Þriðjudagur 30.10.2012 - 20:54 - 19 ummæli

RÚV auglýsir ráðgjafa Enrons, ókeypis

Í kvöldfréttum RÚV var langur kafli um skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey hefur skrifað um íslenskt efnahagslíf.  Þar er ýmsu haldið fram, bæði hlutum sem lengi hafa verið vitaðir og eru varla fréttaefni (Íslendingar vinna langan vinnudag og framleiðnin er lítil á vinnustund), og öðru sem vonlaust er að spá fyrir um arðsemina á, eins og rafmagnssölu um sæstreng til Evrópu.
Í fréttunum var þessi „skýrsla“ kynnt algerlega gagnrýnislaust (sem er því miður lenska í íslenskri kranablaðamennsku), og ekkert spurt um hver tilgangur fyrirtækisins gæti verið með því að skrifa slíkt rit.
Þótt við látum liggja á milli hluta „gáfulegar“ athugasemdir formanns Sjálfstæðisflokksins um málið (af hverju er það fréttaefni hvaða skoðanir hann hefur á skýrslu af þessu tagi?), þá er neyðarlegt í meira lagi að fjármálaráðherra skuli láta hafa sig í að enduróma hluta af því sem sagt var í þessu plaggi, eins og vel upp alinn páfagaukur, hollur húsbónda sínum.
Mig grunar að margir gangi út frá því að ráðgjafafyrirtæki eins og þetta hljóti að vera „hlutlaus“, en ekki að reyna að koma fyrir borð ár sinni eða einhverra viðskiptavina.  Það er auðvitað ekki útilokað, en það er hlutverk fréttamiðils að spyrja gagnrýnininna spurninga, þar á meðal spurninga sem sumum finnast vera dylgjur.  Það er hins vegar ekki hlutverk fréttamiðils að lepja hugsunarlaust upp hvað sem er frá fyrirtæki úti í bæ.
Þessi þrælslund og aumingjaskapur flestra íslenskra fjölmiðla, og RÚV þar á meðal, er ekkert nýtt.  Þegar Ross Beaty kom til Íslands til að sannfæra landsmenn um að hann væri frelsandi engill sem hefði helst áhuga á að „byggja hér upp“ atvinnu til hagsbóta fyrir landsmenn fékk hann langt drottningarviðtal í Kastljósi þar sem spyrillinn nánast slefaði af aðdáun, og gleymdi öllum gagnrýnu spurningunum sem hann var (vonandi) búinn að útbúa.  Sama gilti um flesta aðra fjölmiðla; engum virtist einu sinni hafa dottið í hug að gúgla nafn mannsins.  Að minnsta kosti sögðu fæstir fjölmiðlar frá því sem þá kom í ljós á hálfri mínútu: Ross Beaty hafði aldrei byggt upp eitt eða neitt, hann hafði árum saman fengist við það eitt að braska með auðlindir.
Fyrirtækið McKinsey er ekki hlutlaus úttektarstofnun.  Það þarf ekki að fara lengra en á Wikipedia til að finna ýmislegt misjafnt um það; þetta fyrirtæki var meðal annars með hið alræmda Enron í ráðgjöf, og fleiri vammir má lesa um það á þessari síðu. Jafnvel þótt þetta væri fyrirtæki með hreinan orðstír eru það svik við hlustendur RÚV að spyrja engra spurninga, skoða ekki forsögu þess og grafast ekki fyrir um hugsanleg markmið þess með þessari skýrslu.
Sumir sem ég hef spurt eftirfarandi spurningar hafa svarað henni játandi, en ég hef miklar efasemdir: Ef lítil dönsk anarkistasamtök hefðu skrifað plagg um skoðanir sínar á íslensku efnahagslífi, hefðu þau fengið tæplega fjögurra mínútna gagnrýnislausa umfjöllun í kvöldfréttum sjónvarps og heilar níu mínútur í kvöldfréttum útvarps?  Af hverju ekki?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Þórður

    Af hverju lestu ekki bara skýrsluna og mótar þér skoðun á efni hennar og bloggar svo?

  • Mjög ó lýðræðislegt innlegg hjá RUV í kvöld og viðtalið við Bjarna og Katrínu J algerlega fáránlegt! Einnig stakk það mig að þeir sem að skýrsluni stóðu voru allir kallar og í jakkafötum það kann ekki góðri lukku að stýra!

  • Samt margt gott sem kom fram í þessari skýrslu en reykna ekki með að ráðamenn fari eftir því! Þá er það bankakerfi og eggin sem hafa farið í sömu körfu við stóriðju uppbyggingu þar sem ál er nær einvörðungu ofaná.

  • Þórður: Ég var að fjalla um efnistök RÚV, ekki innihald skýrslunnar.

  • Íslendingar streða of mikið og eru ekki skilvirkir.

    Þeir borga of mikið fyrir matvæli.

    Orkan þeirra er seld á spottprís.

    Allt er þetta satt og rétt og bara gott að hvorir tveggja, stjórn og stjórnarandstæða, sjái samræðugrundvöll í þessum efnum.

    Þetta er góð vísa.

    En þér finnst bagalegt hver fer með hana, Einar?

  • Eins og ég sagði í pistlinum var allt sem ég heyrði sagt um þetta í sjónvarpsfréttum annað hvort vel þekktir hlutir sem maður heyrir aldrei neinn mótmæla, eða mjög umdeildar staðhæfingar, eins og þetta með sæstrenginn, sem er til þess fallið að styrkja áróðursstöðu þeirra sem vilja halda áfram að virkja, en alls ekkert áreiðanlegt mat (því það er ekki hægt að gera slíkt mat af neinu viti). Þannig að mér finnst þetta ekki góð vísa.

    En, efni pistilsins var sem sagt annað, nefnilega hin ömurlega íslenska kranablaðamennska.

    Svo er ágætt að halda því til haga að Viðskiptaráð, sem enginn ætti lengur að hlusta á, vegna forsögu þess, og þess að það hefur ekki sýnt að það hafi tekið upp aðra hætti, virðist nátengt þessari skýrslu:

    http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/1519/

  • Þessi þrjú atriði sem ég nefndi eru ein og sér þess virði að þeim sé gefinn verulegur gaumur.

    Sem var inntak fréttarinnar.

    Kannski viltu að fréttakynningin hefði verið skilyrt með því fororði að vafasamt fyrirtæki, sem er bendlað við Enron, hafi komist að þessari niðurstöðu og að það sé veigameira en inntakið?

    Ég held að svona skotgrafarformalismi sé að fara með skynsamlega samræðu til andskotans.

  • Jóhann: Ég var ekki að tala um fréttatilkynningu, heldur mjög langar fréttir í sjónvarpi og útvarpi. Ég var heldur ekki að tala um innihald skýrslunnar.

    Ég er að benda á hrikalega kranablaðamennsku þegar RÚV útvarpar algerlega gagnrýnis- og spurningalaust skýrslu sem sett er saman af fyrirtæki sem fráleitt er að líta á sem hlutlausan aðila sem höndlað hafi einhvern stórasannleik í málinu.

    Því tel ég ekki að hér sé um einhvern skotgrafahernað að ræða af minni hálfu, en er hins vegar svolítið dapur yfir að þú skulir ekki vilja ræða innihald bloggpistilsins.

  • Ef einhver bjáni færir mér góð og gild tíðindi, þá er vissulega leitt að slíkur hafi vakið athygli mina.

    Það gerir tíðindin ekki slæm.

    Auk þess er ekki til neinn hlutlaus aðili í viðlíka efnum. Til þess eru þau of gildishlaðin.
    Þetta er ekki stærðfræðiformúla.

    Það er lítilvæg ástæða að ræða hversu mikill óreiðupési boðberinn er.

    Maður skoðar innihaldið, hvorki umbúðirnar, né hver afhenti pakkann.

  • Jóhann: Nú hef ég rennt lauslega yfir innihaldið. Ég fæ með engu móti séð að hér sé á ferðinni annað en skoðanir einhvers fólks á því hvernig eigi að reka íslenska efnahagskerfið. Af hverju skyldu þessar skoðanir vera áhugaverðari en skoðanir mannsins á götunni?

    Hefur þú lesið þessa skýrslu, og geturðu útskýrt fyrir mér hvað er áhugavert fyrir aðra en þá sem kunna fyrirfram að vera á sömu skoðun og höfundar?

  • Þetta kom m.a. fram í fréttinni:

    1. Íslendingar streða of mikið og eru ekki skilvirkir.

    2. Þeir borga of mikið fyrir matvæli.

    3. Orkan þeirra er seld á spottprís.

    Ef þér þykir heilladrýgra að einblína á skavánka sendiboðans, þá þú um það…

  • Mjög rétt hjá Einari.

    Pistillinn fjallar um þá dapurlegu fjölmiðlun sem hér þrífst og er sérstakur þjóðarvandi.

  • Einar.
    Gaman væri að heyra eitthvað jákvætt frá þér svona þegar þú hefur tíma til frá öllu hinu.

  • Sæll Einar
    Það er margt í innihaldi þessarar greinar sem hljómar mjög sannfærandi. Ógagnrýnin kranablaðamennska finnst manni tröllríða íslenskum fjölmiðlum, ekki síst þegar þú bendir á það. Blaðamenn eiga í það minnsta að skoða hverra hagsmuna viðkomandi aðilar eiga að gæta, því allir eiga þeir einhverra hagsmuna að gæta. Annars væru þeir varla að viðra skoðanir sínar á opinberum vettvangi eða hvað? Þannig að ég ákvað að lesa nánar um höfund, en fæ engan hlekk að upplýsingum um manninn, aðeins þrípunkta. Hver er Einar Steingrímsson? Því miður get ég ekki tekið mark á neinu sem stendur í greininni að svo stöddu. Ertu á Wikipedia?

  • Sæll Stefán

    Mér finnst reyndar ekki skipta máli „hver“ ég er, umfram það að vera almennur borgari, varðandi það sem ég skrifa hér, enda held ég aldrei fram í því sambandi að ég búi yfir einhverri sérfræðiþekkingu á þeim málefnum sem ég fjalla um.

    Þetta er reyndar rauður þráður í skrifum mínum (sem ég vona að sé sýnilegur), hvað það er mikið af þvælu sem fjölmiðlar mata okkur á og halda fram að séu traust þekking einhverra sérfræðinga. Það eru til áreiðanlegir sérfræðingar á ýmsum sviðum (sem geta t.d. sagt nákvæmlega fyrir um tunglmyrkva), en yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kynntir eru í íslenskum fjölmiðlum sem sérfræðingar eru annað hvort engir sérfræðingar í neinu (eins og margir „hagfræðíngar“ sem rætt er við í fjölmiðlum), þ.e.a.s. búa ekki yfir neinni umtalsverðri þekkingu á viðfangsefninu, eða þá að þeir eru að tala um hluti sem viðkomandi fræðigrein getur ekki sagt neitt meira um en maðurinn á götunni, t.d. þegar verið er að ræða innanflokksátök í Framsóknarflokknum, en um þau er ekki til nein áreiðanleg fræðileg þekking.

    Ef þú brennur samt af forvitni að vita meira um mig, þrátt fyrir það sem ég var að reyna að útskýra hér að ofan, þá geturðu tiltölulega auðveldlega fundið upplýsingar um starf mitt með því að gúgla nafnið mitt og orðið „math“. Sé það ekki nóg geturðu sent mér póst, á einar@alum.mit.edu, og ég skal reyna að svara þeim spurningum sem þú hefur (og sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir hverjar eru :)).

  • Þorsteinn: Já, ég hef oft velt fyrir mér að blogga um ýmislegt sem mér finnst áhugavert án þess að vera gagnrýnivert. Einhvern tíma kemur sjálfsagt að því, og vonandi rekstu inn á bloggið mitt þá.

  • Sæll Einar
    Púkinn á öxlinni hvíslaði að mér að þú uppfylltir kannski ekki eigin kröfur. Ég er þér reyndar alveg sammála um flest sem stendur í færslunni. Íslenskir fjölmiðlar eiga að staldra við og skoða hvort um undirliggjandi hagsmuni og hvatir sé að ræða í stað þess að vera hluti af færibandinu, sem því miður er alltof oft raunin.

  • Takk fyrir góða grein, öll þessi kranablaðamennska er vandamál.

  • Stefán: Hvaða kröfur eru það sem ég ætti að þurfa að uppfylla í þessu sambandi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur