Fimmtudagur 15.03.2012 - 11:48 - 41 ummæli

Rannsóknir og forréttindafemínismi

Ef fimm konur og fimmtán karlar í hundrað manna úrtaki reyndust hafa tiltekinn sjúkdóm dytti manni ef til vill í hug að sjúkdómurinn legðist fremur á karla en konur.  Fengi maður að vita að í úrtakinu væru 25 konur og 75 karlar lægi hins vegar beinna við að álykta að sjúkdómurinn væri jafn algengur meðal beggja kynja.  Væri um að ræða 10 konur og 90 karla væri nærtækara að álykta að konur væru þrefalt líklegri til að fá sjúkdóminn.  Sigríður Halldórsdóttir, prófessor á heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri, virðist hafa frumlegri afstöðu til tölfræði.

Sigríður var í viðtali í Víðsjá á Rás 1 í gær, og hún ætlar að halda fyrirlestur í hádeginu í dag, um meint kynjamisrétti í úthlutun úr tveimur stærstu rannsóknasjóðum landsins, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði.  Samkvæmt kynningu á fyrirlestrinum, á vef Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, telur Sigríður ámælisvert að konur fái miklu minna úthlutað úr þessum sjóðum, sérstaklega úr Tækniþróunarsjóði.

Sjálfsagt hefur Sigríður kynnt sér gögnin sem hún vísar í.  Í þeim kemur fram að í úthlutunum úr Rannsóknasjóði síðustu fjögur árin er svipað árangurshlutfall hjá körlum og konum, þ.e.a.s. 24,8% karla sem sóttu um styrk fengu hann og 23,4% kvenna.  Um er að ræða samtals 1544 karla og 770 konur sem sóttu.  Ef við gefum okkur að fagráðin og ytri umsagnaraðilar sem fjalla um umsóknir hafi unnið faglega eins og þeim ber, þá lægi beint við að álykta að konur og karlar sem sóttu um séu að meðaltali með álíka góðan vísindaferil að baki og álíka góðar rannsóknaáætlanir í umsóknum sínum.  Auðvitað er þetta ekki gefið mál, en fátt virðist benda til að hér sé verið að hygla öðru kyninu, enda virðist Sigríður ekki hafa nein gögn sem styðja það.

Í Tækniþróunarsjóði lítur þetta aðeins öðru vísi út.  Þar sóttu á tímabilinu 80 konur og 384 karlar, og fengu 27% karla sem sóttu styrki, en 35% kvenna.  Það er sem sagt 30% líklegra að kona sem sækir fái styrk en karl.  Ef við gæfum okkur að konur og karlar sem sækja hér séu að meðaltali með  jafn góðan feril og jafn góðar rannsóknaáætlanir væri niðurstaðan að verið væri að mismuna, konum í hag.  Ég hef þó engan heyrt halda því fram; eðlilegra virðist vera að álykta að konurnar sem sækja séu að meðaltali betri en karlarnir.

Sigríður vill breyta þessu.  Hún virðist vilja að  gæði vísindafólksins og gæði rannsóknaáætlana þess verði sett í baksætið, og úthlutunum  stýrt þannig að jafn margar konur og karlar fái styrki.  Það myndi óhjákvæmilega leiða  til að lakara vísindafólk með lakari rannsóknaverkefni fengi styrki á kostnað hinna sem betri eru.  Ein afleiðing af því gæti orðið að undirmálskarlar færu að fá styrki til rannsókna í hjúkrunarfræði, sviði Sigríðar, af því að í því fagi er svo miklu meira af konum en körlum.  Að sama skapi myndu þá konur sem væru betri vísindamenn en styrktu karlarnir verða útundan.

Jafnrétti gengur út á að fólk sé metið að verðleikum, ekki eftir kynferði. Sigríður vill ekki jafnrétti. Hún vill ekki að fólk sé metið að verðleikum, heldur eftir kynferði. Hún vill andverðleikasamfélag, þar sem tryggt er að þeim sem lakari eru sé hyglt á kostnað þeirra sem betur standa sig.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (41)

  • Ólafur Ágúst

    Þessi grein lýsir íslenskum neo-femenisma í hnotskurn

    Takk

  • Jákvætt mismunaður

    Konur vilja þægilega innivinnu, helzt hjá hinu opinbera. Það hefst vart undan að innrétta nýjar skrifstofur og þúsundir á leiðinni gegnum menntakerfið……

  • Haukur Kristinsson

    Fyrir nokkrum árum varð Larry Summers, rektor Harvards Háskólans, að segja af sér vegna ummæla hans um konur og vísindi:

    „At a private meeting, he speculated that differences between male and female brains explained why there were few women at top universities in science and maths, igniting a national row that turned the spotlight on his record at Harvard where last year only four of 32 tenure offers were made to women.“

    Sem sagt, allt varð vitlaust, þótt flestir séu þeirrar skoðunar að Larry hafi haft rétt fyrir sér.

  • Íslenskur feminismi hefur ekkert með jafnræði að gera.

  • http://www.guardian.co.uk/world/2005/nov/16/usa.donaldmacleod
    og
    http://www.guardian.co.uk/world/2005/mar/06/gender.internationaleducationnews
    Þeir sem vitna beint í greinar í Guardian ættu að lesa þær áður en þeir túlka innihaldið.

  • Skaftafell

    Haukur Kristinsson kemur sterkur inn með hefðbundnar klisjuhugmyndir um kynjamun. Hér er afskaplega tölfræðilega sinnuð grein úr tímariti bandaríska stærðfræðafélagsins sem hakkar í sig þruglið í Summer http://www.ams.org/journals/notices/201201/rtx120100010p.pdf

  • Kærar þakkir, Einar.

  • Þetta er ágætlega athugað, en bítur ekki á fólkið sem helst þyrfti að skilja
    það sem þú segir. Venjuleg rökfræði hefur hér ekkert að segja. Því miður.

  • Góð ábending hjá þér, Einar. Orð í tíma töluð.

    Fólk er orðið þreytt á þessum fórnarlamba- og forréttindafemínistum.

    Konum eru hampað ótæpilega nú orðið á kostnað karla.

    Það eru til sérstök úrræði fyrir konur í atvinnuleit.
    Engin slík úrræði eru til fyrir karla, þrátt fyrir það að fleiri karlar en konur séu atvinnulausir.

    Það er til sérstakur lánatryggingarsjóður, Svanni, fyrir konur sem vilja stofna til atvinnurekstrar.
    Enginn slíkur sjóður er til fyrir karlmann.

    Fleir karlar en konur verða utangarðs í samfélaginu nú í kreppunni. Flestir skjólstæðingar hjálparsamtaka eru einstæðir karlar, oft fráskildir men sem hafa kiknað undan meðlagsgreiðslum.
    Nær 98% allra meðlagsgreiðanda eru karlmenn, því lögin hér á landi veita konum sjálfkrafa umráðarétt (forsjá og forræði) yfir sameiginlegum börnum við skilnað.
    Svona eru þessu ekki farið í öðrum Vestrænum ríkjum, enda er Ísland 30-40 árum á eftir hvað þetta varðar.

    Konur fá alltaf betri meðferð í réttarkerfinu og fá alltaf vægari dóma en karlmenn fyrir sambærilega brot.

    Og svo eru femínstar alltaf kvartandi og kveinandi og segja að það sé farið svo illa með konur.

    Svokölluð jafnréttisbarátta í dag hér á landi fjallar um að ná ýmsum sérréttindum fyrir konur á kostnað karlmanna.

    Í framtíðinni munum við sjá meira af hugtökum eins og ; kvenrembusvín og, big mother (kona sem fylgist með og stjórnar öllu í mótsetn, til big brother).

    Hvað vilja þessar konur, að hafa karla eins og þæga hunda í bandi?

  • Málfars-fasistasvín

    Ágæt grein Steingrímur,

    hitt er á að benda að kynferði er alls ekki það sama og kyn.

    Kyn er það sem snýr að hvort maður sé með XX eða XY kynlitninga (ekki kynferðislitninga) en kynferði snýr að hegðun, tjáningu etc á athöfnum beint tengdri æxlun.

    Kynferði = sexuality

    „Hún vill ekki að fólk sé metið að verðleikum, heldur eftir kynferði.“

    væri rétt skrifað:

    „Hún vill ekki að fólk sé metið að verðleikum, heldur eftir kyni.“

    Verðleikasamfélagið krefst þess að við notum rétt tæknileg orð! 🙂

  • Magnús Karl Magnússon

    Sæll Einar
    Þakka enn einn góðan pistilinn. Ég held að engum detti í hug að segja að Íslandi sé fullkomið jafnrétti. Við viljum jafna rétt einstaklinga en eins og með svo margan góðan ásetning þá er leiðin þangað oft gegnum grýttan jarðveg.
    Í vísindum virðast konur hafa átt erfitt uppdráttar, sérstaklega framgangur í efstu stöður. Ef að viljum ná árangri hér á Íslandi hvað þetta mál varðar skiptir öllu máli að greina hvar skóinn þrengir að.
    Að mínu mati eru nokkur einkenni á íslensku vísindasamfélagi:
    1. Klíkusamfélag – nepótismi. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa (sennilega ungir vísindamenn og væntanlega konur).
    2. Ógagnsæi. Ákvarðanir eru teknar bak við luktar dyr með óskilgreindum mælikvörðum. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa (sennilega ungir vísindamenn og væntanlega konur).
    3. Þröngsýni eða það sem mætti kalla lókal áherslur fremur en alþjóðleg viðmið. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa (sennilega ungir vísindamenn (karlar og konur) sem koma erlendis frá).
    4. Peningum er dreift gegnum stofnanir í gegnum „hierarchy“ kerfisins í stað þess að fara til þeirra sem bestar hugmyndir hafa (þ.e. í gegnum samkeppnissjóði).

    Í þessu kerfi höfum við þrifist við illan leik. Einn hlekkur í kerfinu hefur verið að þráast við og reyna að gera hlutina betur og það eru sjóðir Vísinda- og tækniráðs. Þar er reynt að auka fagleg vinnubrögð, með skýrum leikreglum, gagnsæi, alþjóðlegum viðmiðunum, erlendum umsögnum, og ýtarlegum og nákvæmum rökstuðningi fyrir ákvörðunum. Þegar við skoðum þetta kerfi þá þarf það ekki að koma þeim sem trúa á jafna getu kynjanna á óvart að kynin koma mjög ámóta út. Árangurshlutfallið í þessu kerfi er ótengt kyni.
    Mér finnst það alveg ótrúlegt að ætla að snúa hlutunum svo mikið á hvolf að benda á samkeppnissjóðina sem orsök ólíkrar stöðu kynjanna í vísindum á Íslandi. Þessir sjóðir eru sennilega besta von þeirra sem vilja breyta valdahlutföllum í vísindakerfi Íslands.

  • Jon Thoroddsen

    Einar, ég er sjaldnast sammála forsendum þínum eða niðurstöðum, en mér finnst þú yfirleitt alltaf málefnalegur. Hins vegar fylgir þér gjörsamlega ömurlegur jákór fábjána sem hafa fátt málefnalegt fram að færa.

    Dæmi:“Hvað vilja þessar konur, að hafa karla eins og þæga hunda í bandi?“

    Hvernig væri að merkja þau komment sem þú telur ómálefnaleg, og stjórnast jafnvel helst af kvenfyrirlitningu, sem tröllakomment, eða tækla þau á einhvern hátt, svo þú sért ekki að leggja þögult samþykki þitt á þetta tuldur.

  • Einar Steingrímsson

    Sæll Jón: Mér hefur þótt einfaldara að vera ekki með neina ritskoðun, nema ef fólk fer út í persónulegar svívirðingar. Ástæðan er að mér er illa við alla ritskoðun.

    Ég hef hins vegar velt þessu fyrir mér, því það væri kannski betra fyrir umræðuna ef maður henti út öllu sem er ómálefnalegt, eins og það sem þú bendir á. En, en hef ég ekki komist að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegt.

  • Haukur Kristinsson

    Ef einhver er tuldrandi og ómálefnalegur hér á síðunni, er það þessi Jón.

    Einar, hentu honum út!

  • Jon Thoroddsen

    Takk fyrir svarið, Einar. Ég held persónulega að það væri betra fyrir umræðuna, og það felst engin ritskoðun (og lítil tímasóun) í því að merkja slík komment, án þess að skipta sér meira af þeim. Það er samt náttúrulega viss þöggun. Á móti kemur að apakettir hafa þaggandi áhrif á mig, en það er náttúrulega ekki þitt vandamál heldur mitt.

  • Kommentin merkja sig sjálf.

  • Pétur Örn Björnsson

    Allt það sem Magnús Karl Magnússon nefnir mætti nefna hvað varðar fyrirhugaðar trölla-framkvæmdir Landsspítala Háskóla sjúkrahúss við Hringbrautina.

    1. Klíkusamfélag – nepótismi. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa.

    2. Ógagnsæi. Ákvarðanir eru teknar bak við luktar dyr með óskilgreindum mælikvörðum. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa.

    3. Þröngsýni eða það sem mætti kalla lókal áherslur.

    4. Peningum er dreift gegnum stofnanir í gegnum „hierarchy“ kerfisins í stað þess að fara til þeirra sem bestar hugmyndir hafa.

  • Pétur Örn Björnsson

    Er þetta ekki sami Magnús Karl Magnússon, læknaprófessor við HÍ, sem krefst tugmilljarða, ef ekki hundrað milljarða framkvæmda fyrir sitt klíkusamfélag, meðan heilbrigðiskerfið er skorið niður við trog og sjúklingum blæðir.?

  • Magnús Karl Magnússon

    Pétur Örn
    Sýndu Einari þá virðingu að ræða efni bloggsins.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þakka svo Einari fyrir enn einn þarfan og umhugsunarverðan pistil.

  • „Konur vilja þægilega innivinnu, helzt hjá hinu opinbera. Það hefst vart undan að innrétta nýjar skrifstofur og þúsundir á leiðinni gegnum menntakerfið……“

    Jahá? Og er eitthvað sérstakt sem bendir til þess að konur sækist meira eftir þægilegri innivinnu en karlar og ef svo er, er það þá ekki bara allt í lagi?

  • Mér finnst mjög fyndið að manneskja sem lætur muninn á kyni og kynferði fara í taugarnar á sér, skuli ekki gera greinarmun á Einari og föður hans.

  • Magnús Karl, hafa konur raunverulega átt erfitt með að fá framgang eða sækjast þær síður eftir því en karlar?

  • Magnús Karl Magnússon

    Sæl Eva:
    Góð spurning – og ég verð að viðurkenna að ég á ekki svar við henni. Það er þó sláandi kynjamunur í efstu stöðum í akademíunni víða um heim – ca. 85%:15%, karlar:konur.
    Minn punktur var meira sá að EF að það er kynbundin munur þá sé líklegast að leita skýringa á honum í þeim þáttum sem ég bendi á.
    Það hafa verið birtar margar fræðigreinar um þessi mál. Hér er t.d. svokölluð meta-analýsa á hvort sampkeppnissjóðir almennt vegi virki ver fyrir konur (Gender differences in grant peer review: A meta-analysis Lutz Bornmanna: Journal of Informetrics 1 (2007) 226–238). Slíkar analýsur eru þó mjög erfiðar. Skv þessari analýsu kemur í ljós að ef það er munur, þá er hann lítill (ca. 6%). Þetta þýðir að ef 1000 konur og 1000 karlar sækja um 1000 styrki þá myndu að 52% karlanna og 48% kvennanna fá styrk. Slíkur örlítill munur getur ekki skýrt mikin mun á framgangi karla og kvenna innan vísinda (ef að við gefum okkur að það sé raunverulegur kynjamunur) .
    En að mínum dómi er það nákvæmlega ekkert sem styður það að úthlutanir úr sjóðum Visinda- og tækniráðs vinni gegn hagsmunumkvenna í vísindum, heldur þvert á móti.

  • Pétur Örn Björnsson

    Sæll Magnús Karl.

    Ég ítreka að ég tók aðeins undir athugasemd þína, en horfi á það í víðara samhengi en þú, enda vil ég leyfa mér að túlka skrif Einars um forréttindahópa á þann hátt og reyndar, enn og aftur á þann hátt sem þú og gerir en firrtist við sé brandinum að þér sjálfum snúið. Hverju reiddust goðin um eigin orð?:

    „1. Klíkusamfélag – nepótismi. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa.“

    „2. Ógagnsæi. Ákvarðanir eru teknar bak við luktar dyr með óskilgreindum mælikvörðum. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa.“

    „3. Þröngsýni eða það sem mætti kalla lókal áherslur.“

    „4. Peningum er dreift gegnum stofnanir í gegnum „hierarchy“ kerfisins í stað þess að fara til þeirra sem bestar hugmyndir hafa.“

  • Vilhjálmur Vilhjálmsson

    Það hversu oft hún Sigríður segir „jafnrétti og jöfnuður“ eins og það séu samheiti hræðir mig.

  • Eyjólfur

    Nákvæmlega, Vilhjálmur. Sumir eru til í að fyrirgera jafnrétti (jafnvel að lögfesta misrétti) í leit að einhvers konar jöfnuði. Það fólk getur trauðla siglt undir fána jafnréttis.

  • Magnús Karl Magnússon

    Pétur Örn
    Hef margoft tjáð mig með opnum (og held ég málefnalegum hætti) um byggingu LSH. Það mál er algerlega óskylt þessu og útúrsnúningur að blanda þessu saman. Ég myndi svara þér á réttum vettvangi. Blogg Einars er algerlega óskylt mál. Ég ætla ekki að taka þessa umræðu hér. Það er helber dónaskapur og óvirðing gagnvart síðueiganda, og ég tek ekki þátt í slíku.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég mun virða það þá Magnús, að sinni.

    En réttara þætti mér að fá ávítur frá Einari -vilji hann svo- fremur en að þú takir hér að þér bæði ákvörðunar- og dómsvald um hvað sé hér dónaskapur og hvað sé hér óvirðing.
    Er ekki réttast að Einar dæmi um það sjálfur, en ekki þú Magnús?

    En ég skal virða bón þína Magnús, enda ekki á hverjum degi sem prófessor við HÍ biður mig nánast að þegja. Öðru vísi mér áður brá.

  • Pétur Örn: Ég er hérna með gamalt hjól, getur verið að það tilheyri þér?

  • Pétur: Ég tek undir það með Magnúsi, að það er ekki til góðs fyrir umræðuna að blanda í hana svo óskyldum efnum sem ég tel byggingu nýs spítala vera.

    Ég hef haft þá afstöðu að ritskoða ekkert á þessari bloggsíðu (nema einu sinni eða tvisvar þegar um var að ræða rætnar persónulegar árásir á þriðja aðila).

    Hins vegar hef ég stundum velt fyrir mér að prófa að ritskoða umræðuna, þ.e.a.s. að taka út athugasemdir sem mér finnast ekki koma málinu við. Kannski geri ég það einhvern tíma, í tilraunaskyni, en ég mun þá segja frá því fyrirfram.

  • Hrekkjalómur

    Pétur Örn,
    Á þræði þar sem verið er að fjalla um jafnréttismál er óþarfi hella fram hatri sínu á óbyggðri byggingu. Það ber vott um ójafnvægi. Viltu ekki bara fara fram í eldhús og fá þér lýsi og sjá hvort ekki bráir af þér?

    Hrekkjalómur

  • Pétur Örn Björnsson

    Hrekkjalómur, er nú búinn að fá mér lýsi og líður miklu betur.
    Takk fyrir umhyggjusemina; hún er fágæt í dag.

  • Blessaður farðu ekki að ritskoða umræðuna, það er svo ömurlega forpokað að það hálfa væri yfirdrifið.

    Asnaleg ummæli merkja sig sjálf.

    Og höfundana.

  • Hrekkjalómur

    Við virðumst vera einstaklega óheppin með fræðimenn hér á Íslandi. Við erum með HHG sem kann ekki að fara með heimildir, Sigríði þá sem Einar segir frá sem kann ekki að fara með gögn, fræðasviðsforseta við HÍ sem ruglar vísindum saman við hjávísindi (án þess að nokkur þar innanborðs mótmæli) og svo tvo lektora sem ekki kunna fótum sínum forráð í fjármálum og þarf að snupra opinberlega.
    Er furða þótt stjórnmálamenn hafi ekki áhuga á menntun og vísindum þegar fræðimenn okkar eru svona?

    Hrekkjalómur

  • Jon Thoroddsen, hvað er ómálefnanlegt við mín ummæli?

    Eða er orðið „ómálefnanlegt“ annað heiti yfir „óþægilegur sannleikur“ sem ekki má heyrast?

  • Pétur Örn Björnsson

    Hrekkjalómur, þú hlýtur að hafa tæmt eitthvað meira en lýsisflösku, því slíkur er nú heilbrigður kraftur þinn í gagnrýninni á háskólasamfélagið. Hálfu hessari en ég, svei mér þá:-)

    Þó Einar telji þig hugsanlega vera þar með kominn út fyrir umræðuna (eða hvað Einar minn?) þá leyfi ég mér að vera þér hjartanlega sammála, enda hraut stór hluti íslenska háskólakerfisins fyrir hrun og svífur nú seglum þöndum inn í stórbrotna og glórulausa drauma sína á kostnað almúgans og um það hvort púngur eða píka sé á boddíunum neðanvert.

    En það er sem Halli M. segir að alltaf skal tjargað orðið „ómálefnalegur“ á þá sem þora að míga á dyrðina og afhjúpa helgislepju innmúraðra kerfis-varðliðanna.

  • Þetta er ekki út fyrir málefni, nema síður sé! Á þetta má horfa á ýmsan hátt. T.d. er það ljóst að fræðsamfélagið virðist eiga erfitt með að gagnrýna þá sem eru þar í stjórnunarstöðum. Ég held að það sé klassísk þöggun. Um margt af hinu má segja misjafn sauður í mörgu fé, háskólafólk telur einhver þúsund og þó að einhver mál komi upp, þá er heimurinn ekki að farast. Framganga Sigríðar, er nýjasta málið, það á eftir að koma í ljós hvaða eftirmála það hefur. Eitt er víst að erlendis myndi aðili er situr í æðsta ráði vísinda og tækni, sem vinnur gegn orðspori þess og ímynd með misskildum tölulegum gögnum opinberlega, myndi segja af sér.

  • Pétur Örn Björnsson

    Drýsill … sæirðu éilítið víðar og yfir heiminn allan, þá er og víða pottur brotinn erlendis, sem hérlendis og ætti öllum að vera það augljóst; talandi um fabrikeraðar rannsóknir og forréttindi og að maður minnist nú ekki á jafnrétti og virðingu við mannlega reisn beggja kynja.
    Valdkerfið og hugmyndafræðilegar stofnanir þess, þjóna því miður hagsmunum sjálfs sín, erlendis sem og hérlendis, þó til þess og stofnana þess sé iðulega stofnað, amk. í svonefndum lýðræðisríkjum, með fögrum orðum, sem síðar breytist hægt og bítandi í ofbeldi valdakerfisins og sérhygli stofnana þess til að viðhalda með öllum brögðum og vélráðum valdi sínu.

    Mín skoðun er því sú, að það sé ekki einungis réttur, heldur beinlínis lífsnauðsyn fyrir lýðræðið, að almenningur gagnrýni af heilbrigðum þrótti þá sem þiggja laun sín og fríðindi af skattfé hans og að mark sé á því tekið.
    Maður biður bara um heilbrigða og frjóa umræðu og opið og virkt lýðræði okkur öllum til heilla, en ekki bara fyrir þá sem vilja „mæla vitlaust“ sem innanbúðarsveinninn var hvattur til af hörmangara kaupahéðni forðum tíð.

  • Málfars-fasistasvín

    Því er það fyndið Eva? Ég er málfars-fasistasvín, ekki staðreynda- eða ætternis-fasistasvín.

    Það er annars önnur umræða hvort fólk sé ráðið út frá kynferði og sjálfsagt er það gert einhverstaðar – en Einar Steingrímsson fjallar ekkert um það í grein þessari.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur