta, þ.e.a.s. rökstuðningurinn fyrir því að í lagi hafi verið að fara á svig við lög eru miklu óhuggulegri en meint lögbrot.“ Tek undir þetta. Þegar neyðarlögin voru sett fórum við á grátt svæði. Ekki verður erfitt að sýna fram á nauðsynleg innkaup í framhaldinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur