Miðvikudagur 02.05.2012 - 11:57 - 12 ummæli

Svör um klám og mannréttindi í Rvík

Fyrir þrem vikum sendi ég Mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar nokkrar fyrirspurnir vegna klámvæðingarbæklings borgarinnar, sem fjallað var um hér og hér.  Svör bárust í fyrradag, og eru þau birt hér í lokin.  Reyndar er sumum spurningunum ekki svarað, og hef ég ítrekað þær, og mun birta svörin hér ef þau verða athygliverð.

Eitt af því sem sérstaka athygli vekur í svörum mannréttindastjórans er eftirfarandi:

Við mótun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði 16. maí 2006, var lögð áhersla á að kynjajafnrétti væri rauði þráðurinn í stefnunni og starfi mannréttindanefndar/ráðs þótt stefnan næði til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna.

Það er líka athyglisvert að mannréttindastjórinn leiðir hjá sér spurninguna um hvort það skipti máli hversu algeng kynferðisleg áreitni er á vinnustöðum borgarinnar (staðreyndin er að slíkt er nánast óþekkt hjá borginni eins og fjallað var um  hér).

Miðað við  áherslurnar sem birtast í útgáfuefni og á vefsíðum Mannréttindaskrifstofunnar, virðist ekki óvarlegt að ætla að meirihluti vinnu þeirra 5-6 starfsmanna sem þar starfa snúist um það sem kallað er kynjajafnrétti og kynbundið ofbeldi.  Samt er ekki að sjá að þetta séu  raunveruleg vandamál hjá borginni.  Eins og fram hefur komið er kynferðisleg áreitni nánast óþekkt fyrirbæri á vinnustöðum borgarinnar, þótt Mannréttindaskrifstofan hafi gefið út sérstakan bækling þar sem gefið var í skyn að þetta væri alvarlegt vandamál, þvert á það sem vitað var áður en bæklingurinn kom út.

Sé útgáfuefni Mannréttindaskrifstofunnar skoðað, og það sem birtist á vefsíðum hennar, verður sú spurning æ áleitnari hvort starf þessarar skrifstofu þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa vinnu fyrir fólk sem er með klám og ofbeldi á heilanum.  Það er nógu slæmt að sóa þannig almannafé.  Hitt er ekki skárra að með þessu er reynt að skapa andrúmsloft ógnar og tortryggni á fölskum forsendum.  Það er sérkennilegt „mannréttindastarf“.

—————————————————————————————-
From: Anna Kristinsdóttir <anna.kristinsdottir@reykjavik.is>
Date: 2012/4/30
Subject: Svör við fyrirspurnum
To: einar@alum.mit.edu

Sæll Einar,

Meðfylgjandi eru svör vegna fyrirspurna þinnar frá 9. og 11. Apríl 2012

1.  Hver tók ákvörðun um útgáfu bæklingsins (og um vinnuna sem á undan honum fór)?

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands sótti um styrk til nýsköpunarsjóðs námsmanna í samvinnu við Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna í Háskóla Íslands til að skoða klámvæðingu á vinnustöðum. 
Verkefnið var mjög vel af hendi leyst og var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lögð er áhersla á að nýsköpunarsjóðsverkefni séu nytsamleg og var frá upphafi í umsókn gert ráð fyrir að rannsóknin nýttist stjórnendum og starfsfólki með kynningarefni af einhverju tagi.  

2.  Af hverju var ákveðið að gefa út bæklinginn?
Til þess að hvetja til umræðu um klámvæðingu og kynferðislegra áreitni í samfélaginu, sjá einnig svar við spurningu 1. 

3.  Hversu mikið kostaði þetta, þ.e.a.s. öll vinnan í þessu sambandi, útgáfa, dreifing o.s.frv.?
Ekki liggur fyrir endanlegur kostnaður vegna útgáfu en hönnun og prentun er áætlað að kosti kr 250.000. -300.000  Bæklingnum var dreift á vinnustaði Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands af starfsfólki án sérstaks kostnaðar. Bæklinginn er einnig að finna á vef borgarinnar.

4.  Telur þú þetta átak vera mikilvægan þátt í mannréttindastarfi borgarinnar?  Ef svo er, af hverju?  Og, skiptir í því sambandi einhverju máli hversu algeng kynferðisleg áreitni er á vinnustöðum borgarinnar?


Já, í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er sérstaklega kveðið á um Reykjavíkurborg vinni gegn klámvæðingu.  Enn fremur segir að kynferðisleg áreitni sé með öllu óheimil. Með kynferðilegri áreitni er vísað í orðskýringar jafnréttislaga; Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Öll kynferðisleg áreitni er litin alvarlegum augum hvort sem um eitt eða fleiri atvik er að ræða. 

5.  Miðað við útgáfuefni Mannréttindaskrifstofunnar virðist þið telja að klám og kynjajafnrétti séu mikilvægustu mannréttindamálin.  Er það í raun lýsandi fyrir afstöðu ykkar?  Ef svo er, af hverju teljið þið þetta svona mikilvægt (meðal mannréttindamála)?  Ef ekki, hver eru þá helstu áherslumálin í mannréttindum hjá ykkur, hvernig vinnið þið að þeim og hvernig er hægt að kynna sér afrakstur þeirrar vinnu?

Sveitarfélög hafa lögbundna skyldu, skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10 frá 2008, til að halda úti starfi jafnréttisnefnda sem er lagðar ákveðnar skyldur á herðar, sjá 12. grein laganna. Hjá Reykjavíkurborg er mannréttindaráði falin þessi verkefni.  
Við mótun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði 16. maí 2006, var lögð áhersla á að kynjajafnrétti væri rauði þráðurinn í stefnunni og starfi mannréttindanefndar/ráðs þótt stefnan næði til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna.   Starf mannréttindaskrifstofu endurspeglar lagasetningar og samþykkta stefnumótun Reykjavíkurborgar.  Árlega er unnin starfsáætlun  mannréttindaráðs í mannréttindamálum og þar koma fram helstu áherslur sem unnið er eftir hverju sinni. Starfsáætlun má finna á síðu mannréttindaskrifstofu undir útgefið efni auk ýmiss annars efnis sem varpar ljósi á starfsemina. 

 

6.         Það er best ég bæti við einni spurningu til þín.  Á þessari síðu eru birtar „kynlegar tölur“:  http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/mannr_ttindaskrifstofa/skjol/kynlegar_tolur_070312_HQ.pdf  Hver er tilgangurinn með því?  Og hvernig eru valin þau atriði sem fjallað er um?

Á fundi mannréttindaráðs þann 11. mars 2010 var samþykkt tillaga í mannréttindaráði um að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars yrði kynnt töluleg gögn varðandi stöðu kynjanna í Reykjavík. Mannréttindaskrifstofa vinnur í samráði við mannréttindaráð að útfærslu bæklingsins hverju sinni.  

Með bestu kveðju,

Anna Kristinsdóttir
mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

 • Nafnlaus

  Borgarstjóri og meirihluti hefur samþykkt þetta, bókað bara til að hafa Sóley Tómas góða.

  Hvort er dýrara, að senda þetta lið í eitthvað svona föndur eða leyfa því að setja alla fundi í lás með upphrópum og látum, þannig að enginn af okkar kjörnu fulltrúum geti einu sinni byrjað að vinna fyrir kaupinu sínu – held að bæklingurinn sé ódýrari fyrir okkur öll, og á meðan jólasveinkur eins og Sóley eru kosin þá verður Ráðhúsið dýr fullorðins leikskóli

 • Flott hjá þér, Einar, haltu þeim áfram við efnið. Það standa sig margir að sjálfsritskoðun í þessum efnum og þora ekki að segja hug sinn vegna hinnar stæku rétthugsunar sem er í gangi. Ef þú viðurkennir ekki klámvæðinguna, skilgetið afkvæmi feðraveldisins, og skelfilegar afleiðingar hennar á samfélagið, ertu um leið kominn í hóp karlrembusvína og klámhunda sem rembast við að verja vígstöðu sína gagnvart konum. Það er þessi ósanngjarna uppstilling sem er rót þess tilfinningarhita sem blossar iðulega upp í umræðum um femínisma.

 • Glæsilegt Einar.

  Þú hefur einn og óstuddur algjörlega afhjúpað þetta lið.

  Þetta fólk með klám og kynbundið ofbeldi á heilanum og gerir sér það að féþúfu á kostnað skattgreiðenda.

  Mjög margir sjá í gegnum þetta og þakka þér skrifin.

 • Ingimundur

  Það er orðinn verulega hvimleiður andskoti og kostnaðarsamur fyrir þjóðfélagið þegar yfirvöld, ráð og skrifstofur þeirra ýmsar svara ekki því sem þau eru spurð um, sbr. svar Önnu hér að ofan. Það bætist ofan á verulegan kostnað samfélagsins við að sannreyna forsendur og leiðrétta það sem frá stjórnvöldum kemur og rangt er, það sem veldur kostnaði að óþörfu og er slæmt yfirhöfuð.

  Ég hvet alla sem standa í svona svarpíningu úr stjórnvöldum að minna á í upphafi erinda sinna að stjórnvöldum ber að fara í meðferð fyrirspurnar og við ákvarðanatöku svo sem um útgáfu bæklings (ímynda ég mér amk ) eftir amk eftirtöldum greinum stjórsýslulaga, greina sem snúa að
  (7. gr.) leiðbeiningaskyldu stjórnvalda,
  (7.gr.) að vísa erindi til rétts stjórnvalds,
  (10.gr.) rannsóknareglu,
  (11.gr.)jafnræðisreglu,
  (12.gr.) meðalhófsreglu,
  (21. gr.) um hvenær veita skal rökstuðning
  og
  (22. gr.) um efni rökstuðnings
  Það eru örugglega einhver ákvæði um þetta í stjórnsýslulögum,
  en fróðlegt væri að heyra frá einhverjum lögfræðingi hér hvort til séu aðrar lagalegar leiðir til viðbótar við upplýsingalög til að fá svör frá stjórnvöldum og rökstuðningi við aðgerðir þeirra.

 • Ég er sem betur fer alls ekki einn um að gagnrýna ofstækisfemínisma, og reyndar eru aðrir mun virkari í því en ég, ekki síst þessir:

  http://forrettindafeminismi.com/

  http://www.pistillinn.is/

  http://www.andmenning.com/

  Hitt er rétt að það eru fáir sem leyfa sér að gera slíkt opinskátt, og nánast engin manneskja í áhrifastöðu. Það er slæmt, því áhrif dólgafemínista eru orðin talsverð í stjórnsýsluni. Hér eru tveir pistlar sem fjalla einmitt um það hvernig femínistar reyna að sölsa undir sig umræðuna:

  http://forrettindafeminismi.com/2012/04/22/af-yfirtoku-ordraedunnar/

  http://www.pistillinn.is/?p=1948

 • Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands!

  Makalaust hvernig þessu liði hefur tekist að hasla sér völl innan Háskólans.

  Hvað eru stjórnendur skólans að hugsa?

  Þetta er með ólikindum – skólinn leggur blessun sína yfir þvætting og öfga og leyfir að þeir séu klæddir í fræðilegan búning sem stenst enga skoðun.

  Í þessari miðstöð er enga raunverulega fræðimenn eða fræðimennsku að finna.

  Er rektorinn þá jafm vonlaus og sagt er?

 • Já Rósa, það er náttúrulega ekki líðandi að einn maður velti öðru eins hlassi og þar sem Einar hefur einn og óstuddur algjörlega afhjúpað þetta lið, hef ég ákveðið að verðlauna hann. Dettur þér eitthvað sniðugt í hug sem ég get gert til að votta honum þakklæti mitt fyrir að hafa afhjúpað þetta lið alveg einn og óstuddur? Hvort finnst þér að ég ætti frekar að nudda á honum tærnar eða baka marengstertu?

 • Það skemmtilega við þetta allt, er að því fleiri sem krefjast svara við þessu glórulausa framtaki, þess meiri tími og peningur fer í að svara ruglinu…

  Svo ég mæli með því að Eva nuddi tærnar á Einari með marens.

 • Theodór Gunnarsson

  Já, þessi tilvera okkar verður undarlegri með hverjum deginum sem líður. Ég tek undir það að mér finnst með ólíkinum að Háskóli Íslands skuli standa fyrir þessari útungunarstöð fyrir feminista, sem kynjafræðideildin er. Það er nákvæmlega jafn vitlaust eins og það er að Háskólinn skuli halda úti guðfræðideild, en það var þó eldgömul hefð fyrir því, frá þeim tímum þegar kristin trú tröllreið öllu samfélagi hins vestræna heims.

  Mig langar samt að venda kvæði mínu í kross og fara í málvöndunargírinn. Mér finnst það einkennileg þróun í málinu að orðið öfgar, sem hefur hingað til verið kvenkyns fleirtöluorð, skuli vera að verða karlkyns, samanber þessa setningu, „Þetta er með ólikindum – skólinn leggur blessun sína yfir þvætting og öfga og leyfir að þeir séu klæddir í fræðilegan búning sem stenst enga skoðun.“ Hér er þetta greinilega orðið karlkynsorð, þeir öfgarnir.

 • ,,Mannréttindastjóri“ ?

  Hvað þýðir þetta undarlega orð?

 • Sú var tíð að guðfræðideildir háskólanna stunduð rannsóknir í djöflafræðum og þóttu mikil vísindi.

 • Annars voru það unglingar sem opnuðu eyru mín fyrir þessum þvættingi þegar ég prísaði feminismann og sögðu: ,,Það hefur margt breyst síðan þú varst hippi, gamli vinur.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur