Föstudagur 20.04.2012 - 10:45 - 8 ummæli

Vilja saksóknarar pólitískar ofsóknir?

Í Ákærendafélagi Íslands eru, samkvæmt formanni þess Jóni H. B. Snorrasyni, allir handhafar ákæruvalds í landinu, þ.á.m. saksóknarar, og fulltrúar þeirra. Félagið sendi Allsherjarnefnd Alþingis nýlega umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um meðferð sakamála, þar sem lagt er til að rannsóknarheimildir lögreglu verði auknar. Rökin fyrir auknum heimildum eru staðhæfingar greiningardeildar ríkislögreglustjóra um að „alvarleg skipulögð glæpastarfsemi væri að færast í vöxt hérlendis og að alþjóðlegir glæpahringir væru að skjóta hér rótum.“ Ennfremur heldur innanríkisráðherra, sem er upphafsmaður frumvarpsins, því fram að skipulögð glæpastarfsemi „grafi undan grundvallarmannréttindum“, þótt sú furðulega staðhæfing sé ekki skýrð nánar.

Ákærendafélagið segir að margt í frumvarpinu sé óþarfi; heimildirnar séu þegar til staðar. Hins vegar telur félagið brýnt að ganga lengra en lagt er til í þessu frumvarpi, og segir meðal annars:

Forvirkar rannsóknarheimildir þurfa að ná til hvers kyns atferlis sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess.

Allir sem hafa kynnt sér njósnastarfsemi lögreglu, jafnvel í „huggulegum“ löndum eins og Svíþjóð og Noregi, vita hvernig fólk í valdastöðum hneigist til að túlka hugtök eins og „ógn gegn öryggi ríkisins og sjálfstæði þess“. Reyndar þarf ekki að fara út fyrir landsteinana, því þekkt er að símhlerunum hefur verið beitt á Íslandi gegn pólitískum andstæðingum stjórnvalda á fáránlegum forsendum.  Skemmst er og að minnast þess að níu manns voru ákærðir fyrir tilraun til að „svipta Alþingi sjálfræði þess“, af því að þeir reyndu að neyta stjórnarskrárvarins réttar síns til að fara á þingpalla. Það er dapurlegt að félag saksóknara skuli vilja auka heimildir lögreglu sem yfirvofandi hætta er á að verði notaðar til að brjóta mannréttindi.

Hitt er verra að félagið virðist beinlínis vera með pólitískar ofsóknir í huga, því í framhaldi af ofangreindri tilvitnun í umsögn þess stendur þetta:

Slíkar heimildir þurfa að taka til einstaklings eða hóps manna sem talinn er eða taldir eru ógna öryggi ríkisins eða einstaklinga, svo sem öfgahópa eða einstaklinga sem telja má hættulega vegna sérstaks hugarástands.

Öfgar eru skoðanir sem falla utan þess sem algengast er í samfélaginu hverju sinni. Hugmyndirnar um afnám þrælahalds og kosningarétt kvenna voru öfgahugmyndir á sínum tíma, og einnig langt fram á síðustu öld hugmyndirnar um jafnan rétt kvenna og karla almennt, svo og um mannréttindi samkynhneigðra. Ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi eru einmitt ætluð til þess að vernda rétt fólks til að hafa og tjá öfgaskoðanir.

Að yfirvöld eigi svo að úrskurða hverjir séu hættulegir „vegna sérstaks hugarástands“ fær mann til að velta fyrir sér hvort höfundar umsagnarinnar hafi lesið bókina 1984, og séu beinlínis að vísa í hana sem lýsingu á fyrirmyndarríki.

Ef hér væru á ferðinni kunnir froðufellandi ofstækismenn kæmi þetta fáum á óvart. En þetta er sem sagt félag saksóknara í landinu, þeirra sem fara með valdið til að ákæra borgarana, og þvæla þeim gegnum réttarkerfið, á forsendum sem þetta fólk ákveður sjálft.

Til varnar þessu fólki má þó segja að í lok umsagnarinnar er fjallað um mikilvægi þess að virkt eftirlit sé með beitingu umræddra heimilda:

Þá þarf að gæta vel að grundvallarreglum um mannréttindi og að lögreglu verði ekki veitt óhóflegt svigrúm í þessum efnum. Þá er lögð rík áhersla á að hugað verði að virku eftirliti með ákvörðunum lögreglu um beitingu slíkra heimilda og þær verði að jafnaði háðar samþykki dómstóla fyrir fram. Þá kemur vel til greina að slíkar rannsóknarheimildir verði háðar sérstöku eftirliti ráðherra og eða Alþingis eða stofnana á vegum Alþingis.

Væri komið á raunverulegu eftirliti, í þágu almennings, með starfsemi lögreglu gæti það bætt starfsemina verulega, og komið í veg fyrir þau mannréttindabrot sem eru allt of algeng, þótt fæst þeirra fari hátt. Slíkt eftirlit þyrfti að stofna með réttu hugarfari, þ.e.a.s. að hlutverk þess þyrfti að vera að vernda rétt almennings. Það þyrfti að vera algerlega óháð lögreglu og ákæruvaldi, og hafa jafn víðtækar heimildir og t.d. Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit á sínum sviðum. Það þyrfti að geta yfirheyrt, fyrirvaralaust, alla starfsmenn lögreglu og ákæruvalds, og þeim ætti að vera skylt að svara satt og undanbragðalaust, að viðlögðum hörðum refsingum eða starfsmissi. Eftirlitið ætti bæði að taka fyrir kvartanir almennra borgara og rannsaka mál að eigin frumkvæði, og það ætti að birta niðurstöður sínar reglulega og opinberlega.

Öflugt eftirlit með öllu starfi lögreglu myndi annars vegar hreinsa burt þá sem ekki kunna að fara með vald hennar, og hins vegar efla traust borgaranna á þeim yfirgnæfandi meirihluta lögreglufólks sem er heiðarlegt og raunverulegir þjónar almennings. Vandamálið við núverandi viðhorf yfirvalda er gegnumgangandi vandamál í íslenskri stjórnsýslu: Hún lítur á sig sem guðlegt yfirvald, en ekki þjón almennings.

Það er sorglegt að innanríkisráðherra, sem talar fyrir auknum heimildum lögreglu til að njósna um borgarana, skuli enga viðleitni hafa sýnt til að tryggja að valdstjórnin brjóti ekki á mannréttindum þessara sömu borgara. Næg eru dæmin, og ráðherrann veit um mörg þeirra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Við erum nú þegar með alþjóðleg glæpasamtök sem starfa hér og gengur illa að hafa eftirlit með þannig að þetta er svolítið seint í rassinn gripið.

  Þessi samtök heita bankar.

 • Ekki held ég að þessar hugrenningar Einars Steingrímssonar varði við lög.

  Ekki enn.

  En þau lýsa býsna sérstöku hugarástandi, því verður ekki neitað.

 • Grétar Thor Ólafsson

  Það er þó kostur að í frumvarpinu kveður á um eftirlit með þessu, þ.e. lögreglan reportar til ríkissaksóknara um allar rannsóknir, sem svo reportar til allsherjarnefndar Alþingis, þar sem fulltrúar allra flokka sitja.

  En varðandi þessar heimildir. Það fer enginn að segja mér að séríslenksar aðstæður gildi hér. Og ráðleggingar allra þjóða sem hafa ráðlagt okkur í þessari þróun segja okkur að svona heimildir þurfi, annað geri eftirlit með þessum aðilum erfitt. Og því held ég að það sé alls ekki vitlaust að, svona einu sinni, beita ekki fyrir sig „sér-íslenskar-aðstæður“ þjóðrembingi og fara að ráðum okkur reyndari vinaþjóða í þessu.

  Okkur hefur einmitt verið ráðlagt að hafa strangt eftirlit með þessum heimildum. Og nú þarf að tryggja að slíkt eftirlit verði gott.

 • Grétar Thor Ólafsson

  Ég hef þó lúmskt gaman af því að horfa á fólk þegja þunnu hljóði yfir þessum heimildum, fólk sem varð alveg tryllt þegar Björn Bjarnason mælti fyrir svipuðum leiðum. Gaman að sjá hvað sumir álitsgjafar þegja þegar Ögmundur á hlut að máli, gamli góði sósíalistinn 🙂

 • Grétar: Bæði í Noregi og í Svíþjóð hefur komið í ljós hrikaleg pólitísk misnotkun á heimildum lögreglu til að fylgjast með fólki með rangar skoðanir. Eru það „ráðleggingarnar“ sem þú ert að vísa til?

 • Annars verð ég að segja að hugarástand þeirra sem sömdu þessa umsögn veldur mér nokkrum áhyggjum.

 • Það er vissulega athyglisvert að Ríkislögreglustjórinn, Stefán Eiríksson, og Geir Jón et al, og innanríkisráðherra haldi kjafti yfir grófum afbrotum lögregluþjóna. – Þessir menn vernda m.a. grunaða barnaníðinga sem fá að starfa áfram eins og ekkert sé.

  Mín persónulega skoðun er sú að ákaflega ólíklegt sé að menn standi í slíku án þess að vera álíka brenglaðir og ógeðin sem þeir vernda.

  Er einhver sem vill mótmæla því?

  Þetta minnir vissulega á það hvernig Kirkjan hagaði sér, enda kom jú í ljós að yfirmaðurinn þar var sjálfur barnaníðingur.

 • Það er í besta falli hlægilegt að sjá þessa vesalinga tala um eftirlit með lögreglunni, því það væri löngu fyrir hendi ef einhver alvara væri að baki.

  Það þarf að vera óháð innra eftirlit með lögreglunni í heild sinni, sem hefur sömu heimildir og lögreglan hefur. Þetta eftirlit þyrfti að fylgjast með Stefáni Eiríkssyni, Þvagleggnum og öllum hinum sjúklingunum…

  En þessir menn munu að sjálfsögðu hrýna eins og stungnir grísir ef reynt verður að koma upp raunverulegu óháðu eftirliti með þeim, hvað þá eftirliti með forvirkum heimildum.

  Er einhver sem vill mótmæla því?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur