Þriðjudagur 07.02.2012 - 12:54 - 32 ummæli

Vilhjálmur Þorsteinsson og Gamla Ísland

Vilhjálmur Þorsteinsson skrifaði bloggpistil í gær um niðurfærslu lána, þar sem hann kemst í aðalatriðum að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fara í neinar róttækar aðgerðir, en leggur til mildari aðgerðir á lengri tíma. Þetta er ágætis pistill að því leyti að Vilhjálmur færir ítarleg rök og gögn fyrir máli sínu, og því er þetta gott innlegg í málefnalega umræðu (þótt sjálfsagt verði margir til að gera athugasemdir við ýmsar staðhæfingar Vilhjálms).

Ég efast ekki um að Vilhjálmur hafi margt til síns máls, þótt ég ætli ekki fara í saumana á því sem hann segir. Mér finnst hitt nefnilega mikilvægara, að málflutningur Vilhjálms byggir á forsendu sem auðvitað er hægt að aðhyllast, en sem ég tel vera svo meingallaða að tilgangslítið sé að ræða niðurstöður og tillögur Vilhjálms eins og þær standa.

Vilhjálmur gengur nefnilega út frá því að það efnahags- og stjórnmálakerfi sem við búum við sé í aðalatriðum í lagi, eða að minnsta kosti að ekki sé annað í boði en að gera lagfæringar á því til að sníða af verstu vankantana.

Ég tel, þvert á móti, að íslenska valdakerfið sem drottnað hefur yfir efnahagslífi og stjórnmálum landsins í áratugi sé gegnrotið af spillingu, og gersamlega ófært um, og óviljugt, að gera þær grundvallarbreytingar sem gera þarf til að hagsmunir almennings séu ekki endalaust fyrir borð bornir í þágu hinna útvöldu ræningjakapítalista.

Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur nýlega lagt til að ríkið yfirtaki húsnæðisskuldirnar sem bankarnir keyptu með miklum afslætti, og greiði aðeins það verð sem bankarnir greiddu fyrir þær, og það notað til að færa þær niður. Miðað við reynsluna af íslensku bönkunum síðustu árin tel ég að það eigi að ganga skrefi lengra og yfirtaka bankana alveg. Segja kröfuhöfum að kröfur þeirra yrðu skoðaðar í rólegheitum, þeir fengju peningana ef til vill til baka, þó aldrei meira en þeir borguðu, og það gæti tekið mörg ár, jafnvel áratugi áður en þeir fengju þá. Alveg sérstaklega myndu engir kröfuhafar sem áttu þátt í að setja Ísland á hliðina fá krónu tilbaka ef þeir hafi verið svo ósvífnir að kaupa kröfur í bankana.

Það vill nefnilega svo vel til, að kostnaðurinn sem Vilhjálmur telur að yrði af niðurfærslu lána í takt við tillögur Hagsmunasamtaka Heimilanna, um 260 milljarðar, er nokkurn veginn það sem bankarnir hafa grætt frá hruni.

Það ætti ekki að þurfa að bera í þann bakkafulla læk sem eru dæmin um brjálæðisleg mistök, lögbrot, yfirgang og stjórnlausa græðgi sem einkennt hefur íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf, og sem ekki er að sjá að verið sé að koma í veg fyrir að endurtaki sig. En, það er kannski, þrátt fyrir allt, nauðsynlegt að rifja upp nokkur dæmi:

  • Íslensku bankarnir voru gefnir vildarvinum stjórnmálamanna. Þeir voru ekki bara tæmdir heldur fyrst blásnir svo upp að gjaldþrot þeirra eru þrjú af tíu stærstu gjaldþrotum mannkynssögunnar. Miðað við höfðatölu voru þessi gjaldþrot um tvö hundruð sinnum stærri en samanlögð tvö stærstu gjaldþrotin í sögu Bandaríkjanna (Lehman Brothers og Washington Mutual).
  • Íslensku lífeyrissjóðirnir sem eru undir stjórn samkrulls kapítalista, verkalýðsforystunnar og stjórnmálamanna, tóku þátt í brjálæðinu sem olli hruni hagkerfisins, en þar ber enginn neina ábyrgð, og nánast enginn forkólfa þeirra hefur sagt af sér, hvað þá verið rekinn.
  • Og svo eitt lítið, en talandi dæmi: Fyrirtækið sem rekur Ja.is hefur verið til umfjöllunar vegna þeirrar sérkennilegu ákvörðunar að láta kvenfyrirlitningarpostula „hanna“ símaskrána. Það er að vísu illskiljanlegt af hverju þarf að gera annað við símaskrána en að gefa hana út óskreytta. En verður skiljanlegra að fyrirtækinu detti þvílíkt rugl í hug þegar í ljós kemur að hér er um að ræða þess konar yfirgengilegan einokunarkapítalisma, í skjóli ríkisvaldsins, sem margir héldu að enginn treysti sér lengur til að verja opinberlega. Ofsagróði af því tagi sem þetta fyrirtæki (í eigu fjárfestingasjóðs) hefur rakað saman gerir forsvarsmönnum þess nefnilega kleift að stunda úrkynjað rugl af því tagi sem fyrir hrun fólst helst í því að leggja sér gull til munns, í bókstaflegum skilningi.

Það má vel vera að málflutningur Vilhjálms Þorsteinssonar væri góðra gjalda verður ef við létum okkur nægja að lappa aðeins upp á þetta sjúka valdakerfi, og sættum okkur við að gullæturnar væru skammaðar svolítið öðru hverju. Ef við viljum nýtt Ísland, í stað þess sora sem gegnsýrir allt valdakerfið nú, þá þarf hins vegar annars konar aðgerðir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (32)

  • Það að halda að það hafi ekki einhverjar afleiðingar að stela fjármunum, eins og þú og Gunnar eruð að leggja til, er besta falli einfeldingsháttur og versta falli ótrúleg heimska.

    Ég bara skil ekki á hvaða tímapunkti var ákveðið hér á landi að þjófnaður væri í lagi.

  • Ég veit heldur ekki „á hvaða tímapunkti var ákveðið hér á landi að þjófnaður væri í lagi.“ En það er nokkuð langt síðan.

  • Ég segi komdu skítugum lúkunum þínum úr mínum vasa. Það er fólk eins og ég sem mun borga fyrir heimsku fólks í fasteignakaupum ef ríkið ætlar að fara að moka undir of skuldugt fólk.
    Við sem fórum varlega og fannst fasteignaverð allt of hátt í nokkur ár fyrir hrun við neytum að borga fyrir heimsku annara.

  • Ég fór „varlega og fannst fasteignaverð allt of hátt í nokkur ár fyrir hrun“ og ég vil helst neita að borga fyrir heimsku, grægði og þjófnað annara. Hins vegar vil ég að ofsagróði bankanna sem keyptu húsnæðisskuldirnar með gríðarlegum afslætti verði notaður til að færa niður lán fórnarlamba þeirra sem með heimsku, græðgi og þjófnaði settu landið á hliðina, og fjárhag þúsunda saklausra borgara í uppnám.

  • Einar Guðjónsson

    Það er kannski allt í lagi að fara leið Vilhjálms en þá þarf auðvitað að taka upp örlætisgjörning ríkissjóðs gagnvart innistæðueigendum við hrun og leiðrétta allar greiðslur umfram 3 milljónir.

  • Finnur Birgisson

    Einar Guðjónsson, hvað áttu við með „örlætisgjörningi ríkissjóðs gagnvart innistæðueigendum við hrun?“
    Vilhjálmur færir fram sannfærandi rök fyrir því að sá gjörningur hafi ekki kostað ríkissjóð/skattgreiðendur neitt, heldur hafi afleiðingin eingöngu komið fram í því að kröfuhafar gömlu bankanna, les: útlendir bankar, fengu enn minna í sinn hlut en ella.

  • Örn Stefánsson

    Fyndið hvað allar þessar róttæku réttlætishugmyndir um „Nýtt Ísland“ o.s.frv. miða allar að því að niðurgreiða um einhver prósent góðærisskuldir sumra. Hvernig væri að allir peningar sem hægt er að krúnka út úr vondu kapítalistunum færu í að rétta af ríkissjóð af, eða rétta af skyldusparnaðinn í lífeyrisjóðunum, eða minnka niðurskurð hjá ríkinu, eða minnka skattahækkanir?

  • Einar – það lifir enn í þínum gömlu byltingarglæðum. Tillaga þín: „Miðað við reynsluna af íslensku bönkunum síðustu árin tel ég að það eigi að ganga skrefi lengra og yfirtaka bankana alveg.“ er tillaga um að fara út fyrir ramman – og það er bylting. Er einhver forysta fyrir slíkum aðgerðum? Þú skrifar: „Vilhjálmur gengur nefnilega út frá því að það efnahags- og stjórnmálakerfi sem við búum við sé í aðalatriðum í lagi, eða að minnsta kosti að ekki sé annað í boði“. Að ganga út frá einhverju öðru en núvernadi kerfi er aftur: bylting. Búsáhaldabyltingin var ekki bylting. Við lærðum það í okkar sellum hér áður fyrr að bylting er: bylting. Ekki lautarferð með nesti og dúk til að breiða á grasið.

  • Eftirfarandi talnaruna sýnir hlutfall á milli markaðsverðs fermeters í fjölbýlishúsi samkv. Þjóðskrá á móti verði fermeters í vísitöluhúsi Hagstofunnar árin 1999 til 2011.

    1999 1,23
    2000 1,46
    2001 1,49
    2002 1,43
    2003 1,47
    2004 1,57
    2005 1,97
    2006 2,06
    2007 2,11
    2008 1,94
    2009 1,62
    2010 1,40
    2011 1,38

    Tölurnar bera með sér að fólk sem keypti sér eign á árunum 2005 til 2008 mátti búa við allt aðrar forsendur fjárhagslega en þeir sem keyptu á undan og eftir þessa tímabils sem einkennist af mikilli eignabólu.

    Af hverju varð þessi eignabóla? Vegna þess að „ódýrt“ fjármagn fékk að flæða hindrunarlaust út á markað fyrir almenna neytendur. Til staðar var ótæpilegt magn fjármagns (nú í gjörgæslu Seðlabanka) á góðum kjörum og íbúðaverð snarhækkaði fyrir bragðið. Gamalt lögmál um framboð og eftirspurn. Það var ekki í anda frjálshyggjunnar að grípa inn í, þannig var hagstjórn ísl. stjórnvalda sem við kusum.

    Hver ber ábyrgðina? Fólkið sem keypti sér íbúð? Stjórnvöld? Við sem kusum þessi stjórnvöld?

  • Finnur Birgisson

    Markaðsverð hvar, Stebbi?

  • Finnur Birgisson, Þjóðskrá Íslands undir verðsjá fasteigna.

    http://www.skra.is/Markadurinn/Verdsja-fasteigna

  • Hjálmtýr: Það má alveg kalla það sem ég kalla eftir byltingu, þótt ég sé ósammála því að yfirtaka íslenska ríkisins á bönkunum, eftir það sem á undan er gengið, sé ómöguleg án þess að bylta í raun stjórnskipulaginu.

    Mér finnst við hins vegar vera komin í aðra stöðu en við vorum í fyrir 10-20 árum, að því leyti að það er orðið ljóst, tel ég, að núverandi kapítalíska kerfi er með innbyggðar mótsagnir sem það ræður ekki við að hemja (þótt þær séu af öðru tagi en því sem við kommúnistarnir héldum fram fyrir 35 árum).

    Ég er sem sé ekki að leggja til neins konar sósíalisma í venjulegri merkingu þess orðs, og ég er alls ekki fráhverfur markaðshagkerfi, hvað þá frjálsu einkaframtaki. Hins vegar held ég að við getum ekki til lengdar lifað við þann óhefta ræningjakapítalisma sem svo erfitt virðist vera að hemja við núverandi aðstæður. Það þarf því umgjörð og eftirlitsstofnanir af miklu öflugra tagi en við höfum nú, til að koma í veg fyrir það alræði auðmagnsins sem hefur sett allt í kaldakol á síðustu árum.

    Ég hef sannarlega engar lausnir á reiðum höndum, en mér finnst það ekki næg ástæða til að sætta mig við núverandi ástand (auk þess sem ég hef ekki áhuga á því sjálfur að fara út í stjórnmál, en þá myndi ég eyða tíma mínum í að reyna að koma með hugmyndir í meiri smáatriðum en ég geri).

    Varðandi bankana er ég sannfærður um að það væri gott, og mögulegt skref, að yfirtaka þá, á þeirri forsendu að um þá gildi það sama og t.d. orkuframleiðslu og -dreifingu: Þetta eru lífsnauðsynleg þjónustusvið fyrir þjóðfélagið, og það hefur sýnt sig að einkavæðing virkar ekki.

    Um fram allt er ég að reyna að segja að við getum ekki haldið áfram eins og við höfum gert. Það þarf að gera róttækar breytingar, og ef það er útilokað að yfirtaka bankana, hvernig svo sem farið væri að því (og þ.á.m. hvernig bætur sem kæmu fyrir), þá er tómt mál að tala um að við getum breytt því sem þarf að breyta í grundvallaratriðum.

  • Finnur Birgisson

    Stebbi, ég meinti auðvitað hvar á landinu, ekki hvar á netinu.

  • Ómar Kristjánsson

    Já, en segjum sem svo að þetta að ,,yfirtaka bara bankanna“ o.s.frv., væri skynsamlegt og einmitt það sem ætti að gera – að þá er þessi hugmynd alveg óraunhæf. þ.e.a.s. að það er ekki meirihluti á Alþingi fyrir þessu og eg dreg stórlega í efa að margir myndu styðja þetta í kosningum.

    þetta er þar af leiðandi alveg óraunhæft og orkueyðsla að einblína á þennan möguleika. þetta er ekki að fara að gerast á Islandi 2012 sko.

    Með því að einblína svona á óraunhæfleikann – þá minka möguleikarnir til hófsamra breitinga.

  • Valur Bjarnason

    Ég keypti hús um áramótin 2005-2006 og tók lán fyrir helming upphæðarinnar. Þannig var ég með veðsetningu upp á 50% eða átti sem sagt helminginn í eigninni. Ég er búinn að borga samviskusamlega af láninu en samt er veðhlutfall komið upp í 80%, þ.e. ég á 20% í eigininni.

  • Fyrirgefið hvað þetta hljómar aulalega, en …: „Hófsamar breytingar“ munu ekki leiða af sér annað en „hófsamar breytingar“. Það þýðir að litlar breytingar yrðu gerðar á kerfi sem er svo gegnrotið af spillingu og fúski að „hófsamar breytingar“ yrðu álíka áhrifaríkar og að gefa líki C-vítamín.

  • Ég er t.d. alveg tilbúinn að skoða í alvöru að aðgreina viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, Einar – þannig að viðskiptabankar verði aftur „þjónustustofnanir“ en áhættufíknin verði afmörkuð annars staðar.

  • Finnur Birgisson // 7.2 2012 kl. 18:56. Þetta er ársmeðaltal í Reykjavík á móti fermertraverði Hagstofu fyrir júní ár hvert.

  • Mér sýnist grundvöllur á skoðanasátt milli ykkar Vilhjálms, Einar.

  • Ég var búinn að skrifa langt innlegg, sem virðist hafa horfið, til að svara Gísla og Vilhjálmi. Ég nenni ekki að skrifa það allt aftur, svo ég segi bara í stuttu máli:

    Mér finnst gott að sjá Vilhjálm tala um að skilja að viðskipta- og fjárfestingabanka.

    Ég er viss um að hægt er að finna sæmilega sátt í niðurfærslumálinu, eins og flestum málum, ef einlægur vilji er til að gera eitthvað meira en kattarþvott í málinu af hálfu stjórnvalda. Og geri mér grein fyrir að maður fær aldrei allt sem maður vill við slíkar aðstæður, þótt mér finnist sjálfsagt að setja fram kröfur um það sem manni finnist eðlilegast og skynsamlegast.

    Ég hef hins vegar ekki skipt um skoðun á því að það valdakerfi sem ríkt hefur á Íslandi (og miklu víðar, auðvitað) er gegnrotið, og að það þurfi að rústa til að hægt sé að byggja eitthvað þokkalegt.

  • Ólafur St. Arnarsson

    Persónugerum vandann. Séra Jón lánar Jóni fyrir húsi. Afborganir af láninu klikka aldrei þar til dag einn að þá kemst Jón að því að séra Jón hefur kynferðislega misnotað nýfermda dóttur sína. Það er ekki séns í helvíti að Jón geti hugsað sér að greiða af láninu og hættir því. Húsið er selt og hann situr uppi með nýtt lán sem hann þarf að standa skil á gagnvart séra Jóni því lánið stóð í hærri tölu en söluverð hússins. Ef Jón passar sig á því að eiga ekki eyri næstu 2 árin þá fær séra Jón ekki meir. En ef séra Jón kemst að því að Jón hefur náð að nurla einhverju saman þá getur hann tekið það. Séra Jón var sýknaður af ákæru um að hafa kynferðislega misnotað dóttur Jóns. Ekki þótti sýnt með óyggjandi hætti að lögbrot hafi átt sér stað.

  • Stebbi: essi verðhækkun á fermetra má að stærstum hluta rekja til kosningaloforða frammsóknarmanna 2003, en Geir Haarde hefur viðurkenn í skýrslu Alþingis að þessi stefna hafi veriið óðs manns æði, en Sjálfstæðismenn hafi þurft að samþykkja þessa stefnu til þess að fá þá með í ríkisstjórn, þetta hafi verið gjaldið.

  • Örn Stefánsson

    Einar Steingrímsson: Nú byggja þessar hugmyndir þínar og Gunnars Tómassonar nokkurn veginn á því að færa peninga frá „ræningjakapítalistum“ til ríkisins. Það á síðan að nota til að lækka húsnæðiskuldir um einhver prósent. Ég skal láta það vera hversu raunhæft þetta allt saman er og láta eins og það sé minnsta málið að framkvæma þetta allt. En af hverju í ósköpunum á peningurinn að fara í að niðurgreiða húsnæðisskuldir frekar en það að

    rétta af ríkissjóð?
    rétta af lífeyrissjóði sem fólk er skyldugt til að spara hjá?
    minnka niðurskurð hjá ríkinu?
    minnka skattahækkanir?

    Af hverju í fjandanum finnst þér þessir hlutir vera neðar á forgangslistanum en það að niðurgreiða góðærisskuldir, og það þeim mun meira eftir því sem skuldin er hærri?! Hvað gerir slíkt annað en að verðlauna ábyrgðarleysi, að eyða peningum annarra án þess að líta á verðmiðann? Hvernig í ósköpunum passar þetta inn í þetta nýja samfélag sem þú segist vilja byggja?

    Og ekki koma með eitthvað kjaftæði um „stökkbreytingu“ á lánunum. Þú veist það vel að það var krónan sem „stökkbreyttist“ og verðtryggingin er einmitt það sem á að verja lánin gegn slíku, svo þau brenni ekki upp eins og á árum áður. Ástæðan fyrir tapi fólks er sú að það keypti eignir á uppsprengdu verði og engin önnur.

    Sjálfur er ég ekkert andsnúinn því að gerðar verði róttækar breytingar á samfélaginu, en þær verða þá að vera skynsamlegar og skýrt fram settar. Sem er algjör andstæða þess sem þú og fleiri eru að leggja til. Það rugl mun ekki stuðla að neinum kerfisbreytingum og því sem það mun breyta verður til hins verra.

  • Gunnar Tómasson

    Örn Stefánsson. Málið er ekki að færa peninga frá „ræningjakapitalístum“ til ríkisins – til þess myndi ríkið þurfa að íklæðast ræningjagervi og innheimta afborganir og vexti miðað við fullt nafnvirði skulda sem bankarnir yfirtóku með miklum afslætti. Málið er að LÆKKA afborganir og vexti sem heimilin þurfa að borga af bankalánum til samræmis við raunverulegt yfirtökuvirði lánanna við flutning þeirra úr gömlu bönkunum í nýju bankana.

  • stefán benediktsson

    „engir kröfuhafar sem áttu þátt í að setja Ísland á hliðina fá krónu tilbaka ef þeir hafi verið svo ósvífnir að kaupa kröfur í bankana“. Hvað með að byggja land með lögum. Þarf ekki að rannsaka og sanna aðild manna að hruni landsins,ákæra þá og dæma, áður en hægt er að segja „þú færð ekki neitt“. Ef ekki hver á þá að ákveða aðild eða ekki aðild að því að setja landið á hausinn.

  • Örn Stefánsson

    Ha? Hvernig gerir það ríkið að ræningja að innheimta að fullu þær skuldir sem það á eða eignast? Ég vísa bara í það sem ég hef áður skrifað hér:

    „Og þessi rök um að bankarnir hafi keypt lánin svo ódýrt og að þess vegna eigi að niðurfæra (eða „leiðrétta“) lán eru algjört bull, ef það er þá yfirhöfuð rétt að bankarnir hafi stórgrætt svona á þessu. Ef aðili A lánar aðila B einhverja upphæð og selur síðan aðila C lánið á einhverju verði sem A og C koma sér saman um, af hverju ætti B þá að græða eitthvað á því ef C kaupir á undirverði? Ætti lánið þá líka að hækka ef C kaupir á yfirverði? Og hvað með þá sem eru með lán sem skipta ekki um hendur? Fá þeir þá enga lækkun?“

  • Fyrir það fyrsta finnst mér ósanngjarnt að gera Vilhjálm að einhverri táknmynd „gamla Íslands“, ég veit ekki til að hann hafi átt nokkurn þátt í því sem gekk á fyrir hrun.

    Hans pistill er mjög góður og tekur málefnalega á mörgum þeim bábiljum sem eru í gangi.

    Ekki svo að skilja að ég myndi ekki þiggja niðurfelllingu skulda, en ég hef ekki heyrt eða séð neinar lausnir enn sem beinlínis búa til peninga. Þær ganga ýmist út á að láta almenning borga (þeas. þá sem ekki tóku lán) eða láta kröfuhafa sitja uppi með skellinn (að stórum hluta lífeyrissjóði).

    Ég vil enn mæla með að minnka greiðslubyrði með því að lækka vexti, lengja lánstíma og bjóða upp á fleiri vísitölur.

    Hitt verkefnið er að taka á mismunun bankanna við uppgjör lána, það verður aldrei sátt á meðan sömu reglur gilda ekki um alla.

  • Gunnar Tómasson

    Örn Stefánsson. Þú spyrð: Ha? Hvernig gerir það ríkið að ræningja að innheimta að fullu þær skuldir sem það á eða eignast?

    Ef ríkið yfirtekur 1 milljóna skuld af „ræningjakapítalistum“ á upphaflegu yfirtökuverði, segjum 1/2 milljón, en fetar síðan í fótspor ræningjanna sem innheimta að fullu viðkomandi skuld, þá er ríkið komið í ræningjabisness.

  • Örn Stefánsson

    Gunnar Tómasson: Þú endurtekur bara sömu innantómu staðhæfinguna, en svarar því ekkert hvern ríkið er að ræna.

    Ég get svo sem tekið undir það að ef ríkið neyðir „ræningjakapítalistann“ til að selja sér lán á hálfvirði þá er það að ræna hann, en minn skilningur á því sem Einar var að skrifa hér var að „ræningjakapítalistarnir“ væru nokkurn veginn réttlausir aðilar, meðal annars vegna þess að þeir hefðu sjálfir eignast lánin á undirvirði. Ég hef svo sem mínar efasemdir um það allt en ákvað að sleppa því að setja út á þann hluta.

    Hins vegar lántakandinn á engan hátt rændur. Hann skuldar bara einhverja upphæð og skuldar hana óbreytta í gegnum þetta allt.

  • Gunnar Tómasson

    Örn Stefánsson. Við göngum út frá mismunandi forsendum – þú sérð ekkert athugavert við framferði vogunarsjóða sem kaupa kröfur á heimili landsins fyrir, segjum, hálfvirði en innheimta þær síðan að fullu.

    Það er forsenda sem þú deilir með hrægömmunum.

    Siðferðileg álitamál verða ekki útkljáð með rökum með eða á móti ólíkt því sem er með tæknileg viðfangsefni – t.d. hvort og hvernig stjórnvöld geta rétt hjálparhönd til þúsunda heimila sem hrægammarnir eru að gæða sér á.

  • Örn Stefánsson

    Ég sé ekkert athugavert við það að innheimta að fullu kröfur sem maður á, það væri þvert á móti óeðlilegt að einhver fái niðurfellingu bara vegna þess að lánið hans skiptir um eiganda.

    Hins vegar gæti vel verið að það sé eitthvað vafasamt við það hvernig þessir „hrægammar“ eignuðust lánin á hálfvirði til að byrja með, auk þess sem þeir gætu hafa gert aðra slæma hluti eins og t.d. eiga þátt í að setja Ísland á hausinn. Það gæti verið grundvöllur fyrir því að taka lánin af þeim.

    Og þótt ég sé sammála því að rök séu ekki endilega grundvöllur siðferðis þá eiga rök oftast við í siðferðismálum, því slæm og röng skynjun á raunveruleikanum geta skapað siðferðisleg álitamál milli fólks sem hefur í grunninn sama siðferði. Það er t.d. það sem ég myndi halda að lögfræði snérist um, að túlka lögin sem eiga að halda utan um sameiginlegt siðferði okkar allra.

  • Magnús Birgisson

    Virðist vera einhver misskilningur þess efnis að sá örlætisgjörningur ríkisstjórnarinnar að tryggja allar innistæður og í þeim tilgangi færa þær framfyrir í skuldaröð hafi ekki kostað íslenskan almenning neitt heldur aðeins erlendar lánastofnanir. Það er auðvitað rugl því þetta kostaði ALLA eigendur skuldabréfa á íslensku bankanna stórkostlega. Þar má nefna lífeyrissjóði, skuldabréfasjóði, peningamarkaðssjóði og síðast en ekki síst Seðlabankann sem sat uppi með svarta pétur í formi ástarbréfanna sv0kölluðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur