Föstudagur 05.10.2012 - 12:25 - 8 ummæli

Georg Bjarnfreðarson og OR-skýrslan

to borgarstjori, Kristín

Sæl Kristín

Takk fyrir póstinn.  Ég er svolítið svekktur yfir því að Georg skuli hafa tekist að læsa Jón inni á klósetti og láta svo starfsmann á plani senda mér „svar“ með engum viðbrögðum við því sem ég var að reyna að benda á, heldur bara úrklippu úr afsökunarsafninu sem hann lærði utanað í fimmta meistaranáminu.  Öllum sem hafa fylgst með afstöðu Georgs Bjarnfreðarsonar til lífs og starfs ætti að vera ljóst að það er ekki viðunandi framkoma sem hér er lýst varðandi afhendingu skýrslunnar.Það er alveg sérstaklega nöturlegt að Georg skuli hafa pínt þig til að tala um að niðurstöðurnar verði kynntar „eigendum“ fyrst, en almenningi miklu síðar. Eigendur Orkuveitunnar eru almenningur.  Þessi þarna sami almenningur og hefur þurft, og mun þurfa í mörg ár enn, að borga dýru verði klúðrið og spillinguna sem er rót þess að verið er að skrifa umrædda skýrslu.
Það er óviðunandi að Georg sé að leika eiganda bensínstöðvarinnar og neita hinum raunverulegu eigendum um afgreiðslu, með landsþekktum fruntaskap sínum,  Ekki bætir úr skák að hann skuli reyna að ljúga upp einhverri þvælu um „eigendanefnd“ (er það ekki bara stjórn starfsmannasjóðsins, sem á í raun ekkert í stöðinni?).
Ég vona að þú getir, fyrir lok dagvaktar í dag, laumast til að sleppa Jóni út af klósettinu og læst Georg þar inni í staðinn.  Ég er viss um að þá muni Jón birta skýrsluna okkur sem eigum stöðina, þótt það gleymist yfirleitt nema þegar á að borga fyrir tapið sem einlægt hefur orðið á vöktum Georgs, vegna klikkaðrar framkomu hans gagnvart viðskiptavinum og starfsmönnum.
Ég bið þig svo að votta Jóni samúð mína þegar hann sleppur úr prísundinni, og ég mun ekki áfellast hann fyrir að löðrunga Georg duglega, þótt það sé kannski ekki alveg í samræmi við reglurnar.
Bestu kveðjur,
Einar

2012/10/5 Kristín Vilhjálmsdóttir <kristin.vilhjalmsdottir@reykjavik.is>

Tilvísun í mál: R11040015

Sæll Einar.

Bestu þakkir fyrir erindi þitt til borgarstjóra þar sem farið er fram á að skýrsla um úttekt á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) verði birt almenningi strax. 

Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar eigendum á auka eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur kl. 15.00 miðvikudaginn 10. október nk. og í beinu framhaldi af þeim fundi verður boðað til kynningarfundar með borgar- og bæjarfulltrúum og stjórn OR þar sem úttektarnefndin mun gera grein fyrir niðurstöðum sínum og skýrslan afhent. Strax að loknum þeim fundi verður boðað til blaðamannafundar þar sem fjölmiðlum gefst kostur á að spyrja nefndarmenn og fulltrúa af eigendafundi út í niðurstöðurnar og skýrslan mun liggja frammi. 

Borgarstjóri sendir þér sínar bestu kveðjur með þökk fyrir fyrirspurnina. 

Með góðri kveðju,

Kristín Vilhjálmsdóttir
verkefnastjóri

Skrifstofa borgarstjóra – Mayor’s Office
Ráðhús Reykjavíkur – City Hall
Tjarnargata 11
101 Reykjavík
Sími/Tel. +354 411 4507
Fax. +354 411 4599
Netfang/E-mail: kristin.vilhjalmsdottir@reykjavik.is
Heimasíða/Homepage: http://www.reykjavik.is
__________________________________
Reglur um trúnað í tölvupóstsamskiptum: http://www.reykjavik.is/trunadur
Leiddu hugann að umhverfinu áður en þú prentar út þennan tölvupóst. Ef nauðsynlega þarf að prenta, prentaðu þá báðar hliðar og í svarthvítu.

From: einar.steingrimsson@gmail.com [mailto:einar.steingrimsson@gmail.com] Fyrir hönd Einar Steingrimsson
Sent: 3. október 2012 22:43
To: Borgarstjórinn í Reykjavík
Subject: Skýrslan um úttekt á OR

Til borgarstjóra

Hér með skora ég á þig að birta samstundis skýrsluna sem sagt er frá í þessari frétt:  http://visir.is/titringur-hja-reykjavikurborg-vegna-skyrslu-um-or/article/2012121009576

Orkuveitan er í eigu almennings.  Stjórnir sveitarfélaganna sem hún tilheyrir eiga auðvitað að þjóna hagsmunum almennings, og engum öðrum hagsmunum.  Þeir sem fara með völdin í þessum sveitarfélögum, eins og þú, hafa alls engan siðferðilegan rétt til að fara með þessa skýrslu eins og hún sé þeirra gagn, en ekki almennings.

Ég veit að það hefur verið erfitt að koma inn þeirri hugmynd hjá valdafólki á Íslandi að það eigi ekki að sitja í valdastöðum til að þjóna sjálfu sér og flokkssystkinum sínum, heldur almenningi.  Ég vona að þú brjótir þá vondu hefð, og birtir þessa skýrslu strax.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Jón Daníelsson

  Sæll Einar.

  Takk fyrir marga góða pistla. Hér hleypurðu þó full hratt að mínu viti. Aðalatriðið er að skýrslan verði birt almenningi – og sem allra fyrst. En ég sé ekkert athugavert við það, að kjörnir „fulltrúar eigenda“, sem sé stjórnmálamenn, fái að sjá hana fyrst. Þótt ekki væri nema til þess eins að þeir viti um hvað þeir eru að tala þegar fréttamenn reka hljóðnemann upp í kjaftinn á þeim.

  En ég tek undir að skýrslan verði birt. Hvort hún verður birt nákvæmlega í gær eða í fyrramálið, finnst mér ekki skipta höfuðmáli.

 • Jón ég er alls ekki sammála þér og tek undir með Einari.

  Þetta snýst um það að sjálfskipa sig í stöðu að fá að mögulega dæma um hvað þú mátt vita eða ekki vita og hvenær. Ég get ekki séð það sem neitt öruggt að við fáum ekki ritskoðaða skýrslu miðað við það að við sem eigendur fáum ekki fullan aðgang strax. Dæmið getur varla verið einfaldara og frábært af Einari að grípa þennan bolta.

  Annað dæmi.
  Mikið af hrun upplýsingunum er okkur hulið því það var talið „of viðkvæmt“ fyrir almenningsjónir. En það er í lagi að við greiðum tjónið en fáum samt ekki að vita alveg af hverju því það er „of viðkvæmt“. Þetta „meikar“ bara ekki „sens“.

  Þetta eru stóra bróðurs æfingar og gersamlega ólíðandi, þitt svar einkennist af því að við erum orðin bara svo vön því að það sé hugsað og túlkað fyrir okkur og fátt tel ég lýðræðinu meiri hætta á.

  SImon

 • Doktor Samúel Jónsson

  Hver er borgarstjóri? Er hann til? Hann er ekki með viðtalstíma? Hefur einhver séð hann? Er hann kannski bara einhver puntudúkka? Hvar er hún þá? Hún sést aldrei. Gerir hún nokkuð? Bara egóflipp án tilgangs eða markmiðs?

  Er víst að hann hafi sent Einari kveðju? Kveðju um að þakka fyrir spurninguna sem hann vill ekki svara?

  Nei, ég held að það séu bara Jesper, Kasper og Jónatan sem eru að leika hér borgarstjóra, en það má svo sem kalla það vírað stöff, kriminel þöggun.

 • Jón: Ég held ekki fram að nákvæmlega hvenær skýrslan verður birt almenningi sé stórmál. Hins vegar finnst mér þetta lýsandi dæmi um það hryllilega viðhorf sem gegnsýrir íslenska stjórnsýslu: Fólkið sem hefur völdin innan hennar lítur alltaf á eigin hagsmuni sem æðri hagsmunum almennings. Þetta ætti auðvitað að vera þveröfugt. Engum dettur í hug að halda öðru fram opinberlega en að hið æðsta vald komi frá almenningi. Þannig ætti það einnig að vera í praxís, og því ætti enginn nokkurn tíma að fá skýrslu af þessu tagi í hendur á undan almenningi, þegar henni er lokið, og hún er ekki lengur í vinnslu.

  Það gerir ekkert til þótt kjörnir fulltrúar þurfi að segja við fréttamenn að þeir hafi ekki kynnt sér efni skýrslunnar mínútu eftir að þeir fengu hana í hendurnar. Það er heldur ekki eðlilegt að valdafólkið fái langan tíma til að undirbúa sig sem hugsanlegir gagnrýnendur þess fá ekki. Valdafólkið á EKKI að verja eigin hagsmuni í þessu máli, eða nokkru öðru sem stjórnsýslan fæst við.

  Þetta viðhorf sem ég er að berjast fyrir hér hefur reyndar verið stjórnarskrárbundið í Svíþjóð í áratugi, og engan stjórnmálamann þar í landi hef ég nokkurn tíma heyrt halda því fram að það væri óeðlilegt, hvað þá skaðlegt. Í Svíþjóð hefði hver sem er, jafnvel þú, nafnlaust, getað fengið afrit af þessari skýrslu um leið og hún hafði verið afhent borgarstjóra.

  Þótt Svíþjóð sé ekki að öllu leyti draumaland, þá liggur einföld hugmynd að baki hinum ítarlegu og öflugu upplýsingaákvæðum sænsku stjórnarskrárinnar: Að stjórnvöld eigi að vinna fyrir hagsmuni almennings, og að engir aðrir hagsmunir megi hafa áhrif á það starf.

  Ég veit að það er nánast enginn skilningur á þessu sjálfsagða viðhorfi á Íslandi. Og mér finnst sláandi að maður eins og þú skulir taka undir þá afstöðu sem ég tel í þessu máli vera örgustu valdníðslu. Sláandi, einmitt af því að fáa menn þekki ég sem eru eins víðsýnir og réttsýnir og þú ert (þótt ég sé stundum ósammála þér).

 • „Hvernig í ósköpunum stendur á því að umrædd skýrsla er ekki strax kynnt hinum raunverulegu eigendum, þ.e.a.s. almenningi?“

  og:

  „Ég held ekki fram að nákvæmlega hvenær skýrslan verður birt almenningi sé stórmál.“

 • Anna María

  Sæll Einar og þakka þér fyrir fyrirspurnina. Vonbrigði okkar sem kusu besta flokkinn eru mikil. Það getur verið að Jón Gnarr telji að það að birtast í kjól annað veifið láti okkur gleyma öllum svikunum en svo er ekki þau minna frekar á. Að senda kjörnum fulltrúum fyrst skýrsluna kannski þeim sömu og skýrslan fjallar um er ófyrirgefanlegt.

  Það minnir mig á verklag sem er hjá Ríkinu en Ríkisendurskoðun gefur út tvo flokka skýrslna annars vegar stjórnsýsluúttektir sem eru birtar og hins vegar fjárhagsúttekir stofnana sem nema tugum talsins á hverju ári en þær skýrslur fá aðeins þeir að sjá sem verið er að gagnrýna ásamt viðeigandi fagráðuneyti og að lokum yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings. Þessar fjárhagsúttektir sýna best hvernig farið er með skattpeninga okkar og þær fá enga umfjöllun engin gagnrýnandi sér þær og því er allt óbreytt og spillt þrátt fyrir umfjöllun og gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Það er ekki að búast við miklum breytingum með þessum starfsaðferðum.

  Það er auðvelt að birtast í kjól og veifa til mannfjöldans þegar að mesta baráttan er hvort er unnin. En ef borgarstjóri myndi þora að fara nú gegn eigin spilltu ráðgjöfum og birta bókhald borgarinnar, allar skýrslur og úttektir sem hafa verið gefnar út þrátt fyrir að þær fjalli um vini hans og spillta vini þeirra þá myndi ég taka ofan. Spurningar á borð við stöðutöku Orkuveitunnar í krónunni er ósvarað, hverjir tóku þá ákvörðun, á hvaða fundi og í hvaða mæli. Er verið að fjármagna einkafyrirtæki á borð við Bláa lónið o.fl. Þetta þurfum við að vita til að geta hirt þá með atkvæði okkar sem eiga það skilið.

 • Doktor Samúel Jónsson

  Georg Bjarnfreðarson hefur sagt mér þetta á trúnó:

  „Besti Gnarr Bjarnfreðarson
  er heiti á aflandsfélagi útrásarvíkinga Samfylkingarinnar.
  Merkin um það eru alls staðar og algjörlega augljós.“

 • Doktor Samúel Jónsson

  Og það get ég sagt ykkur,
  að ekki lýgur hann dr. Georg sem er með enn fleiri doktorsgráður en ég.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur