Þótt ég sé með hálfgert ofnæmi fyrir hnyttnum tilvitnunum, vegna þess hve þær eru ofnotaðar (ekki síst ef maður ferðast um á Facebook), þá á ég mér samt uppáhalds „tilvitnun“. Hún er svona á ensku: „Never attribute to conspiracy what can be adequately explained by stupidity“. Þessu mætti snara svo á íslensku: „Ekki líta á það sem samsæri sem auðvelt er að útskýra með heimsku“.
Ég er sem sagt lítill aðdáandi samsæriskenninga. Hins vegar er ég farinn að hallast æ meira að því að Ísland sé, eins og alltaf, alveg einstakt að þessu leyti. Nefnilega að íslenska valdaklíkukerfið sé afar haganleg samsuða af samsæri og heimsku, þar sem flestir samsæringjanna eru of heimskir til að fatta hvað þeir eru að gera, frekar en að þeir séu hrein fúlmenni. Dæmin eru enda óteljandi, og sínálæg. Það nýjasta sem á vegi mínum varð var „frétt“ í ríkissjónvarpinu. Hún fjallaði, á algerlega gagnrýnislausan hátt, um mikla skýrslu „sérfræðinganefndar“ á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja, um það „hvort verðtrygging sé nauðsynleg á Íslandi.“
Ríkissjónvarpinu finnst sem sagt sjálfsagt að útvarpa sem „frétt“ einhliða áróðri voldugustu hagsmunaaðilanna í málinu. Til að bíta höfuðið af skömminni er í „fréttinni“ viðtal við Ásgeir Jónsson, hagfræðing, en hann er einn af forsprökkum braskarafyrirtækis sem kallast Gamma, og er annar þeirra tveggja starfsmanna fyrirtækisins sem báru meginábyrgð á ritun skýrslunnar.
Ásgeir þessi var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings (og svo Arion banka) í nokkur ár fyrir og eftir hrun. (Þetta er sami maðurinn og Landsvirkjun réð til að lofa landsmönnum gulli og grænum skógum, á borð við olíuauð Norðmanna, ef fyrirtækið fengi bara að virkja allt sem hreyfist í landinu. Og hann er líka einn af „sérfræðingunum“ sem töldu að breytingar sem rætt var um á Rammaáætlun fyrr í ár gætu „kostað íslenskt samfélag“ allt að 270 milljarða á fjórum árum.)
Mér dettur ekki í hug að halda að fréttafólk RÚV sé svo heimskt að það sjái ekkert athugavert við að birta áróðurstilkynningar hagsmunaaðila sem fréttir, og viðtöl um horfur í efnahagsmálum við fólk sem hefur sannað eins vandlega og mögulegt er að það er algerlega ófært um spá fyrir um þróun fjármálakerfisins. Á hinn bóginn vil ég heldur ekki trúa því að þetta fólk taki viljandi þátt í því viðurstyggilega samsæri sem það er í raun að tala eins og ekkert hafi gerst og láta sama fólkið og rústaði fjármálakerfi landsins, og efnahag fjölda saklauss fólks, valsa um í fjölmiðlum eins og einhverja áreiðanlega spekinga.
Hvað á maður þá að halda? Er þetta hið ómeðvitaða samsæri heimskunnar sem verður til þegar saman fer grunnhyggið fréttafólk og voldugir, en jafn grunnhyggnir, vandræðamenn sem leika lausum hala þrátt fyrir svarta fortíð?
Því ver gefast heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.
Það hefur ekkert breyst.
Hver man ekki Ásgeir Jónsson, helsnyrtan og Armani-klæddan, á sjónvarpsskjám landsmanna ljúgandi fjandann ráðalausan fyrir bankana. Lítið breyst nema lookið.
Sami úlfurinn önnur gæra.
Hvað Ásgeir Jónsson varðar sannast hið fornkveðna sjaldan fellur epplið langt frá Eikinni
Það sem Einar er að tala um er umorðun á rakhníf Hanlon’s: „Never attribute to malice what can be adequately explained by stupidity“. Hvort tveggja má segja að leiði af rakhníf Occam’s. Ég vil sjálfur hafa minn eiginn rakhníf, sem liggur ekki alveg samhliða hinum tveimur.
Rakhnífur Björns: „Það er óþarft að reikna með að öll illska stafi af heimsku“
Það ætti enginn að taka mark á þessu Excel-runki hjá þessum Gömmum.
Þessir guttar hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig og hvernig þeir geta grætt sem mest á verðbréfabraski.
Er ekki bara málið að fólk vill halda djobbinu á stöðinni sama hvað? Ég held það. Neyðin kennir nakinni konu að spinna dæmið. Nakta konan kafnar svo vonandi í ullinni áður en hún nær að spinna hana.
Hvaða „skólar“ eru það sem „mennta“ svona „gott“ „fréttafólk“ eiginlega? Eða er það bankalánið sem er að kyrkja það?
Ég get vízt spekúlerað lengi. Ég kemst ekki hjá að borga afnotagjald gegnum skattinn af ruv þó ég eigi hvorki sjónvarp né útvarp. Virkar ótrúlegt en er samt satt. Borga þetta obligatoriska afnotagjald en finn mínar fréttir fyrir það mesta á netinu. Sjái ég sjónvarpsfréttir er það á annarra tæki.
Ég er ósátt við að vera neydd til að borga fyrir svona ríkisáróður sem hefur engann rétt á sér!!!!!
Ég hélt þessi drengur (ÁJ) hefði kannski lært eitthvað. En það var víst til of miklis ætlast. Mjög hissa samt að fétta „stjórar“ sjái ekki í gegnum svona…
Sæll Einar. Vinur minn og þinn frændi Páll Jónsson, gáfumaður og mannvinur, sagði mért eitt sinn frá því áliti ákveðins manns að „íslendingar eru jafnheimskasta þjóð í heimi, þó víðar væri leitað“.
Þó ég hafi hugsanlega ofnotað þessa raunsönnu lýsingu í athugasemdakerfi bloggmiðla, í anda Kató, þá á hún bara svo ótrúlega oft við. Sbr. efni þessa pistils.
Kveðja,
-þ
Það er útbreiddur misskilningur að samsæri feli í sér illan ásetning. Þvert á móti er leiðin til helvítis vörðuð góðum ásetningi. Heimskan er það eina illa.
HEHE snilldar grein, man þegar ég sá fréttina og hugsaði á svipuðum nótum, alveg hreint ótrúlegt hvernig svona einstaklingur sem í raun er rúin öllum trúnaði og afhjúpaður sem vitleysingur kemst í fréttir sem „´serfræðingur“. Fá Ásgeir og spákonur með tarot spil bara næst.
Líki honum Ásgeir við „séfræðingana“ sem sýndu fram á það með „séfræðiskýrslum“ að Asbest væri ekki slæmt fyrir þig, þetta eru pöntuð vísindi með fyrir fram ákveðinni niðurstöðu. En þar sem er eftirspurn verður til framboð,
Simon
Hvað er rangt við málflutning Ásgeirs Jónssonar?
Það er að vísu ekki rétt að greiðslubyrði verðtryggðra lána þyngist eftir því sem líður á lánstímann.
Verðtryggð lán eru jafngreiðslulán sem þýðir að greiðslubyrðin er jöfn út lánstímann ef vextir eru fastir og laun fylgja verðlagi. Verðtryggingin tryggir þetta.
Með jafnri greiðslubyrði á ég að sjálfsögðu ekki við jafnmargar krónur heldur sama verðgildi upphæðarinnar. Verðgildi krónunnar lækkar í verðbólgu. Það þarf því fleiri krónur til að halda óbreyttu verðgildi.
Greiðslubyrði verðtryggðra lána hefur oftast lækkað eftir því sem dregur á lánstímann vegna þess að kaupmáttur launa hefur hækkað.
En þegar laun dragast aftur úr verðlagi, eins og gerðist við hrun, þyngist greiðslubyrðin vegna þess að lán hækka í samræmi við hækkun verðlags á meðan laun standa í stað
Jöfn greiðslubyrði verðtryggðra lána gerir mörgum kleift að kaupa íbúð sem annars gætu það ekki vegna þess hve greiðslubyrðin er þung á óverðtryggðum lánum.
Þetta á við mörg fyrstu ár lánstímans og jafnvel lengur þegar vextir hækka mikið vegna verðbólguskots.
Verðtryggingin hefur þó mikla galla. En það er ekki heppilegt af ofangreindum ástæðum að útiloka hana og gera þannig fjölda fólks ókleift að eignast íbúð.
Minna vægi verðtryggingar í lánum landsmanna er þó heppilegt hjá þeim sem hafa efni á því. Þannig greiðast lánin fyrr upp með minni likum á greiðsluerfiðleikum vegna óvæntra aðstæðna.
Ónýt króna gerir verðtryggingu æskilega ef ekki nauðsynlega. Upptaka evru gerir verðtryggingu óþarfa.
Þegar kemur að því að lýsa vanhæfni íslenska stjórn og hagkerfisins hefur Einar rétt fyrir sér. Því miður. Hvort hægt sé að greiða úr þessu neti einkavina í stjórnun og klækjabragða hagsmunaaflanna til að halda sínu, er stórmál, en við höfum ekki mörg verkfæri til að gera það svo vel dugi. Innibyggð lógíkk hagsmunakerfisins mun alltaf halda sér og aldrei svíkja grunnmarkmiðin að þeir einir komist til áhrifa sem geta tryggt völd og áhrif þeirrs sem fyrir eru.
Þessi niðurstaða svokallaðra sérfræðinga er ekki ómeðvituð, þeir vita sem er að segir þú nógu oft og lengi að svart sé hvítt , verður það hvítt í augum þeirra sem láta glepjast, samanber allt sjálfshól og lygi núverandi ráðamanna un ástandið nú á nánast öllum sviðum þjóðfélagsins.