Laugardagur 08.09.2012 - 20:45 - 1 ummæli

Lygar, meðvirkni og siðferði

Vinur minn sagði einu sinni, eftir reynslu af einmitt þess konar tagi, að á Íslandi væri ekki hægt að vera í tuttugu manna samkvæmi án þess að einhver gestanna þekkti NN persónulega (þar sem NN getur verið hvaða þekktur Íslendingur sem er).  Þess vegna væri ekki hægt að tala um vammir og skammir NN, ef einhverjar væru, bæði af tillitssemi við viðkomandi gest og af því að gesturinn tæki auðvitað til varna og lýsti því hversu góð manneskja NN væri í raun.
Þannig erum við nánast öll, að verja vini okkar hvað sem á dynur, og það er ekki endilega slæmt, því þótt vinir eigi að segja til vamms þurfa þeir sem gera eitthvað af sér líka að eiga góða að sem ekki einbeita sér að því neikvæða í fari viðkomandi.
Fjölmiðlar ættu hins vegar ekki að taka að sér vinarhlutverk af þessu tagi, enda er lítil von til að í landinu þrífist sæmilegt opinbert siðferði ef fjölmiðlar veita ekki aðhald í þessum efnum.
Meðvirkni fjölmiðla er sérlega sláandi, og vond, þegar um er að ræða fólk sem augljóslega hefur gert sig sekt um jafn einföld siðferðisbrot og að ljúga og stela.
Nýjasta dæmið um meðvirkni fjölmiðla er að finna í Morgunblaði helgarinnar.  Þar er viðtal við mann sem laug því til að hann hefði hlotið doktorsgráðu við erlendan háskóla, og veifaði henni þegar hann var ráðinn í starf stundakennara við Háskóla Íslands, og, að því er virðist, einnig þegar hann var ráðinn rektor í Skálholti.
Í viðtalinu er látið liggja að því að doktorsritgerðin upplogna hafi eiginlega verið fullkláruð, en þeir sem eitthvað þekkja til átta sig á að jafnvel þótt orðum mannsins sé trúandi um hversu langt hann hafi verið kominn, þá segir það afar lítið um hvort umrædd ritgerð (hafi hún einhvern tíma verið til) hefði einu sinni verið tæk til varnar, hvað þá að ljóst væri að hún yrði samþykkt við vörn.  Auk þess átti maðurinn, að eigin sögn, eftir „[hluta] prófsins úr völdum námsgreinum“.
Morgunblaðið er reyndar ekki eini fjölmiðillinn sem hefur staðið sig illa í þessu máli.  Bæði Fréttablaðið og RÚV vissu um hvern var að ræða þegar þau sögðu fréttir af ónefndum manni sem hefði starfað sem stundakennari við HÍ, eða a.m.k. skömmu síðar, og með því að leita að nafni hans á netinu sást strax að hér var um að ræða fyrrum rektor í Skálholti, að hann var kynntur sem doktor þegar hann var ráðinn í það starf, og að hann hafði fengið rannsóknarstöðustyrk hjá Rannsóknasjóði (ekki Rannís, eins og ranglega er oft hermt í þessu máli; Rannís veitir ekki styrkina, en umsýslar þá).  RÚV sagði ekki frá þessu fyrr en eftir dúk og disk, og Fréttablaðið aldrei, eftir því sem ég best veit.
Í Morgunblaðsviðtalinu tekur þó steininn úr, því spurningar blaðamannsins eru beinlínis vandræðalegar, enda hljóma þær flestar eins og viðmælandinn hafi samið þær sjálfur, og þar er reynt að gera lítið úr öllu málinu, ekki síst margra milljóna rannsóknarstöðustyrk sem ljóst er að aldrei hefði verið veittur manni í miðju doktorsnámi, heldur hefði hann líklega fallið í skaut einhverjum sem ekki sagði ósatt um feril sinn.
Ég leyfi mér að halda fram að í flestum nágrannalanda okkar hefði það gerst í þessu máli að sá sem svindlaði léti sig hverfa úr sviðsljósinu í langan tíma.  Það hefði þótt sjálfsagt, og líklega einnig verið litið á það sem eðlilegt merki iðrunar.  Það hefði þannig verið hluti þess ferlis sem fólk fer yfirleitt í gegnum ef því verður á, iðrast og vill hljóta fyrirgefningu samborgaranna.  Enda erum við flest tilbúin að fyrirgefa þeim sem iðrast í raun og viðurkennir mistök sín einlæglega, sem er forsenda raunverulegrar fyrirgefningar.
Á Íslandi er þetta oft öðru vísi.  Fólk í valda- og áhrifastöðum þverskallast við að viðurkenna mistökin og ef það biðst fyrirgefningar eftir dúk og disk er það oftar en ekki ósannfærandi, því ljóst er að viðkomandi iðrast ekki.  Þetta framferði væri nánast útilokað þeim sem vilja öðlast á ný sæmilegan sess í mannlegu samfélagi ef ekki kæmi til meðvirknin sem er svo algeng, og sem blómstrar líklega í skjóli fámennisins þegar um er að ræða opinberar persónur, og sem fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á.
Það er svo sérstök kaldhæðni örlaganna í þessu máli að maðurinn sem um ræðir er einmitt framámaður í kirkju sem talar mikið um fyrirgefningu syndanna.  Það kann að skjóta skökku við, en ég er hálfpartinn farinn að vorkenna honum, því sé maðurinn einlægur í trú sinni hafa fjölmiðlar (og kirkjan hans) líklega gert honum bjarnargreiða með því að sannfæra hann um að þetta sé nú ekkert alvarlegt sem hann „lenti í“, og að best sé að halda uppi vörnum fyrir framferði sínu.  Svo lengi sem hann gerir það getur hann varla iðrast, og án iðrunar engin fyrirgefning …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Þörf ábending eins og oft áður hjá þér, og ég ber ekki í bætifláka fyrir eitt né neitt þótt ég bendi á að þetta er algengara en þú talar um. Sjálfsréttlæting er stjórnmálanna aðalstarf á köflum, nýlegt dæmi af fræðasviðinu erlendis er von Guttenberg í Berlín. Hann er nú aftur kominn á stjá, og sýna Þjóðverjar þó enga linkind á fræðasviðum. En hvernig þú færð það út að þjóðkirkjan réttlæti þennan verknad eða beri ábyrgð fæ ég ekki skilið, sjálfsagt tornæmi um að kenna. Varar ekki Siðfræði kristninnar sérstaklega við því að rugla saman syndinni og syndaranum? Fara ekki í mannin heldur málefnið, væri kannski skiljanlegra að segja. Allavega að kasta ekki fyrsta steininum. Manninum er margt til lista lagt, kannski eyjólfur hresist ef ég næ bjálkanum úr eigin auga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur