Forstjóri Landsvirkjunar er aftur farinn að lofa gulli og grænum skógum, ef hann fær bara að virkja nóg. Síðast var það í sumar sem hann fékk Ásgeir Jónsson (þann sem var forstöðumaður „greiningardeildar“ Kaupþings og taldi allt á blússandi uppleið alveg þangað til spilaborgin hrundi yfir hann) til að skrifa skýrslu um hvernig Landsvirkjun gæti gert Íslendinga jafnríka og Norðmenn urðu af olíunni. Núna er lausnarorðið að flytja út orkuna um sæstreng.
Þetta undirstrikar enn þörfina á því að leggja Landsvirkjun niður í núverandi mynd og koma á fót nýrri stofnun í hennar stað. Það er hrikalegur hagsmunaárekstur þegar Landsvirkjun er komin í áróður fyrir frekari virkjunum. Slíkar ákvarðanir eiga stjórnmálamenn að taka, og bera ábyrgð á gagnvart kjósendum. Landsvirkjun ætti einungis að framkvæma það sem ákveðið er pólitískt að gera, ekki að nota peninga almennings til að reka áróður fyrir því að hún fái að þenjast út á eigin forsendum.
Væri ekki einfaldara að eigandi Landsvirkjunar setti fyrirtækinu betri starfsreglur til að vinna eftir?
Yrði ekki það sama uppi á teningnum þótt stofnað yrði nýtt batterí?
Þarna liggur okkar mikli veikleiki. Tengsl framkvæmdastjóra ríkisfyrirtækja við stjórnmálaflokka og hagsmunaklíkur. Hörður Arnarsson kom úr einkageiranum og heldur að hann sé enn þar að moldvarpast. Felur svo einum mesta rugludalli Hrunsins, Ásgeiri nokkrum Jónssyni Bjarnasyni, að skrifa skýrslu um hvernig geri mætti skerið að ríkasta landi í heimi.
Þetta minnir á forsetann: “We are different”.
Núv. forstjóri; var hann einn glæpaflibbunga?
Á að leggja landsvirkjun niður vegna þess að forstjórinn er að reyna að vinna vinnuna sína? Eins gott að þú ert ekki í pólitík ljúfur, nóg af kverúlöntum þar fyrir.
Ekki má nú mikið.
Hörður Arnarson sagði m.a. á ársfundinum: Lagning sæstrengs til Evrópu er mesta viðskiptatækifæri sem Ísland hefur staðið frammi fyrir. Fréttamenn á báðum sjónvarpsstöðvunum féllu fyrir hugmyndinni með gróðaglýju í augunum og orð Harðar um að hagkvæmara væri að selja orkuna úr landi en að nýta hana til iðnaðaruppbyggingar í landinu vöktu ekki með þeim neinar efasemdir. Spurningar til dæmis eins og þessar: Er það markmið eiganda Landsvirkjunar að nýta þá takmörkuðu orku sem er fyrir hendi til atvinnuuppbyggingar erlendis? Er það álit forstjórans, að orkufrekt og öflugt iðnfyrirtæki á Íslandi skili ekki arði út í samfélagið; fyrirtæki sem skila hundruðum milljóna í útflutningstekjur og veita þúsundum vinnu og trausta afkomu? Og er það álit forstjóra Landsvirkjunar, að ríkissjóð muni ekkert um það skattfé sem er hirt af þeim tugþúsundum Íslendinga sem starfa við fyrirtæki sem flest hver þurfa orku til framleiðslu sinnar? Þessar spurningar og aðrar áþekkar voru víðsfjarri hjá fréttamönnunum enda því miður vanir að kokgleypa það sem að þeim er rétt.
Eina rétta í stöðunni er að reka Hörð Arnarson. Ég er að vísu á því að virkja meira, og því sammála honum í því, en lagning sæstrengs hlýtur að vera versta hugmynd sem hægt er að kynna þjóðinni, eigendum orkunnar.
Það er hinsvegar ekki hlutverk embættismanna að ákvarða stefnu landsins, einungis að láta þjóðinni í té upplýsingar sem varða reksturinn sjálfan.
Einn helsti vandi Íslands er ofboðslega sterk tilhneyging kerfisins til að sveigja stefnu landsins að eigin þörfum. Það verður að gelda kerfið af þessari þörf.
Held að forstjóri Landsvirkjunar sé toppmaður.
Hann er að leggja til að þessi möguleiki sé skoðaður. Það held ég að sé skynsamlegt. Við skulum anda með nefinu áður en við byrjum með upphrópanir.
Landsnet virðist af öðru sauðahúsi. Þar virðast vera risaeðlur við stjórnina. Þeir bjóða fornaldarútgáfur af háspennulínum og afneita möguleikum í notkun jarðstrengja.
Tillaga Landsvirkjunar um sæstreng staðfestir einmitt tækniþróun í gerð strengja, og nýja möguleika sem sú þróun hefur opnað.
Já, síðan las ég einhversstaðar að Svandís Svavarsdóttir hefði haft eftir forstjóranum að virkjanlegt vatnsafl væri nærri uppurið og að rannsaka þyrfti betur umhverfisleg framtíðaráhrif þess að virkja jarðorkuna áður en horfið yrði í slíkar framkvæmdir.
Ég skil því ekki um hvaða orku forstjórinn er að tala, ef Svandís hefur haft rétt eftir honum.
Það er bagalegt þegar forstjórar ríkisfyrirtækja eða stofnana eru í pólitík.
Dæmigert fyrir íslenska (net)umræðuhefð. Gólað út í loftið án nokkurrar umhugsunar eða yfirlegu. Má ekki hlusta á rökin í málinu, með og á móti? Reka manninn? Er vonlaust fyrir okkur að stunda málefnalega samræðu? Ég er farinn að halda það. Hitt er annað mál að tómu tunnurnar á netinu endurspegla líklega þjóðina ekki sérstaklega vel. Fólk sem er vant að virðingu sinni og sækist eftir skynsamlegum skoðanaskiptum heldur sig víðsfjarri netumræðum. Ég vil annars vekja athygli á þessari grein: http://www.visir.is/draumurinn-um-raforkusolu-til-evropu/article/2012703319989.
Þröngsýni þín Einar er sorgleg en Hansi bendir á það sem skipir máli með tenglinum.