Sunnudagur 04.11.2012 - 21:01 - 7 ummæli

Rekum frétta- og útvarpsstjóra RÚV

Á beinni línu DV í dag spurði ég Pál Magnússon útvarpsstjóra RÚV um fréttaflutning þess af fellibylnum Sandy og afleiðingum hans.  Þetta voru spurningar mínar og svör hans:
RÚV sagði tugi frétta af fellibylnum Sandy, en þær voru nánast einskorðaðar við Bandaríkin, þótt ýmis lönd í Karíbahafi hafi orðið fyrir gríðarlegu manntjóni og skemmdum lika. Hvað veldur?
Páll Magnússon: „Það endurspeglar væntanlega það fréttamat og þá forgangsröðun sem er ráðandi hjá þeim alþjóðlegu fréttastofum sem við skiptum við. Við erum, sérstaklega varðandi myndefni, talsvert undirseld þeirra mati.“
Af hverju þarf RÚV að láta erlendar fréttastofnanir ráða fréttavali sínu, þegar almenningur á Facebook á í engum vandræðum með að dreifa fréttum ýmissa erlendra miðla sem gefa, til dæmis, miklu víðtækari mynd af afleiðingum Sandys en RÚV hefur gert?
Páll Magnússon: „Við látum erlendar fréttastofur ekki ráða mati okkar þótt að við séum talsvert háð þeim með myndefni. Við getum hins vegar ekki dreift öðru myndefni en við eigum rétt á.“
Mér sýnist þetta vera þversögn, því RÚV láti einmitt þessar erlendu fréttastofur, sem virðast afar þröngsýnar, ráða fréttum sínum.  Auk þess skýrir þetta með myndefnið alls ekki af hverju útvarps- og veffréttir RÚV voru sama marki brenndar, eins og sjá má hér.
Þetta er ekki eina dæmið um hugsunarlausa kranablaðamennsku RÚV, þar sem utanaðkomandi aðilar ráða algerlega hvað verða fréttir þar á bæ.  Annað nýlegt dæmi er um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrármálið.  Engar skoðanakannanir voru birtar í RÚV um það mál mánuðina áður, og í ljós kom að það var vegna þess að RÚV lætur Capacent um að ákveða um hvað skoðanakannanir eru gerðar, en hefur enga stjórn á því sjálft, þótt það borgi fyrir upplýsingarnar.  Við það má svo bæta að RÚV lepur gjarnan gagnrýnislaust upp þvælu frá starfsmönnum Capacent, t.d. um breytingar á fylgi þegar um er að ræða sveiflur langt innan skekkjumarka.
Spegillinn, sem heyrir undir fréttastofu RÚV, er líka með endalaus viðtöl við fólk sem kynnt er sem sérfræðingar, og staðhæfir alls konar hluti sem það veit nákvæmlega ekkert um, og fréttafólkinu dettur ekki í hug að spyrja hvað viðkomandi hafi fyrir sér, hvað þá að það athugi sjálft áreiðanleika þess sem staðhæft er.  Í lok þessa pistils er sagt frá einu slíku dæmi, þar sem prófessor í kynjafræði talaði í löngu máli um meintan kynbundinn launamun, og nauðsyn þess að grípa til aðgerða, en vissi nákvæmlega ekkert um könnunina sem hún lagði út af, nema það sem hún las í frétt á mbl.is (sem gaf allt annað til kynna en að hér væri um áreiðanlega könnun að ræða).
Dag einn í síðustu viku fóru samtals þrettán mínútur af kvöldfréttum útvarps og sjónvarps í algerlega gagnrýnislausa útvörpun á prívatskoðunum ráðgjafafyrirtækisins McKinsey.  Vel má vera að fréttafólkið sem samdi þessar fréttir hafi lesið skýrsluna, en það spurði engra spurninga sem bentu til þess.  Í Silfri Egils í dag kom fram áhugaverð gagnrýni á þessa skýrslu, frá leikmönnum, en fréttafólki RÚV datt sem sagt ekkert slíkt í hug, hvað þá að tala við fólk sem gæti haft athugasemdir.
Hér er svo enn eitt dæmið um slíka kranablaðamennsku, þar sem „sérfræðinganefnd“ á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja útkýrði fyrir landslýð hvort verðtrygging væri nauðsynleg á Íslandi, án þess að einu sinni væri rætt við nokkra þá sem hafa öndverða hagsmuni við þessi fjármálafyrirtæki, hvað þá að fréttafólk RÚV reyndi að gera sér grein fyrir hvort eitthvert vit væri í þessari „skýrslu“, eða bara ómengaður einhliða áróður þeirra voldugu hagsmunaaðila sem sömdu hana.
Þetta eru bara nokkur af ótalmörgum dæmum síðustu ár (og ekki endilega þau verstu) um óbærilega vonda fréttamennsku RÚV, þar sem fréttafólkið hefur skrúfað frá krananum hjá viðmælendum sem síðan sögðu tóma þvælu, eða jusu í besta falli úr sér algerlega órökstuddum fullyrðingum, á meðan kranavörðurinn fór í kaffi.
Það eru nokkrar sláandi undantekningar á þessum vondu vinnubrögðum fréttafólks á RÚV, auk þess sem ég veit ekki hvaða svigrúm einstakir fréttamenn hafa til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.  En fréttastjóri og útvarpsstjóri RÚV, sem ábyrgðina bera, eru greinilega ekki starfi sínu vaxnir.  Þeim ætti að segja upp og ráða í staðinn fólk sem ræður við að leiða fréttastofu með metnað og getu til að gera sómasamlegt fréttaefni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Mér finnst að þú eigir að fá pistil eins og Eiríkur Reiði á Útvarpi Sögu! 😀

 • Anna Karen Ína

  Við búum við skerta umræðu í fjölmiðlum um allt sem skiptir máli.

  Niðurstöðurnar eru í samræmi við það.

  Til þess er leikurinn gerður.

 • Sigurður Hr. Sigurðsson

  Svo eru í gildi lög um Ríkisútvarpið ohf, þar sem heill kafli fjallar um „Hlutverk og skyldur“. Stjórnendur RÚV virðast taka mið af sumu sem þar stendur en ekki örðu. Samt velti ég því stundum fyrir mér hvort að krafan um „hlutlæga fréttaþjónustu“, „hlutlæga upplýsingagjöf“ og „fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð“ gefi undir fótinn með gagnrýnislausa umfjöllun og kranafréttamennsku.

 • Hvað er að bögga þig Einar Steingrímsson? Svo oft fúll á móti.

 • Magnús Magnússon

  Frábærar athugasemdir hjá þér Einar.Oft gengur fram af manni við fréttamat RÚV.

 • Sigurður Ólafsson

  Það er því miður alvarlegur skortur á hlutlægni og vísindalegri hugsun í opinberri umræðu. Það er einmitt einkenni umræðu í slíku umhverfi að leita til „sérfræðinga“ og fá þar með þægileg innlegg sem ekkert þarf að hafa fyrir. Undirmannaðar fréttastofur í tímapressu virðast allt of sjaldan hafa tíma til að leggjast yfir mál, skoða þau frá ýmsum hliðum, helstu kenningar, hvaða rannsóknargögn styðja þær kenningar o.s.frv. Ég bendi áhugasömum á að lesa hina stórskemmtilegu bók „Bad Science“ eftir Ben Goldacre, en þar er einmitt lítið gefið fyrir fréttamennsku á borð við þá sem þú lýsir hér að ofan.

 • Anna Karen Ína

  Á degi íslenskrar tungu:

  Ísland, farsælda frón

  er þjóðsöngur Íslands.

  Tónninn er réttur í lagi og ljóði.

  Blár, tær, angurvær.

  Höfundarnir eru líka réttir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur