Föstudagur 08.03.2013 - 12:50 - 20 ummæli

Opið bréf til Árna Páls Árnasonar

Eftirfarandi póst sendi ég Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, í gærkvöldi.
______________________________________________________________________
Sæll Árni Páll
Nú hafa 32 þingmenn lýst yfir að þeir vilji samþykkja nýja stjórnarskrá á þessu þingi. Að vísu veit ég ekki hvort Kristján Möller er kominn aftur á þing og varamaður hans farinn út, en sé svo vantar hvort sem er ekki nema eitt atkvæði til að málinu sé tryggður meirihluti.
Það er í þínum höndum hvort málið fer í gegn, nema þú verðir of seinn og missir þau áhrif sem þú nú gætir haft. Valið á þessari stundu er enn þitt:
Að stíga fram fyrir skjöldu og lýsa yfir að þú viljir keyra málið gegnum þingið, í samræmi við vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings, og meirihluta þingmanna.
Eða byrja (og enda?) feril þinn sem formaður Samfylkingarinnar með blóði drifnar hendur í stríðinu við almenning í landinu.
Bestu kveðjur,
Einar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

 • Einar Steingrimsson

  Sumum þeirra sem ég hef rökrætt við um stjórnarskrármálið síðustu daga hefur fundist það óviðeigandi, og jafnvel ofstækisfullt, að nota líkingamál af þessu tagi, þ.e.a.s. að tala um „blóði drifnar hendur“ og annað svipað. Þetta er auðvitað líkingamál, en mér finnst ástæða til að undirstrika að þetta er ekki yfirdrifin dramatík í mínum huga. Þvert á móti er mér full alvara með eftirfarandi staðhæfingu:

  Ef forysta Samfylkingarinnar ætlar að drepa stjórnarskrárfrumvarpið (með því að sjá ekki til þess að það sé keyrt gegnum þingið og komi til atkvæðagreiðslu), þá er það einhver versti glæpur sem framinn hefur verið gegn lýðræði á Íslandi.

  Einhver versti glæpur sem framinn hefur verið gegn lýðræði á Íslandi.

  Þegar 31 þingmaður hefur lýst yfir stuðningi við að frumvarpið verði samþykkt á þessu þingi hefur formaður Samfylkingarinnar enga afsökun fyrir að beita sér ekki fyrir því að það verði keyrt í gegn. Geri hann það ekki er hann beinlínis að lýsa yfir að hann vilji þetta frumvarp feigt.

  Að halda fram að hægt sé að semja við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk á næsta þingi um að koma mikilvægum hlutum frumvarpsins í gegn er augljóslega fáránlegt. Enda hafa engir þeirra sem tala um slíkt lýst því hvernig þeir sjái það ferli fyrir sér.

  • Sverrir Hjaltason

   Tvær spurningar til Einars. Hvernig verður málþófið beislað? Með hvaða hætti á að tryggja afgreiðslu annarra mála?

  • Einar Steingrimsson

   Sverrir: Málþófið á einfaldlega að stöðva, sem er einfalt mál samkvæmt þingskaparlögum. Með því að leyfa stjórnarandstöðunni að beita málþófi til að stöðva þetta mál er einfaldlega verið að segja að hversu lítill meirihluti sem er geti stöðvað hvaða mál sem er. Það er fullkomlega ólýðræðislegt. Það er líka hollt að spyrja sig af hverju málþóf af þessu tagi er óþekkt í nágrannalöndunum.

   Ég skil ekki hvað þú átt við með að „tryggja afgreiðslu annarra mála“, þ.e.a.s. hver vandkvæðin ættu að vera við það.

  • Sverrir Hjaltason

   Verkstjórn ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili hefur verið með þeim hætti að engin bönd hafa verið lögð á málþóf. Ætli það séu ekki einhver vandamál í svokölluðum meirihluta sem valda því. Það hefur væntanlega ekkert lagast eftir því sem fleiri stuðningsmenn stjórnarinnar hafa fallið úr lestinni.

   Það er margvísleg mál óafgreidd ennþá sem gætu dottið upp fyrir í málþófsumræðum.

 • Verst er þeir sem kaupa þá röksemdafærslu að eftir þessa afgreiðslu sé umræðum um málið lokið. Þessi atkvæðagreiðsla er millistig fram að kjöri næsta þings og síðan fyrstu atkvæðagreiðslu ÞESS þings.

  Árni Páll getur komið í veg fyrir meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks með því að keyra frumvarpið í gegn því allir þeir sem vilja frumvarpið virkt greiða ekki Sjálfstæðisflokki og Famsókn atkvæði sitt. Það var meirihluti fyrir Stjórnarskrárbreytingum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá meirihluti kýs ekki flokka sem ætla að drepa málið.

 • Haukur Kristinsson

  „Hættu að reyna, Árni Páll“, er fyrisögnin á pistli Illuga Jökulssonar um þetta þema. Gott að þið Illugi haldið umræðunni gangandi, gugnið ekki fyrir Framsjöllunum, auðmannaklíkunni, sem svífst einskis, lúffið ekki eins og Árni Páll.
  Mér var alltaf ljóst að kosning Árna Páls í embætti flokksformanns yrði til þess að flokkurinn yrði ný hækja sjallabjálfanna, að útséð væri um að Samfylkingin gæti orðið „genuine“ Sósial Demokratískur flokkur.
  En flokksmenn lét plata sig, ekki í fyrsta skipti, litu á samkeppnina á milli Árna Páls og Guðbjarts sem „beauty contest“, en ekki sem val á formanni „Jafnaðarmannaflokks“.

 • Framsókn og FLokkurinn munu aldrei samþykkja auðlindaákvæðið. Því er trúlega eini möguleikinn til að koma því í stjórnarskrá að samþykkja það fyrir kosningar og vona að Framsókn og FLokkurinn fái ekki meirihluta á næsta þingi. Fái Framsókn og FLokkurinn meirihluta í næstu kosningum tel ég að strórnarskrármálið sé dautt sama hvað gert verður. Alla vega auðlindaákvæði sem eitthvað hald er í.

 • Magnús Björgvinsson

  Bara að benda á að það: Að á 20 október.is kemur ekkert fram um að maður hafi verið að hvetja stjórnmálamenn til að samþykkja þetta á þessu þingi: Á síðunni kemur fram:
  Virða þeir niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012?
  Og svo er vitnað í spurnignar sem voru í Þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem stendur:

  Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? – Já, 67%
  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? – Já 83%
  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? – Já 57%
  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? – Já 78%
  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? – Já 67%
  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? – Já 73%“
  Það stendur ekkkert um á þessu þingi!
  Ég styð þetta mál en er efins um framhald þess ef því verður þrýst í gegn. Ekki er meintur þjóðarvilji að þyrpa sér um flokka sem vilja málið lamið í gegn.

 • Olafur Jonsson

  Flott áskorun og vonandi skylur ÁPÁ út í hvað hann er kominn.

  Þú segir blóðidrifnar hendur Einar sem er líkingarmál en heggur þó nærri þeim glæpum sem framdir hafa verið í stríð útgerðar aðila sem beitt hafa starfsmenn afkomu ofbeldi.
  Við skulum muna að þessir gæpir útgerðar bitna ekki bara á starfsmanninum heldur á fjölskyldu hans og allri afkomu. Fólk á miðjum aldri sem lagt hafa á sig menntun og starfsþjálfun í sinni starfsgrein eiga oft ekki auðvelt með að fóta sig annars staðar fyrir útan ofbeldið að vera flæmdur í starfsgrein sinni.
  Þessu ofbeldi verður að linna og fara á eftir því fólki sem lét hafa sig í svona framkomu við starfs fólk sitt.

 • Stjórnlagaráðsmenn sumir hverjir fara hamförum þessa dagana í stjórnarskrármálinu og í kjölfarið fylgja svo öfgafullir bloggarar sem fáir taka orðið mark á og nægir að nefna Jónas Kristjánsson í því sambandi.
  Aðalfrasinn er að stjórnmálaöflin í landinu séu að svíkja þjóðina; talað um landráð og nú síðast hausatalning í þinginu og þess krafist að „stjórnarskrá stjórnlagaráðs“, verði samþykkt nú þegar og undanbragðalaust. Því miður er staðfesta sumra þingmanna ekki meiri en svo, að þeir láta hótanir upphlaupsmanna úti í bæ koma sér úr jafnvægi í stað þess að benda þeim vinsamlegast á, að það er hlutverk Alþingis að leiða málið til lykta.
  Við tölum í nafni þjóðarinnar, segja þeir, en virðast hafa gleymt því, að þegar kosið var um tillögur stjórnalagaráðs á síðasta ári voru 236.903 á kjörskrá og sögðu 73.408 já við spurningunni: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“, eða rétt um 30%. Þess utan er hnykkt á því með orðunum „lagðar til grundvallar“, að það er Alþingi samkvæmt lögum sem hefur lokaorðið.
  Það er raunalegt að verða vitni að baráttuaðferðum þessara manna og þeim sannarlega ekki til sóma og merkilegt er, að þeir ræða ekki efni stjórnarskrárdraganna né þær breytingar sem hafa orðið á drögunum í meðförum Alþingis en þær nálgast hundraðið. Hvað vilja þessir menn og hvers krefjast þeir af óttaslegnum þingheimi? Að stjórnarskrárdrögin verði samþykkt óbreytt með öllu eða eins og þau komu frá stjórnlagaráði? Ætli þeir viti það sjálfir og sjálfsagt er það aukaatriði í þeirra huga. Aðalatriðið er að kaffæra umræðuna með yfirgangi og frekju og stilla alþingismönnum upp við vegg. Vonandi standast þingmenn prófið og láta ekki hávaðamenn og kaffihúsaspekinga slá sig útaf laginu. Grundvallarlög sem stjórnarskráin er á það skilið að um hana sé fjallað af yfirvegun og raunsæi og nauðsynlegar breytingar gerðar í sem mestri sátt.

 • Sigurður Hr. Sigurðsson

  Að semja við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk á næsta þingi um framhald málsins eða að „vanda sig“ og setja niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 er óskhyggja eða fullkomin ímyndunarveiki.

  Hvað nú ef þessir gömlu helmingaskiptaflokkar næðu nú meirihluta þingsæta og settu málið í nefnd þar sem þeir réðu einnig meirihluta atkvæða? Það myndi fara á sama hátt og flestar aðrar tilraunir stjórnarskrárnefnda sl. 68 ár. Sýnu verra væri þó ef þessir sömu flokkar tækju til sinna ráða og breyttu stjórnarskránni eins og þeirra bakhjarlar gjarnan vildu, þ.e. LÍÚ og milljarðaklúbbur Sigmundar og co.

  Er til of mikils mælst að sá helmingur þingmanna sem lýst hefur stuðningi við stjórnarskrárfrumvarpið standi með kjósendum sem veittu málinu framgang þann 20. október sl.?

  BARÁTTUFUNDUR Á INGÓLFSTORGI Á MORGUN KL. 15.00

  http://www.facebook.com/events/146778785488054

  • Einar Steingrimsson

   Það sem verra er, Sjallar og Framsókn þurfa ekki meirihluta saman, eða einu sinni að sitja í ríkisstjórn næsta kjörtímabil, til að geta stoppað málið þá. Ef þeir eru nógu sterkir á þingi í dag til að stöðva málið, þá verða þeir það líka eftir kosningar.

 • Sigurður

  Mér þykir það nú frekar ódýrt að klína þessu klúðri á Árna Pál

  Árni er ekki sekur um annað í þessu máli en að vera fyrstur til að þora að segja það upphátt að þetta sé einfaldlega fallið á tíma.

  Árni er alveg nógu mikill vesalingur fyrir, það þarf ekkert að ljúga meiri sök á hann en hann hefur unnið fyriri sjálfur.

  Ríkisstjórnin sá alveg um það sjálf að klúðra þessu máli, til þess þurfti ekkert málþóf eða aðra aðstoð frá stjórnarandstöðu.

  Þessu var bara klúðrað af vanhæfri ríkisstjórn, rétt eins og flestu öðru sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.

  Þar að auki virðist ekki vera hægt að endurtaka það nógu oft að málinu lýkur ekkert þótt því sé hrækt með fúski og skítavinnubrögðum gegnum þetta þing, næsta .þing þarf að samþykkja frumvarpið óbreytt og það er óhugsandi að það geti gerst.

  Þetta er bara spurning um smá reality tékk.

 • Ríkisstjórnin hefur unnið að því allt kjörtímabilið að koma stjórnarskrármálinu í gegn. Stjórnarandstaðan B&D hafa unnið gegn málinu og tafið allan tímann.

  Nú undir lok kjörtímabilsins gáfu stjórnvöld og Björt Framtíð stjórnarandstöðu tækifæri til að semja um framhald málsins. Nú er það klárt að það vildi stjórnarandstaðan ekki þó hún gæfi annað í skyn. Hvert framhaldið verður veit ég ekki. Þessari „skák“ er ekki lokið.

  En eitt er víst að það er ekki ríkisstjórninni að kenna hvenig staðan er. Öll stóryrði og æsingur auðvelda ekki framgang málsins.

 • Einar Steingrimsson

  Hafi ég skilið þig rétt, Þorsteinn, þá er ég ósammála niðurlaginu hjá þér. Án „stóryrða“ og „æsings“ fjölda manns hefði ríkisstjórnin örugglega ĺátið málið falla niður dautt.

 • Kannski þurfum við að rifja upp hvers vegna umræða um breytingu á stjórnarskrá kom upp á yfirborðið.

  04. febrúar 2009
  „Áttatíu daga stjórnin hyggst breyta stjórnarskrá á þann veg að Ísland getur á næsta kjörtímabili gengið í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikilvæg breyting, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar. Varaformaðurinn segir stjórnina vera að tryggja að Evrópumálin læsist ekki inni á næsta kjörtímabili. “
  http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

  20. október 1992
  „INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, þingkona Kvennalistans, segist ekki treysta sér til að leggjast gegn samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Hún segir að ef Íslendingar gerist aðilar að EES, sé fráleitt að útiloka aðild að Evrópubandalaginu. Kristín Ástgeirsdóttir, formaður þingflokks Kvennalistans, segir að til greina komi að Ingibjörg Sólrún víki tímabundið úr utanríkismálanefnd Alþingis vegna þessarar afstöðu sinnar og varamaður taki sæti hennar á meðan á afgreiðslu EES-samningsins standi.“
  http://www.mbl.is/greinasafn/grein/94687/

  Þrátt fyrir stuðning sinn við EES samningin þótti henni samningnurinn stangast á við stjórnarskránna, stjórnarskrá sem hún hafði sjálf unnið eið til.

  Þrír lögfræðingar voru ráðnir til að rannsaka málið, einn þeirra var Sólveig Pétursdóttir og seinna sagði hún …

  “ Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem undiritaður var í Óportó 2. maí 1992 og tók gildi hér á landi 1. janúar 1994 hefur reynst Íslandi ákaflega vel þau 10 ár sem hann hefur gilt.“
  http://www.mbl.is/greinasafn/grein/777366/?item_num=33&dags=2004-01-27

  þrenningin komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn bryti ekki gegn stjórnarskránni.

  „Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem undiritaður var í Óportó 2. maí 1992 og tók gildi hér á landi 1. janúar 1994 hefur reynst Íslandi ákaflega vel þau 10 ár sem hann hefur gilt.“ Sólveig Pétursdóttir 27. janúar 2004
  http://www.mbl.is/greinasafn/grein/777366/?item_num=33&dags=2004-01-27

  04. maí 2012 Telja nýjar EES-reglur ekki standast stjórnarskrána.

  „Össur segir seinni kostinn ekki koma til greina. „Ég tel að svar okkar eigi að vera að reyna að ná samstöðu um að ná fram breytingum á stjórnarskránni.“

  Nú jæja, hvað gerist eftir inngöngu Íslands í ESB eins og með samþykkt EES samningsins?

  Mun stjórnarskráin standa?

  Munum við þurfa að gera frekari breytingar eftir svik stjórnmálamanna?

  Það er ljóst að þingið braut núverandi stjórnarskrá, hvað getur tryggt að hún brjóti ekki stjórnarskrá framtíðarinnar.

  Greinilegt er að að ESB innlimunarviðræður hafa verið settar á ís vegna óskiljanlegar þýðingar íslensku stjórnakráinnar á ensku, þrátt fyrir reynslu íslendings á breytingu Króatísku stjórnarskránna fyrir inngöngu Króatíu Í ESB ( Hjartar Torfasonar )

 • Ég vænti líklega að bloggarar æskji geðheilbrgðisvottorðs ummælanda áður en þeir telja ummælendur svaraverða.

 • Eða kannski eðal-bloggarar ættu að spyrja sig hvar hið týnda frumrit núverandi stjórnarskrár liggur.

  Hvort 1 milljón dollara lán hafi í raun verið mútufé.

  Afhverju áhyggjur stjórnmálamanna fjórflokksins um núverandi stjórnarskrá liggja helst að EES samningnum eða hugsanlegri inngöngu í ESB.

  Afhverju fjölmiðlum leyfist að þyrla upp moldviðri og hvetja til leðjuslags meðal þjóðarinnar á meðan restin af auðlindunum verður fórnað á altari nýfrjálshyggjunnar.

  Hvar er gullforði landsins, hvenær var hann fluttur til Englands og hvers vegna?

  Hvað varð um heimildir um kröfu að gullbirgðir Íslandsbanka yrðu fluttar til landsins 116. mál lagafrumvarps 33. löggjafarþingi árið 1921? ( á spilltum áratug fyrri hluta seinustu aldar)

  Líklega eru þær heimildir týndar eða tröllum gefnar líkt og frumriti að núverandi stjórnarskrá.

  Best að róta ekki mikið í skítahaugnum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur