Laugardagur 15.12.2012 - 19:14 - 22 ummæli

Berjumst gegn ofbeldi bænda

Á Íslandi ríkir bændaveldi.  Í þúsund ár voru það bændur sem réðu lögum og lofum, kúguðu hjúin og komu í veg fyrir að almenningur gæti um frjálst höfuð strokið, hvað þá að alþýðan gæti starfað við það sem henni sýndist, og engir komust til mennta nema þeir sem áttu ríka bændur að.  Allar valdastöður í landinu voru í þúsund ár mannaðar bændum; bæði sýslumenn og prestar voru bændur, sem og allir héraðshöfðingjar aftur til landnámsaldar.  Bændur réðu öllu atvinnulífi landsins í meira en tíu aldir, ekki bara landbúnaðinum heldur einnig öllum sjávarútvegi fram á síðustu öld, þar sem þeir kúguðu vinnumenn sína til sjósóknar og meinuðu öðrum að sækja sjó.
Auðvitað eru bændur í dag ekki allir illmenni (og reyndar er það líklega lítill hluti þeirra sem enn fremur það ofbeldi gagnvart alþýðu sem er einkennandi fyrir þá kúgun sem fylgdi bændaveldinu  gegnum aldirnar).  En, þessi hugsunarháttur er svo djúprættur í þjóðinni, bæði meðal bænda og almennings, að honum verður ekki útrýmt nema með stöðugu átaki í langan tíma.  Það er hættulegur barnaskapur að halda að kúgunarveldi af þessu tagi, með meira en þúsund ára sögu, hverfi sjálfkrafa þótt löngu sé búið að setja lög til að tryggja almenningi kosningarétt og aflétta vistarböndum.  Áhrif bændaveldisins birtast enn mjög víða, því óhætt er að segja að bændur njóti ýmissa forréttinda miðað við almenning, og bændur eru víða í valdastöðum þar sem þeir hygla enn sínum á kostnað almennings.
Bændaveldið gegnsýrði svo hugarfar þjóðarinnar að það mun taka marga áratugi í viðbót að létta þessum klafa af hugum flestra.  Þess vegna er mikilvægt að berjast alltaf og alls staðar gegn ofbeldi bænda, og það ætti að vera sjálfsagt að kenna alþýðufræði í skólum, þar sem útskýrt er fyrir börnum og unglingum hvers konar ofbeldi alþýðan varð fyrir af hálfu bænda, og hvernig hugsunarháttur bændaveldisins liggur enn til grundvallar þeirri útbreiddu hugmynd að bændur eigi að njóta forréttinda og megi níðast á öðrum.
Að sjálfsögðu á að banna bændum algerlega að ráða til sín vinnufólk, og við því eiga að liggja harðar refsingar (en þó á auðvitað ekki að refsa vinnufólkinu sem ræður sig í vist; það er fórnarlömb, og oftar en ekki flutt hingað inn frá öðrum löndum og alveg bjargarlaust og hjálparlaust gagnvart kúguninni).  Að halda fram að til sé „hamingjusamt“ vinnufólk á bændabýlum er svívirðileg afneitun á þeirri kúgun sem bændur stunda enn í skjóli hugsunarháttar bændaveldisins.
Enn fremur ætti að setja lög til að koma í veg fyrir að bændur verði nokkurn tima hlutfallslega of margir í nokkrum eftirsóknarverðum stöðum og starfsstéttum, og það þarf að sjálfsögðu lýðréttisnefnd sem almenningur getur snúið sér til þegar bóndi er ráðinn í starf þar sem hlutfallslega of margir bændur eru fyrir og gengið er fram hjá alþýðuumsækjanda sem er jafnhæfur bóndanum.
Einnig þarf að taka upp alþýðlega fjárlagagerð, svo hægt verði að rétta alls staðar af þann halla sem þar er að finna, almenningi í óhag.  Einnig ætti að skylda öll fyrirtæki með yfir 5 starfsmenn, og allar opinberar stofnanir, til að vera með lýðréttisáætlun, og opinberar stofnanir með yfir tíu starfsmenn ættu allar að vera með sérstaka lýðréttisráðgjafa, sem þurfa að vera menntaðir í lýðfræðum.
Brýnt er að efla rannsóknir og kennslu í lýðréttismálum á háskólastigi, enda ekki vanþörf á að greina á fræðilegan hátt hvernig bændaveldishugsunarhátturinn einkennir allt samfélagið.  (Talandi um það, er búið að lýðgreina skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?)
Bændaveldið er staðreynd, og þeir sem afneita því eru algerlega blindir á skuggahliðar samfélags okkar.  Við verðum að halda vöku okkar, og því hef ég ákveðið að búa til Facebook-siðu þar sem ég safna saman ýmsum ummælum bænda sem sýna hvernig hugsunarháttur bændaveldisins lifir enn góðu lífi á meðal vor.  Ég er að hugsa um að kalla síðuna „Bændur sem hata almenning“.
Að sjálfsögðu mun þessi afstaða verða fyrir rætnum árásum frá bændum, sem eru dauðhræddir um að missa þau völd sem þeir hafa haft til að kúga alþýðuna.  En, það sannar bara hversu rótgróinn og óhuggulegur hann er þessi hugsunarháttur sem gegnsýrir enn samfélagið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Kærar þakkir fyrir þessa frábæru grein.

    Ég vek athygli á því að formaður Bændasamtakanna er á leið á þing fyrir Flokkinn.

    Það mun gerast í krafti þeirra 90 atkvæða sem hann hlaut í prófkjöri Flokksins í norðvestur-kjördæmi.

    90 atkvæði!

    Maðurinn hlaut 90 atkvæði og er á leið á þing fyrir þessi samtök!

    Þetta samfélag er svo geggjað að því verður vart með orðum lýst.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Mér datt í hug við lestur pistilsins að kalhæðnin mundi ekki skiljast.

    Rósa sannar það.

    Er það ekki annars?

  • Rósa, ertu nokkuð að misskilja þig?

  • Ragnheiður

    Einar finnst þér kannski eigi að hætta að klæða börn bænda í grænt á fæðingdeildinni?

  • Helgi Jóhann Hauksson

    Já, kvennafræðin verður svolítið sérstök og yfirgegnileg í þessu ljósi.
    Ég vildi að allir sem krefjast aukinna réttindi fyrir einn hóp létu sér duga að óska jafnréttis og raunverulega jafnrar stöðu allra hópa.

  • Snæbjörn Brynjarsson

    Ég er reyndar sammála Rósu þó ég hafi séð háðið, það var þegar ég sá að banna ætti að ráða vinnufóllk sem það tók af allan vafa.

    Að því sögðu þá er það rétt að það ætti að kenna krökkum sögu Íslands vel og lýsa því hvernig alþýðan var kúguð. Misrétti samfélagsins í dag er oft framhald af misrétti gærdagsins.

    Fyrst var bannað að vinna við eitthvað annað en landbúnað (vistarböndin) og reynt að hindra þar með nokkra myndun þéttbýlis.
    Svo í byrjun 20. aldar giltu atkvæði þéttbýlisfólks margfalt minna. Þetta var smám saman lagað en mætti mikilli andstöðu t.d. framsóknar. Í dag eru atkvæði næstum því jöfn en samt ekki alveg.

  • kristinn geir st. briem

    þetað er stórfurðuleg grein, tek það að það sé verið að færa bæbdaveldið yfir í daginn í dag. hvar var þessi sjvarútvegur, það kom upp svartidauði sekm stráfeldi bygðirnar það þurfti að manna sveitirnar til að þjóðin silti ekki móðurharðindi sem feldi helmíng þjóðarinar siðan seldi kóngurin versluninna til kaupmana sem seldu mönum skemt mjöll svo senilega er kaupmannastéttinn sem hefur kúgað þjóðina sem mest svo þú ættir að ekki að kenna bændum um heldur kaupmanakúgun. það hefur ekkert breist.

  • Ásdís Jónsdóttir

    Er þetta allt saman ekki tekið beint úr myndum Baldurs Hermannssonar hérna um árið? Kemur allt saman mjög kunnuglega fyrir og kemur reyndar býsna vel heim við Íslandssöguna eins og hún leggur sig! Einhver fræðimaður sagði líka að innihald allra íslendingasagnanna mætti draga saman í eina setningu: „Bændur flugust á“.

  • Bóndi var bústólpi, bú var landstólpi.

    En ekki lengur.

    Ungir bændir sjá nú er þeir eru einskis metnir og ætla héðan af að sitja einir og óháðir á óðulum sínum og framleiða nákæmlega það sem nemur þeirra eigin þörfum og ekki örðunni meira.

    Það verður gaman að heyra gólið í frelsuðu alþýðunni þá.

    Raunar er það farið að heyrast.

  • droplaugur

    Það hefur verið ósiður nýrrar kynslóðar og freisting að fara oft ekki nógu djúpt í hlutina . Hafa kennski ekkert fremur en ég þroska og reynslu til að skilja 1200 ára sögu mynd bænda á íslandi og koma með síðan smellulausn um vonda kallinn og blanda nú formanni bænda inní umræðuna um þrælahald liðinna alda.. Voru ekki allir bændur í gamla daga??? .Og það hafi verið einhvert allherjar samsæri um að njörva fólk niður tel ég vera að hluta rétta en samt vera vera mjög grunna söguskoðun. Umræðan um verkalýðsmál var bara ekki mikið á dagskrá vegna þess menn voru bara að því vetur sumar vor og haust BARA ÞAÐ að lifa af. Fæðu öryggið var mikilvægara en mannréttindi, gæti verið ein skýringin.En vitundarvakning íslendinga kemur að mínu áliti eftir amerísku byltinguna 1776 sem leiðir af sér frönsku byltinguna 1798 margfeldisáhrifin og vitundarvakningin fór út um alla evrópu og kom hingað til lands sumarið 1811 á skipinu hans jörundar. en jörundur tók ekki bara völdin heldur kom hann á vitundarvakningu. Því hann lét herflokkinn sinn fara norður í land og flengja og niðurlægja allt dansk vald og kom hér á ljósmæraskóla sem stór dró úr barnadauða og stúdentar voru látnir sofa út í fjósi Á BESSASTÖÐUM í boði danska valdsins fyrir tíð jörundar,,,, en ekki eftir. á td en 40 árum seinna eftir viðveru sumar jörundar hér erum við kominn með byltingu þjóðfundarins 1851 En þetta með bændur er ekki eitthvað sem þarf að skoða betur með 2 eða 3 sagnfræðingum til að koma með víðari söguskoðun og muna það að SANNLEIKURINN ER SÁ AÐ SANNLEIKURINN Á VISSU STIGI ER OFT VERRI EN LYGI. P.S. Hins vegar er gott að lesa bók Halldórs Péturssonar :KREPPAN OG HERNÁMSÁRIN en hún fjallar um svipað efni og meira til og er bók sem er ég segi bara mikið vanlesin – MJÖG-VEL SKRIFUÐ.

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    það besta, flottasta og vinsælasta í dag er „beint frá býli“….ég er t.d. beint frá býli 😉

    • Ásdís Jónsdóttir

      Ég er líka „beint frá býli“! Það besta við það er áreiðanlega að vita að ekki þurfa allir að vera steyptir í sama mótið!

  • Þorlákur Axel

    Munurinn er að arfleið bændasamfélagsins kostar íslenska alþýðu tugi milljarða á ári – og það er engin kaldhæðni heldur óþarfa útgjöld.

    • Elín G. Gunnlaugsdóttir

      Svona án gríns þá er það mikilvægt fyrir okkur að framleiða okkar eigið. Eða viljum við flytja allt inn og vera ekki sjálf okkar nóg. Við erum einungis 300 þ. manna þjóðfélag og ég vil frekar að landbúnaðurinn okkar sé niðurgreiddur en að flytja inn kjöt og aðrar landbúnaðarvöru og við fáum besta lambakjöt í heimi. Ég hef smakkað lambakjöt frá 5 þjóðum og það íslenska er það laaaangbesta.

    • kristinn geir st. briem

      kæri. þorlákur.
      er ekki óðörf útgjöld sem fer í listina rá ríkinu.er ekki óþörf útgjöld sem fer í alla háskóla dugar ekki eitn. er ekki óðörf útgjöld semsem fer í alt ríkiskerfið það er niðurgreiðirn laun um 60% svo það er mikið um óðarfa

  • Ungir bændur ráða nú til sín vinnufólk stund og stund í einu, jafnvel hálfa helgi.

    Engum heilvita bónda dettur í hug að hafa ráðskonu til lengri tíma.

  • Stöku sinnum hvarflar að mér að lestrarkunnátta okkar íslendinga sé stórlega ofmetin.

  • Brynhildur

    Það verður þá svo að vera, Guðjón minn.

    Held að okkur ráðskonunum fyrrverandi sé engin vorkunn að rækta okkar eigin garð.

    En auðvitað voru börnin okkar frjálsari og glaðari í sveitinni.

  • Ekki held ég að hún Dagný sé læs á þessar línur þínar Brynhildur.

    Hvern fjárann áttu við?

  • Ekki held ég að hún Dagný sé læs á þessar línur þínar Brynhildur.

  • Hjalti Ágústsson

    Skemmtilegt hvernig þú hittir naglann á höfuðið svona alveg óvart inn á milli. Bændur voru jú karlmenn og þeir áttu eigninrnar. þannig að vissulega eimir enn eftir af „bændaveldinu“, það er einmitt mergurinn málsins, þó að það sé kannski örlítið of hart að bregðast svona við og vera svona vondur við aumingjans bændurna.

    Það er spurning hversu vel manni tekst upp í kaldhæðninni þegar hún fer algerlega fyrir ofan garð og neðan hjá þorra þeirra sem lesa pistlilinn 🙂

  • Finnst bæði pistilinn sem er ágætur og svo umræðan eftir hann skorta algjörlega það að bændur voru undir hælnum á kaupfélögum þar til fyrir ekki svo löngu…. Kaupfélögin t.d. KEA eða KÁ keyptu vinnsluvélar og fleira fyrir búin og rukkuðu og héldu þeim algjörlega sínum með hinum ýmsu ráðum. Þetta hefur ekki breyst algjörlegea. Jú búin eru orðin sjálfstæðari með falli SÍS en ríkisstjórnin hefur ekki breyst… Ekki er frjáls samkeppni í þessum bransa, refsiskattur á mjólk umfram það sem MS kaupur (hugsa sér) og svo framvegis… Man þegar Afi keypti dráttarvél með láni frá búnaðarbankanum ekki frá KÁ þá varð allt vitlaust og hann fékk að finna fyrir því enda átti KÁ allt batterríið sem keypti af bændum í þeirri sveit.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur