Fimmtudagur 10.05.2012 - 20:27 - 24 ummæli

Gullgerðarmenn Íslands

Í sumar birtist skýrsla þar sem Íslendingum var lofað gulli og grænum skógum, á við olíuauð Norðmanna, ef Landsvirkjun fengi bara að virkja nóg. Í gær og í dag birtust í fleiri fjölmiðlum fréttir um að tilteknir „sérfræðingar“ segi að tillögur um breytingar á Rammaáætlun gætu kostað íslenskt samfélag allt að 270 milljarða króna á næstu fjórum árum (og staðhæfingar „sérfræðinganna“ eru kynntar á Alþingi sem staðreyndir).

Það er reyndar sama fólkið sem kemst að þessum niðurstöðum í báðum tilfellum. Hér er um að ræða sannkallaða gullgerðarmenn, sem gerðu svipaðar skýrslur og komust að niðurstöðum í sama stíl fyrir fáum árum. Þá var viðfangsefnið reyndar íslenski verðbréfamarkaðurinn, sællar minningar, ekki síst bréf í bankanum sem þessir snillingar unnu hjá, og sem þeir töluðu upp daginn út og inn. Það er svolítið sérkennilegt að Landsvirkjun skyldi ráða fólk með þennan feril til að gera skýrslu um framtíðarsýn fyrirtækisins. Og sorglegur vitnisburður um íslenska fjölmiðla að þeir skuli athugasemdalaust birta guðspjöll þeirra.

Til skemmtunar er hér útdráttur úr kynningum á helstu starfsmönnum GAMMA, sem finna má í heild sinni á heimasíðu fyrirtæksins:

 
Agnar Tómas Möller hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði í 10 ár, fyrst hjá Búnaðarbanka Íslands og síðan Kaupþingi. Agnar byrjaði í greiningardeild með áherslu á íslensk skuldabréf. Árin 2004–2006 var hann í áhættustýringu Kaupþings og sá m.a. um þróun og forritun hugbúnaðar til stýringar á markaðsáhættu Kaupþings og eftirlit með markaðsáhættu bankans. Frá árinu 2006 til byrjunar árs 2008 vann Agnar í skuldabréfamiðlun Kaupþings. Árið 2008 var Agnar sjóðsstjóri GPS Invest, fjárfestingarfélags sem sérhæfði sig í fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum. Einnig hefur Agnar sinnt kennslu við Háskóla Íslands og kennir m.a. nú námskeiðið Skuldabréf í meistaranámi í hagfræði.

Ásgeir [Jónsson] hóf starfsferillinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994 og ritstjóri Vísbendingar árið 1995. Árið 2000 hóf hann störf á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og varð lektor hjá Hagfræðideild HÍ árið 2004. Ásgeir tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2004 og forstöðumaður Greiningardeildar Kaupþings 2006 (síðar Arion Banki). Árið 2011 fór hann aftur í fulla stöðu sem lektor við HÍ samhliða því að vera efnahagsráðgjafi hjá GAMMA.

Gísli Hauksson er framkvæmdastjóri GAMMA. Gísli er með 12 ára reynslu af störfum á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Gísli starfaði áður sem Director Fixed Income Sales (skuldabréfaviðskipti og afleiður) hjá Kaupþingi á Íslandi frá 2006 til febrúar 2008, frá 2004-2006 var hann Director Fixed Income and FX hjá Kaupþingi í London og þar áður í skuldastýringu Kaupþings (Búnaðarbanka Íslands áður). Árið 2008 var Gísli sjóðsstjóri GPS Invest, fjárfestingarfélags sem sérhæfði sig í fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum.

Guðmundur Björnsson var forstöðumaður Afleiðuviðskipta Kaupþings frá 2005 fram í september 2008. Þar hafði hann yfirumsjón með verðlagningu og áhættuvörn vegna afleiðuviðskipta í tengslum við gjaldeyri, vexti og skuldabréf ásamt þróun á afleiðuvörum og afleiðutengdum skuldabréfum. Guðmundur er með 11 ára reynslu af afleiðuviðskiptum og hóf störf í afleiðuviðskiptum hjá Búnaðarbanka Íslands þar sem hann vann að þróun og hönnun afleiða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Ef þetta eru vildarvinir og ráðgjafar Landsvirkjunar, þá hefur það álíka trúverðugleika og að menn með barnagirnd væru ráðnir á leikskóla.

  • Og í hvaða höndum enda gjaldfallnar vitfirringslegar fjárfestingar kostaðar af almenningi?

  • Tengsl kaupþings og hagfræðistofnunar HÍ – er hugsanlegt að hér sé komin skýring á Kaupþingsláninu sem ómögulegt virðist vera að fá trúverðugar skýringar á.

  • Gott og vel, ekki virkja meira til atvinnusköpunar, heldur láta náttúrunnar njóta vafans og leyfa útlendum ferðamönnum að njóta hennar ókeypis.

    Er einhver ykkar þá með raunhæfar hugmyndir um það hvernig við sköpum atvinnu fyrir þær 13.000 sálir sem eru atvinnulaus hér á landi í dagi? – svo maður nefni nú ekki alla þá sem hafa orðið að flýja atvinnuleysið hér á landi og fara til Noregs.

    • Einar, ef allar þessar virkjanir sem þegar hafa verið byggðar skapa ekki velmegun og atvinnu, hvers vegna á þá að virkja meira? Og hvað gerist þegar búið er að virkja allt og ekki hægt að virkja meira, fer þá allt til fjandans? Hvenær er komið nóg af virkjunum? Eða svo ég orði það öðruvísi, hvenær er komið nóg af sértrúarsöfnuðum???

  • Hvað kemur það málinu við þótt þessir aðilar hafi unnið í bankakerfinu eins og flestallir menn með viðskiptavit á þeim árum?

  • Sammála Kalla.

    Þó þessir menn hafi unnið í bankakerfinu hér á árum áður, þá geta þeir alveg tjáð sig um þessi mál og reiknað fram til þess fórnarkostnaðar sem það hefur í för með sér að slá flestar virkjanir af, nema kannski þær virkjanir sem rétt duga til ljósa.

    Það virðist alltaf gleymist og meinnt umhverfisvernd sem felst í því að afskrifa frekari virkjanir, kosta samfélagið gríðarlega fjárhæðir í töpuðum tekjum af orkusölu og afleiddum störfum í samfélaginu.

    Ætli Norðmenn væru svona ríkir ef þeir hefðu haft meinta umhverfisvernd að leiðarljósi og ákveðið að vinna ekki olíu út af ströndum Noregs af því að náttúran ætti að njóta vafans?

  • „Hvað kemur það málinu við þótt þessir aðilar hafi unnið í bankakerfinu eins og flestallir menn með viðskiptavit á þeim árum?“

    Ef fólk gerir spádóma um framtíðina þegar viðskipti og fjármál eru annars vegar, kemur það þá ekki málinu við hvort viðkomandi hafa í fyrri spádómum sínum sagt tóma vitleysu?

    Og, hefur þetta fólk sýnt að það hafi „viðskiptavit“? Í hverju felst það?

  • Einar, þessir menn spáðu um fjármál og efnahagslíf út frá þeim forsendum sem þá voru til staðar.

    Á þessum tíma (vorið 2008) gerði enginn ráð fyrir algjöru hruni fjármálakerfisins haustið eftir, hvað þá falli Lehman Brothers sem orsakaði það fjármálalega-Tsumani sem skolað hingað yfir landið.

    Þessir menn eru að benda á þanna fórnarkostnað sem öfga-umhverfisvernd hefur í för með sér til þess eins að menn geti þá brugðist við slíkum kostnaði og reynt að finna eitthvað annað í staðinn til að bæta þann kostnað.

    Þessir menn eru raunvísindamenn, en eins og allir vita eru raunvísindi „exact vísindi“ sem byggja á gefnum forsendum.

  • Emil: Mér sýnist hafa komið vandlega í ljós eftir hrun að þeir sem höfðu innsýn í starfsemi Kaupþings vissu löngu fyrir hrun að þetta var allt spilaborg byggð á lygi og prettum. Ef þessir menn voru ekki lygarar sjálfir virðast þeir hafa sýnt fullkomið getuleysi sem spámenn.

    Ef þetta eru „raunvísindamenn“ (sem er auðvitað vafasamt yfirleitt þegar fólk er að gera spár um viðskipti langt fram í tímann), þá eru þeir afar vondir vísindamenn. Slíkt fólk á ekki að ráða til að gera spár um framtíðina.

  • Einar, þessir menn voru að reikna út tapið af því að nýta ekki auðlindir landsins, punktur.

    Það virðist alltaf gleymast í þessu þjóðrembingslega verndunarbrjálæði, að svokölluð umhverfisvernd sem fellst í því að virkja ekki neitt meira, kostar heil mikla peninga og glötuð tækifæri.

    Og kostnaðurinn verður enn meiri sé ekki hægt að benda á eitthvað áþreifanlegt sem gæti þá komið í staðinn fyrir að nýta ekki náttúruauðlindir landsins.

  • Það er langt frá því að vera einfalt mál að „reikna út tapið“ af því að virkja ekki. Þessir menn hafa ekki sýnt að þeir kunni að reikna, né heldur að þeir séu lausir við að láta tiltekna hagsmuni hafa áhrif á útreikninga sína.

    Það er heldur ekkert sem bendir til þess að fjárfesting í virkjunum (sem er gífurlega dýr) skili nálægt því eins miklum arði og aðrar hugsanlegar fjárfestingar. Á þessu sviði gildir að virkjanasinnar þylja í sífellu möntrur sem enginn fótur er fyrir, umfram útreikninga fólks eins og ofangreindra aðstoðarmanna stórglæpamanna.

    Það er ágætt að hafa í huga að Danmörk er auðlindalaust land, en hefur vegnað ágætlega samt.

    Að vilja vernda náttúru landsins frá frekari virkjunum gerir manni ekki skyldugt að benda á aðrar leiðir til uppbyggingar. Það er þó enginn vandi að gera slíkt; ég treysti mér til að benda á fjölmargar slíkar leiðir.

  • Sigurður Harðarson

    Þegar umræða um verndun fer út alhæfingar um að „tapa“ því sem mögulega gæti orðið til og „kostnað“ af því að leita ekki mögulegs hagnaðar, er um pólitíska orðaleikfimi að ræða en ekki raunverulegar umræður.

    Að „náttúran njóti vafans“ eru ekki einu rökin fyrir því að stífla ekki og bora ekki afþví að mögulegur markaður sé fyrir hendi með orku. Um það hafa fróðari menn en ég ritað margar greinar og bækur.

  • Samkvæmt kenningum margra, verðum við á vonarvöl eftir að búið verður að virkja allt sem virkjað verður

  • Svavar R.

    Það er alveg greinilegt að svokallaðir náttúrverndarsinnar eru sáttir við hátt atvinnuleysi hér á landi svo fremi sem að meint náttúruverndarsjónarmið þeirra nái fram að ganga.

    Þessir náttúruverndarsinnar finnst bara að atvinnulaust fólk eigi að hætta að kvarta yfir atvinnuleysi og þakka fyrir að eiga svo ómetanlega verðmæti sem óspillt náttúra er.

    En atvinnulaust fólk borgar ekki reikningana sína með óspilltri náttúru, hvað þá að það geti keypt sér lífsnauðsynjar og borgar fyrir þær með óspilltri náttúru.

  • Sammála Svavari.

    Óspillt náttúra borgar ekki neitt.

    Bókvitið verður ekki í askana látið.

  • Eru Svavar og Páll að halda því fram að hér sé atvinnuleysi vegna þess að ekki hefur verið virkjað nóg?

  • Svavar R.

    Já, það er tilfellið. Hægt væri að útrýma atvinnuleysi ef orkuauðlindir landsins yrðu nýttar meira. Það er einfaldlega staðreynd.

    Eða ert þú með einhverjar lausnir á atvinnuleysisvandanum, Hannes?

    Hvernig ætlar þú að búa til störf handa 12.000 – 15.000 manns sem hér eru atvinnulaus og það fyrir árið 2015?

    Ps. Mundu að hvert % í atvinnuleysi kostar samfélagið ca. 400 mio.kr. á mánuði.

  • Páll. Af hverju bætirðu ekki við, frasanum fræga úr kvikmyndinni Wall Steet „Græðgi er góð“. Fyrirgeðu en þessi setning þín „Óspillt náttúra borgar ekki neitt“ kemst í flokk heimskulegustu setninga. Hugsaðu aðeins um hana, þá skilurðu hvað ég á við. Þú kemur svo með gáfulegan málshátt. En því miður í fáránlegu samhengi.

  • Svavar, hvernig færðu það út að atvinnuleysi yrði útrýmt ef orkuauðlindir landsins yrðu nýttar meira?
    Ég er af sjálfsögðu ekki á móti því að auðlindir landsins séu nýttar. En spurningin er hvar á að gera það og hvaða sjónarmið eiga að ráða ferðinni. Það þarf að vega á móti hversu mikla orku er hægt að vinna og hversu mikil röskun á nátúru landsins er. Eða hvað Svavar, lítur dæmið öðruvísi út hjá þér?

  • Já og faðir hans Ásgeirs, Jón Bjarnason, er nú þekktur gullgerðarmaður til bæði sjávar og sveita. Þetta helst allt saman í hendur þegar smala saman skal fjársjóðum Íslands í réttar hendur.

  • Svavar R.

    Hannes, það mætti nýta orkuna til að knýja ýmiskonar framleiðslu, ekki bara stóriðjuver, heldur líka aðra starfsemi svo iðnaðarframleiðslu sem skapar handbærar vörur til útflutnings, auk gagnavera.

    Allt þetta skapa mikla atvinnu og mikil verðmæti.

    Auk þess mætti nota orkuna til að knýja farartæki t.d. bifreiðar, almenningsfarartæki og jafnvel lestir.

    Ef byggð yrðu nokkur orkuver, myndi það eitt skapa allt að 10.000 störf á meðan á byggingartímanum stæði, sem myndi svo skapa önnur 10.000 störf til að þjónusta alla þá er störfuðu við orkuuppbyggingu.

    Þegar byggingarstíma þessara orkuvera lyki, færi bróðurpartur þess vinnuafls er hefði verið við byggingu þessara orkuvera í önnur störf t.d. við ýmiskonar framleiðslu eða í þjónustu störf tengd þessum geira.

  • Svavar, auðvitað skapar þetta atvinnu.

    En mér þykir umhugsunarvert þegar dæminu er stillt upp þannig að það skuli bara fara á stað og virkja einn, tveir og þrír. (Atvinnuleysi útrýmt í leiðinni). Án þess svo mikið sem að gefa því gaum hvar skulu virkja.

    En eins og ég sagði áðan, þá er ég ekki á móti því að virkja orkuna. Alls ekki. Og líst mjög vel á að nota rafmagnið til að knýja farartæki. Erum kannski of fámenn til að það borgi sig að vera með lestir. En kjörið með skipin og bátana.

  • Svavar: Bygging virkjana skapar miklu vinnu í stuttan tíma. Þess vegna eru kjördæmapotarar á fullu að reka áróður fyrir virkjunum í sínu kjördæmi. Ef ég man rétt þá átti 30 milljarða fjárfesting í Búðarhálsvirkjun að skila níu störfum í álverinu í Straumsvík. Það er eins og að míga í skóinn sinn. Við 30 milljarða er hægt að skapa margfalt fleiri störf til frambúðar en gert er með því að virkja.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur