Föstudagur 21.12.2012 - 12:17 - 2 ummæli

Sölumenn óttans á Alþingi

Í gær birtist á forsíðu Fréttablaðsins grein um yfirvofandi vopnaleit á gestum í húsi Alþingis.  „Fréttin“ er dæmigerð íslensk kranablaðamennska; þetta er löng og nánast samfelld athugasemdalaus tilvitnun í skrifstofustjóra þingsins, sem virðist alveg hafa misst tökin á tilverunni, hvað þá þeirri skynsemi og yfirvegun sem óskandi væri að maður í hans stöðu byggi yfir.
Á sama tíma og ofbeldisbrotum fækkar stöðugt í okkar heimshluta, og þótt ekki sé að sjá að íslenskum þingmönnum hafi nokkurn tíma verið ógnað með neinum hætti við störf í þinghúsinu, er skrifstofustjórinn að leggja í mikinn leiðangur sem virðist hafa það helst að markmiði að espa upp ótta og áhyggjur af ofbeldi sem einhver gæti ef til vill framið einhvern tíma í framtíðinni.
Helgi „útskýrir“ líka af hverju þessi þörf stafar:
„Það er mikill skilningur í forsætisnefnd og meðal forystumanna á því að sá tími sé liðinn þegar sakleysi og einlægni birtist hér í samskiptum. Það er miður og mjög sorglegt.“
En hver var þá atburðurinn sem Helgi virðist líta á sem einhvers konar vatnaskil í sögu þingsins varðandi ofbeldi og varnir gegn því?  Jú, maður nokkur laumaði sér inn á klósett í þinghúsinu, og hann var með „lítið skurðtæki meðferðis sem hann skar sig með.“  Augljóslega var það ekki markmið mannsins að særa aðra, hvað þá að ráðast á alþingismenn.  Hins vegar trúlega að vekja athygli á sér við þessa iðju sína.  Það er því varla af ótta við ofbeldi gegn starfsfólki í þinghúsinu sem þessi atburður er notaður sem afsökun fyrir því að víggirða húsið, eins og virðist vera ætlun skrifstofustjórans.  Helgi virðist hins vegar ekkert hafa velt því fyrir sér hvað manneskja með markmið af því tagi sem þessi maður virðist hafa haft taki sér fyrir hendur ef hún kemst ekki inn í þinghúsið.  Hvert mun manneskja í slíkum hugleiðingum fara til að vekja athygli á sér, og eru það skárri staðir fyrir slíkt athæfi en klósett Alþingis?
Kranavörður Fréttablaðsins sprautar líka eftirfarandi yfir lesendur sína:
Helgi segir öryggismálum í húsinu ábótavant og nauðsynlegt sé að horfast í augu við að Ísland er ekki frábrugðið nágrannalöndum sínum hvað varðar afbrot og fyrirbyggjandi aðgerðir um öryggi þingmanna.
„Þingmenn eru mjög óvarðir í þingsal. Það þarf næstum því ekkert til, því miður. Og þetta er enn ein áminningin um að við erum stödd á sama stað í tilverunni og löndin í kring um okkur.“
Ekki er vikið orði að því hvaða ógnir þetta séu í nágrannalöndunum sem Helgi talar um, hvað þá að hann sé þýfgaður um skýringar á staðhæfingum sínum.  Blaðamanni hefur heldur ekki dottið í hug að grennslast fyrir um framgöngu Helga í fyrri „ofbeldismálum“ og afstöðu hans til sannsögli um slíkt, sem er ekki beinlínis sæmandi manni í hans stöðu.  Helgi Bernódusson virðist í stuttu máli vera með afar óheppilegar hugmyndir um ógnir sem steðji að Alþingi og um eðlilega meðferð við þessum fóbíum sínum.
Ekkert bendir til þess að ofbeldi sé að færast í vöxt í samfélagi okkar, eða í nágrannalöndunum, heldur virðist þróunin hafa verið nokkuð stöðug í gagnstæða átt í nokkra áratugi.  Þeir sem þrátt fyrir það ala á ofstækisfullum ótta eins og Helgi gerir vinna samfélaginu ógagn með því að mála sífellt skrattann á vegginn.  Það er til þess fallið að veikja þá öryggistilfinningu sem einkennir gott samfélag, en kemur með engum hætti í veg fyrir ofbeldi eða minnkar það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Leifur Þórarinsson

    Það virðist loða við þá sem vilja vinna fyrir hið opinbera, fram yfir aðra, að vera alarmist fábjánar.

  • Sammála. Þetta er undarlegt upphlaup.
    Og hvort er það meintur missir sakleysis og einlægni þingmanna (væntanlega), eða utanaðkomandi ógn af gestum þinghússins sem hér um ræðir. Kannski hvorutveggja?
    Tvískinnungsháttur og fláræði eru ómissandi tæki í áróðurstríði og allri valdabaráttu og hafa altaf verið. Ef þingmenn koma sakleysislega fram eru þeir að blekkja einhvern… eru óeinlægir. Það er ekki hægt að vera í pólitík uppá önnur býti

    Hitt atriðið var að maður blóðgaði sig á klósettinu. Það getur hent alla hvar sem er. Hver var ógnin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur