Fimmtudagur 13.12.2012 - 12:03 - 18 ummæli

Íslenskir háskólar — alveg einstakir

Af einhverjum ástæðum varð ég óskaplega dapur yfir miklu af umræðunni um þennan pistil Evu Hauksdóttur (og þennan), sem fjallar um höfundarrétt og hvort háskólar eigi að starfa fyrir opnum tjöldum eða vera einhvers konar frímúrarareglur.
Umræðan hefur ekki síst snúist um eftirfarandi spurningar (sem annars vegar var beinlínis spurt í ofannefndum pistlum, og sem hins vegar hafa verið ræddar í ýmsum tjásukerfum, bæði við pistlana og á Facebook):
  • Er eðlilegt að háskólakennarar sem dreifa tilteknu námsefni (t.d. fyrirlestraglærum) til allra nemenda í tilteknu námskeiði vilji alls ekki að efnið verði gert aðgengilegt almenningi?
  • Gerir höfundarréttur kennara á kennsluefni að verkum að háskóli megi alls ekki krefjast þess að allt efni sem birt er nemendum námskeiðs (sem í geta verið tugir eða hundruð nemenda) sé birt á opnum vef, þannig að það verði aðgengilegt almenningi?
  • Kæmi umræddur höfundarréttur (sem margir virðast rugla saman við réttinn til dreifingar) í veg fyrir að háskóli gæti krafist þess að allir nemendur skólans hefðu aðgang að kennsluefni sérhvers námskeiðs í skólanum, til dæmis til að nemendur geti betur valið sér námskeið við hæfi?
  • Er höfundarréttur háskólakennara, á kennsluefni sem þeir dreifa til nemendanna sem þeir kenna, frábrugðinn höfundarrétti fréttafólks á fjölmiðlum (og þeirra sem senda inn greinar í blöð), sem ekki hefur neitt að segja um dreifingu fréttanna sem það skrifar?
  • Er það virkilega rétt ályktað hjá einum háskólakennara sem tjáði sig um málið að ef HÍ ákvæði einfaldlega að hafa engan lokaðan vef fyrir kennsluefni, bara opinn, þá myndu margir kennarar skólans hverfa aftur til fortíðar og hætta að nota netið til að birta efni?
Það sem mér hefur fundist sorglegast við umræðuna er hversu margir hafa tekið undir þá afstöðu að það sé vont, ómögulegt, og líklega lögbrot, að ætlast til að almenningur geti fengið aðgang að kennsluefni sem birt er á innrivef HÍ.
Auðvitað gera sér allir grein fyrir því að um leið og tugir nemenda hafa aðgang að kennsluefni á vef skólans getur hver sem er komist yfir það sem hann hefur sérstakan áhuga á, því Ísland er nógu lítið til að allir þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem er skráður í viðkomandi námskeið.  Það er því augljóst að efni sem birt er á innrivef HÍ er ekki lengur „leynilegt“.
Það er líka sérkennilegt að almenningur, sem borgar alla starfsemi HÍ, þar með talin laun kennaranna fyrir að setja saman kennsluefni, megi ekki fá aðgang að því kennsluefni sem dreift er til nemenda skólans.
Það sem er þó verst við þetta, finnst mér, er leyndarhyggjan sem birtist í mótbárunum sem svo margir flýta sér að leita að.  Örfáir þeirra sem hafa tjáð sig teljandi um málið tala um að það væri auðvitað gott að gera sem mest kennsluefni aðgengilegt almenningi.  Flestir tala hins vegar um það eins og sjálfsagðan hlut að halda verndarhendi yfir þessari leynd, og leita að alls konar rökum og lagabókstöfum til að útskýra mikilvægi þess að sem minnst ljós fái að skína inn í þennan ryðhjall sem reynir svo oft að vera fílabeinsturn.
Nánast engum virðist detta í hug að það væri ef til vill eftirsóknarvert að starf HÍ væri opið almenningi að því leyti sem auðvelt er að opna það.  Það þarf til dæmis bara að „ýta á einn takka“ til að gera kennsluefnið aðgengilegt umheiminum í stað þess að loka það inni í afmörkuðum hópi innan skólans.
Fáum virðist heldur detta í hug að það gæti verið eftirsóknarvert að feta í fótspor þeirra skóla erlendis (t.d. Tübingen, Michigan, TU Delft, MIT, Yale …) sem vilja veita almenningi aðgang að því sem þeir hafa fram að færa.  Nei, það væri hræðilegt „brot á höfundarrétti“ að veita almenningi aðgang að þeim leyndardómum sem fjallað er um í hinum sérstaka Háskóla Íslands.
Ég veit svo sem af hverju margir kennarar við HÍ óttast innsýn almennings í kennslu sína.  Þótt í HÍ sé talsvert af mjög öflugu vísindafólki er mikill fjöldi kennara skólans, sérstaklega á Menntavísinda- og Félagsvísindasviði,  alls engir þátttakendur á þeim vettvangi sem skólinn segist, opinberlega, ætla að gera sig gildandi á, þ.e.a.s. á þeim alþjóðavettvangi sem vísindastarf er.  Þótt sérhver kennari við íslensku ríkisháskólana fái 40% launa sinna greidd fyrir að stunda rannsóknir er það opinbert leyndarmál að stór hluti þeirra hefur aldrei stundað rannsóknir, og annar stór hluti stundar rannsóknir sem ná engu máli í því alþjóðasamfélagi sem skólinn hefur sem yfirlýsta stefnu að tilheyra.
(Það er svo efni í annan pistil að þótt ofangreind tvö svið innan HÍ séu samanlagt umtalsvert fjölmennari en bæði Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið, þá er framlag þeirra fyrrnefndu til alþjóðasamfélags vísindanna innan við einn tíundi af framlagi hvors hinna sviðanna, eins og sjá má í þessari samantekt úr gagnagrunninum Web of Science, yfir fjölda birtra greina á ritrýndum alþjóðlegum vettvangi. Rétt er að hafa í huga hér að þetta yfirlit, sem ég mun fjalla betur um síðar, er yfir allar birtingar íslenskra stofnana.  Það þýðir meðal annars að  stór hluti birtinga í heilbrigðisvísindum er frá Erfðagreiningu og Hjartavernd.)
Það er þó ekki þetta sem gerir mig dapran, því það hef ég vitað lengi.  Heldur hitt, hversu fátt af því frambærilega vísindafólki sem HÍ þó á skuli vera tilbúið að standa upp og útskýra fyrir almenningi og stjórnvöldum þá lygi sem svo stór hluti af starfi HÍ byggir á, og sem er ein ástæða þeirrar leyndarhyggju sem hér hefur verið fjallað um.  Lygi undirmálsliðsins, sem hefur tögl og hagldir í æðsta valdakerfi skólans, um að það sé alvöru vísindafólk, en ekki dæmigerðir íslenskir fúskarar sem þjást samtímis af (skiljanlegri) minnimáttarkennd og (óskiljanlegu) mikilmennskubrjálæði.
Ísland er svo óskaplega sérstakt.  Um það gilda allt aðrar reglur og lögmál en þessa aula sem búa í öðrum og vanþróaðri löndum.  Það er af því að Íslendingar eru afburðafólk, sem hafa ekkert til annarra að sækja …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Gunnar Ari

    Þegar stór hópur fólks með Bachelor of science gráðu í félagsvísindum er farið að halda fram kreddum eins og að staðalímyndir skapi reglulega glæpamenn úr fólki sem annar væru löghlíðið, þá er náttúrulega eitthvað rosalega mikið að.

    Slík fullyrðing hefur engu meiri tölfræði á bakvið sig heldur en smáskammtalækningar.. auk þess sem við vitum fullvel um þá þætti sem leiða til þess að einn verður glæpamaður en annar ekki (í grófum dráttum) , og staðalímyndir (vondar eða góðar) hafa ekkert með það að gera.

  • Mér var bent á að hlutfall Erfðagreiningar og Hjartaverndar í birtingum íslenskra stofnana í heilbrigðisvísindum væri ekki mjög hátt, líklega innan við 20%, þótt hlutur þessara fyrirtækja sé gríðarlegur þegar kemur að þeim tímaritum sem yfirleitt eru talin þau bestu. Ég mun fjalla nánar um þetta, með öðru, í pistli á næstunni.

  • Pistlar Evu eru framúrskarandi og gagnrýni hennar á öfgar og algjört fræðilegt innihaldsleysi femínismans afhjúpandi og beinskeytt.

    Ég vil færa Evu kveðju mína og þakkir.

  • Gunnar Ari

    Til varnar feminisma world wide, þá auðvitað, er hann stór og mikilvægur þáttur í lýðræðisþróun og alveg hægt að ræða hann á skynsömum nótum eins og gert er hér af alvöru fræðimönnum sem bera virðingu fyrir staðreyndum: http://www.edge.org/3rd_culture/debate05/debate05_index.html

    (Bæði hægt að horfa á video og lesa transcript)

    Takið eftir að þó þetta sé debat um Nature vs Nurture, þá dettur hvorugum feministanum í hug að Mótunarkenning (sú hugmynd að einstaklingar séu „blank slate“ sem mótist eingöngu útfrá samfélagsþáttum) sé „svarið“ – enda þyrfti að horfa framhjá þróun vísinda síðustu 50 ár, til þess – auk þess sem þróun vísinda síðustu 50 ára er álíka mikil og þróun síðustu fimmtánhundruð ár þar áður – sem undirstrikar þá bara hversu veldisvaxandi sú heimska er að halda því fram að rétt sé að búa til námsefni (Kynungabók) útfrá mótunarhyggju einni, og að hafna augljósum staðreyndum sem ættu ekki að hafa farið framhjá neinum sem er kominn með B.s gráðu (Nema að eitthvað mikið sé að háskólastarfi í félagsvísindum, sem er reyndar augljóst).

    Málið er bara að í kringum annars mikilvæga hugmyndafræði hefur skapast rosalegur buisness í að framleiða pop-science bækur um þetta málefni, og ruglið í þeim geira er það sem við fáum helst að heyra frá íslenskum feministum og kynjafræðingum… því miður.

  • Jafnréttisbarátta var og er stór þáttur í lýðræðisþróun. Sá feminismi sem er praktíseraður á Íslandi í dag er engin jafnréttisstefna heldur kvenhyggja; hugmyndafræði sem gengur út á að útmála konur sem fórnarlömb og karlmenn sem skúrka.

    • Gunnar Ari

      Sæl Eva

      Ég held að þessi skilgreiningar-barátta á íslandi um hvað sé feminismi og hvað jafnréttisbarátta sé ekki beint hægt að fá neinn botn í. Í sögulegu samhengi er þetta svo samtvinnað.

      .. Talandi við íslendinga þá veigra ég mér frá því að kalla mig feminista útaf því að ég kæri mig ekki um að fólk misskilji það sem svo að ég sé partur af þeim kreddufulla hópi sem eignað hefur sér þessa stefnu hérlendis. Hópur sem heldur því fram fullum fetum að vondar staðalímyndir séu mikil umhverfishætta gagnavart ungu fólki, og að staðalímyndir geti andsetið annars löghlíðna borgara og gert þá að glæpamönnum – kenning sem er ekki mikið skynsamari en að djöflar séu að stofna til glæpa í hugarfylgsnum ungs fólks (auk þess sem þessi „viska“ er þvert á það sem við vitum vel um eðli glæpa) . Ef maður tileinkar sér slíka rörsýni þá er samt mjög auðvellt að varpa eigin hugarórum á samfélagið, og þegar ný-djöflarnir hafa verið skilgreindir sem allar staðal“ímyndir“ sem manni hugnast ekki, þá verður leikurinn töluvert auðveldari…sérstaklega ef maður safnar sönnunargögnum um vonda stöðluðu ímyndirnar á markaðstorgum lágkúrunar (dv.is, smugunni, amx, FB og etc) Ég get fengið út að hvaða borg sem er sé að farast úr mengun ef ég tek sýni mín eingöngu við púströr á bílum í gangi.

      Hinsvegar væri ég í engum vandræðum með að kalla mig feminista á sömu forsendum og Prófessorarnir tveir gera í myndbandinu sem ég linkaði – fyrir ofan

  • Saell Einar,

    Agaett ad sja thennan post fra ther. Eftir ad hafa verid i doktorsnami i Bandarikjunum, tha hef eg sed ad Haskoli Islands er beinlinis lelegur. Hann er svo sem godur grunnnamsskoli. Alltaf talad um hversu mikill rannsoknarhaskoli HI vaeri thegar madur rusladist i gegnum hann, madur sa ad thad var ekki raunin eftir masterinn og doktorinn uti. Margir innan haskolans voru ekki beinlinis ad drepa sig i rannsoknarvinnu.

    kvedjur.

  • Þetta er viðkvæmt mál hjá lítilli þjóð sem verður að halda uppi orðspori sínu amk innanlands. Elítubragur myndast nánast ósjálfrátt við þessar aðstæður.
    Þegar menn eru ráðnir til ævistarfs fyrir tilstilli stjórnmálaskoðunar eða ættarvensla sem ótrúlega oft er samfallandi þá er ekki von á því að menn séu valdir af „handahófi“ verðleikanna. Kannski er Einar dæmi um mann verðugan í rannsóknarháskóla en þá á hann ekkert erindi inn í Háskólaelítuna því þar myndi hann valda óróa og usla þó það sé velmeint og þarft í stóra samhenginu. Ég held að félagsfræði „verðleikanna“ og „listin að látast“ sé mikilvægari eiginleiki en hrein fræðileg ástundun. Það er meira einsog bónus. Á meðan HÍ hefur menn einsog Hannes Hólmstein svo einn þekktur sé nefndur þá sýnir það hversu auðvelt er að koma sér fyrir og gerast áskrifandi að laununum.

  • Helst myndi maður vilja sjá skýra og einfalda reglu um að öll gögn sem notuð eru eða myndast við umsýslu hins opinbera (allt sem kostað er af sameiginlegum sjóðum), séu opinber og öllum aðgengileg.
    Síðan má hugsa sér einhver frávik í tilfellum eins og varðandi persónugreinanlegar upplýsingar (heilsufarsupplýsingar o.þ.h.).

    Heyrði að slíkt sé í gildi í einhverjum ríkjum BNA (nenni ekki að finna heimildirnar núna).

    Væri slík regla í gildi varðandi kennslugögn í HÍ, má vera að kennslugögnin breyttust. Hugsanlega yrðu þau fábreyttari, örugglega í einhverjum tilfellum vandaðri, en væntanlega yrði mesta breytingin niðurskurður á ‘óopinberu’ efni; myndefni þar sem ekki hefur verið fengið leyfi til notkunar, heimilisupptökur úr sjónvarpi, ljósrit o.fl.

    Gæti orðið kostnaðarauki.

    Einn kostur við slíka reglu hlyti að verða að allsherjar skoðun á hverskonar notkunarleyfi mætti nota fyrir viðkomandi gögn, væntanlega alþjóðlega viðurkennd notkunarleyfi en ekki einhver heimagerð moðsuða.

    Ansi áhugaverð umræða, takk fyrir það.

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Ég veit ekki hvað ég á að nenna að þrasa við þig Einar, enda held ég að við séum í meginatriðum sammála, a.m.k. um það að æskilegt sé að sem mest af fræðigreinum, rannsóknargögnum og kennsluefni sé öllum opið án takmarkana. En ég svara spurningum þínum svona:

    Spurning: Er eðlilegt að háskólakennarar sem dreifa tilteknu námsefni (t.d. fyrirlestraglærum) til allra nemenda í tilteknu námskeiði vilji alls ekki að efnið verði gert aðgengilegt almenningi?
    Svar: Já, það getur verið eðlilegt, t.d. vegna þess að efnið er ekki fullbúið, eða vegna þess að í opinberri birtingu væri það slitið úr samhengi sem opnaði möguleika á alls konar misskilningi og rangtúlkunum.

    Spurning:Gerir höfundarréttur kennara á kennsluefni að verkum að háskóli megi alls ekki krefjast þess að allt efni sem birt er nemendum námskeiðs (sem í geta verið tugir eða hundruð nemenda) sé birt á opnum vef, þannig að það verði aðgengilegt almenningi?
    Svar: Já, vegna þess að í 3. grein höfundalaga segir: „Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það …“ Skólinn sem vinnuveitandi getur ekki skikkað starfsmenn til að birta efni sitt opinberlega (þótt hann gæti hugsanlega krafist þess af nýjum starfsmönnum að þeir undirgengjust þá skyldu).

    Spurning: Kæmi umræddur höfundarréttur (sem margir virðast rugla saman við réttinn til dreifingar) í veg fyrir að háskóli gæti krafist þess að allir nemendur skólans hefðu aðgang að kennsluefni sérhvers námskeiðs í skólanum, til dæmis til að nemendur geti betur valið sér námskeið við hæfi?
    Svar: Já, af sömu ástæðum – höfundur ræður yfir því efni sem ekki hefur verið opinberlega birt.

    Spurning: Er höfundarréttur háskólakennara, á kennsluefni sem þeir dreifa til nemendanna sem þeir kenna, frábrugðinn höfundarrétti fréttafólks á fjölmiðlum (og þeirra sem senda inn greinar í blöð), sem ekki hefur neitt að segja um dreifingu fréttanna sem það skrifar?
    Svar: Nei, höfundarétturinn er ekkert frábrugðinn. Munurinn felst í því að kennsluefnið hefur ekki verið birt opinberlega. Eftir að verk hefur verið birt opinberlega hefur höfundurinn ekkert um dreifingu að segja.

    Spurning: Er það virkilega rétt ályktað hjá einum háskólakennara sem tjáði sig um málið að ef HÍ ákvæði einfaldlega að hafa engan lokaðan vef fyrir kennsluefni, bara opinn, þá myndu margir kennarar skólans hverfa aftur til fortíðar og hætta að nota netið til að birta efni?
    Svar: Ég held að þú sért að vitna í mig þarna en ég held að ég hafi ekki sagt að kennarar myndu „hætta að nota netið til að birta efni“. Ég sagði hins vegar að mörgu af því sem nú er sett á lokaðan innri vef yrði þá dreift í ljósritum í staðinn.

  • Takk fyrir svörin, Eiríkur.

    Það sem mér finnst mikilvægast í þessu máli er afstaðan til opinnar birtingar kennsluefnis, sem ég tel að ætti að gera sem mesta, og að háskólar ættu að beita sér fyrir því.

    Ég hef hins vegar efasemdir um þá túlkun þína á höfundarréttarlögum sem verður til þess að þú telur ljóst að ekki sé um opinbera birtingu að ræða þegar kennsluefni er birt öllum nemendum í námskeiði.

    Mér sýnist nefnilega að eftirfarandi, úr höfundalögum, http://www.althingi.is/lagas/139b/1972073.html, geri birtingar kennsluefnis nemendum í námskeiði að opinberri birtingu:

    „Nú er verk flutt eða sýnt á atvinnustöðvum, þar sem 10 menn vinna eða fleiri, og telst það þá opinber birting.“

    Þetta er í 2. grein ofnnefndra laga. Ertu ósammála þessari túlkun minni? Ef svo er, veistu til þess að skorið hafi verið úr um það í dómstólum?

    • Eiríkur Rögnvaldsson

      Já, ég veit af þessari grein. Ég hef samt aldrei heyrt því haldið fram að það sem er sagt eða dreift í kennslustofu sé opinber birting, og mér finnst það fráleitt. Væri það þá opinber birting ef ég dreifi einhverju í námskeiði með 10 eða fleiri nemendum, en ekki ef nemendurnir eru færri en 10? En ég veit ekki til þess að dómstólar hafi skorið úr um þetta. Ég er hins vegar hræddur um að ef þetta yrði talið opinber birting gæti það breytt miklu í kennsluháttum – og ekki til hins betra.

  • Það er nú bara þannig með lög að þau eru ekki fullkomin. Mörk eru dregin einhversstaðar en þau eru yfirleitt umdeilanleg. Ég sé engan mun á kennslustund þar sem nemendur eru 9 og þar sem þeir eru 10 en ég sé heldur ekkert vit í því að manneskja breytist úr barni í fullorðinn á 18 ára afmælisdaginn.

  • Vel má vera að það sé rétt hjá þér, Eiríkur, hver áhrifin yrðu ef kennarar við HÍ þyrftu að birta efni sitt á opnum vef. Enda nefndi ég hvað ég héldi að lægi helst að baki slíkri afstöðu hjá mörgum, þótt auðvitað væri það ekki algilt.

    Það er sem sagt þessi afstaða, að kenna í háskóla en finnast ekki sjálfsagt að gera það fyrir opnum tjöldum, sem mér finnst svo dapurleg, og algerlega á skjön við þau gildi sem akademískt starf á að grundvallast á.

    Hvað varðar það sem þú sagðir áður, um möguleikann á að með „opinberri birtingu væri það slitið úr samhengi sem opnaði möguleika á alls konar misskilningi og rangtúlkunum“ þá finnst mér það vond viðkvæmni hjá háskólafólki sem á alltaf að vera opið fyrir gagnrýni. Þegar verk fólks eru gagnrýnd er alltaf hætta á að hlutirnir séu teknir úr samhengi og rangtúlkaðir, oft í annarlegum tilgangi. Þannig er lífið og umræðan, og mér finnst að háskólafólk eigi síst af öllum að skýla sér á bak við þá hræðslu.

    • Eiríkur Rögnvaldsson

      Einar, ég veit vel að í umræðu er „alltaf hætta á að hlutirnir séu teknir úr samhengi og rangtúlkaðir“. Það er engin ástæða til að kvarta undan því – við því er hægt að bregðast með því að birta samhengið og leiðrétta rangtúlkunina. En það sem ég var að tala um er svolítið annað – sem sé sú krafa að höfundurinn sjálfur (kennarinn) slíti verk sitt (t.d. glærur) úr réttu samhengi (tímanum eða námskeiðinu). Þar stendur hann illa að vígi gagnvart misskilningi og rangtúlkunum vegna þess að hann á þess engan kost að birta samhengið.

  • Sveinbjörn Halldórsson

    Gagnrýni á háskóla var áberandi í umróti 7.áratugarins, þá töldu menn augljóst að háskólar tilheyrðu ríkjandi valdakerfi, og settar voru fram hugmyndir um opna og frjálsa háskóla. Fátt eimir eftir af þeim hugmyndum, enda voru þær að mörgu leyti reistar á veikum grunni. Sú hugmynd að þekkingin væri í eðli sínu frjáls og óháð glapti mönnum sýn. Hún er þvert á móti eitt traustasta vígi þess valds sem eignar sér hana.
    Um hana þróast ákveðnir hirðsiðir, sem einkennast af valdatogstreitu innan veggja háskóla, sem er að mestu leyti hulin sjónum okkar.

    Á seinni árum hafa tengslin milli hagsmunahópa í viðskiptalífi og háskólans orðið æ auðsærri, það er ekki bara bundið við Ísland, heldur ógna þessi tengsl trúverðugleika margra virtra háskóla erlendis. Þetta er vissulega dapurlegt, en ekkert nýtt í sjálfu sér. Önnur hlið þessa sjálfumglaða valds sem háskólinn hneigist til, er sérfræðilegt tungutakið. Ef menn halda að það sé nauðsynlegt vegna hugmynda sem er ekki á færi almennings að skilja, þá hafa þeir rangt fyrir sér. Þetta eru áhrif rótgróins valdakerfis, sem seytlar með næstum ómeðvituðum hætti inn í akademíska umræðu.

  • Pétur Henry

    Sossum þess virði að velta fyrir sér. En ppt kynningar kennara eru misgóð vinnuplögg, oft á einhverju punkta eða myndaformi og eiga sem slík ekkert endilega erindi við almenning frekar eitthvað annað. Í raunvísindum er þetta jafnan útdrættir úr kennslubókum, þannig það er nú varla eins og verið sé að halda upplýsingum frá almenningi 🙂 setja umræðuorkuna í eitthvað annað?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur