Fimmtudagur 27.10.2011 - 11:24 - 15 ummæli

HÍ, andverðleikasamfélag og hálfsannindi

Í Háskóla Íslands er talsvert af góðu vísindafólki, og dálítið af fólki sem stendur framarlega á sínu sviði í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru.  Hinir eru miklu fleiri, sem ekki standast þær kröfur sem gerðar eru í alþjóðasamfélaginu. Það sem verra er, dragbítar hafa töglin og hagldirnar í valdakerfi skólans, og vinna leynt og ljóst gegn þeim yfirlýstu markmiðum skólans að verða gjaldgengur á alþjóðavettvangi.  Það gildir, þótt ótrúlegt megi virðast, líka um rektor skólans. Það er margt, fólkið í HÍ sem veit þetta, en það veit líka að í þessu „litla og heilbrigða samfélagi“ eins og Guðbergur Bergsson kallaði Ísland einhvern tíma, er fólki að öllu jöfnu útskúfað kirfilega ef það dirfist að benda á klæðleysi keisaranna.

HÍ hreykir sér þessa dagana af að vera kominn í hóp 300 bestu háskóla í heimi. Það er að vísu hættulegt að fagna því að HÍ hafi náð þessum „árangri“, eins og rektor skólans hefur gert, því hér er um að ræða einn matsaðila, sem nýlega hefur þar að auki breytt matsaðferðum sínum, og varasamt að treysta á að þessi niðurstaða haldi til lengdar, og að aðrir komist að sömu niðurstöðu.

Hitt er miklu verra, að hér er um lánsfjaðrir að ræða.  Stökkið sem skólinn hefur tekið er ekki síst að þakka því að fjöldi tilvitnana í greinar eftir vísindamenn hjá Íslenskri Erfðagreiningu og Hjartavernd hefur aukist verulega síðustu árin.  Flestar eða allar greinar sem fjalla um rannsóknir þessara stofnana eru með meðhöfunda í HÍ, auk þess sem forstöðumenn beggja stofnananna hafa nýlega fengið stöðu prófessora við skólann, þótt það breyti litlu eða engu um hvar vísindastarf þeirra fer fram.  Lunginn úr því starfi sem liggur að baki þessum greinum fer fram á umræddum stofnunum, og HÍ hefur nánast engin áhrif haft á uppbyggingu þeirra.

Um þetta eru líklega til beinharðar tölur (sem HÍ býr væntanlega yfir þótt forysta skólans sé ekki að flagga þeim), en það er nokkuð ljóst að Háskóla Íslands hefur lítið eða ekki farið fram á þessu sviði undanfarin ár, a.m.k. ekki umfram það að halda í við þá stöðugu þróun sem er í vísindaheiminum.

Síðustu árin hefur farið fram barátta innan HÍ þar sem reynt hefur verið að þoka matskerfi skólans, sem ákvarðar framgang starfsmanna og laun (að hluta), í þá átt sem skólinn segist stefna.  Það er að segja, að umbuna frekar fyrir það framlag vísindafólks skólans sem nær máli á alþjóðavettvangi en fyrir það sem aðeins er gjaldgengt í þeim örlitla andapolli þar sem eru íslensk „vísindatímarit“.

Eins og nefnt var í þessum pistli fær vísindamaður sem er fyrsti höfundur (og því leiðtoginn í starfinu sem að baki liggur) á dæmigerðri grein í Nature, einu virtasta vísindatímariti heims, að öllu jöfnu miklu færri stig í matskerfi HÍ en annar sem birtir, t.d. í félagi við einn annan mann, grein í íslenska Læknablaðinu, af því að greinar í Nature eru undantekningalítið með mikinn fjölda höfunda, sem dregur úr stigagjöfinni í HÍ.  Reyndar fær aðalhöfundur á grein í Nature með meðaltalsfjölda höfunda u.þ.b. helmingi færri stig en gildir um greinar í Læknablaðinu, eða í Tímariti Sálfræðinga eða Tímariti um Menntamál.  Þó liggur í augum uppi að með því að birta á íslensku eru akademískir starfsmenn að bregðast þeirri skyldu sinni að kynna niðurstöður sínar fyrir fræðasamfélaginu sem þeir eiga að tilheyra, því það er alþjóðlegt.

Skemmst er frá því að segja að í þessari baráttu, um að laga matskerfi HÍ að yfirlýstum markmiðum um að verða öflugur rannsóknaháskóli, hafa þeir sigrað sem vilja hygla heimalningum og fólki sem ekki er gjaldgengt á alþjóðavettvangi, en halda niðri, eða í burtu, þeim sem þola alþjóðlegan samanburð.

Sumt af því sem er að í HÍ er kunnugt almenningi, eins og klíkuráðningar þar sem undirmálsfólk sem hefur sölsað undir sig deildir ræður heimalninga og aðra sem ekki er hætta á að verði óþægilegur samanburður við getuleysi „heimamanna“.  Eitt hrikalegasta nýlega dæmið um þetta (en alls ekki einsdæmi) er Tölvunarfræðiskor HÍ, sem á stuttum tíma fyrir nokkrum árum hrakti frá sér fjóra af bestu vísindamönnum landsins, þau Önnu Ingólfsdóttur, Bjarna Halldórsson, Úlfar Erlingsson og Magnús Má Halldórsson.  Hvert og eitt þeirra er með öflugri birtinga- og tilvitnanalista en samanlögð Tölvunarfræðiskorin (sem nú er hluti af annarri deild).

Í grein í Fréttablaðinu 29. september gefur Birgir Guðjónsson ágætt yfirlit yfir hvað er að í HÍ. Þótt tilvitnanir í fræðigreinar séu ekki einhlítur mælikvarði á gæði vísindastarfs gefa þær þó góða vísbendingu, og sérstaklega ef skoðaðir eru hópar fólks, eins og t.d. heilar háskóladeildir.  Það er líka nokkuð óyggjandi að vísindamaður sem nánast ekkert er vitnað í leikur ekkert hlutverk í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru á nánast öllum sviðum.  Flestir mikilvægir gagnagrunnar um slíkar tilvitnanir eru öllum opnir á netinu (eins og t.d. Google Scholar).

Hitt vita færri, þótt það sé opinbert leyndarmál í íslenska vísindasamfélaginu, að sumt af æðsta forystufólki HÍ nær alls ekki máli sem fræðimenn, og ætti í vandræðum með að fá ráðningu í sæmilegum háskóla, hvað þá að það yrði sett í akademískar forystustöður.

Í opnum gagnagrunnum getur hver sem er t.d. flett upp forsetum Menntavísindasviðs og Félagsvísindasviðs HÍ, þeim Jóni Torfa Jónassyni og Ólafi Þ. Harðarsyni.  Þá kemur fljótt í ljós að framlag þeirra á fræðasviðum sínum er nánast ekkert.  Hér er um sams konar andverðleikasamfélag að ræða og svo víða annars staðar á Íslandi; þeir sem klifra upp metorðastigann og komast til æðstu valda eru oftar en ekki fólk sem fullnægir ekki einu sinni þeim lágmarksskilyrðum sem undirmenn þess ættu að þurfa að uppfylla, hvað þá þeir sem eru í akademískum forystuhlutverkum.  Afleiðingin er líka að öllum viðmiðum um gæði er snúið á hvolf, smákóngar fara að drottna yfir sviðum sem þeir hafa enga burði á, og móta þau í sinni mynd.

Þetta hefur sem sé lengi verið opinbert leyndarmál, þótt hver sem er geti flett því upp, og margir virðast líta á það sem feimnismál.  Það er sérkennilegt, því alla jafnan þykir sjálfsagt að gera athugasemdir við ráðningar fólks sem skortir lágmarkshæfni í opinberar stöður.  Og þetta er ekki síður mikilvægt í háskólaumhverfi, þótt margir leikmenn virðist halda að það þurfi ekki endilega góða vísindamenn í „stjórnunarstöður“ í háskólum.  Það er þveröfugt, því þótt fæstir vísindamenn séu efni í góða stjórnendur þá er nauðsynlegt fyrir þá sem eiga að vera í forystu fyrir uppbyggingu vísindastarfs að hafa umfangsmikla og sannfærandi reynslu úr því langhlaupi sem slík uppbygging er.  Enda er það ekki að ástæðulausu að engum af þeim háskólum sem HÍ vill bera sig saman við dettur í hug að setja annað en þrautreynda og öfluga vísindamenn í akademísk forystustörf.

Í stuttu máli hefur forysta HÍ ekkert gert svo teljandi sé til að efla vísindastarf við skólann.  Þvert á móti bitnar niðurskurður síðustu ára ekki síst á þeim sem skólinn þyrfti að hlúa að, vilji hann viðhalda sínum litla styrk, hvað þá ef hann ætlar sér lengra.  Því miður er ekki við því að búast að þetta lagist þótt skólinn fái meira fé frá ríkinu.  Þeir sem greinilega hafa undirtökin innan skólans, og einnig innan Menntamálaráðuneytisins, hafa nefnilega aðra skoðun á því hvernig eigi helst að nota fjármagn til rannsókna.  Til dæmis hefur ofannefndur Jón Torfi oft tjáð þá skoðun sína að leiðin til að efla rannsóknir sé að ausa meira fé í þau svið sem lökust eru.  Þar á meðal er Menntavísindasviðið, sem hann er forseti yfir.

Forysta HÍ mun auðvitað ekki leiða sams konar hamfarir yfir íslensku þjóðina og bankarnir gerðu.  En hugsunarhátturinn er sá sami: Uppblásnar hugmyndir um eigið ágæti, bókhaldsfiff til að fegra útlitið og þöggun allra gagnrýnisradda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

 • PS. Það er rétt að taka fram að ég hef oftar en einu sinni sótt um stöðu við HÍ (og verið boðin slík staða, þótt ég hafi ekki getað þegið það). Ég hef engar athugasemdir við hvernig fjallað var um þær umsóknir. Enda er sums staðar allt í góðu lagi í HÍ hvað slikt varðar, þótt það sé því miður ekki reglan þar á bæ.

 • Þú ert aldeilis beittur í dag. Gott.
  Kveðja að norðan.

 • Það þarf einhver að segja þetta. Það er erfitt fyrir þá sem þekkja málin best; þeir eiga hefndaraðgerðir yfir höfði sér. En, einhvern tíma mun þöggunin hætta að virka, og flóðgáttin bresta.

 • Þörf grein og mikilvægt að ræða þessi mál. Í ljósi markmiða HÍ um að standast einhvern alþjóðlegan samanburð, þá er núverandi kerfi stigagjafar fyrir birtar greinar, eins og þú lýsir því, fráleitt og vinnur væntanlega gegn settum markmiðum. Hinsvegar er það kannski efni í aðra grein að þessi áhersla á birtingu greina, til að ná metorðum og betri kjörum, sem tröllríður flestum háskólum og alþjóðlegu fræðasamfélagi, umdeilanlega – og getur komið niður á gæðum kennslunnar. Besti prófessorinn sem ég hef haft í gegnum tíðina, í framhaldsnámi mínu í Kanada, var sá sem sagði þessu kerfi stíði á hendur og hætti að keppast við að birta greinar í viðurkenndum tímaritum – heldur einbeitti sér að nemendum sínum og gaf sig allan í það

 • Fróðlegur pistill og margt getur maður tekið undir. Vil þó nefna í sambandi við birtingar að þar getur verið munur eftir fræðasviðum. Af því að ég þekki sagnfræðina best þá finnst mér t.d. að þó að fólk í því fagi eigi hiklaust að stefna að birtingum í alþjóðlegum tímaritum megi ekki gera of lítið úr birtingum innanlands, t.d. í bókum sem gera má ráð fyrir að verði eitthvað lesnar. Science og Nature eru víðlesin en það gildir fráleitt um öll fræðitímarit.

  Bendi hér á bók John Arnolds, History, í vinsælli ritröð Oxford University Press um hin ólíkustu fræðasvið undir yfirskriftinni „A Very Short Introduction“. Þar nefndi Arnold þann vanda að gjáin milli háskólasagnfræðinga og hins almenna lesanda aukist sífellt; þeir sem skrifi greinar í fagtímarit og/eða birti rannsóknir sínar hjá háskólaforlögum geti að öllu jöfnu aðeins vonast til þess að nokkur hundruð manns í mesta lagi lesi afraksturinn. Margt fróðlegt, sem fólk hafi gjarnan áhuga á að vita og þurfi jafnvel að vita, sé því nær öllum hulið undir skikkju sérfræðinga í fræðasamfélaginu (e. „under an off-putting blanket of professional apparatus“). Sjá John H. Arnold, History. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press, 2000, bls. 56–57.

  Til gagns og gamans líka þetta komment hér úr heimi viðskiptafræðinnar (held ég):
  “Each August we come to talk to each other, during the rest of the year we read each other’s papers in our journals and write our own papers so that we may, in turn, have an audience the following August: an incestuous closed loop”.Hambrick, D.C., „1993 Presidential Address: What If the Academy Actually Mattered?“ Academy of Management Review, The Academy of Management Review, Vol. 19, No. 1 (Jan., 1994), pp. 11-16 (tilvitnun á bls. 13)

  Kær kveðja

 • Jón Steinsson

  Góð grein!! Það er með ólíkindum að þetta viðgangist svona lengi og að rektor geti haldið því fram að hún hafi það markmið að bæta vísindastarf skólans á meðan hún gerir ekkert í þessu. Ég skrifaði grein um svipað efni fyrir nokkrum árum: http://www.columbia.edu/~js3204/greinar/F09hvatttilmedalmennsku.pdf

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Já, sæll!

  Nú gæti ég trúað að einhverjum svíði. Djöfull ertu beittur. Flott grein.

 • Matskerfi HÍ ýtir greinilega til fjöldaframleiðslu, lágra gæða og fúsks. Að því sé viðhaldið ár efti ár, þrátt fyrir málefnalega gagnrýni sýnir ýmislegt m.a. að margir standa vörð um það, bæði vegna þess að það færir vissum einstaklingum talsvert fé og er framleiðsluhvetjandi. Finna þarf milliveginn í umbunarkerfi sem ýtir undir framleiðni en vinnur ekki gegn gæðum hennar.

 • Magnús Karl Magnússon

  Sæll Einar:
  Ég vil taka undir orð þín um matskerfið. Það er víðáttuvitlaust. Rök Guðna innihalda sannleikskorn en þau má ekki túlka sem röksemd fyrir því að viðhalda núverandi kerfi, þetta eru einungis rök fyrir því að málið sé flókið.
  Ég hef raunar enga trú á því að hægt sé að búa til eitt kerfi fyrir öll fræðasvið sem umbunar fyrir gæði. Þetta kerfi sem var upphaflega sett til að umbuna í launum er núna auk þess notað til að dreifa peningum milli fræðasvið, veita akademískum starfsmönnum framgang og þannig stýra allri heðgun fræðimanna innan skólans.
  Við vitum öll hvernig léleg umbunarkerfi geta afvegaleitt okkur. Það er sorglegt að horfa upp á hagsmunagæsla samstarfsmanna minna við HÍ í þetta vitlausa umbunarkerfi okkar hér við skólann á sama tíma og við glímum við afleiðingar umbunarkerfis fjármálamanna sem leiddi menn fram af hengifluginu (bæði hér á landi og um allan hinn vestræna heim).

 • Flott grein Einar.

  Guðni, Times Higher tekur tillit til mismunandi birtingahefða milli fræðsviða (sjá: http://www.timeshighereducation.co.uk/world-university-rankings/2011-2012/analysis.html).

 • Álfgeir Logi Kristjánsson

  Góður Einar. Það sem mér finnst sorglegast við þetta er tilhneyging framámanna s.s. rektora HÍ og HR til að koma fram og tala um hlutina eins og þeir séu raunverulegir. Með öðrum orðum felur það í sér þau skilaboð að mikilvægara sé að líta vel út á yfirborðinu en að raunveruleg innistæða sé fyrir hendi. Þetta er því miður mjög algengt heima á mörgum öðrum sviðum en í háskólunum. Yfirborðsmennska er því miður landlægt vandamál.

 • Kristín Jónsdóttir

  Mjög fín og eflaust þörf ádrepa á HÍ. Mig langar aðeins að koma inn á spurninguna með að skrifa (og þá um leið hugsa) á íslensku. Ég vil ekki að það verði einvhers konar kvöð á íslenskum fræðimönnum að mega ekki lengur skrifa (og, aftur sumsé, hugsa) á íslensku. Ég vildi frekar sjá stofnun eins og HÍ vinna harðar að því að vera með góða þýðendur innan sinna vébanda sem gætu sinnt því að koma fræðigreinum yfir á önnur tungumál. Það væri alveg hægt að byggja upp þýðingamiðstöð, líkt og hefur verið gert í Utanríkisráðuneytinu, þar sem hæft fólk starfaði og sæi um að þýða jafnóðum það sem þætti vert birtingar á alþjóðavettvangi. Þýðingamiðstöð Utanríksráðuneytisins er ein af fáum deildum sem hefur blómstrað undanfarið og staðið í massívum ráðningum. Enda eru þýðingar einmitt starfið sem sem flestir ættu að benda ungu fólki í dag að leita í, þar er framtíðin.

 • Torfi Stefánsson

  Mér finnst þetta nú ómakleg árás á Jón Torfa. Hann er einhver besti kennarinn við þessa blessaða stofnun – og stendur vörð um réttindi nemenda sinna þegar aðrir kennarar níðast á þeim.
  Það mætti beina sjónum að öðrum en honum – og hvernig ákveðnir aðilar innan skólans eru gjörsamlega óhæfir þó svo að þeir hafi birt einhvað fleiri greinar í lélegum erlendum tímaritum …

 • Þó erfitt sé, þá er mikilvægt að láta umræðuna ekki snúast um persónur, hver hafi gert hvað og hver sé merkilegur og hver ekki. En vissulega er það leiður siður að tala upp eigið ágæti 🙂 Ef að frammámenn eru lélegir akademíkar, þá er líklegt að þeir ýti ekki undir góða akademík og því ætti akademían að vera hörð á því að velja gott fólk til þeirra starfa.

 • Vel má vera að Jón Torfi sé góður kennari (þótt nemendur eigi ekki alltaf auðvelt með að átta sig á hvaða kennarar eru í raun góðir, en ekki bara vinsælir).

  Mér finnst hins vegar skipta máli að benda á þegar fólk í æðstu stöðum nær ekki máli á þeim mælikvörðum sem stofnun eins og HÍ segist sjálf leggja til grundvallar, og sem eru óumdeildir í alþjóðasamfélaginu sem skólinn segjast vilja standa framarlega í. Ekki síst þegar sama valdafólk berst fyrir því með kjafti og klóm að þess líkum sé hampað innan skólans, en ekki þeim sem standast kröfurnar sem gerðar eru.

  Hitt er annað mál að mér finnst háskólar almennt gera allt of litlar kröfur til gæða og afraksturs kennslunnar. Hins vegar á ekki að vera nóg í rannsóknaháskóla að vera góður kennari, eins og gefur auga leið.

  Góðir kennarar sem ekki valda rannsóknastarfi eiga heima í þeirri tegund skóla sem 80% íslenskra háskólanema ættu að vera í (eins og í öðrum löndum með jafn hátt hlutfall háskólanema), þ.e.a.s. því sem kallast „community colleges“ í USA, eða „högskola“ í Svíþjóð. Þar væri líka hægt að umbuna þeim vel sem eru góðir kennarar, og gera miklu meiri kröfur til kennslunnar.

  En í íslensku ríkisháskólunum fá allir fastráðnir kennarar 40% af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir, sem margir þeirra hafa aldrei gert, og margir í viðbót stunda „rannsóknir“ sem eru svo lélegar að þær fást ekki birtar í sæmilegum alþjóðlegum tímaritum.

  Háskóli Íslands (eins og reyndar allir háskólar á landinu) lifir í lygi, um sjálfan sig og starfsfólk sitt. Það veldur því að sannleikanum er einlægt snúið á hvolf, svo ekki er einu sinni hægt að halda uppi vitrænni umræðu, ekki frekar en í aðdraganda hrunsins á Íslandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur