Miðvikudagur 06.03.2013 - 11:49 - 7 ummæli

Þingmaður lýgur

Allir þingmenn vita að hendur næsta Alþingis verða ekki bundnar á nokkurn hátt (umfram það sem gildandi stjórnarskrá gerir hverju sinni).  Þess vegna er varla hægt að líta á það sem annað en einskæra lygi þegar Magnús Orri Schram heldur fram að hægt sé að „kveða á um“ annað eins og hann gerir hér:
Málamiðlun formanns Samfylkingar byggir á raunsæju mati á stöðu stjórnarskrárinnar. Með henni verður kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, aukið vægi beins lýðræðis í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur,  og að verkefninu um endurskoðun stjórnarskrár verði tryggt framhaldslíf á næsta kjörtímabili.
Auk þess að ekki er hægt að binda hendur Alþingis á næsta kjörtímabili er auðvitað ekki heldur á hreinu hvaða fólk mun sitja á því þingi, og tómt mál að tala um að núverandi þingmenn geti bundið hendur þeirra sem á eftir koma.
Magnús er ekki einn um þetta; fleiri stjórnarliðar, með formann Samfylkingar í fararbroddi, hafa talað um „málamiðlun“ sem gangi út á þetta.
Það er lágt lagst þegar þingmenn eru beinlínis farnir að ljúga til að reyna að lægja þá réttmætu reiði sem blossað hefur upp vegna yfirlýsinga margra stjórnarliða sem benda til að þeir ætli að svíkja almenning um þær stjórnarskrárbreytingar sem gífurleg vinna hefur verið lögð í síðustu árin.
Stjórnarliðar á þingi þurfa nú að velja á milli ótvíræðra óska yfirgnæfandi meirihluta kjósenda um nýja stjórnarskrá og þeirrar kröfu afturhaldssamra en voldugra sérhagsmuna, sem Sjálfstæðisflokkurinn er helsti málsvari fyrir, að barðar verði niður tilraunir almennings til að setja leikreglur þeim stjórnvöldum sem ættu með réttu að þjóna almannahagsmunum og engu öðru.
Þetta virðist því miður vera erfitt val, jafnvel fyrir fólk í flokkum sem kenna sig við vinstristefnu.  Svo erfitt að sumir þingmenn þeirra  skirrast ekki við að ljúga blákalt.  Ætla allir stjórnarliðar á þingi að  sitja undir þessu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Auðvitað var þetta ein lygi frá upphafi.

    Enda bera ummæli fyrrv. formanns Samfylkingar þess merkis að einungis breytingar á stjórnarskrá vegna væntanlegri inngöngu í ESB væri að ræða.

    „Áttatíu daga stjórnin hyggst breyta stjórnarskrá á þann veg að Ísland getur á næsta kjörtímabili gengið í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikilvæg breyting, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar. Varaformaðurinn segir stjórnina vera að tryggja að Evrópumálin læsist ekki inni á næsta kjörtímabili. “
    http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

    • Allt sem fjórflokkurinn lætur út úr sér er ekki til að þjóna almenningi, fólk á að vera búið að læra það núna.

  • Ég held nú reyndar að reiðin sé ekki almenn.

    En ábyggilega umtalsverð í ákveðnum kreðsum.

    En það breytir ekki því að þessi málflutningur er óboðlegur.

    Það eru einmitt svona spuna-fígúrur eins og þessi þingmaður sem eyðileggja íslensk stjórnmál.

    Ekki að undra að almenningur hafni þessu fólki.

  • Athugið að þótt Alþingi samþykki fullbúna tillögu að nýrri stjórnarskrá á þessu þingi, þá gildir það samt sem áður „að hendur næsta Alþingis verða ekki bundnar á nokkurn hátt“ að því að staðfesta þá stjórnarskrá!

    Tilvitnuð ummæli Magnúsar eru stutt lýsing á því hvað ný stjórnarskrá kveði á um. Í þeim ummælum og eins í öðru því sem Magnús segir í grein sinni, er því hvergi haldið fram að að nein málamiðlun eða töfraformúla muni kveða á um að það sem kveðið er á um í þessarri tillögu verði nokkurn tíma að stjórnarskrá, ef nýtt Alþingi vill það ekki.

    Málamiðlunin gengur aðeins út á það hvort hægt sé að ná inn þeim atriðum sem auknar líkur eru á að verði samþykkt aftur á næsta þingi.

    Ég ætla ekki að gerast svo gróf að saka Einar um að ljúga hér meiningu upp á Magnús, en grein Einars byggir allavega á stórum misskilningi á grein Magnúsar Orra.

  • Einar Steingrimsson

    Soffía: Magnús segir orðrétt:

    „Málamiðlun formanns Samfylkingar byggir á raunsæju mati á stöðu stjórnarskrárinnar. Með henni verður kveðið á um … að verkefninu um endurskoðun stjórnarskrár verði tryggt framhaldslíf á næsta kjörtímabili.“

    Þetta er ekki hægt, og það veit Magnús. (Burtséð frá að ekki er hægt að binda hendur þingisins verður það að stórum hluta annað fólk sem situr á næsta þingi, og stjórnmálaflokkar geta allra síst bundið hendur framtíðarþingmanna.)

    Ég er ekki talsmaður þess að nota almennt of stór orð í opinberri umræðu um málflutning nafngreindra einstaklinga. En mér finnst á hinn bóginn líka mikilvægt að benda miskunnarlaust á þegar fólk lýgur bókstaflega eins og hér er raunin. Að breiða yfir slíkt, eða bara þegja yfir því, er vont fyrir umræðuna, því það gerir lygar að samþykktri aðferð.

    Þess vegna vildi ég gjarnan heyra hvað þú átt við þegur þú gefur í skyn að það sem ég segi nálgist það að ég sé að “ ljúga hér meiningu upp á Magnús“

  • Olafur Jonsson

    Alþingi á skilyrðislaust að vera bundið af vilja þjóðarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru til þess að fá fram þennan vilja í einstökum málum.

    Í kjölfar nýju stjórnarskráinnar á að gera ráð fyrir minnst þjóðaratkvæðagreiðslum á ári. Þar taki kjósendur beint afstöðu til þeirra mála sem Alþingi er að hiksta á og ákveði hve mikið hver þingmaður eigi að fá í bonus eftir liðna 6 mánuði.

    „helmingur mögulegara launa þingmanna og ráðherra verði í bónus formi“

  • Rósa Hannesardóttir

    Ég held að nafna mín hér að ofan …

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur