Mánudagur 18.03.2013 - 18:31 - 11 ummæli

Ósmekkleg örvænting Árna Páls

Í gærkvöldi birti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eftirfarandi á Facebook-síðu sinni:
Stjórnarskrármálið sýnir eitt afar skýrt: Samfylkingin er alvöru jafnaðarmannaflokkur.
Við stöndum fyrir skynsamlegar og færar leiðir í þessu máli rétt eins og öllum öðrum. Og eins á öllum tímum er við að eiga sameinað afturhald: Þá sem engu vilja breyta og últramennina sem berjast af hörku gegn áfangasigrum til að geta upplifað fróun yfir eigin hetjudauða þegar málið siglir í strand en kæra sig kollótta yfir því hvort yfir höfuð muni verða mögulegt að vinna málefninu fylgi á síðari stigum.
Þetta er saga jafnaðarmanna á öllum tímum – og svikabrigslin eru eins og lóukvak á vori: Staðfesta að við erum á réttri leið!
Það er eiginlega óþarfi að hafa mörg orð um þetta; Árni segir hér allt sem segja þarf um leiðtogahæfileika sína og afstöðu sína til þeirra sem vilja (eins og meirihluti almennings) fá nýja stjórnarskrá samþykkta á þessu þingi, þar á meðal afstöðu sína til sumra þeirra sem tilheyra þingflokki Samfylkingarinnar.
Það er athyglisvert að sjá ummælin við þessa yfirlýsingu Árna á Facebook-síðu hans; þau eru nánast öll á eina lund, og bæði mjög gagnrýnin og yfirleitt málefnaleg.  Hvorki Árni né stuðningsmenn hans reyna að svara gagnrýninni.  Hitt er ekki síður sláandi, að Árni Páll hefur ekki, frekar en aðrir á sama máli, útskýrt hvernig hann sér fyrir sér að farið verði að því að „vinna málefninu fylgi á síðari stigum“.
Af hverju hefur Árni Páll aldrei þurft að útskýra af hverju hann haldi að fjandmenn nýrrar stjórnarskrár verði meðfærilegri á næsta þingi en þessu?  Er ekki augljóst að Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn verða varla í veikari stöðu á næsta þingi en þeir eru núna, og að engri hugsandi (og heiðarlegri) manneskju dettur í hug að þeir muni þá hætta að hatast við þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir?
Árni Páll virðist staðráðinn í að láta það verða sitt fyrsta verk sem formanns Samfylkingarinnar að drepa stjórnarskrármálið.  Ekki nóg með það; hann reynir að kenna öðrum um, fólki sem hann fer um niðrandi orðum, sem augljóslega eiga einnig við fólk í hans eigin þingflokki sem hefur barist einarðlega fyrir því að róa málinu í höfn.  Spurningin er hvort formennska Árna Páls í Samfylkingunni, og Samfylkingin sem annað en smáflokkur, muni lifa það stríð af.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Sigurður

    Einar,
    Ég hef alltaf haft mjög gaman að lesa pistla þína, og kíki alltaf á þig þegar ég sé nýtt efni.

    En er þetta ekki orðið ágætt um stjórnarskrármálið……?

    Heldur þú virkilega að Jóhanna hefði komið þessu í gegn, þótt Árni Páll hefði ekki skipt sér neitt af þessu?

    Trúir þú því virkilega að þingið væri búið að samþykkja þessa stjórnarskrá, hefði það bara fengið frið fyrir Árna Páli….?

    Ég held þú vitir betur.

    Þetta klúður er ekki Árna Pál að kenna, heldur Jóhönnu, rétt eins og öll hin málin sem hún hefur svikið á kjörtímabilinu.

    Ég vona að það fari að koma eitthvað nýtt efni frá þér um annað en þessa blessuðu stjórnarskrá.

    kv.

  • Einar Steingrimsson

    Sigurður: Mér finnst stjórnarskrármálið eitt það mikilvægasta í íslenskum stjórnmálum í langan tíma. Það er af því að hér tekst á frumkvæði almennings og kúgunartilburðir valdastéttarinnar. Ég býst svo sem ekki við að það verði tilefni til að skrifa mikið fleiri pistla um þetta mál, því miður, en ég mun gera það þegar mér þykir ástæða til svo lengi sem ekki er búiðp að murka lífið algerlega úr því.

    Það skiptir í sjálfu sér litlu máli hvað Jóhanna hefði gert, hefði hún áfram verið formaður, og ég hef ekki verið neinn aðdáandi hennar sem forsætisráðherra. En, mér sýnist alveg ljóst að Árni Páll ákvað strax í upphafi formannsferils síns að drepa málið, þegar hann hefði augljóslega getað gert það að baráttumáli sem hans hefði lengi verið minnst fyrir að knýja gegnum þingið.

  • Þorlákur Axel Jónsson

    Til hvers að „knýja í gegnum þingið“ stjórnarskrárbreytingu sem yrði svo hent í ruslið strax að loknum kosningum? Frumkvæði Árna Páls í stjórnarskrármálinu gæti tryggt mikilvægum breytingum framgang – það sýnir ágyrgð og leiðtogahæfileika í þágu þjóðarinnar.
    Það er fallegt af þér að hafa áhyggjur af Samfylkingunni en þær eru óþarfar – jafnaðarmenn munu hér eftir sem hingað til hafa forystu um meginbreytingar í íslensku samfélagi í almannaþágu (sbr. velferðarkerfið og aðild að Evrópusambandinu).

    • Ásgeir Baldursson

      Ef þingið hefði manndóm í sér til að ljúka fyrri samþykkt málsins fyrir þinglok þá væri það alfarið á höndum kjósenda hvort málið kæmist í höfn á næsta þingi. Við gætum þá kosið fólk sem er tilbúið að samþykkja stjórnarskránna.

      Samfylkingin hefði getað tekið forystu í málinu og fengið aftur hluta þess fylgis sem nú leitar á önnur mið. Þess í stað vonaðist Árni Páll eftir að fá til sín hluta af ESB sinnuðum kjósendum Sjálfstæðisflokksins, og taldi Stjórnarskránna svo lítilsveigt mál að því væri vel fórnandi fyrir lítilsháttar fylgisaukningu.

      Þess vegna er Árni Páll að fremja pólitískt Harakíri.

  • Einar Steingrimsson

    Þorlákur: Hvernig gæti það „tryggt mikilvægum breytingum framgang “ að samþykkja ekki frumvarpið á þessu þingi?

    Þetta er staðhæfingin sem endalaust er haldið á lofti í þessu máli, en aldrei útskýrt hvernig þetta sé líklegt til að gerast.

    Þú vilt kannski fræða okkur um það?

  • Einar ég hef tekið eftir því að menn stóryrða eru á undanhaldi í umræðunni sem betur fer. Ég fékk létt sjokk þegar ég heyrði tillögu Árna Páls, Kartínar og Guðmundar fyrst. En eftir því sem ég fylgist betur með umræðunni sé ég ekkert annað í stöðunni í dag. Þeir sem hafa barist lengst og best í málinu eru að reyna að bjarga því en ekki drepa.

  • Sigurður

    Ég hef engan áhuga á að verja Árna Pál, skil reyndar alls ekki hvernig samfylkingarmönnum datt í hug að gera hann að formanni flokksins.

    En það er samt allt í lagi að vera sanngjarn, enda er Árni með nógan skít á bakinu og engin þörf að ykja hann neitt meir.

    En það er eitt að vilja breytingar á stjórnarskrá, og svo annað að vilja hvaða breytingar sem er, og hleypta hverju sem er í gegn, bara til þess að klára verkefni um nýja stjórnarskrá sama hvað það kostar.

    Þetta er bara ekki sá lagabálkur sem má afgreiða með hefðbundinni færibandavinnu eins og gjarnan er um lagabreytingar á síðustu dögum þings fyrir þinghlé.

    Þetta klúður er alfarið á ábyrgð Jóhönnu, síðustu umsagnir voru að koma allt, allt aaaaaallt of seint inn, og við skulum svo ekki gleyma því að nær allir sérfræðingar landsins í stjórnskipurnarrétti eru sammála um það að frumvarpið er ótækt sem stjórnarskrá óbreytt.

    Stundum þarf bara að horfast í augu við staðreyndir, og ef menn vilja finna sökudólg, að taka þá allavega þann sem raunverulega ber ábyrgðina.

    Það var alveg ljóst strax um áramót að það væri búið að klúðra þessu máli, þetta er ekkert skárra leikrit en að leggja fram breytingar á fiskveiðistjórnakerfinu núna korter fyrir þinghlé.

    Bara sýndarmennska fyrir kosningarnar til að beina athyglinni frá öllum hinum málunum sem er búið að klúðra eða svíkja á kjörtímabilinu.

  • Trausti Hafsteinsson

    Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki samþykkja breytingar á stjórnarskrá, nema þær sem hann sjálfur skrifar. Framsóknarflokkurinn mun að sama skapi ekki samþykkja nýja stjórnarskrá, nema hann fái að fara kámugum höndum um hverja einustu grein hennar fyrst. Það ætti að vera öllum ljóst að tillögur stjórnlagaráðs munu aldrei verða að lögum með aðstoð þessara flokka.

    „Sáttaleið“ Árna Páls, Katrínar og Guðmundar gengur því út frá því sem grunnforsendu að Sjallar og Framsókn muni fá talsvert undir 40% fylgi samanlagt í næstu kosningum og þannig geti Íslendingar fagnað nýrri stjórnarskrá fólksins á 70 ára afmæli lýðveldisins í beinu framhaldi af samþykki 60% þingmanna nýs þings (í nýjasta útspil Árna Páls til að ná „sáttum“ við xD og xB er m.a.s. búið að hækka þetta hlutfall upp í 2/3 eða 42 þingmenn). Er þetta líkleg niðurstaða?

    Það þarf ekki mikinn reiknimeistara til að sjá að þessi leið er í besta falli útópísk draumsýn, en í versta falli vísvitandi, kaldrifjuð og þaulreiknuð leið til að sýna þjóðarvilja, sem kom svo skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október sl., fullkomna fyrirlitningu.

    Vegna sérhagsmuna- og/eða eiginhagsmunagæslu hefur Alþingi aldrei getað sammælst um setningu stjórnarskrár fyrir lýðveldið Ísland. Alþingi hefur fram til þessu ekki gengið í takt við hinn raunverulega stjórnarskrárgjafa, þjóðina. Í október 2012 sagði þjóðin sitt álit hátt og snjallt. Nú er komið að Alþingi. Kostirnir eru einfaldir:

    1. Stuðla að sátt við þjóðina í kjölfar alsherjarhruns með því að:
    a) Taka stjórnarskrártillögu stjórnlagaráðs í heild sinni til umræðu og atkvæðagreiðslu á yfirstandandi þingi – gefa henni ríflegan tíma, en beita 71. grein þingskaparlaga ef nauðsyn krefur (málþóf er ósiður sem aldrei á að ráða niðurstöðu mála í lýðræðisríki).
    b) Ef ný stjórnarskrá er samþykkt á yfirstandandi þingi með einföldum meirihluta er hún lögð í dóm þjóðarinnar og síðan tekin til lokaafgreiðslu á næsta þingi þar sem niðurstaðan ræðst, eins og áður, með einföldum meirihluta.

    2. Halda áfram á núverandi vegferð og staðfesta þannig endanlega fullkomið siðrof milli þings og þjóðar.

    Alþingismenn! Tækifærið er núna! Það býðst ekki aftur…

  • Einar Steingrimsson

    Þorsteinn: Hvernig er verið að reyna að „bjarga“ málinu, með þessum aðferðum Árna Páls og hinna tveggja flokksformannanna? Hvernig sérðu fyrir þér að framhald málsins yrði á næsta þingi?

    Og af hverju reynir aldrei neinn þeirra sem tala um „björgun“ að svara þeirri spurningu?

    Sigurður: Þetta tal um færibandavinnu og að ljóst hafi verið um áramót að búið væri að „klúðra“ málinu, hefur margoft verið rekið tilbaka í umræðunni. Það hefur farið gífurlegur tími í þetta mál, bæði innan og utan þings, í nokkur ár. Ef þú ætlar að endurtaka þessar staðhæfingar, þá ættirðu að sjá sóma þinn í að rökstyðja þær.

  • Ósmekkleg leið Samfylkingar að leggja fram heildarendurskoðun á stjórnarskrá með þá yfirlýsingu á að stjórnarskrá þurfi að breyta vegna inngöngu í ESB stutt með heimildum http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

    Ef spurt er um mikilvægasta ákvæðið í tillögu um nýrrar stjórnarskrá þá hlýtur það líklega að snúast um auðlindir landsins?

    Fjórflokknum er fullkunnugt um tillögu auðlindanefndar til stjórnarskrár ( keimlík ef ekki sú sama frá stjórnlagaráði) frá árinu 2000 undir forsæti háttvirts Jóhannesar Nordals og þá erfileika að koma þeirri tillögu í gegnum þingið á þeim árum sem hafa liðið.
    Og hvernig datt þá núverandi stjórnvöldum í hug að afgreiðsla heillrar stjórnarskrár gengi betur?

    Aðspurður hafði formaður Samfylkingar Árni Páll Árnason ekki kynnt sér tillögur að stjórnarskrá. Heimildir: http://www.svipan.is/?p=2397 „Árni Páll hefur ekki lesið nýju stjórnarskrána!“

    Hvar hefur formaður Samfylkingar haldið sig?

    „Með gildistöku EES-samningsins og í kjölfarið hafa verið teknar upp ýmsar gerðir Evrópusambandsins á sviði orkumála. EES-aðild hefur því haft nokkur áhrif á orkumál á Íslandi“

    Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku sem kveður á um aðskilnað milliframleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku, auk þess sem kveðið er á um samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku?

    Tilskipun 96/92/EB, um innri markað fyrir raforku.
    1. gera raforkugeirann að hluta innri markaðar Evrópusambandsins í áföngum,
    2. tryggja öryggi í afhendingu raforku,
    3. auka samkeppni í framleiðslu á raforku,
    4. gera fyrirtækjum kleift að eiga viðskipti með raforku milli landa á svæðinu.

    1. Hvernig getur ESB ætlast til þess að gera raforkugeirann á Íslandi að hluta innri markaðar Evrópusambandsins í áföngum samkvæmt tilskipun 96/92/EB ?

    2. Einkavæðing um allan heim hefur leitt í ljós að einkavæðing hefur ekki tryggt öryggi á viðhaldi í neinni mynd og hvað þá heldur öryggi í afhendingu raforku og hefur viðhald þá verið kostað af almenningi.

    3. Aukin samkeppni á Íslandi á raforkumarkaði verður aldrei neitt annað en fákeppni og lóð á vogarskál þeirra afla sem eiga eftir að kveða niður lýðræðisbreytingar og munu auka ójafnvægi réttlátrar stéttskiptingu á Íslandi “ í ljósi þeirrar gífurlegu samkeppni sem hefur átt sér stað á Íslandi á undanförnum áratugum lýðnum til hagsbóta.“

    4. Að gera fyrirtækjum kleift að eiga viðskipti með raforku milli landa á svæðinu segir allt sem segja þarf.

    Er hér um að ræða staðfesting á gjörningnum?
    http://www.althingi.is/altext/133/s/pdf/0967.pdf

    Mun sjálfstæðisflokkur halda áfram því hlutverki að vera ljóti kall leiksýningar um fyrirligjandi einkavæðingu raforkufyrirtækja (beintengt náttúruauðlindum) vegna EES samningsins, sem á stærstan þátt í vitskertri alþjóðavæðingu á Íslandi og þá eru ummæli Bjarna Ben um einkavæðingu Landsvirkjunnar líklega aðeins upphitun?

    Á næsta þingi bíður þingsins ein önnur tilskipunin frá EU samin samkvæmt ráðleggingum og ábendingum fulltrúa vatnfyrirtækja sem lítur að einkavæðingu vatns … já, ekki skána drögin að plagginu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur