Sunnudagur 21.10.2012 - 01:45 - 12 ummæli

Opið bréf til Páls RÚVstjóra

Kæri Páll
Svona leit dagskrá RÚV út daginn sem einhver mikilvægasta þjóðaratkvæðagreiðslan í sögu landsins fór fram: http://dagskra.ruv.is/dagskra/2012/10/20/
Nú þarf einhver að segja af sér á RÚV vegna hneykslisins.  Því miður er ekki hægt að reka dagskrárstjórann, því hún hljóp út í fússi fyrir tveim vikum.  Þá verður næsti yfirmaður hennar að segja af sér, sem ég held að sé þú, sorrí …
Bæbæ,
E
PS.  Væri ég í þínum sporum og vildi reyna að ljúga mig út úr þessu (sem ég myndi ekki vilja, en ég er ekki þú), þá myndi ég að minnsta kosti biðjast auðmjúklega afsökunar, í hádegisfréttum á morgun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

 • Mér er kunnugt um að þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir RUV til yfirkjörstjórna á landinu fengust engin svör um það hvenær og hve hratt yrði talið fyrr en á fimmtudag. Þegar svarið kom var síðan á huldu hve hratt gengi að telja og hvenær úrslit lægju fyrir. Þar gat jafnvel verið um sólarhringa að ræða. Þess vegna var engin leið að ákveða hvort stofna ætti til kosningasjónvarps. Ég hef unnið við slíkar útsendingar allt frá árinu 1971 á báðum sjónvarpsstöðfunum og veit, að tveggja daga fyrirvari vegna talningar, sem enginn veit hve hratt gengur og hvenær endar, er allt of stuttur til að koma á fót svo stórri, dýrri og áhættusamri dagskrárgerð. Í alþingiskosningum liggur þetta fyrir mörgum vikum fyrir kjördag og vitað að hratt er talið og úrslit kunn um nóttina eftir kosningarnar. Ég var í stjórnlagaráði og tók þátt í starfi SaNS fyrir þessar kosningar og hefði svo sannarlega viljað óska að hægt hefði verið að hafa jafn mikla viðhöfn í sjónvarpi og er í alþingiskosningum. Í stað þess að ráðast á RUV ættu menn að beina athyglinni að þeim sem stóðu að talningu atkvæða og fá svör og skýringar frá þeim.

 • Kristján Valur

  Hneyksli að þá sjaldan Tatort er sýndur skuli hann vera settur svona aftarlega á merina. Borowski er sérlega geðþekkur og slunginn og þessi asnalega danskeppni hefði átt að sjá sóma sinn í því að skipta um pláss við hann.

 • Held að þjóðin hefði frekar kosið kosningasjónvarp heldur en þessa lélegu eftirlíkingu af þessu amríska innantóma efni

 • Takk fyrir ábendinguna, Ómar. Sé þetta hin raunverulega ástæða tek ég undir að það er skammarlegt að yfirkjörstjórnir skyldu ekki skipuleggja talninguna með löngum fyrirvara. Hitt er annað mál að þá hefði RÚV líka átt að flytja fréttir um þetta, svo almenningur vissi hvað væri að gerast. Það hefði þá e.t.v. skapað þann þrýsting sem nægt hefði til að ganga frá þessu með nægum fyrirvara.

 • Sigurður

  Miað við kjörsókn, þá held ég að flestum hafi nú bara verið nákvæmlega sama þott ekki hafi veri sjónvarpað frá þessu leikriti.

  Er ekki frekar ólíklegt að þeir sem ekki nenntu á kjörstað, nenni að vaka yfir úrslitunum?

  ca 75% landsmanna nenntu ekki á kjörstað, eða fóru til að segja nei.

  Maður man tæplega eftir ofmetnari verkefnum en þessum stjórnarskrárfarsa,sem fáir utan stjórnlagaráðs og ríkisstjórnar hafa áhuga á.

 • Kristján Kristinsson

  Sæll Sigurður. Eru menn tapsárir í morgunsárið?

 • Man eftir að það hafi verið sjónvarpað frá skoðanakönnun capacent gallup,en auðvitað var þetta bara skoðanakönnun,Hvort sem ykkur líkar betur eða ver.

 • Minn kæri félagi og samstarfsmaður á fjölmiðlum Ómar Ragnarsson þarf ekki að bera blak af þessum óskapnaði hjá Rúv í gær. Það má nú milli vera, að setja upp fullbúna kosningasjónvarpsvigvél eins og við höfum báðir margoft starfað við, eða gera sómasamleg skil því efni sem allir vissu að yrði til reiðu. Láru Ómarsdóttur (Ragnarssonar) var stillt upp fyrir framan einn tökumann með kastljós upp á handstýrðri myndavél úti á gangi í Ráðhúsinu þar sem hún notaði hægri höndina til að halda á stökum hljóðnema og blaða í minnispunktum meðan hún veifaði inn viðmælendum með hinni höndinni. Ég held að engin alvöru sjónvarpsstöð á Vesturlöndum hefði boðið upp á annað eins fúsk í framsetningu. Ókynnt inn og út, engin úrvinnsla. Maður varð undrandi og glaður þegar frumstæð grafík kom upp, því lengi var ekki neitt slíkt á vef Ríkisúvarpsions. Nóg var úrvalið af álitsgjöfum og viðmælendum til að koma með fyrstu viðbrögð (samanber Facebook) og hægur leikur að spinna dagskrá úr því sem menn gátu eða gátu ekki átt von á. Að setja saman snarpa 20-40 mínútna dagskrá úr setti með innslagi frá Ráðhúsi hefði verið barnaleikur og Ómar báðir rúllað því upp saman og hvor í sínu lagi. Þetta sem við sáum í gærkvöld var hörmung sem á engan hátt er samboðin Ríkisúvarpi á merkum degi. (Og landið skalf linnulaust fyrir norðan á Facebook án þess að fréttastofan hefði af því spurnir lengi vel). Hér er ekki sakast við þau sem reyndu að gera sitt besta við óvinnandi aðstæður, heldur einfaldlega það sinnuleysi sem við blasti hverjum hugsandi manni. Ekki síst þeim sem margoft hafa þjónað við svona aðstæður. Ég skammst ekki oft út í Ríkisútvarpið en nú blöskrar mér.

 • Anna Kristín Pétursdóttir

  Sammála ykkur – sérstaklega þegar að boðið er upp á „endalausar“ endursýningar á efninu sem sýnt er.

  Og skömm RUV er ennþá meiri vegna hversu merkilegur þessi dagur er í sögu þjóðarinnar.

 • Ég skrifaði Páli RÚV-stjóra fyrr í dag, sagði honum frá pistlinum og viðbrögðum Ómars, og spurði hvað væri rétt í því máli. Hann hefur ekki svarað enn, en geri hann það mun ég birta svarið hér.

 • Sigurður

  Tapsár?
  Var einhver sem tapaði í þessum kosningum/skoðanakönnun?

 • Helgi Jóhann Hauksson

  Um 120 þúsund manns voru beinir þátttakendur í þessum kosningum eða lítið færri en í forsetakosningunum og einungis þriðjungi færri en tóku þátt í síðustu sveitarsjórnarkosningum — en jafnframt 10-30 sinnum fleiri en sýna beinan áhuga á íþróttaviðburðum og mæta á leikina sem látnir eru ryðja dagskrá sjónvarpsins til að sjónvarpa beint með mörgum upptökuvélum. Þó er jafn ljóst að úrslitin verða þau sömu þó leikirnir séu ekki sýndir strax.
  Þessi viðburður, öfugt við íþrótaviðburði, mun hinsvegar hafa djúpstæð og langavarnadi áhrif á alla gerð samfélagsins og skipan íslenska ríkisins.
  Í raun er engin boðleg réttlæting til að meðferð RÚV á þessum viðburði — og reyndar ekki heldur á meðferð kjörstjórnar Rvk-norður á málinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur