Þriðjudagur 15.11.2011 - 23:30 - 20 ummæli

Blóð handa hrægömmum, kökur handa fólkinu

(Það er búið að segja þetta mörg hundruð sinnum, en það virðist ekki nægja …)

Eftir því sem ég best veit hefur eftirfarandi margendurteknu staðhæfingum ekki verið mótmælt:

 • Núverandi eigendur Arionbanka og Íslandsbanka (sem leynd hvílir yfir hverjir eru) fengu þá upp í kröfur sem þeir áttu á bankana fyrir hrun.
 • Þessir bankar (og Landsbankinn líka, sem er að mestu í ríkiseigu) yfirtóku lán í eigu gömlu bankanna, þar á meðal mikið af húsnæðislánum, með gríðarlegum afslætti.
 • Bankarnir geta engu að síður innheimt þessi lán að fullu, og af hörku, sem þeir gera í mjög mörgum tilfellum.
 • Bankarnir hafa grætt hátt í tvö hundruð milljarða frá hruni.
 • Þar sem ríkið yfirtók bankana í hruninu var það ríkið sem bar ábyrgð á hvernig staðið var að samningum við kröfuhafana sem nú eiga þá.

Í stuttu máli starfa hrægammarnir sem eiga bankana í skjóli ríkisins, sem fyrst seldi þeim húsnæðislán á brunaútsölu, og nú horfir aðgerðalaust á hvernig þeir mergsjúga skuldara, meðal annars í krafti mikillar verðbólgu frá hruni, og verðtryggingar sem ríkisstjórnin neitar að hrófla við.

Augljóst virðist að hér hafi eitthvað farið illilega úrskeiðis.  Hver ber ábyrgð á því, og af hverju er ekkert gert í málinu?

Mikill fjöldi þeirra sem skulda þessi húsnæðislán er að kikna undan þeim, eða hefur að minnsta kosti tapað ævisparnaðinum og sér fram á að eyða áratugum í að borga niður stórhækkaðan höfuðstól.

Á þetta hefur ríkisstjórnin horft í bráðum þrjú ár, og þrátt fyrir gríðarlega óánægju meðal almennings heldur hún áfram að svara út í hött.  Nú síðast var það Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem rakti allt það sem ríkisstjórnin væri að gera, án þess að nefna neitt sem  ástæða er til að ætla að leysi nema örlítinn hluta vandans, hvað þá að það fjarlægi sjálft meinið.

Eins og systurflokkurinn í ríkisstjórn, VG, hefur þetta fólk lært sína lexíu, en hjá vitlausum lærimeistara.  Nefnilega hjá Maríu Antoinette, sem ráðlagði fólkinu að borða bara kökur úr því að það ætti ekki brauð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

 • Leifur A. Benediktsson

  Ég hef oft velt því fyrir mér eftir hið svokallaða Hrun,hversu auðsveipir bankarnir og eða vogunarsjóðirnir sem ,,eiga“ þá, eru í því að skuldahreinsa Hrunvalda.

  Má það vera að þeir (Hrunvaldar) og hrægammarnir eru einn og sami aðilinn?

 • Pétur Örn Björnsson

  Það er rétt hjá Einari að það virðist vera alveg sama hvað margar
  afhjúpanir um spillingu og glæpsamlega gjörninga líta dagsins ljós
  og það í krafti óskýrra laga og eða „lagasniðgöngu“, þá aðhefst
  löggjafarþingið ekkert í málunum, alls ekkert! Framkvæmdavaldið heldur sínu striki áfram eins og einhver djöfulleg maskína, sem er kölluð „kerfið“
  og svo þusum við og þusum og endum svo í muldri og vanmætti gagnvart þessari helvítis maskínu, þessu vélræna „kerfi“. En er það bílnum að kenna ef ökumaður keyrir honum á mann og drepur?

  Hver ber ábyrgð? Ber enginn ábyrgð?

  Ég skil alltaf minna og minna hvernig heilabú þingmanna virkar.
  Mér verður það alltaf meiri og meiri og eiginlega lamandi ráðgáta.
  Og kannski frekar, hvað gerist eftir að þeir ganga inn fyrir musterisdyrnar?
  Verða þeir einhvers konar lokaður og samtryggður klúbbur frímúrara?
  Gleyma þeir því algjörlega, sem er grundvöllur tilveru þeirra í musterinu
  að þeir eru fulltrúar almennings og þiggja umboð sitt frá honum.

  Treysta þeir svo mjög á kjörtímabilið, sín 4 ár, að á þeim tíma megi þeir ljúga og svíkja og pretta kjósendur sína eins og þeim sýnist, algjörlega ábyrgðarlaust? Hafa þeir þá ekki gleymt sjálfu frumskilyrði allra laga,
  að öllum réttindum fylgja jafnframt skyldur og ábyrgð? Og það gagnvart þeim sem þau þiggja umboð sitt frá.
  Er það þingmönnum gleymt hvaðan þeir þiggja umboð sitt frá?
  Búum við í lýðræði eða ríkir hér hirðræði?

  Það fór að lokum illa fyrir Maríu Antoinette, hún var hálshöggvin!

 • Pétur Örn Björnsson

  Hverjir bera ábyrgð, þiggja td. ekki Steingrímur J. og Árni Páll vald sitt frá okkur vesalingunum, Les Miserables?:

  http://eyjan.is/2011/11/15/erlendir-vogunarsjodir-hafa-flutt-76-milljarda-af-106-milljarda-auknu-virdi-bankanna-ur-landi/

 • Leifur A. Benediktsson

  Pétur Örn Björnsson,

  4FLokkssamtryggingin nær útfyrir gröf og líknardauða. Skýrsla RNA afhjúpaði viðbjóðinn að mestum hluta.

  Undir glansandi yfirborði slepjunnar er hyldýpisgjá spillingar og viðbjóðs sem er hulið okkur skattpínandi almúgans.

  Gapastokkinn ætti að reisa fyrir utan Alþingi og musterishalla FLokksmaskínanna.

  Í komandi kosningum verðum við að koma óhroðanum af höndum okkar. Þetta er allt í okkar valdi.

  May the force be with you!

 • Pétur Örn Björnsson

  Hárrétt Leifur, það er ekki hægt að bjóða framtíðinni upp á þetta helvíti.
  Og hreinsunareldurinn verður magnaðri en Dante sjálfur lýsir.

 • Leifur A. Benediktsson

  Pétur Örn,

  Í komandi kosningum minn kæri,liggur tækifærið. Lýðræðið er dásamlegt,en byltingin er ennþá betra afl almúgans. Það sannaðist í Búsó forðum.

  Ekkert fæst ókeypis,franska byltingin er okkar fyrirmynd ekki satt?

 • Örn Stefánsson

  Hvernig væri að fólk borgi einfaldlega þær skuldir sem það sjálft til eða fari bara á hausinn? Gjaldþrot einstaklinga er ekkert sem var fundið upp við efnahagshrunið, og ef eitthvað er að marka þessa frétt

  http://eyjan.is/2011/05/03/faerri-gjaldthrot-einstaklinga-ad-medtaltali-eftir-hrun-en-fyrir/

  þá hefur þeim hreinlega fækkað. Og það þótt gjaldþrotalög hafi verið milduð. Ég set reyndar fyrirvara við þetta, því þetta passar svo illa við þann ískrandi grátkór sem hefur viðgengist hér síðan í hruninu, ég hálfpartinn trúi þessu ekki. Og síðan þetta að fólk tapi ævisparnaðinum eða sé lengur að borga lánið vekur ekki mikla samúð hjá mér, það er dýrt að kaupa eigið húsnæði, og ef maður ákveður að kaupa hús í stærstu eignabólu í sögu Íslands (og takir þar með þátt í að blása hana upp) þá er ekki skrýtið þótt það kosti mann eitthvað. Og er eitthvað sanngjarnara að ævisparnaður sumra („fjármagnseigenda“) fari í að niðurgreiða húsnæðiskaup annarra? Ekki fá þeir að búa í húsinu sem lántakendurnir ákváðu að kaupa.

  Og þessi rök um að bankarnir hafi keypt lánin svo ódýrt og að þess vegna eigi að niðurfæra (eða „leiðrétta“) lán eru algjört bull, ef það er þá yfirhöfuð rétt að bankarnir hafi stórgrætt svona á þessu. Ef aðili A lánar aðila B einhverja upphæð og selur síðan aðila C lánið á einhverju verði sem A og C koma sér saman um, af hverju ætti B þá að græða eitthvað á því ef C kaupir á undirverði? Ætti lánið þá líka að hækka ef C kaupir á yfirverði? Og hvað með þá sem eru með lán sem skipta ekki um hendur? Fá þeir þá enga lækkun?

  Og ef ríkisstjórnin kemst í þennan meinta ofsagróða bankanna þá ætti hann að fara í það að minnka niðurskurð, minnka skattahækkanir eða einfaldlega að greiða niður skuldafjallið sem þið eldri kynslóðirnar voru svo elskulegar að arfleiða okkur yngra fólkið að.

  Í rauninni held ég að það hafi verið gert allt of mikið í því að „leiðrétta“ skuldir. Nú finnst fólki að það verði bara að vera með aðeins meiri frekju, bulla aðeins meira um verðtrygginguna, skrifa aðeins fleiri greinar eins og þína, mæta á Austurvöll til að grýta hina misgáfuðu þingmenn sem hætta sér í það hataða starf, og þá fái það aðeins meiri „leiðréttingu“. Er ekki sagt að ef maður réttir djöflinum litlaputta þá heimti hann allan handlegginn? Það eru greinilega ansi margir litlir djöflar hér á Íslandi, ekki bara Ólafur Ólafsson og slíkir útrásarfávitar. Þeir eru bara stóru djöflarnir sem komust í mesta peninginn og bestu klíkurnar í „góðærinu“.

 • Pétur Örn Björnsson

  Og Örn finnst þér það bara í lagi að „stóru djöflarnir“ séu bara uppvaktir í samfloti með hrægömmum stórbanka úti í heima og vogunarsjóða þeirra?
  Það er hið vanhæfa þong og hin vanhæfa ríkisstjórn sem hafa vakið þessa
  „stóru djöfla“ upp úr gröfum Hrunsins, sem þeir orsökuðu að srærstum hluta.
  Finnst þér það bara í lagi, eða hef ég misskilið þig eitthvað?

 • Örn Stefánsson

  Nei, besta lausnin væri náttúrlega að gera upptækar allar eigur þessarra fávita og nota þær til að borga niður skuldir ríkisins. Það er samt spurning hvort það er yfirhöfuð hægt með tilliti til laga og þess klíkuskapar sem virðist vera í dómskerfinu. En ég myndi fagna öllum skrefum í þá átt.

  En mér finnst ansi merkilegt að fólk noti eitt óréttlæti til að réttlæta annað. Það býsnast yfir því að Ólafur Ólafsson fái afskrifað, en vill síðan það nákvæmlega sama fyrir sjálft sig. Svona svipað og ef einhver geðsjúklingur kæmist af einhverjum ástæðum upp með 100 morð og ég myndi síðan heimta að fá að fremja eitt.

 • Sjáum nú til: það hefur aldei staðið til að leiðrétta eitt né neitt og verður ekki gert.
  Eina leiðin til að koma á einhverju réttlæti er að almenningur taki málin einfaldlega í sínar hendur – þ.e. bylting og hreinsi út liðið á alþingi.
  Engin af fjórflokknum mun nokkru sinni hreyfa litla fingur til hjálpar almenningi. Til þess eru hagsmunir þeirra of nánir. Óbreytt kerfi er þeirra hagsmunir.
  Kveðja að norðan.

 • Pétur Örn Björnsson

  Eða ertu Örn staddur í einhverjum „vestra“, td. „The Good, Bad and Ugy“,
  og vilt meina að þingmenn séu góðu og drottinn blessi heimilið gæjarnir,
  en venjulegt fólk sem skuldaði td. 70% í heimili sínu fyrir Hrun,
  en skuldar nú 95% vegna samanlagðra áhrifa stökkbreytingar verðtryggingarinnar og eignabrunans og lækkandi söluverðs,
  sé vonda fólkið, „The Bad“, litlu djöflarnir, skv. þinni skilgreiningu,
  þeas. hafi ég skilið þig rétt? Hverjir þá hinir „Ugly“?

 • Pétur Örn Björnsson

  Örn, ég var að skrifa aths. hér fyrir ofan og sá því ekki þína nýjustu.
  Við erum þá alla vega sammála um hverjir eru „stóru djöflarnir“.

 • Pétur Örn Björnsson

  Ég er sammála Leifi og Arinbirni, einhvers konar bylting er líkast til eina lausnin til að knýja fram raunverulegt jafnræði, frelsi og samkennd
  og dass af réttlæti og gegnsærri nálgun viðfangsefnanna af einörðum heiðarleika.

 • Hver ber ábyrgð?

  Þarf að spyrja að því?

  Ríkisstjórnin að sjálfsögðu með forsætisráðherra og fjármálaráðherra fremsta í flokki.

  Þetta fólk þarf að draga fyrir Landsdóm.

 • Jónas Kr.

  Einar, eru ekki mótsagnir í þessum málfluttningi hjá þér?

  Þú segir „Núverandi eigendur Arionbanka og Íslandsbanka (sem leynd hvílir yfir hverjir eru) fengu þá upp í kröfur sem þeir áttu á bankana fyrir hrun.“

  Þú segir einnig „Bankarnir hafa grætt hátt í tvö hundruð milljarða frá hruni.“

  Bankarnir hafa þurft að afskrifa kröfur uppá nokkur þúsund miljarða, því er þetta ekki hagnaður fyrir kröfuhafa, heldur aðeins minni afskriftir.

  Hver á að leiðrétta? á Alþingi að setja lög td. um lækkun vísitölu? Hvað ef það stenst ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrár? Þá fær ríkið = skattgreiðendur kröfuna í hausinn og þurfa að borga.

 • Hannes I. Hallgrímsson

  Þetta er rétt hjá þér, Einar Steimgrímsson.

  Góður pistill með þörfum og athyglisverðum ábendingum.

 • Jónas: Ég sé ekki mótsögn í því að finnast óeðlilegt að bankarnir hafi yfirtekið húsnæðislán með miklum afslætti, en innheimti þau af fullri hörku, og fá verðbætur á þau að fullu. Þvert á móti finnst mér óhuggulegt ef það á að bæta kröfuhöfum bankanna tap sitt með því að leyfa þeim að blóðmjólka húsnæðislánaskuldara, sem enga ábyrgð bera á tapinu.

  Það sem er þó verst við þetta er að Alþingi hefði verið í lófa lagið að taka verðtrygginguna úr sambandi, með því að frysta vísitöluna. Í staðinn hefur verðtryggingin fært bönkunum sex milljóna aukna eign, úr vasa skuldarans, fyrir 15 milljóna lán tekið fyrir hrun. Mér er fyrirmunað að skilja hvaða vit er í því, svo maður tali nú ekki um réttlæti.

 • Pétur Örn Björnsson

  Fjármagnseigendunum allt … það var stefna slita-Hrun-stjórnarinnar

  Fjármagnseigendunum allt … það er stefna skila-Hrun-stjórnarinnar

  Og Jóhanna og Össur voru og eru í þeim báðum. Er það ekki skrýtið?

 • Skýrt á mannamáli:

 • Margret S

  Örn Stefánsson, þú segir „En mér finnst ansi merkilegt að fólk noti eitt óréttlæti til að réttlæta annað. Það býsnast yfir því að Ólafur Ólafsson fái afskrifað, en vill síðan það nákvæmlega sama fyrir sjálft sig. Svona svipað og ef einhver geðsjúklingur kæmist af einhverjum ástæðum upp með 100 morð og ég myndi síðan heimta að fá að fremja eitt“.

  Munurinn á venjulegu fólki sem situr uppi með engar eignir eftir að hafa lagt sparnað sinn (já, sumir spöruðu fyrir útborgun í húsnæði og mönnum eins og Ólafi Ólafsyni og fleirum af hans sauðahúsi er mjög mikill. Ólafur og co fá allt afskrifað úr félögum sem þeir hafa stofnað, en síðan halda þeir öllum sínum eignum sem urðu til á bólutímanum. Þar með talið öllum peningainnistæðum, lúxus húsnæði, lúxus bíla o.s.fr. Þessir menn lifa eins og greifar í Evrópu. Á meðan þrælir skóflupakkið allan daginn. En þér er greinilega sama um almenning, Örn Stefánsson. Ég er t.d. ein af þeim sem átti meira en 50% í húsnæði mínu árið 2005 og núna er ekkert eftir. En það er bara sanngjarnt ekki satt Örn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur