Föstudagur 18.01.2013 - 12:03 - 8 ummæli

Forstjóri UTL níðir hælisleitendur

Í gær var eftirfarandi haft eftir forstjóra Útlendingastofnunar, Kristínu Völundardóttur, í þessari frétt:
„Það getur verið dálítið aðlaðandi fyrir fólk sem að er ekki beinlínis hælisleitendur, sem ætla að vinna ólöglega eða koma í öðrum tilgangi, að koma til Íslands. Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.“
Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit.
„Þá er fólk bara að fara til útlanda og kynnast landi og þjóð og nýti sér þá þjónustu sem hælisleitendum stendur til boða.“
 Hún segist ekki geta sagt til um hversu stór hópur þetta sé. Stofnunin sé undirmönnuð og því ekki mikið svigrúm til að stunda fræðimennsku og rannsóknir.
Kristín hefur sem sagt ekki tíma til að stunda „fræðimennsku og rannsóknir“ (sem er ansi hrokafullt svar við spurningunni), en hún hefur nægan tíma til að dylgja í fjölmiðlum um fólk sem á framtíð sína, og jafnvel líf og heilsu, undir því að hún vinni faglega, en á því hefur verið talsverður misbrestur.  Þar sem hún neitar að tilgreina um hversu marga geti verið að ræða og gefur til kynna að hún viti það ekki, og þar sem hælisleitendur á Íslandi eru ekki sérstaklega margir, varpar þetta augljóslega grun á þá alla.
Með því að dylgja svona á opinberum vettvangi um það fólk sem stofnunin fjallar um hefur Kristín gert sig vanhæfa til að fara með mál þeirra.  Ef hún sæi að sér (í raun) og bæðist strax vandlega fyrirgefningar á þessum dylgjum sínum mætti fyrirgefa það.  Að öðrum kosti á hún að víkja úr starfi.  Geri hún það ekki sjálfviljug þarf innanríkisráðherra að reka hana.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm

  Mér finnst ekki ástæða fyrir Kristínu að biðjast velvirðingar og finnst hún eiga skilið hrós fyrir að segja þetta án þess að láta pólitískt rétthugsunarlið þagga niður í sér.
  Vill sjálfur henda þessu liði úr landi og nota peningana sem fara í þessar afætur til að halda opnum sjúkradeildum,
  Leyfa eldri hjónum að búa saman og styðja við þá sem ekki geta brauðfætt sig og sýna.
  Ef náungakærleikurinn er svona mikill þá er fólki velkomið að styðja þær góðgerðarstofnanir sem eru að hjálpa flóttamönnum, enda er hægt að styðja margfalt fleiri með slíkum hætti því bara ferða og uppihaldskostnaður étur upp tækifæri sem öðrum væri þá hægt að gefa.
  Fólk sem endalaust gagnrýnir þá sem eru að vinna vinnuna sýna er líka velkomið að sækja um störf hjá viðkomandi stofnun, það yrði samt líklega breyting á viðhorfi þegar sófa viskunni sleppti.

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Hefði Kristín sagt þetta ef ekki hefði komið upp grunur, eða vissa, um slíkt athæfi? Altsvo asylum shopping.

  Þýðir þó ekki að það sé sanngjarnt að setja alla undir sama hatt.

 • Þorsteinn Valur:

  Viltu sem sagt að Ísland segi sig frá þeim mannréttindasáttmálum sem landið er aðili að, og sem meðal annars skuldbinda okkur til að taka á móti flóttamönnum?

  Viltu að flóttamenn sem hingað leita verði sendir út í opinn dauðann eða pyntingar og þrælkun ef því er að skipta? (Já, það eru dæmi um flóttamenn í slíkri stöðu.)

  Af hverju kallarðu flóttamenn sem koma til Íslands afætur? Gerirðu þér grein fyrir að þessu fólki, sem flest vill líklega fátt heldur en að fá vinnu, er neitað um leyfi til þess? Veistu að þetta fólk ræður sig gjarnan í störf sem Íslendingar kæra sig ekki um?

 • Bull er þetta í þér maður.

  Hvað eigum við að vera að púkka upp á hálfþrítuga falsunglinga sem sýna einbeittan brotavilja með ítrekuðum tilraunum til að komast héðan ólöglega til Bandaríkjanna.

  Hvers konar skilaboð eru það til arabískra lukkuriddara að þeir séu fæddir og klæddir hér þar til þeim tekst glæpurinn?

  Andstyggileg raunveruleikafóbía.

 • Guðmundur Ólafsson

  Það er sama aðferðin – reka menn úr vinnu ef þeir segja satt.

 • Það þarf ekki vísindarannsókn til að tjá sig.
  Hún veit þetta manna best á Íslandi. Enda að vinna við þetta alla daga.
  Það á að taka mark á manneskjunni.

  En kallarnir vilja tuska konuna til….. jafnréttir er ekki meira en þetta í VG.

 • „Það er misjafn sauður í mörgu fé“ og vafalaust erfitt að greina heiðarlegt fólk frá gangsterum.
  Ekki vildi ég vera í þeirri stöðu að kanna hverjir eru hér í heiðarlegum tilgangi og hverjir ekki.
  Hér hef ég samúð með starfsfólki Útlendingastofnunar.

 • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

  Óskylt efninu sem um er verið að ræða: Þorsteinn V. Baldvinsson Hjelm, hjálpar mér að sanna að þetta fyrirbæri ,,pólítísk rétthugsun“ er ekki til. Þetta bullorð sem einhver sniðugur maður/menn fundu upp er eingöngu notað til að koma höggi á andstæðinga, og er í raun merkingarleysa. Það væri alveg eins hægt að segja að Þorsteinn sé uppfullur að pólítískri rétthugsun um að margir hælisleitendur séu afætur á ríkinu. Hann er ósammála því, vegna hans eigin pólítíska rétthugsun segir honum að það sé í dag pólítísk rétthugsun að vera góður við flóttamenn, en í raun er kerfið okkar mjög ,,hostile“ eða fjandsamlegt hælisleitendum. Það tekur langann tíma að afgreiða umsóknir og hælisleitendur búa við kröpp kjör á úturfullu gistiheimili í Keflavík (af öllum stöðum!), nær væri að hafa þá í Reykjavík, nær næstum allri þjónustu og ÚTL. Það er greinilega mín eigin pólítíska rétthugsun að kikka inn, því hún er á móti pólítískri rétthugsun andstæðinga minna í þessu efni. Þeirra pólítíska rétthugsun snýr að því að fjölmargir, ef ekki flestir hælisleitendur eru að koma hérna sem ,,túristar“ þ.e. skoða land og þjóð á kostnað skattgreiðenda.

  Bottom-line: Skv. minni eigin fílósófiu, sem ég tel póltískt rétta, er pólítísk rétthugsun bull orð, en frábært tromp fyrir fólk í pólítskri rökræðu að geta varpað henni fram svona af og til, einkum til að draga, án raka, úr málflutningi og trúverðugleika andstæðingsins.
  Sannfæring er mun betra orð. Sannfæring byggist á fréttaflutningi, gagnrýnni hugsun á þeim flutningi, endurskoðunum, eigin vitneskju og jafnvel samtölum við fólk.
  Ég vona að einn daginn að fólk hætti að nota þessi tvö orð: ,,pólitísk rétthugsun“ því að þetta er rökleysa, a.m.k. skv minni eigin sannfæringu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur