Miðvikudagur 08.05.2013 - 09:57 - 22 ummæli

Háskóli Íslands vill ekki útlendinga

Háskóli Íslands hefur það yfirlýsta markmið að komast í fremstu röð meðal háskóla heimsins, og reyndar ekki aftar en meðal hundrað bestu.  Margir hafa gert grín að þessu markmiði og talið það óraunhæft.  Undir það má e.t.v. taka, en hitt er mikilvægara að ef forysta skólans hefði í raun áhuga á að gera skólann frambærilegan á alþjóðavettvangi þá væri þetta markmið í sjálfu sér ekki til tjóns, því hafi maður það markmið að keyra til Víkur í Mýrdal frá Reykjavík er í fínu lagi að setja stefnuna á Hornafjörð.
Hitt er annað mál að það er ekki skynsamlegt fyrir skóla sem vill verða öflugri í alþjóðlegum samanburði að einblína á mælikvarðana sem notaðir eru og reyna beinlínis að skora hærra á þeim.  Til að HÍ verði góður skóli þarf nefnilega að breyta skólanum, alveg eins og maður þarf að kynda allt húsið til að hækka í því hitann,  ekki bara undir hitamælinum.  Forysta HÍ hefur gortað mikið af því undanfarið að skólinn skuli hafa komist á lista yfir 300 bestu.  Henni hefur hins vegar láðst að geta þess að hér er bara um að ræða einn lista af mörgum slíkum (og HÍ sést ekki á hinum), auk þess sem aðferðin hefur verið að blása heitu lofti á hitamælinn:
  • HÍ hefur fjölgað doktorsnemum gríðarlega, en mjög mörgum þeirra er boðið upp á umhverfi sem stendur alls ekki undir þeim akademísku kröfum sem gerðar eru í sæmilegum skólum, ekki síst vegna þess að leiðbeinendurnir ná ekki máli sem fræðafólk á alþjóðavettvangi.  Í stað þess að byggja upp öflugt rannsóknaumhverfi sem yrði umgjörð fyrir gott doktorsnám var bara ákveðið að fjölga þeim sem skráðir eru í doktorsnám.  Það er líka ljóst að til að fjölga doktorsnemum verulega, og byggja upp gott doktorsnám, þyrftu flestir nemendurnir að koma erlendis frá.  Íslendingar eru nefnilega ekki betri en annað fólk, og það er einfalt reikningsdæmi að 320 þúsund manna samfélag á ekki nema brot af þeim fjölda af nógu góðum doktorsnemum sem þarf fyrir skóla af því tagi sem HÍ segist vilja verða.  Auk þess fer mikið af bestu íslensku nemendum til útlanda í doktorsnám, og það væri brjálæði að reyna að stöðva þann straum.  En, HÍ virðist nánast ekkert hafa gert til að geta laðað til sín erlenda doktorsnema í stórum stíl.
  • Fyrir fáum árum var nokkuð af öflugasta vísindafólkinu hjá Íslenskri Erfðagreiningu og Hjartavernd gert að prófessorum við HÍ, sem leiddi til þess að vísindagreinar þessa fólks eru nú taldar skólanum til tekna (og það hækkaði skólann á þessum eina lista sem hann sést á), þótt skólinnn leggi ekkert nýtt af mörkum í því vísindastarfi sem hér um ræðir.  Hér er sem sagt um að ræða bókhaldsbrellur (og stórkarlalegar yfirlýsingar um eigið ágæti) sem minna óþægilega á árið 2007 í fjármálageiranum.  Um þessa bókhaldsbrellu má lesa svolítið hér.
Það er sláandi að bæði HÍ og HR (sem samanlagt eru yfir 90% af háskólakerfi landsins) hafa þá yfirlýstu stefnu að verða öflugir rannsóknaskólar á alþjóðavettvangi, í ljósi þess hverjir sitja í æðstu akademísku forystu þeirra.  Þessi forysta telur 12-15 manns, þar sem eru rektorar, aðstoðarrektorar, sviðsforsetar í HÍ og deildarforsetar í HR.  Ekki ein af þessum manneskjum hefur nokkra teljandi reynslu af starfi við háskóla á þeim alþjóðavettvangi sem skólarnir segjast ætla að hasla sér völl á.  Vissulega verður engin manneskja sjálfkrafa góð til forystu af því einu að hafa slíka reynslu, og auðvitað er ekki ómögulegt að verða öflugur akademískur leiðtogi án þess að hafa slíka reynslu erlendis frá.  Sú staðreynd að ekkert af öllu þessu fólki hefur slíkan bakgrunn er hins vegar ekki tilviljun, heldur markvisst val þeirra sem ráða för í þessu andverðleikasamfélagi; það er of óþægilegur samanburður að vera með innan um alvöru fólk sem veit hvernig góðir skólar eru byggðir upp og vill gera það.
Háskóli Íslands er ekki á þeim buxunum að breyta þessu.  Fyrir fáum mánuðum auglýsti skólinn eftir sviðsforsetum yfir Menntavísindasvið og Félagsvísindasvið.  Í auglýsingunum var tekið fram að umsækjendur þyrftu að hafa gott vald á íslensku.  Þar með er búið að útiloka nánast alla útlendinga frá því að sækja um þessar stöður.  Í athugasemd á eftir pistlinum er að finna lista yfir umsækjendur, og þeir listar eru dapurlegt vitni um metnaðarleysi HÍ.
Þetta er þó e.t.v. ekki kjarni vandans, heldur bara birtingarmynd þess sem veldur því að HÍ mun aldrei eflast til muna með þeirri stefnu sem núverandi forysta skólans hefur.  HÍ hefur nefnilega nánast ekkert gert til að hlúa að því vísindafólki sem einhverja burði hefur til að lyfta skólanum, hvað þá að hann hafi lagt áherslu á að laða til sín fleira öflugt fólk af þeim alþjóðavettvangi sem hann þykist ætla að hasla sér völl á.  Í staðinn hefur fólk sem ekki nær máli á þessum vettvangi (eins og hver sem er getur gengið úr skugga um á netinu) víða fengið að halda í burtu þeim sem eitthvað geta.  Hér er minnst á eitt hrikalegasta dæmið um þetta, þegar tölvunarfræðiskor HÍ hrakti á stuttum tíma frá sér flestalla bestu tölvunarfræðinga landsins, án þess að forysta skólans lyfti fingri til að stöðva skemmdarverkið.
Það kom svo glöggt í ljós eftir hrun, þegar talað var um nauðsyn þess að endurskipuleggja háskólakerfið, að vilji forystu HÍ stóð ekki til þess að verja það besta í skólanum.  Við þær aðstæður hefði HÍ getað notað tækifærið og hætt að eyða gríðarlegum hluta þess fjár sem skólinn fær til rannsókna í fólk sem aldrei hefur stundað rannsóknir, eða a.m.k. ekki rannsóknir af þeim gæðum sem skóli með metnað þarf að krefjast.  Í staðinn hefði verið hægt að krefjast þess að starfsmenn sem ekki ná máli í rannsóknum hættu að fá greitt fyrir slíkt og sinntu kennslu í auknum mæli.  Þá hefði mátt nota rannsóknaféð til að koma í veg fyrir að aðstæður þeirra sem eitthvað geta í rannsóknum versnuðu til muna, eins og raunin virðist hafa orðið, enda ekki á það bætandi víða í skólanum.  Og það er auðvitað glórulaust fyrir skóla sem hefur takmörkuð fjárráð en vill eflast sem rannsóknaháskóli að sóa rannsóknafé sínu í fólk sem aldrei getur eflt rannsóknastyrk skólans.
HÍ segist ætla að verða einn af bestu háskólum heims.  Forysta hans hagar sér hins vegar eins og um skólann gildi einhver allt önnur lögmál en aðra skóla á þeim vettvangi, og „falsar bókhaldið“ til að sannfæra stjórnvöld og almenning um að hún sé á réttri leið.  Það verður ekki hrun í háskólakerfinu í sama skilningi og í fjármálakerfinu 2008, enda hefur boginn aldrei verið spenntur hátt; strengurinn er slakur og boginn sjálfur víða fúinn.  Lýðskrumsaðferðirnar eru hins vegar þær sömu og í fjármálageiranum fyrir hrun.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Einar Steingrímsson

    Hér er listi yfir umsækjendur um forsetastöðurnar tvær sem nefndar eru hér að ofan. Í fljótu bragði (og miðað við upplýsingar sem hægt er að finna á netinu) virðist ólíklegt, þótt ekki sé það útilokað, að nokkur hinna erlendu umsækjenda uppfylli kröfurnar sem gerðar eru um íslenskukunnáttu. Eftir standa þrír íslendingar sem sækja um aðra stöðuna og tveir um hina. Slíkt gerist varla í skólum með þann metnað sem HÍ þykist hafa; þar er séð til þess að fá marga góða umsækjendur um forystustöður af þessu tagi. Sú hugsun virðist hins vegar óþekkt í HÍ; þegar stöður af þessu tagi hafa verið auglýstar hafa umsækjendur yfirleitt verið mjög fáir, og greinilega ekki verið leitað að fólki um heiminn og gott fólk hvatt til að sækja. Þvert á móti virðist í flestum tilfellum hafa verið ákveðið fyrirfram hver ætti að fá stöðuna, og yfirleitt hefur verið um innanbúðarfólk að ræða.

    HI12120047. Starf forseta Menntavísindasviðs, auglýst 7. janúar 2013 með umsóknarfesti til 4. mars 2013.

    Alexa Okrainec: Associate Professor, Brandon University, Brandon MB

    Anuradha Aggarwal: Við Modern College of Professional Studies Indlandi

    Arkendu Chatterjee: Associate Professor, Nalanda College of Pharmacy, India

    Hermundur Sigmundsson: Prófessor við NTNU

    Ingólfur Ásgeir Jóhannesson: Prófessor við HÍ og HA

    Jóhanna Einarsdóttir: Prófessor við Menntavísindasvið HÍ

    Mosad Zineldin: Professor in Strategic Relationship Management and Marketing, School of Business and Economics-Linnaeus University-Sweden

    ———————————————————

    HI12120046. Starf forseta Félagsvísindasviðs, auglýst 7. janúar 2013 með umsóknarfesti til 4. mars 2013.

    Anwar Al Quraan: Director of Research and industrial policies, Department , Gulf organization for
    Industrial Consulting , based in Qatar

    Arkendu Chatterjee: Associate Professor, Nalanda College of Pharmacy, India

    Daði Már Kristófersson: Dósent HÍ og forstöðumaður þróunar- og samstarfsverkefna

    Guðbjörg Linda Rafnsdóttir: Prófessor í félagsfræði við HÍ

    Mosad Zineldin: Professor in Strategic Relationship Management and Marketing, School of Business and
    Economics-Linnaeus University-Sweden

    Timothy Heleniak: Director of American Geographical Society, Research Associate, University of Maryland

    Tyrone Leeman Adams: Professor of Communication University of Louisiana at Lafayette

  • Einar Steingrímsson

    Því má svo bæta við að staðan sem fjallað var um í þessum pistli, http://blog.pressan.is/einar/2013/02/19/klikuradning-i-uppsiglingu-i-hi, var ekki auglýst erlendis. Umsækjendur voru bara tveir:

    Sverrir Jakobsson: Aðjunkt við Háskóla Íslands
    Viðar Pálsson: Nýdoktor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

  • Guðjón

    Það er mjög algengt fyrir 300 þús manna smábæi hér og þar, að segjast vera með bestu „egg“ í heimi , ef mikið er um hænsnabú þar — eða bestu sultu, og svo framvegis…

    En það er öllu alvarlega þegar svona smábæjar mikilmennskubrjálæði fellst í fullyrðingum um hásskólanám „á heimsmælikvarða“…. sérstaklega þegar það er haugalygi.

  • Sævar Óli Helgason

    Það varð opinbert að Háskóli Íslands er drasl og tilberi á þjóðinni þegar kennarar skólans fengu að komast upp með ritstuld…
    Síðan hefur hratt fjarað undan þessu kjaftæði sem Íslendingar kalla Háskóla Íslands…

  • Árni Kristjánsson (dósent við Sálfræðideild)

    Þú ert þá væntanlega að gefa í skyn að aðrir Háskólar á þessum listum njóti EKKI samstarfs við sjálfstæðar rannsóknarstofnanir eins og HÍ gerir. Einar, það er rangt. Svo þessi gagnrýni er marklaus. Það er margt gert vel við Háskóla Íslands – fullt af góðum vísindamönnum. Ekki er allt jafn gott, en ég fullyrði að undanfarin ár hafa mörg skref verið stigin í rétta átt. Ég hef unnið við HÍ síðan 2004 og staðan er allt önnur og miklu betri en þá.
    Fullyrðingar þínar um aumingjaskap við HÍ eru rangar og maður spyr sig af hverju þú setur þetta fram aftur og aftur.

  • Guðjón

    Innvígðir berjast með kjafti og klóm fyrir eigin skýaborgum… ekkert nýtt við það.

    Hvenær kom aftur síðast fram áhugaverð sálfræðirannsókn/tilraun frá íslandi? Eitthvað sem ekki var endurtekning á erlendum rannsóknum, og eitthvað sem ekki var byggt á viðtals-aðferð til að „staðfesta“ fyrirfram gefnar skoðanir um PC málefni?

  • Guðjón

    Það þarf eflaust að leita víða til að finna háskóla sem notast meira við hópaverkefni en íslenskir háskólar…. aðferð sem gagnast nemendum minna en ekkert (þeir græða ekkert á að læra af hvor öðrum, né borga þeir fyrir það) en er notuð sérstaklega mikið eftir að kennarar áttuðu sig á að hópaverkefni skera helling niður af vinnu þeirra — færri verkefni til að fari yfir, og það er eini tilgangur þeirra.

    Hópaverkefni eru fyrir háskóla-kerfið útvötnun á námi, bara eins og skuldabréf með blönduðum undirmálslánum voru útvötnun á hagkerfinu.

  • Þorsteinn Egilson

    Þótt einhverjum svíði sárt gagnrýni ES þá er full ástæða til að taka athugsemdir hans um andverðleikasamfélagið alvarlega. Því miður á þessi lýsing við á svo mörgum sviðum hjá okkur, ekki bara innan háskólakerfisins heldur nánast alls staðar í okkar samfélagi.
    Það ætti að vera þekkt regla að til þess að verða góður í einhverju þá þarf maður að æfa/starfa með einhverjum sem er jafngóðir eða betri en maður sjálfur við tiltekna athöfn. Það segir sig sjálft að heimóttagangur fleytir mönnum ekki langt.
    Hitt er svo annað mál sem ekki má gera lítið úr. Ég hef alltaf litið til Háskóla Íslands sem mjög góðs skóla þegar kemur að akademískri grunnmenntun og vona að sá hluti hans verði ekki undir í þeirri baráttu að ekkert sé nógu mikið.

  • Einar Steingrímsson

    Árni: Ég tek heilshugar undir þetta: *Það er margt gert vel við Háskóla Íslands – fullt af góðum vísindamönnum.“ Ég hef enda oft sagt það, og ég talaði í þessum pistli sérstaklega um það góða vísindafólk við HÍ sem hefði átt að verja fyrir niðurskurðinum í kjölfar hrunsins, og nota tækifærið til að hætta þeirri sóun sem það er að borga öllum akademískum starfsmönnum 40% af launum sínum fyrir rannsóknir, sem margir hafa aldrei stundað, og margir ekki stundað rannsóknir sem nokkurt vit er í að borga fyrir (t.d. þeir sem aldrei birta neitt nema í innlendum tímaritum, sem er ekki framlag til þess alþjóðlega vísindasamfélags sem flestar greinar eru hluti af, t.d. sálfræðin).

    Það er einfalt mál að skoða framlag mjög margra starfsmanna HÍ í rannsóknum, á netinu. Það sem er þó e.t.v. mest sláandi er að heilu fræðasviðin við HÍ leggja nánast ekkert af mörkum, miðað við starfsmannafjölda, á alþjóðavettvangi. Hér má t.d. sjá framlag hinna ýmsu fræðasviða síðustu árin, fram til 2011, tekið af Web of Science:

    http://blog.pressan.is/einar/wp-content/uploads/sites/148/2012/12/GreinabirtingarIsland-fraedasvid.pdf

    Undir félagsvísindi heyra bæði félagsvísinda- og menntavísindasvið HÍ. Rannsóknafólk á þessum sviðum hefur birt samtals um 35 greinar á ári síðustu árin. Það ár voru akademískir starfsmenn á þessum tveim sviðum samtals 247. Þessar tölur segja á augabragði allt sem segja þarf; hér er virknin nánast engin.

    Ég held því ekki fram að aðrir háskólar séu ekki í tengslum við rannsóknastofnanir eins gildir um Erfðagreiningu og Hjartavernd í tilfelli HÍ. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, eins og greint er frá í bloggi Arnars Pálssonar sem ég benti á hér að ofan, að HÍ tók gríðarlegt stökk í birtinga- og tilvitnanafjölda þegar lykilstarfsmenn þessara fyrirtækja voru formlega gerðir að starfsmönnum HÍ, en það breytti engu um framlag skólans, og þar þarf að hafa í huga að greinar sem þessi fyrirtæki hafa unnið í samvinnu við fólk í HÍ voru að sjálfsögðu taldar HÍ til tekna fyrir þessa bókhaldsbrellu. Augljóst er því að hér er um lánsfjaðrir að ræða.

    Það væri gaman að heyra um þessi mörgu skref í rétta átt í HÍ sem þú nefnir.

    Ástæða þess að ég set fram fullyrðingar um „aumingjaskap við HÍ“ ættu að vera augljósar, af málflutningi mínum. Það sem ég gagnrýni er að ekkert samræmi er á milli orða og gerða forystunnar, því augljóslega er ekki verið að vinna að því með skilvirkum hætti að gera skólann að öflugum rannsóknaskóla. Um það vitnar t.d. hið algera hirðuleysi um þá staðreynd að gríðarlega stór hluti akademískra starfsmanna stundar ekki rannsóknir af þeim gæðum sem ættu að vera lágmarkskrafa fyrir skóla af því tagi sem HÍ segist vilja verða, en fær stóran hluta launa sinna greiddan fyrir að gera það.

  • Einar Steingrímsson

    Árni: Ég fletti þér upp á Google Scholar: http://scholar.google.is/citations?user=h0EfDAwAAAAJ&hl=en&oi=ao

    og á Web of Science: http://apps.webofknowledge.com/summary.do?product=UA&parentProduct=UA&search_mode=GeneralSearch&qid=1&SID=N15BOO58@DiNmlA9i62&page=1&action=sort&sortBy=TC.D;PY.D;AU.A;SO.A;VL.D;PG.A&showFirstPage=1

    Birtingaferill þinn á alþjóðavettvangi virðist mjög öflugur, þótt ég geti auðvitað ekki metið framlag þitt þar sem ég er enginn sérfræðingur á þínu sviði. Þótt fjöldi birtinga og tilvitnana sé ekki óyggjandi mælikvarði á gæði vísindafólks segir þetta þó yfirleitt talsvert, ekki síst stöðugar birtingar yfir langan tíma sem mikið er vitnað í.

    Öllum sem hafa skoðað þessi mál hið minnsta við HÍ er ljóst að þetta er (að því er virðist) glæsilegur ferill af því tagi sem er allt of sjaldgæfur innan skólans (og heyir til örfárra undantekninga á Menntavísinda- og Félagsvísindasviði, sem eru samtals um helmingur skólans). Vissulega er til talsvert af fólki innan skólans sem er öflugt, og sumt sem stendur mjög framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði. Þetta fólk er hins vegar allt of fátt fyrir skóla með þann yfirlýsta metnað sem HÍ hefur, og það er alls ekki hlaðið nóg undir það, heldur er gríðarlegu fé sóað í fólk sem ekki nær neinu máli í alþjóðlegum samanburði.

    Eitt hrikalegasta dæmið um klikkunina í punktakerfi HÍ, sem felur beinlínis í sér skemmdarverk á því starfi sem HÍ þykist vilja efla, er að fyrir dæmigerða grein í Nature (t.d. grein Freysteins Sigmundssonar varðandi Eyjafjallajökulsgosið) fæst bara brot af þeim punktum sem fást fyrir dæmigerða grein í íslenskum tímaritum, sem mörg eiga engan tilverurétt, af því að þau fjalla um svið sem er ekkert séríslenskt við, eins og menntavísindi og sálfræði.

    Punktakerfið hefur áhrif bæði á laun og framgang, og það er augljóst að það verðlaunar kolranga hluti, og vinnur þannig gegn yfirlýstum markmiðum skólans. Síðast þegar reynt var að færa þetta í aðeins betra horf, fyrir nokkrum árum, að tillögu Vísindanefndar HÍ, lét rektor skjóta það í kaf, og fremstir í flokki banamannanna fóru tveir sviðsforsetar, sem hvorugur hefur lagt nokkuð teljandi af mörkum í alþjóðlega fræðasamfélaginu, þrátt fyrir áratuga feril.

  • Færslur merktar HÍ í Web of Science tímabilið 2007 til 2012 eru 3.552. Færslur merktar HÍ og Decode á sama tímabili er 142. Á þessu tímabili eru s.s. tæplega 4% greina HÍ sameiginlegar með Decode.

  • Einar Steingrímsson

    Baldvin: Hér er fjallað nokkuð um þetta mál, m.a. birtar tölur (þessi tengill er í pistlinum hér að ofan líka):

    http://apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/1260935/

    Er þetta rangt hjá Arnari?

  • Einar Steingrímsson

    Svo er mikilvægt að hafa í huga að við mat á styrk háskóla skiptir fjöldi tilvitnana í greinar yfirleitt miklu meira máli en fjöldi greina. Þar er vísindafólk Erfðagreiningar og Hjartaverndar mjög öflugt.

  • Í stuttu máli þá er svarið já, þetta er rangt hjá honum. HÍ er aðeins talið til tekna greinar sem merktar eru skólanum og tilvitnanir í þessar greinar. Þá má auk þess nefna að Times Higher (THE) viktar tilvitnanir eftir fræðasviðum við sína röðun og Decode starfar á fræðasviðum þar sem tilvitnanatíðni er töluvert há. Svo má líka nefna að greinar Decode eru fjölhöfundagreinar og oftar en ekki er starfsfólk HÍ meðhöfundar á þessum greinum, starfsfólk sem ekki hefur verið á launaskrá hjá Decode. Það er auðvelt fyrir hvern sem er að sjá þetta hjá Web of Science. Ég vil samt alls ekki gera lítið úr þætti Decode í árangri HÍ, auðvitað hafa þeir átt stóran þátt í þessum árangri,

    Það er svo rétt hjá þér Einar að hátt hlutfall tilvitnana í greinar starfsfólks HÍ er helsta ástæðan fyrir því að skólanum er raðað á lista THE.

    Svo er líka fróðlegt að sjá fjölda færslna sem skráðar eru á HÍ í Web of Science undanfarin ár:
    2012: 770
    2011: 657
    2010: 712
    2009: 543
    2008: 465
    2007: 405
    2006: 387
    2005: 318
    2004: 304
    2003: 246
    2002: 247
    2001: 227
    2000: 201

    • Einar Steingrimsson

      Takk fyrir ábendingarnar, Baldvin.

      Þótt Decode starfi á sviði með háa tilvitnanatíðni og tekið sé tillit til þess, sýnist mér nokkuð ljóst að tilvitnanir í greinar fyrirtækisins séu langt yfir meðaltalinu við HÍ. Auk þess er hér ekki bara um Decode að ræða, heldur einnig Hjartavernd, sem er líka með gríðarlega mikið af tilvitnunum.

      Ég dreg ekki í efa að birtingar HÍ hafi aukist stöðugt síðustu árin (að 2011 undanskildu). Enda er talsvert af mjög góðu vísindafólki í skólanum. Gagnrýni mín snýst fyrst og fremst um að ekki hafi verið hlaðið undir þetta vísindafólk, á kostnað þeirra sem ekki ná máli. Dæmið um punktekerfið sem ég nefndi er ekki einangrað, þvert á móti er það gegnumgangandi að það fást margir punktar fyrir birtingar í íslenskum tímaritum, sem er fáránlegt í ljósi þess að þar er ekki um að ræða framlag til alþjóðlega vísindasamfélagsins, enda er mikið af því sem þar birtist algert drasl.

      Hefurðu skoðað þessa mynd, sem ég birti hér að ofan?:

      http://blog.pressan.is/einar/wp-content/uploads/sites/148/2012/12/GreinabirtingarIsland-fraedasvid.pdf

      Sé hér ekki meiriháttar misskilningur á ferð segir þetta um það bil þá sögu um HÍ að hann þyrfti að losa sig við mestallt Menntavísindasvið og Félagsvísindasvið (þótt reyndar sé dálítið af öflugu fólki a.m.k. á því síðarnefnda).

  • Árni Kristjánsson (dósent við Sálfræðideild)

    Takk fyrir að fletta mér upp, Einar. Ég held að HÍ sé mun betri en land þar sem búa 320000 manns getur leyft sér að vona. HÍ er langt í frá eini skólinn í heiminum þar sem rannsóknaafköst eru afar breytileg frá einum starfsmanni til annars.
    Það sem stuðaði mig í umfjöllun þinni er að gagnrýnin er öll á afar neikvæðum forsendum. HÍ er, eins og ég sagði, að bæta sig mikið. Tölur Baldvins sýna það.
    Þú gagnrýnir punktakerfið í þínu svari. Ég held að enginn haldi því fram að það sé gallalaust.
    Þú spurðir mig um skref fram á við: Þau eru mörg, en eitt vil ég nefna sérstaklega: Aukin áhersla á rannsóknatengt framhaldsnám, sérstaklega á doktorstigi. Fyrir 10 árum síðan var enginn Doktorsnemi við Sálfræðideild. Nú eru þeir um 20. Eru að vinna að góðum rannsóknum. Doktorsnemar við Sálfræðideild hafa birt 7 eða 8 vísindagreinar 2012-2013 sem getið er á PubMed.
    Við tökum kannski hænusfref í rétta átt, en þau eru þó í rétta átt.

    Guðjón: Aflaðu þér upplýsinga áður en þú ferð að gagnrýna eitthvað sem þú hefur ekki hugmynd um. Það er holur hljómur í gagnrýni á vísindastörf þar sem gagnrýnin byggir ekki á neinum upplýsingum, heldur felur í sér asnalega sleggjudóma.

    • Einar Steingrímsson

      Hvað áttu við, Árni, með því að gagnrýni mín sé „öll á afar neikvæðum forsendum“?

      Reyndar ákvað ég einmitt yfir kvöldmatnum í kvöld að ég ætlaði að skrifa jákvæðan pistil bráðum um hvort og þá hvernig væri hægt að gera HÍ að góðum skóla. 🙂

      Þangað til langar mig að benda á eftirfarandi, sem lagt var fram í „rýnihópi menntamálaráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins“ sumarið 2010. Gaman væri að heyra hvað þér finnst um þessar hugmyndir:

      http://blog.pressan.is/einar/wp-content/uploads/sites/148/2012/09/alit-thoro-mkm-es.pdf

    • Árni Kristjánsson (dósent við Sálfræðideild)

      Mér fannst þar alhæft um HÍ – án þess að getið væri um það góða starf sem þar er unnið, og gefið í skyn að HÍ skreytti sig stolnum fjöðrum. Aðrir háskólar eru líka metnir útfrá greinum sem eru gefnar út í samstarfi við óháðar rannsóknastofnanir.
      Það er hins vegar bara á Íslandi sem það er þjóðarsport að gera lítið úr einhverju sem við getum, þegar allt kemur til alls, verið afar stolt af, eins og Háskóla Íslands.
      Margt er ekki í góðu lagi innan HÍ, og umræða sem þú efnir til er fín, en mér finnst hún, já, ég segi það aftur, á óþarflega neikvæðum nótum.

    • Árni Kristjánsson (dósent við Sálfræðideild)

      Og ég hakka til að lesa pistilinn um hvernig hægt er að gera HÍ betri. Það er erfitt verkefni, og tillögur í þá átt eru afar vel þegnar. Mest um vert er að okkur sem þykir vænt um þetta óskabarn Þjóðarinnar (titli stolið frá Eimskip, sem varla veldur þessum titli nú orðið…) leggjumst á eitt um að bæta og betra.

  • Elín Sigurðardóttir

    Hvar er Guðjón með asnalega sleggjudóma? Verða þeir sem tjá sig um skólann að ganga út frá því að um óskabarn þjóðarinnar sé að ræða? Fá þeir skömm í hattinn sem ekki geta viðurkennt þessar grunnforsendur?

    • Árni Kristjánsson (dósent við Sálfræðideild)

      Guðjón felldi sleggjudóma um rannsóknir við Sálfræðideild. Hinar tvær spurningarnar þínar skildi ég ekki.

  • Pétur Henry Petersen

    Þessi umræða er flókin og margt hangir á spýtunni annað.

    Svo ég verji nú rannsóknarstarfsemi við HÍ þá er fjármögnun rannsókna, hvortsemer innan skólanna eða úr samkeppnissjóðum á engan hátt sambærileg við það sem gerist erlendis. Líklega eru vísindamenn hér sem eru margir þokklaga frambærilegir með kannski 10 eða 20 sinnum minni kaupmátt til rekstrar/efnakaupa en erlendis. Bæði eru styrkupphæðirnar hér miklu miklu lægri og verð aðfanga mun hærra. Auðvitað er mismunandi eftir fögum og allt það. HÍ styður ekki fjárhagslega rannsóknir starfsmanna t.d. almenn efniskaup.

    Einnig er kennsluskylda mjög mikil, laun á engan hátt sambærileg , háskóladósent er með svipuð laun og menntaskólakennari eða lægri og tækjakostur almennt rýr. Punktakerfi HÍ er svo bara létt klikkað, í því liggja gríðalegir hvatar til magns á kostnað gæða. Gríðarlega erfitt er að breyta einhverju innan HÍ, því hvert svið hefur sína hagsmuni að verja.

    En hugsunarhátturinn er eitthvað að breytast vonar maður og gagnrýni ES er góðra gjalda verð og réttmæt. Ef punktakerfið væri lagt niður og aukið fé í innri og ytri sjóðum, þá væri hægt að gera góða hluti og margir eru þó að reyna eins og staðan er núna. En það er erfitt að fara útí búð að kaupa eitthvað sem kostar 1000 krónur, verandi með 100 kall í vasanum.

    Þannig er auðvitað er ekki hægt að reka alþjóðlegan rannsóknarháskóla til lengdar. Þeir útlendingar sem hingað koma átta sig á þessu áður en þeir skrifa undir eða fljótlega í framhaldi af því. En auðvitað ætti íslensku kunnátta ekki að vera skilyrði fyrir stjórnunarstöðu, var það ekki fyrsti punkturinn 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur