Sunnudagur 03.03.2013 - 16:05 - 8 ummæli

Árni Páll, foringjaræði, flokkshollusta

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í gær að ekki væri hægt að koma nýrri stjórnarskrá í gegnum þingið fyrir kosningar.  Margir hafa orðið æfir yfir þessu, þar á meðal sumt flokksbundið Samfylkingarfólk.  Flestir stuðningsmenn flokksins virðast hins vegar algerlega ráðvilltir, þótt sumir reyni af veikum mætti að bera í bætifláka fyrir formanninn, en nokkrir meðal þeirra sem mest hafa völdin og áhrifin í flokknum taka beinlínis undir þessar yfirlýsingar formannsins, með sömu „rökum“.
„Rök“ þeirra sem reyna að verja þetta fótarskot formannsins snúast um tímaleysi, og að það sé „bullandi ágreiningur“ um málið.  Hvort tveggja er ósatt.  Það er nægur tími fram að kosningum til að koma málinu gegnum þingið, ef vilji er fyrir hendi, enda er hægðarleikur samkvæmt þingskaparlögum að stöðva það málþóf sem líklegt er að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn reyndu.  Og það er eins lítill ágreininingur um þetta mál og hægt er að hugsa sér þegar jafn miklir hagsmunir eru í veði.  Yfirgnæfandi meirihluti studdi nánast allar breytingartillögur Stjórnlagaráðs í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var um málið í október, enda kemur það heim og saman við allt sem vitað er um afstöðu almennings í þessu máli, bæði út frá þjóðfundinum og skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið.
Það kemur varla nokkurri manneskju á óvart að það sé „bullandi ágreiningur“ við  þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um þetta mál.  Að telja það fram sem rök þýðir ekki annað en að þeir sem það gera telja mikilvægara að hafa þessa flokka góða (væntanlega í von um velvild þeirra í sinn garð á næsta kjörtímabili) en að fara að vilja þess almennings sem trúði því að stjórnarflokkunum væri alvara með að samþykkja nýja stjórnarskrá.
Það sem vekur þó ekki síst athygli í þessu máli er að það er greinilegt að formaður Samfylkingarinnar hefur leikið hér einleik, sem komið hefur alveg flatt upp á flesta flokksmenn og greinilega marga ef ekki flesta þingmenn flokksins líka.  Var þetta foringjaræði ekki eitt af því sem Samfylkingin ætlaði að leggja af, í kjölfar þeirrar endurskoðunar sem flokkurinn þóttist ætla að gera í kjölfar hrunsins?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Magnús Björgvinsson

    Ég var einn af þeim sem fannst þetta leiðin til að tryggja framgang breytinga á stjórnarskránni. Því að eins og fólk veit þarf að samþykkja þessar breytingar á 2 þingum með kosningum á milli. Og flokkarnir sem fólk virðist nú vera að velja hafa báðir sagt að þeir mundi ekki samþykkja nýja stjórnarskrá svona breytta hvorki nú né á næsta þingi. Því fannst mér augljós kostur ef hægt að væri að semja um að breyta þó núna ákvæðinu um að breytingar þyrftu að samþykkjast á 2 þingum með kosningum á milli heldur væru þær settar í þjóðaratkvæði.

    Eins og ég sé málið núna þá er möguleiki á að samþykkja þessa nýju stjórnarskrá núna en hún verður svo feld á næsta þingi. Og þá er þessu endanlega lokið næstu 4 árin. Því að engur verður þá breytt fyrr en í fyrsta lagi þegar að kjötímabilinu líkur enda þarf að rjúfa þingið eftir það.

    Því hefði bara ákvæði um að breyta þessu fyrirkomulegi aukið líkur á að það yrðu einhverjar breytingar. En Sjálfstæðisflokkur sló á það. Og því er ljóst að það þarf bara að pressa þetta í gegn núna og láta þá bera þá ábyrgð á því að fella þetta eftir kosningar.
    En þessi svikabrigsl á Árna Pál líka mér ekki. Finnst einmitt að hann sé að líta raunhæft á stöðuna og bjóða mögulega lausn sem tryggi að einhverjar breytingar komist í gegn. Það verða alltaf rök hjá Sjálfstæðismönnum og fleirum að þetta hafi verið pressað fram í fullum ágreining , sé ekki stjórnarskrá þjóðarinnar í heild og því geti þeir með góðri samvissku fellt þetta þegar þing kemur saman eftir kosningar. Og fá aðstoð frá framsókn

  • Einar Steingrimsson

    Þær breytingar sem felast í þessu frumvarpi, og sem yfirgnæfandi meirihluti kjósenda lýsti stuðningi við 20. október, verða aldrei knúnar fram nema í „fullum ágreiningi“ við þær valdaklíkur sem skipa þingmönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hvernig þeir eiga að sitja og standa. En, þetta á ekki að vera mál einhverra flokka, heldur almennings. Þess vegna lít ég á það sem hryllileg svik af hálfu Árna að ætla að makka við forystu afturhaldsflokkanna um málið.

    Og mér líkar mjög illa, öfugt við þig, Magnús, þegar svikurum er sýnd sú „kurteisi“ að kalla þá ekki svikara.

  • Meirihluti var ekki tryggur. það síðasta sem ég heyrði til Þórs Saari var að hann styddi ekki ákvæðið um þjóðareign nema því væri breytt eftir hans forskrift. Sem sagt; ef þú gerir ekki eins og ég vil styð ég ekki framgang málsins. Líklega er þetta það sem Þór kallar lýðræði.

    Undir svona hótunum er alls ekki hægt að afgreiða mál.

  • Einar Steingrimsson

    Áttu við, Þorsteinn, að það sé verið að stöðva málið vegna einhverra meintra hótana Þórs Saari? Það hljómar ekki sérlega trúlega …

    En, það gildir reyndar um allar „skýringar“ sem heyrst hafa um ástæður þessara svika, að þær hljóma eins og léleg lygasaga.

  • Hættið að bulla þetta endalaust um „þjóðarvilja“ og að „þjóðin“ hafi sagt sitt 20 okt, þegar þið vitið að það var ekki raunin. Það var haldin þarna stór skoðanakönnun og ekki reyna að klíkna á þetta einhverju orði eins og þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess þarf það að vera bindandi – annað er rugl. Formlega var fundið til orðið „ráðgjefandi þjóðaratkvæðagreiðsla“ og það er bara fínt orð yfir risastóra skoðanakönnun. Skoðanakönnun tók á einhverum örfáum spurningum en ekki endanlegri stjórnarskrá og segir okkur ekkert. Til samanburðar vilja Samfylkingarpésar ekki sjá „lokasamningin vegna ESB“. Er þá ekki bara hægt að kjósa um eitthvað loðið í sambandi við það núna? Að tala um þessa skoðanakönnun eins og um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu er dæmi um slæmt lýðskrum og er frekar dæmi um valdarán en annað valdarán sem hefur verið nefnt í umræðunni. Með sömu rökum ættum við bara að leggja til að staða skoðanakannana núna í sambandi við fylgi verði bara hrein og bein niðurstaða og eg myndi fara að úttala mig um að ef það er ekki gert þá sé það hreint og beint valdarán – og ég fari í fýlu í mörg ár ef ég fæ ekki að koma minni frekju í gegn.

  • Einar Marel

    Ég er ansi hræddur um Magnús, að Einar Steingrímsson hafi rétt fyrir sér, að það sé komið stórt fingrafar á Árna Pál sem mun fylgja honum inn í hans pólitísku framtíð. Og að Samfylkingin verði ekki álitlegur kostur fyrir marga á meðan hann situr þar í forsæti.

  • Kannski var þetta snjallt herbragð hjá Árna Páli. Eftir viðbrögð Bjarna er stjórnin í fullum rétti að lengja þinghald og keyra málið í gegn. Ég hygg að með þessu útspili sé stjórnarmeirihlutinn í betri aðstöðu og munu hnökrar ef einhverjir verða þá skrifast á óbilgirni andstöðunnar.

    Allavega tel ég að þessvegna hafi Árni gert þetta fyrir opnum tjöldum. Ef hlutirnir eru eins og við lesum þá, er líklegra að hann hefði átt fundi með þeim í Öskjuhlíðinni eða einhversstaðar off the record fyrst. Allavega ætla ég að bíða og sjá framhaldið áður en ég fer á límingunum.

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Meirihluti þjóðarinnar vill ekki nýja stjórnarskrá og sér engan tilgang með henni.

    Hvað var að þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi?

    Getur einhver bent mér á eitthvað eitt atriði í núverandi stjórnarskrá sem varð þess valdandi að hér varð hrun?

    Ég tel að með nýrri stjórnarskrá eigi einfaldlega að festa hér einskonar sósíalisma í sessi og það á fasískan hátt.

    Og það atriði að setja í nýja stjórnarskrá að það þurfi 60% þingmanna til að samþykkja breytingar á nýrri stjórnarskrá í framtíðinni og um 60.000 atkvæðisbærra manna, sýnir að með þessu eigi að gulltryggja að ný stjórnarskrá eigi að gilda hér á landi um aldir alda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur