Þriðjudagur 04.12.2012 - 21:09 - 10 ummæli

Kynjagleraugu, með brotið á báðum

Nýlega kom út skýrsla stýrihóps hjá Reykjavíkurborg um Kynjaða fjárhags- og áætlunargerð.  Hér að neðan rek ég nokkur dæmi úr þessari skýrslu, og geri svolitlar athugasemdir til skýringa.
Það er lítil ástæða til að ræða þetta mikið, því geggjunin er svo augljós.  Eina spurningin sem ástæða er til að spyrja er hvort Reykjavíkurborg muni fljótlega fara sömu leið og Vinstri Græn og lýsa beinlínis yfir að markmið starfsins sé ekki kynjajafnrétti heldur að hygla konum með ólýðræðislegum hætti.  Hins vegar virðist ekki þurfa að spyrja hvort femínistar borgarinnar muni halda áfram að eyða peningum í þrugl af þessu tagi; um það eru þegar tillögur í umræddri skýrslu.
Ein er þó huggun harmi gegn:  Á meðan starfsfólk borgarinnar, þ.á.m. „Mannréttindaskrifstofunnar“, hamast í þessu er það þó ekki á kafi í að mála klámskrattann á alla auða veggi.
Niðurstöður sýna að fleiri karlmenn en konur sækja sundlaugar eða 54%.
Þetta er nokkuð óljóst orðað í skýrslunni, en ljóst er af því sem á eftir kemur að 54% gesta eru karlar og 46% konur.  Einhverjum gæti fundist það lítill munur, auk þess sem hér er ekki um úthlutun gæða að ræða heldur ákveður fólk það sjálft hvort það fer í sund.  En, það er víst misskilningur:
Þar sem augljós kynbundinn munur er á aðsókn er brýnt að skoða hvort eitthvað í þjónustu, aðstöðu eða ímynd sundlauga hafi áhrif á mismunandi aðsókn kynja. Að tillögu hópsins gæti verið gagnlegt að gera eigindlega og megindlega rannsókn á viðhorfi gesta til þessara þátta.
Það verður án efa spennandi að lesa níðurstöðu þeirra rannsókna.
Konur voru í miklum meirihluta þeirra sem nýttu sér almenna ráðgjöf við innflytjendur.   Ástæður að baki kynjamunar á notkun teljast málefnalegar og ekki telst þörf á að grípa til sérstakra aðgerða.  Kynjamunur í notkun á almennri ráðgjöf á ensku til innflytjenda  reyndist verulegur.   Ástæðurnar teljast að hluta til málefnalegar enda leita margar konur til ráðgjafa vegna ofbeldis á heimili. Hins vegar gæti menningarlegur bakgrunnur hindrað suma karlmenn í að nýta sér þjónustuna og gæti því verið kostur að geta einnig ráðið karlkyns ráðgjafa.
Hins vegar er ekki útskýrt hvað geri þennan mikla kynjamun „málefnalegan“.
Verkefnið fólst í því að rannsaka – með hliðsjón af kyni umsækjenda — allar umsóknir um styrki sem sótt var um til Menningar- og ferðamálaráðs 1. október ár hvert í fimm ár og styrkveitingar í kjölfar þeirra. Rannsakaðar voru styrkveitingar vegna áranna 2007-2011.  Markmið verkefnisins var að kanna hvort halli á annað kynið í styrkveitingum Menningar- og ferðamálaráðs og gera tilllögur að því hvernig unnt er að jafna mun kynjanna og/eða halda jafnræði milli kynja í styrkumsóknum og styrkveitingum. Jafnréttismarkmið verkefnisins voru þau að kynin eigi að hafa jafna möguleika á styrkveitingum Menningar– og ferðamálaráðs til verkefna og starfsemi á sviði menningarmála og menningartengdrar ferðaþjónustu. Frá árinu 2007 til 2011 hefur orðið merkjanleg og stígandi aukning á hlut kvenna í styrkjaumsóknum og styrkveitingum Menningar- og ferðamálaráðs hvað varðar fjölda, heildarupphæð og meðalupphæð umsókna og heildar- og meðalupphæð úthlutunar. Á árunum 2007 til 2011 jókst:
Hlutur kvenna í fjölda umsókna m.v. karla úr 49% í 55%.
Heildarupphæð úthlutunar til kvenna m.v. karla úr 47% í 63%.
Ekkert er hins vegar rætt í skýrslunni um þennan mikla kynjamun, hvað þá að gerðar séu „tillögur að því hvernig unnt er að jafna mun kynjanna“.  Hér er þó um að ræða úthlutun á gæðum, öfugt við aðgang að sundstöðum borgarinnar.
Einnig var fjallað um innkaup Borgarbóksafns á bókum eftir karla og konur, og kom í ljós að titlar kvenhöfunda voru keyptir í stærra upplagi en titlar karla, og var munurinn nánast sá sami og í sundlaugaheimsóknum.  Það er hins vegar ekki ástæða til að gera neitt í því:
Fjöldi bóka sem koma út eftir karla er fleiri en kvenna. Talsvert af þeim ritum er utan þess sem kalla má meginstraumsbókmenntir sem skýrir að hluta til færri keypt eintök.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Það er ekki það skrýtna að svona geggjun sé til heldur að fólk í ábyrgðarstöðum (les: Borgarstjórnarmeirihlutinn) skuli leyfa þessu að þrífast. Þetta er alveg makalaust bull og með ólíkindum að þetta sé tekið alvarlega.

  • Já, það er varla hægt að hugsa sér gisnari nýju fötin keisarans en þetta. En, það virðist ekki nokkur stjórnmálamanneskja í landinu voga sér að anda á þessa klikkun.

  • Fleiri konur en karlar nota bókasöfn.

    Á ekkert að gera í því?

  • Sigurður Haukur

    Magnað að hægt sé að gera svona viðamikla skýrslu og minnast ekki á að hlutfall kvenna í kennarastétt í grunnskólum RVK er 80% en karla 20% svo ekki sé minnst á hlutallið í leikskólanum.

  • Þarna er nu reyndar verið að skoða hvernig þjónusta borgarinnar sé nýtt en ekki hlutföll starfsmanna.

  • Sigurbjörn Ó.

    Tilfinningaiðnaðurinn er skrýtinn bransi. En sér virkilega enginn sem að kemur, fáránleikann í afurðinni. Kyndugleikinn í þessari pólitísku rétthugsun sem sumar hérlendar þrýstgrúppur hamast við að flytja inn frá nýju sovétunum í Vestur Evrópu versnar með hverju ári. Einhven vegin minnir þetta í aðra röndina á gamlar Monthy Python skissur um ráðuneytið fyrir asnagang (Ministry of Silly Walks ) sem hafði það eina verkefni að úthluta styrkjum fyrir fíflalegt göngulag, i endurgerð yrði það auðvitað að heita ráðuneyið fyrir kynjaðan asnagang , til að fullnægja pólitískt réttu þjóðfélagslegu réttlæti . En munurinn er auðvitað sá ráðuneyti þeirra MP manna var bara bráðfyndin fantasía sem átti sér sennilega ekki mikla stoð í veruleikanum, en það er sko ekki fyndið að það sé búið að koma upp raunverulegu asnagangsapprati, nema kannski þegar að því kemur að Reykjavíkingar fá reikninginn fyrir nýju fötunum keisarans, nei fyrirgefðu keisaraynjunnar klæðalausu ( svo ekk sé annð kynið hallað), það gæti hugsanlega verið að svipbrigði sumra þeirra yrðu til að framhalla hlátur hjá þeim sem yrðu vitni að.

  • Gamanið kárnar einnig þegar í ljós kemur að framlög íslands til þróunarmála fara öll í asnagang líka.

  • Sigurður Haukur

    @ Eva Hauksdóttir.
    Hvað um þetta?
    Bls.12
    „Skipulags- og byggingasvið
    Borgarsamfélagið
    Verkefni Skipulags- og byggingasviðs fékk yfirskriftina „borgarsamfélagið“ og var þríþætt:
    Að safna gögnum um kynskiptingu starfsmanna sviðsins og kjörinna fulltrúa í
    skipulagsráði….
    ….Markmið með fyrsta verkþætti var að kanna hvort mikill kynjamunur væri meðal
    starfsmanna sviðsins, fulltrúa í skipulagsráði og í þeim fagfélögum sem helst vinna að
    skipulags- og byggingarmálum. Ekki reyndist mikill munur á fjölda starfsmanna eftir
    kynjum á sviðinu, en konur eru um 45% af 35 starfsmönnum. Ekki telst því vera brýn þörf
    á að gera sérstakar ráðstafanir til að jafna hlut kynjanna meðal starfsmanna sviðsins.“

  • Gunnar Waage

    Mér er eins og flestum öðrum farið að fynnast þessi kynjafræði stjórnvalda ákaflega furðuleg. Fyrir það fyrsta þá er þetta ‘átak’, því það má kalla þessa kynjavæðingu stjórnvalda, ‘stórátak’. gríðarlega ómarkvisst. Einhver hentistefna virðist ráða því hvaða verkefnum ráðamenn einbeita sér að, einblínt er á vissar starfsstéttir en aðrar ignoreraðar. Hlutfall kvenna er gríðarlega hátt í kennslustörfum umfram hlutfall karla og þá er það allt í þessu fína, „málefnalegt“, geri ég þá ráð fyrir. Hvað á að taka fyrir og hvað ekki, hver er stefna yfirvalda í þeim efnum, einhver; eða bara svona rassvasaákvarðannir og hentisemi? Hvaða þarfagreining hefur verið lögð til grundvallar ?

    Í öðru lagi þá slær það mann hvað eftir annað og er skýrslan sem þú ert að fara yfir Einar engin undantekning, hve óakademískar starfsaðferðirnar eru í þessari jafnréttisvæðingu allri. Það er sjaldgæft að maður lesi grein eða hlusti á viðtal við einhvern af talsmönnum jafnréttismála hjá hinu opinbera í dag, sem ekki fer með einhverja staðlausa stafi máli sínu til stuðnings með rangtúlkunum eða rökvillum. Þetta viðgengst svo sem upp að vissu marki í flestum greinum og dag hvern hlustar maður á háskólakennara fara með tóma dellu, sérstaklega í dulbúnum pólitískum stuðningsyfirlýsingum. En á sviði jafnréttismála, kynjafræði og jafnréttisumbóta, þá er mun mun meira af slæmum málflutningi og skýrslum sem eru beinlínis rangar, notast er við kolrangar tölur sem fengnar hafa verið eftir vafasömum krókaleiðum í stað þess að nota einfaldlega opinber töluleg gögn og rökstuðningur er að stórum hluta óeðlilegur í öllum akademískum og rökfræðilegum skilningi, oftast forðast þetta fólk raunar að nýta sér töluleg gögn eða raunverulegar rannsóknarniðurstöður en stuðst er þess í stað við skoðannir viðkomandi eða hans/hennar eigið órökstudda álit á viðkomandi máli. vinnubrögð þessa fólks standast bara alla engar kröfur. Viðhorf þjóðfélagsins til jafnréttismála er mjög brenglað í dag raunar eins og allt okkar gildismat. Þetta er í raun mjög lasin þjóð. Það veitir ekki af að kippa þessari umræðu allri niður á jörðina þótt maður nenni því varla. Það væri svo sem ekki ástæða til ef þessar villandi greiningar í framsetningu og stefnumótun, hefðu ekki bara mjög mikil og alvarleg áhrif á okkar daglega líf í náinni framtíð, ef ekkert er gert til að spyrna við þessari þróun.

  • Margrét Hafsteinsdóttir

    Ég er bara í hláturkasti! Það er allt í lagi ef konur eru í meirihluta í einhverju en ekki ef það eru karlmenn :0) og enginn stjórnmálamaður mótmælir! Hugleysingjar!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur