Föstudagur 23.03.2012 - 21:18 - 16 ummæli

Maltflöskuaxlir: Hrunverji hannar Nýja Ísland

Í dag kynnti efnahags- og viðskiptaráðherra ríksstjórninni skýrslu sína til Alþingis um „framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins og opinbert eftirlit með því.“ Það er athyglisvert, og fremur sorglegt, að með í kynningunni, væntanlega vegna hlutverks hans í þessu starfi á næstunni, var Jón nokkur Sigurðsson. Jón er meðlimur í þriggja manna hópi sem, samkvæmt  tilkynningu frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, á að fjalla um þessa skýrslu og „gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.“

Jón er í frétt ráðuneytisins einungis kynntur sem „fv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans“. Það hefur kannski þótt of óþægilegt að segja frá því að Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins allt árið 2008, og rúmlega það. Um mitt ár 2008 birtist viðtal við Jón í áróðursbæklingi Landsbankans þar sem lýst var útrás bankans með Icesave-reikninga í Hollandi. Það er auðvitað nógu slæmt, og ætti að vera brottrekstrarsök, að stjórnarformaður FME láti nota sig í áróðursskyni fyrir eitt af fyrirtækjunum sem FME átti að hafa eftirlit með. Hitt er verra að Jón segir í viðtalinu að fjárhagur íslensku bankanna sé í aðalatriðum traustur („Finances of the Icelandic banks are basically sound“). Hafi hann vitað sannleikann var hann að ljúga. Hafi hann ekki vitað hvað var að gerast var hann greinilega óhæfur til að gegna starfi sínu.

Ég efast ekki um að Jón sé (í einhverjum skilningi) vandaður og fróður maður. Og sjálfsagt hefði verið að hópurinn sem hann á nú að sitja í ræddi við hann um hvað fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins. En það er blaut tuska í andlitið á öllum þeim sem hafa látið sig dreyma um Nýtt Ísland, í stað hins gamla og gerspillta, að fela einum af þeim sem tóku þátt í lygaherferðinni fyrir hrun að „gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.“

Það er dapurlegt að Steingrímur J. skuli setja hrunverja í að skipuleggja fjámálakerfi framtíðarinnar. Og, þótt Jón hafi starfað lengi erlendis virðist hann ekki sjálfur hafa lært hvað það þýðir að taka ábyrgð á gerðum sínum, og þar með afleiðingunum af þeim. Þegar kemur að því að axla ábyrgð í raun, þá gildir enn um flest valdafólk á Íslandi að það er, eins og ein Facebook-vinkona mín orðaði það í dag, „með axlir eins og á maltflösku“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Sjáandinn

    Sjá:

    Endalok þessarar ríkisstjórnar eru framundan, skv. spá Steingríms J.,
    enda er orðið kvalafullt og óbærilegt fyrir allan almenning að horfa upp á síendurtekinn viðbjóð gjörspilltra hrunaliða og hrunverja:

    http://silfuregils.eyjan.is/2012/03/23/netid-gleymir-ekki/

  • Sigurður

    Katrín Jakobs framlengdi svo dvöl Halldórs Ásgrímssonar í norrænu ráðherranefndinni. Samtryggingarkerfi fjórflokksins er staðreynd. Andstæðingar í orði en tvíhöfða þurs á borði. Þú klórar mér ef ég klóra þér. Stjórnmálastéttin sér um sjálfa sig.

  • Haukur Kristinsson

    Er það fámennið? En það virðist erfitt að finna mann í veigamikið starf, sem ekki hefur „Dreck am Stecken“.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég mæli með að fólk lesi þessa ágætu grein Lilju Mósesdóttur, því þar er fjallað um þessa og skylda hluti á mannamáli:

    http://liljam.is/greinasafn/2012/thjodnyting-einkaskulda-almenningur-blodmjolkadur/

  • Hjalti Atlason

    Hvað varð um að hætta að ríkistryggja fjárfestingabanka (spilavíti). Finnst alltaf minni og minna talað um það en froðusnakkið eykst að sama skapi.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það er alveg magnað að það skuli alltaf vera leitað til þeirra sömu í verkin, aftur og aftur. Þessi kynslóð er búin að gera upp á bak. Kominn tími til að hleypa nýju fólki að.

    Ungu fólki með ferskar hugmyndir. Okkar kynslóð fékk sinn séns og klúðraði honum feitt.

  • Jóna Jóns

    Sorglegt og í raun svívirðilegt virðigarleysi við almenning. OG ÞETTA á að heita vinstri stjórn!!!!!
    Oj – manni verður illt.

  • Jónas Kr.

    Hvað áttu við með „(í einhverjum skilningi)“
    Ef menn eins og Jón Sigurðsson hefðu stjórnað Íslensku bönkunum, þá hefðu þeir ekki farið á hliðina.
    Stjórnendur hinna föllnu banka voru ungir og vel menntaðir, en óreyndir. Á þá að leika sama leikin aftur? Fá ungt, vel mentað en óreynt fólk til að taka við?
    Árið 2008 hefði ég sennilega verið sammála því að menn eins og Jón ættu að víkja, en eftir að hafa hlustað á detox hagfræðingana sem komu nýjir á Alþingi 2009 í þrjú ár, hef ég skipt um skoðun.

  • Algjörlega sammála,það setti að mér kuldahroll að sjá þetta í fréttunum í gær,þar kom að því að þessum manni yrði úthlutað einhver feitur bitlingur eina ferðina enn.Illa er komið fyrir þessu blessaða landi og vonin um hið nýja Island er nánast orðin að engu.

  • Hans Haraldsson

    „Hafi hann vitað sannleikann var hann að ljúga. Hafi hann ekki vitað hvað var að gerast var hann greinilega óhæfur til að gegna starfi sínu“.

    Seinni parturinn er ekki endilega réttur. Þessi peningavísindi eru öll saman frekar óáreiðanleg og það er vel mögulegt að menn sinni starfi sínu af fullkominni fagmennsku en klúðri samt.

    Fyrir mitt leiti held ég að eina leiðin til að tryggja stöðugleika í fjármálum sé einfaldlega að banna fjármálamönnum að byggja háa spilakastala.

  • Eiríkur S. Þorláksson

    Jónas Kr. (Jónas Kristjánsson?):

    Jón Sigurðsson var nú stjórnandi í fjármálakerfi landsins fyrir hrun, en hann var formaður stjórnar FME þess sem átti að hafa eftirlit með fjármálakerfi landsins.

    En „Samfylkingin sér um sína“ og því fær Jón Sigurðsson „second cance“.

  • Siggi Jóns.

    Jónas Kr.
    „Bankamaður, reyndur eða óreyndur“? Er einhver „reyndur bankamaður“ til á Íslandi? Mér sýnast svokallaðir bankamenn á Íslandi vera fyrst og fremst í því að túlka niðurstöður Hæstaréttar þannig að það sé áfram hægt að ræna íslenskan almenning með öllum ráðum.
    Reyndir bankamenn hugsa um hagsmuni sinna viðskiptavina, ekki síður en um hagsmuni bankanna.
    Og hvers vegna er ekki búið að skilja á milli almennrar bankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi bankanna?
    Fagmennska í bankastarfsemi hlýtur einnig að felast í því að lágmarka áhættu almennra viðskipta, og hvað myndi það þýða fyrir eftirlitið ef þessi aðskylnaður yrði? Myndi það ekki létta störf FME?

  • Sigurður Þórðarson

    Þar hæfir kjaftur skel.

  • Sigurður Þórðarson

    Þar hæfir kjaftur skel

  • Ingvar Tryggvason

    „When these managers lie about their involvement in such catastrophes, walk away with huge payoffs and seemingly unaffected by the lives they have devastated, normal people wonder what kind of person would behave this way.“ http://​psychopathyinfo.wordpress.c​om/2012/03/22/​characteristics-of-corporat​e-psychopaths-and-their-co​rporations/

  • Ingvar Tryggvason

    Það er mikið talað um siðbót í Íslensku samfélagi þessa dagana. Fólk ætlar að „kenna“ hinum og þessum siðbót. Það er rétt að benda á viðtal Þóru Arnórs við Matthew Logan í Kastljósinu: „I feel we just need to get more education into society about this individual called the Psychopath.“
    http://www.youtube.com/watch?v=qS6uyi8Y2Bk&feature=related

    Heimildarmyndin „I am fishead“ er gerð af tveim Tékkum, sálfræðingi og hagfræðingi. Viðtöl við P Babiak, R Hare, M Logan og Vaclav Havel.
    http://www.youtube.com/watch?v=6MWpxH-RlFQ

    Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að Psychopathia er persónuleikaröskun sem enginn óskar sér í vöggugjöf, en opinská og fordómalaus umræða er líklega eina meðalið.
    Bkv

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur