Miðvikudagur 16.01.2013 - 18:18 - 22 ummæli

Óheiðarlegur hagfræðidósent

Birgir Þór Runólfsson, sem kynnir sig sem dósent í hagfræði við Háskóla Íslands á bloggi sínu, hefur bloggað í mánuð hér á Eyjunni.  Pistlar hans eru allir stuttir, sem er ekki frágangssök í sjálfu sér, en ein ástæða þess er að hann færir aldrei nein rök fyrir máli sínu.  Hann birtir mikið af einföldum línritum, sem yfirleitt sýna samband tveggja breytna.  Þótt Birgir fullyrði sjaldan beinlínis neitt ganga allir pistlar hans út á að gefa í skyn tiltekin orsakasambönd, út frá fylgni þar sem engin rök eru færð fyrir orsakasambandi. Auk þess er augljóslega oft um gríðarlega einföldun að ræða, af því að alveg er sleppt að velta fyrir sér hvaða þættir geti haft áhrif á viðkomandi breytur, aðrir en þeir sem Birgir kýs að nota.
Hér er eitt dæmi, þar sem Birgir ber saman skatthlutföll og skatttekjur í Svíþjóð og Sviss, og heldur fram að sömu skatttekjur hafi fengist í báðum löndum, með gerólíku skatthlutfalli.  Gefið er í skyn, en aldrei sagt berum orðum, að skatttekjur yrðu ekkert lægri í Svíþjóð þótt skatthlutfallið yrði lækkað.  Engin tilraun er gerð til að rýna í aðra þætti sem haft gætu áhrif á skatttekjur, auk þess sem talað er um hinn svokallaða Lafferboga, sem er tilbúin einfölduð mynd sem nákvæmlega ekkert segir um líklegt samband skatthlutfalls og skatttekna (umfram hið augljósa að tekjurnar eru engar bæði við 0% og 100% skatt).
Heimildir Birgis eru oftar en ekki rit pólitískra áróðurssamtaka í Bandaríkjunum, en ekkert sem nokkur fræðimanneskja myndi kalla áreiðanlegt.
Í öðru dæmi ber Birgir saman ráðstöfunartekjur á Íslandi árin 2008 og 2011, og varpar fram spurningu um hvor dreifingin væri æskilegri, rétt eins og það snúist um pólitíska afstöðu en ekki að hrun hafi orðið síðla árs 2008.
Þetta er frámunalega óheiðarlegur málflutningur, því Birgir talar um þessi mál eins og hann sé nautheimskur, en ég gef mér að það sé hann ekki.  Ég gef mér líka að honum dytti ekki í hug að bera svona subbuskap á borð fyrir nemendur sína við Háskóla Íslands.  Því vaknar spurningin:  Af hverju eys Birgir, sem veit betur, svona þvælu yfir almenning?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

 • Einar Steingrímsson

  PS. Það er rétt að geta þess að ég held alls ekki fram að háir skattar geti ekki dregið úr skatttekjum, né heldur tel ég að háskattastefnan í Svíþjóð sé skynsamleg. Ég er bara að gagnrýna óheiðarlegan málflutning manns sem veit að um hreinan loddaraskap að ræða.

 • Ég hef líka verið furðu lostinn yfir þessum einfeldningsskap hjá manninum.

  Og ætla að vona, rétt eins og þú, að hann haldi ekki viðlíka „fræðum“ að nemendum.

  Það er svo umhugsunarvert að þessi „frelsisunnandi“ leyfi ekki athugasemdir.

 • Ég veit ekki hvort er verra að vera loddari eða heimskur svo ég á erfitt með að leyfa honum að njóta vafans.

  Mér fannst sérstaklega slæm færslan hans „Lífskjör í 11 norrænum ríkjum“ (http://blog.pressan.is/birgirthru/2012/12/28/lifskjor-i-11-norraenum-rikjum/) þar sem hann minntist ekki á að Kanadafylkið Alberta, sem var með hæstu verðmætasköpunina, hefur gnótt olíuauðlinda. Til dæmis les ég hér http://oilsands.alberta.ca/economicinvestment.html eftirfarandi:

  „Alberta’s remaining proven oil reserves are 170.8 billion barrels (169.3 billion barrels in the oil sands), or about 13 per cent of total global oil reserves.“

  Þrátt fyrir augljóslega mikils vægi auðlinda þá þykist hann geta lesið eitthvað úr þessum tölum um áhrif frelsis. Þó að þetta ríki sé tekið út úr samanburðinum þá er ekkert að marka samanburð við önnur fylki Kanada sem augljóslega njóta góðs af orkuauðlindum Alberta. Einnig er raunin sú að önnur fylki Kanada ráða einnig yfir náttúruauðlindum.

  Aðrir þættir sem hann minnist ekki á: misdreifing tekna, áhrif þess að N-Ameríka er einsleitur markaður, mun lengri vinnudagur, o.s.frv.

  En það er alvarlegt að dósent við HÍ skuli skrifa með þessum hætti um fylki Kanada án þess að hafa kynnt sér hagkerfi þeirra. Enn alvarlegra er að draga svo heimskulega ályktun út frá þessum tölum.

 • Haukur Kristinsson

  Hafði lesið grein Birgis Þórs um Laffer-bogann í Sviss og Svíþjóð, en “skipped it”, hafði þegar tekið eftir því að maðurinn er dilettant.
  En engu að síður, skoðum þetta nánar. Væri skattahlutfallið í Sviss og Svíþjóð nákvæmlega það sama, t.d. 40% af vergri landsframleiðslu, en skatttekjur á mann hærri í Sviss, þýddi það einfaldlega að per capita væri landsframleiðsla Svisslendinga hærri. „So what“. Fyrir því væru auðvitað til skýringar.
  En hvað skatta í Sviss varðar, sem eru lágir í % tölu, ber að hafa í huga að allir Svissarar verða að hafa privat sjúkratryggingu, það er skylda.
  Og hún getur kostað á mánuð fyrir eina manneskju ca. 100.000 kr, jafnvel meira.

 • Andri Sigurðsson

  Svo kennir þessi maður hagfræði og situr í bankaráði Seðlabankans. Nice.

 • Einar, ég er búinn að lesa þessar greinar Birgis og tel þær vera fínar og útskýra vel það sem hann vill koma á framfæri. Þetta eru hans skoðanir sem hann rökstyður með kenningum í hagfræði en þetta eru kenningar ekki ófrávikjanleg sanningi. Lafferboginn er „supply-side“ hagfræðikenning(með áherslu á framboðshliðina) á meðan ríkjandi(vinsælustu en ekki endilega „réttustu“) kenningarnar eru Keynesískar með áherslu á eftirspurnarhliðina.

  Það sem Birgir skrifar er ekki rangt út frá kenningum.

  Umburðarlindi fyrir skoðunum annarra, þrátt fyrir að við séum ekki sammála þeim, er forsenda þess að málefnaleg skoðanaskipti geti átt sér stað.

 • Þór Saari

  Þetta er nú samt ágætis dæmi um á hvað plani akademían hér á landi er í sumum greinum. Hagfræðin, stjórnmálafræðin, lögfræðin allt greinar sem tengjast stjórnmálum hér á landi með beinum hætti virðast ekki færar nema í örlitlu magni að ástunda alvöru akademíska umræðu. Sjálfur bar ég gæfu til að menntast við erlenda háskóla og hvet alla sem eiga þess kost að leita út fyrir landsteinana ef þeir vilja í akademískt nám.

 • Lúðvík: Eins og ég sagði í pistlinum er enginn rökstuðningur í greinum Birgis. Ef þú telur það vera rangt hjá mér í aðalatriðum væri ég þér þakklátur ef þú vildir benda mér á slíkt hjá honum.

  Lafferboginn er ekki kenning um eitt eða neitt, heldur bara ábending um þá vel þekktu staðreynd að skatttekjur hækka ekki endalaust með hækkuðu skatthlutfalli.

  Virðingu fyrir rétti annarra til að hafa skoðanir og viðra þær tel ég afar mikilvæga. Mér finnst hins vegar rangt að vera umburðarlyndur gagnvart þvættingi sem fólk ber á borð þegar það á að vita betur. Alveg sérstaklega gildir það um háskólafólk sem tjáir sig með þessum hætti um fræðigrein sína.

 • Og ég tek undir með Þór: Það er bókstaflega hryllilegt að sjá hvernig íslensku háskólarnir þjóna valdakerfinu í stað þess að vera helstu gagnrýnendur þess.

 • Þór Saari: Mikið rétt. Síðan er akademíkin í guðfræðinni vægast sagt takmörkuð.

 • Einar, það er álíka mikill rökstuðningur hjá Birgi og öðrum (t.d. Stefáni Ólafssyni) en þeir vísa í ólíkar kenningar. Flestir þekkja kenningar sem snúa að því að stjórna eftirspurn og krefjast því líklega ekki rökstuðnings þegar fjallað er um þær.

  Ef skoðanir fólks eru svona mikill þvættingur þá ætti að vera lítið mál að sýna fram á það og bera virðingu fyrir skoðunum þeirra á sama tíma.

  kv. Lúðvík

 • Að því marki sem „hagfræði“ þykist vilja fást við velferð manna, þá er tilhlýðilegt að taka aðra þætti en fyrirfram skilgreint „frelsi“ inn í dæmið.

  Má þar t.d. nefna eftirfarandi:

  1. Hvar lifa menn að jafnaði lengst? (Í þessu felst gefin forsenda um að langlífi tengist velferð)

  2. Hvar er ungbarnadauði lægstur? (Í þessu felst gefin forsenda um að æskilegt sé að koma í veg fyrir dauða ungbarna)

  3. Hvar líður mæðrum best? (Í þessu felst sú forsenda að lífsfylling mæðra eigi sér nauðsynjasamhengi við velferð)

  Öllum þessum spurningum hefur verið svarað um áratugaskeið.

  Afraksturinn má sækja í tölfræði.

  En ég efast um að dósentinn kæri sig um slíkar „breytur“ í sína útreikninga.

 • Lúðvík: Ég sé ekki að það geri skrif Birgis betri þótt Stefán Ólafsson sé ekki skárri að þínu mati. (Ég hef reyndar aldrei varið málflutning Stefáns Ólafssonar, og oft fundist hann slæmur. Hann má þó eiga það að hann setur fram einhver rök og bendir á gögn, öfugt við Birgi, svo það er auðvelt að gagnrýna það sem hann segir.)

  Hjá Birgi er ekkert til að ræða; hann er ekki með neinn rökstuðning fyrir því sem hann segir. Hann kastar fram einu línuriti í einu og gefur í skyn að fylgnin sem þar sést stafi af orsakasamhengi. En hann færir engin rök fyrir því, og gögnin sem hann vísar í eru oftar en ekki hreinræktaður pólitískur áróður.

  Svo er líka best að taka fram að mér finnst sérkennileg afstaða að maður eigi að bera virðingu fyrir skoðunum fólks. Maður á að bera virðingu fyrir rétti fólks til að segja skoðanir sínar. En það er sjálfsagt að fyrirlíta vondar skoðanir. Það eru þó ekki skoðanir Birgis sem ég er að setja út á, og ég gæti best trúað að ég væri honum sammála um eitt og annað. Heldur er ég að gagnrýna málflutning hans, sem er fyrir neðan allar hellur, og til skammar fyrir manneskju sem kallar sig hagfræðing.

 • Steinn Eldjárn Sigurðarson

  Algjörlega sammála Einar. Það er algjör vitleysa að bera eigi virðingu fyrir öllum skoðunum. Hinsvegar eins og Einar segir, þá snýst þetta ekkert um skoðanir. Það sem Birgir er að gera er að matreiða upplýsingar fyrir almenning til að gefa í skyn hluti sem hann getur engan veginn sannað, og í raun er mjög auðvelt að afsanna. Hvað annað getur honum gengið til með þessum fáránlega einfölduðu línuritum sem notast við vel valdar breytur og jafnvel tímabil, en að blekkja fólk?

  Það skiptir engu máli hvort að einhverjir aðrir geri þetta, þó ég sé reyndar alls ekki sammála því að skrif Stefáns Ólafssonar séu sambærileg: hann leggur sig fram við að tiltaka margar breytur og vísa í öll gögn til að reyna að færa rök fyrir því þegar hann heldur fram orsakasamhengjum. Hvort það sé alltaf pottþétt, breytir því ekki að þessi skrif Birgis eru fyrst og fremst til skammar fyrir vísindasamfélagið á Íslandi. Algjörlega órökstuddur og villandi málflutningur, settur fram í hvaða tilgangi? Maður spyr sig.

  Ef ég væri sammála hans skoðunum myndi ég líklega biðja hann að hætta: svona framsetning, sem er fáránlega auðvelt að skjóta í tætlur, gerir skoðanabræðrum hans enga greiða. Ég veit ekki betur en að sú staðreynd að „correlation does not imply causation“ sé barin inní hausinn á flestum fyrsta árs undergraduate nemum.

 • Ernir Erlingsson

  Sæll Einar,

  Kíkti á greinina með Laffer boganum og hún er bull frá upphafi til enda. Svíþjóð er með sjúkratrygginar innifaldar í tekjuskattsprósentu eins og Íslands, en Sviss er ekki með hana innifalda (eins og Þýskaland). Fyrir mig og mín laun í Þýskalandi er tekjuskatturinn nokkurnveginn jafnhár og sjúkratryggingin.

  Sennilega ekki tilviljun að það er lokað fyrir athugasemdir hjá honum?

 • Einar, er ekki betra að Háskólinn setji sér og starfsfólki sínu reglur um það hvernig þeir skrifa opinberlega á meðan þeir starfa við skólann, t.d. að skylda þá til að vísa í heimildir og sýna útreikninga? Það væri líka miklu betri grunnur fyrir málefnalega opinbera umræðu.

  Það er er bæði hægt að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum þeirra og gagnrýna þær um leið, eða afsanna sé það hægt.

  Stefán Ólafsson hefur ekki getað rökstutt það sem hann hefur skrifað um skattbyrði, vísað í útreikninga eða útskýrt aðferðafræðina sem hann notar. Því miður. Þegar ég fer á vef hagstofunnar og rsk.is og skoða skatta á laun þá sé ég ekki betur en að skattar á allar tekjur hafi hækkað miðað við fast verðlag.

  Þess vegna væri best ef Háskólinn drifi í því að setja starfsfólki sínu reglur um að vísa ávalt í heimildir og sýna útreikninga.

 • Greinar Birgis Þórs eru arfaslakar, og eru fyrst og fremst pólitískur áróður en ekki hagfræði.

  Lítið á síðasta pistil: http://http://blog.pressan.is/birgirthru/2013/01/16/er-bot-ad-annars-boli/

  Þar er birt línurit sem sýnir breytingu á ráðstöfunartekjum nokkurra tekjuhópa á árunum 2004 til 2011 undir fyrirsögninni:

  ALLIR FÁTÆKARI UNDIR VINSTRI STJÓRN

  Væri nú ekki ólíkt hlutlausara og ekki eins grímulaus áróður að segja frekar „ALLIR FÁTÆKARI EFTIR BANKAHRUN“.

  Birgir Þór er kannski að reyna að segja lesendum sínum að það sé vinstri stjórninni að kenna að við séum með lægri tekjur nú en 2008, og alveg sérstaklega að það sé vinsti stjórninni að kenna að ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhæstu hafi lækkað hraðar en tekjulægri hópa.

  Nú er það ekki svo að ríkisstjórnin sé að skattleggja fólk af gamni sínu og reyndar er það svo að enn er nokkur halli á ríkissjóði og var hallinn mjög verulegur á árunum 2009-2011.

  Svo ef fólk vill gagnrýna stjórnvöld fyrir að skattleggja fólk of mikið þá er betra að benda á hvar annars staðar eigi að fá tekjur í ríkissjóð. En Birgir heldur kannski að Laffer boginn bjargi því?

 • Mér þykja greinar Birgis Þórs yfirleitt upplýsandi út frá ákveðinni sýn á hagfræði og kenningum þar um.

  Ekki hvarflar að mér að taka þeim sem stórasannleik.

  Hið sama gildir um Stefán Ólafsson.

  Báðir eru þessir menn klárir og taka fyrir umfjöllunarefni út frá þeirri sýn sem þeir hafa.

  Mér finnst hæpið að væna þessa menn um áróður og lygar.

  Hagfræði er ekki vísindagrein.

  Hún er mun nær t.d. bókmenntafræði eða sálfræði.

 • Grétar Thor Ólafsson

  Sæll Einar.
  Þegar ég las þessa færslu hjá þér þá sýndist mér í fyrstu sýn sem þú hefðir misskilið greinar Birgis, eða ekki lesið heimildirnar, því það sem þú skrifar hér stemmir ekki við greinar Birgis. Þannig að þegar þú segir um skrif Birgis „en ein ástæða þess er að hann færir aldrei nein rök fyrir máli sínu“ þá er það því miður ekki rétt. Hann gerir það og vísar í heimildir fyrir línuritum sínum.

  Mér finnst aftur á móti stórmerkilegt að nú slæst þú í hóp Stefáns Ólafssonar og Stefáns Snævarrs sem hafa núna pönkast í Birgi með greinum sem stundum gagnrýna skrif Birgis sem hann skrifaði hreint ekki! Rangtúlkanir og útúrsnúningar hægri vinstri Til hvers? Eru þetta trúarbrögð? Eða eru menn með ævistarf í akademískum vinnubrögðum? Kennarar, fyrirmyndir?

  Ég vona svo sannarlega að næsta grein Birgis verði lesin með stillingu og víðsýni í huga og að menn láti af þessu helv. Confirmation Bias fetish sem virðist blossa upp í sumum þegar hægri menn skrifa um sínar hugleiðingar og vangaveltur. OG vísa í heimildir.

  Með vinsemd,
  Grétar Thor Ólafsson.

 • Grétar Thor Ólafsson

  P.S. Mér sýnist sem að Birgir hafi nú þegar svarað þessari grein þinni.
  http://blog.pressan.is/birgirthru/2013/01/17/skattar-og-tekjur-einari-steingrimssyni-svarad/

 • Sigmundur Guðmundsson

  ***********************************************************************************

  Ég mæli með því að menn lesi þessa frétt af hagfræðidósentinum

  http://www.dv.is/frettir/2011/6/2/hjon-skulda-436-milljonir-i-spkef/

  Hann virðist hafa heilmikið vit á peningum

  Það kæmi mér ekki á óvart að hann tilheyri SjálfstæðisFLokknum

  ***********************************************************************************

 • Kærar þakkir Einar

  Ég er lengi búin að sitja furðu lostinn yfir pistlunum hans Birgir Þórs.
  Sem raunvísindamanni svíður mig í augunum við fullyrðingarnar sem hann slengir fram, sérstaklega vitandi þess að Birgir starfi sem fræðimaður innan íslenskrar Akademíu.

  Í raun eru pistlarnir hans svo slæmir að greinarnar hans Hannesar Hólmsteins virka virka málefnalegir til samanburðar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur