Miðvikudagur 29.05.2013 - 10:49 - 15 ummæli

Vill Róbert Wessman eignast banka?

Róbert Wessman vill að „kröfuhafar framselji bankana til Bankasýslunnar“, samkvæmt frétt á Eyjunni í fyrradag, um sérstakan „morgunverðarfund Eyjunnar“ um hina svokölluðu snjóhengju.  Eyjan birti líka langa frétt um skoðanir hóps sem Róbert er í forsvari fyrir, snjohengjan.is.  Einnig fékk Róbert gott pláss í Silfri Egils í síðasta mánuði til að útskýra þessar hugmyndir sínar, og reyndar virðast flestir fjölmiðlar landsins hafa útvarpað boðskap hans síðustu daga.
Umfjöllun Eyjunnar og annarra fjölmiðla um tillögur Róberts hefur verið algerlega gagnrýnislaus.  Það sem verra er, hvergi er vikið að því einu orði hvort Róbert eigi, eða gæti átt, einhverra hagsmuna að gæta í þessu máli.  Róbert hefur verið umsvifamikill í ýmsu braski frá því löngu fyrir hrun.  Eins og sjá má hér á Róbert, í gegnum félag sitt Salt Investments, tæplega 13% hlut í Vefpressunni, sem á Eyjuna.  Það er langt frá því að vera einsdæmi; bæði Morgunblaðið og 365 miðlar eru í eigu auðmanna sem ekki standa í fjölmiðlun af sannleiksást.
Er hugsanlegt að Róbert langi að eignast banka á Íslandi og vilji þess vegna að þeir lendi í höndunum á Bankasýslunni, sem hefur það hlutverk með höndum að einkavæða þá?  Reynslan sýnir nefnilega að ríkið selur auðmönnum gjarnan banka fyrir slikk og er ekkert að ganga hart eftir að þeir borgi með raunverulegum peningum, né heldur að eftirlitsaðilar séu að anda mikið ofan í hálsmálið á þeim.
Við þessu fást engin svör í íslenskum fjölmiðlum, því þeir virðast flestir engan áhuga hafa á öðru en að útvarpa guðspjöllum helstu fjármálamanna landsins.
Margt bendir til þess að Ísland sé aftur komið á svipaðan stað og fáum árum fyrir hrun …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Sigurður

    Sæll Einar, nú ert þú með betri pennum á þessu svæði,

    Hvað vilt þú að verði gert með þessa banka?

    Viltu hafa þá áfram í eigu erlendra vogunarsjóða?

    Viltu að lífeyrissjóðirnir kaupi þá?

    Ertu með einhverjar tillögur um framtíðar eignarhald bankanna?

  • Fjölmiðlar, bankamenn og stjórnmálamenn standa sig afar illa í þessari umræðu um „snjóhengjuna“. Það vantar t.d. að upplýsa hvernig „hrægammasjóðir“ eru skilgreindir. Eru það sjóðir eins og t.d. íslensku lífeyrissjóðirnir eða eru þetta sjóðir sem hafa keypt kröfur með afföllum og hvert þarf þá kauphlutfallið að hafa verið til að öðlast þetta „sæmdarheiti“? Það þarf að upplýsa hversu stórt hlutfall af snjóhengjunni eiga þessir „hrægammamasjóðir“. Síðast en ekki síst hver eru rökin fyrir að skerða kröfur sem virðast vera réttmætar?

  • Einar Steingrimsson

    Ef ég fengi einhverju ráðið væri lagt blátt bann við því að bankar væru í eigu einkaaðila í fyrirsjáanlegri framtíð, einfaldlega af því að reynslan af því hefur verið svo hrikaleg, og ekki að sjá að gerðar hafi verið neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þær hörmungar endurtaki sig.

    Reynslan af bönkum í ríkiseigu hefur vissulega ekki verið mjög góð, en það ætti þó að vera meiri möguleiki á að koma í veg fyrir það brjálæði sem olli hruninu ef eignarhaldið er ekki hjá einkaaðilum. Að sjálfsögðu þyrfti miklu meira gagnsæi í störfum banka en við höfum búið við, og þess ætti líka að vera auðveldara að krefjast ef bankarnir eru í ríkiseigu.

    Sama gildir um kröfuhafa bankanna; ég efast um að ríkið þurfi að gæta eins mikillar leyndar og gert er varðandi það hverjir þeir eru.

    Varðandi réttmæti krafnanna í föllnu bankana, þá hef ég miklar efasemdir um að til sé einhver augljós réttlát skilgreining á því hvað er réttlátt. Einfaldlega vegna þess að verðmæti íslensku krónunnar stjórnast af því hversu mikið ríkið prentar af peningum, og það hefur alltaf verið á valdi hvers ríkis fyrir sig hvað það gerir í þeim efnum. Því finnst mér augljóst það sem nánast enginn mótmælir lengur (þótt verjendur síðustu ríkisstjórnar hafi haldið öðru fram) að það verður að semja við kröfuhafana. Vegna þess að þeir keyptu með gríðarlegum afföllum kröfur í fallna banka, vitandi að þeir tóku mikla áhættu, finnst mér ekkert rangt við að sýna mikla hörku í þeim samningum.

    Það sem ég hef mestar áhyggjur af hér er að ég sé ekki betur en að gráðugt peningafólk eins og Róbert Wessman séu að leggja drög að því að fá að kaupa bankana fyrir slikk, til að endurtaka leikinn frá því fyrir síðasta hrun. Og ég sé hvorki að stjórnvöld séu neitt að velta fyrir sér að koma í veg fyrir að það gerist, né að fjölmiðlar reyni að varpa ljósi á það sem örugglega er að gerast bak við tjöldin hjá þessu fólki sem gefur skít í hag almennings, þrátt fyrir fagurgala um annað, miðað við hvernig það hefur hagað sér hingað til.

    • Mér finnst það skipta máli, upplýsinganna vegna, að það upplýsist hversu stórt hlutfall af kröfunum er frá aðilum sem keyptu kröfurnar með miklum afföllum og tóku áhættu. Sumir af kröfuhöfunum eru væntanlega upphaflegir lánveitendur bankanna, kaupendur Jöklabréfa oþh. Allt þetta fé kom bönkunum til góða á sínum tíma og kröfurnar því eðlilegar.
      Mér finnst einnig erfitt að sjá að hægt sé að vera harðari í samningum við suma en ekki aðra og gert þannig upp á milli kröfuhafa eftir geðþótta.
      Furðulegast af öllu finnst mér að ímynduðum fjármunum sem hugsanlega er hægt að hafa af kröfuhöfum skuli þegar verið búið að eigna öðru.

  • Af hverju hefur letur pennanna hér á Eyjunni verið smækkað svo mikið að enginn getur án stækkunarglerja lesið 5það sem þeir skrifa?

  • Einar Steingrimsson

    Hannes: Ég hef ekki tekið eftir að letrið hafi minnkað. Getur verið að þú hafir óvart minnkað það? Það er væntanlega hægt að laga það með því að halda niðri Control-takkanum og ýta á +.

  • Ásmundur

    Róbert er að tala um gömlu bankana. Þeir eru í slitameðferð og verða því aldrei starfræktir sem bankar aftur. Ég sé því ekki að hugmyndir hans bendi til að hann vilji eignast einhvern þeirra.

    Hugmyndir hans um að veita kröfuhöfum undanþágu frá gjaldeyrishöftum og greiða þeim erlendar eignir bankanna (um 2000 miljarða) gegn því að þeir gefi eftir krónueignir (400 milljarðar) er allrar athygli verðar enda oft komið fram áður.

    Ef um semst fær ríkissjóður 400 milljarða sem Sigmundur Davið vildi nota að öllu leyti til að lækka skuldir einstaklinga. Það er sjálfsagt að nota hluta upphæðarinnar til þess en galið að hún renni öll til heimilanna.

    Meira vit er í að nota meirihluta upphæðarinnar til að lækka skuldir ríkissjóðs og auka framlög til heilbrigðis- velferðar- og menntamála.

    Að halda því fram að ríkið greiði ekki slíka skuldalækkun einstaklinga er auðvitað blekking því að ríkið getur notað slíkt fé, ef um semst, í hvað sem er.

    • Magnús Björgvinsson

      Róbert er að tala um að innlendu krónueignirnar verði það sem kröfuhafar gefa eftir. Og í þeim eru bæði Íslandsbanki og Arion. Þetta eru verðmæt fyrirtæki og það er það sem Einar upprunalega er að tala um í þessum pistli. Þ.e. að þeir yrðu afhentir til bankasýslunar sem yrði þá væntanlega að selja báða bankana til að fjármagna hluta af skuldalækkunum. Og auk þess eiga þessir bankar í dag stóra hluti og kröfur í öll stærstu fyrirtæki hérlendis. Þannig að komast yfir þessa banka á hrakvirði mundi margfalda sig á nokkurm árum eða jafnvel við kaupin. Því eru þetta eðlilegar vangaveltur.

    • Ásmundur

      Ég skil, en við sláum ekki hendinni á móti því að ríkið eignist þessa banka og aðrar krónueignir gegn því að kröfuhafar sleppi úr landi með erlendar eignir sínar þó að þeir sem kaupa þá græði hugsanlega á viðskiptunum.

      Annars er aðalatriðið að söluferlið verði vandað og að einkavinavæðingin verði ekki endurtekin. Lifeyrissjóðirnir munu trúlega kaupa stóran hlut.

      Annars litist mér vel á að ríkið ætti áfram í bönkunum. Mér skilst að þannig sé það í Noregi.

      Hætta er á að það liggi svo mikið á að selja bankana til að efna loforð framsóknarmanna að þeir seljist á of lágu verði.

  • Viðar Magnússon

    Er þetta ekki sami maðurinn sem ætlaði að lækna útlendinga suður á Velli og núverandi iðnaðarráherra skyldi ekkert í því hversvegna honum var ekki afhentur spítalinn á Vellinum nýuppgerður og fínn fyrir okkar skattfé.
    Eða eins og hún orðaði það „Vinstri menn skilja ekki atvinnurekstur þetta er bara ein fjöður sem verður að bústinni hænu“ eða kannski svona eins og bankarnir sem hennar flokksmenn g´fu hérna um árið.

  • Ásmundur, eignarhlutir búa föllnu bankanna í Arion og Íslandsbanka eru líklega stærstu einstöku eignir slitastjórnanna og þar með kröfuhafanna. Þess vegna snýst málið einmitt um eignarhald á starfræktum bönkum á Íslandi.

  • Mér finnst algjör óþarfi að tortryggja Róbert Wessmann í þessari umræðu. Vissulega er hann áhrifamesti aðili hópsins, en að baki honum er fjölmennur hópur einstaklinga, sem skrifað hefur um þessi mál lengi. Sjálfur skrifaði ég bloggfærslu um skuldavanda þjóðarinnar í byrjun júlí 2009.

    Þú vilt, Einar, að fjölmiðlar fjalli um málið á gagnrýninn hátt. Það er hið besta mál. Samt er það svo, að þessi áskorun um lausn „snjóhengjunnar“ er til komin vegna þess, að stjórnvöld virtust fljóta sofandi að feigðarósi. Beðið var eftir því að málin leystust í staðinn fyrir að taka á þeim. Áskorun hópsins (ekki bara Róberts, þó hann sé fenginn í viðtölin) er að menn leiti leiða til að leysa þennan vanda á farsælan hátt fyrir þjóðina. Hugsanlega eigast einhver innan hópsins eitthvað í einhverjum banka síðar og ekkert óeðlilegt við það. Slíkt gæti gerst hvort heldur „snjóhengjan“ verði leyst eða ekki.

    Hagsmunir einstakra aðila innan hópsins geta verið meiri en annarra. Ekki er þar með sagt að eitthvert sérhagsmunapot sé í gangi.

    Hvet þig til að taka þátt í umræðunni á uppbyggilegan hátt. Mér finnst þú vera orðinn ótrúlega neikvæður í skrifum þínum miðað við það sem þú varst áður. Tortryggni er farin að yfirskyggja allt annað.

  • Hákon Hrafn

    Best að taka það fram strax að ég er ekki hlutlaus varðandi snjohengjan.is/About/

    Það er mjög gott að fólk velti svona hlutum fyrir sér og þá væri auðvitað best að það væri stunduð einhver alvöru rannsóknarblaðamennska á landinu. Smá gúgl sýnir að Róbert fjallaði um þetta fyrir ári síðan og reyndar hafa margir aðrir, bæði fyrir og eftir hans skrif, lagt til svipaðar aðgerðir. Þar má nefna Friðrik Jónson, Lilju Mósesd, Óla Margeirs. Ef þetta fólk myndi eignast banka þá myndi ég líklega flytja mín viðskipti þangað.

    Snjóhengjan er stærsta hagsmunamál næstum allra Íslendinga. Einhverjir eiga þessar kröfur, þeir vilja fá „verðmætin“ í formi erlend gjaldeyris. Hann er ekki til og verður ekki til næstu áratugina sama hvað við gerum. Það er sorgleg staðreynd sem bæði Seðlabankinn og stjórnvöld hafa vitað í mörg ár en neitað að taka á vegna eigin getuleysis. Þeim mun meira sem reynt verður að borga út í erlendum gjaldeyri, þeim mun dýrara verður það fyrir almenning á Íslandi. Þeir sem eiga kröfurnar reyna að hafa áhrif á fjölmiðlana og eiga jafnvel í fjölmiðlunum. Þeir vilja fá peninginn „sinn“ þó það setja landið á hliðina. Eigendurnir koma ekki fram í eigin persónu, þeir senda peðin fram. Þeir gætu þessvegna verið að borga góðum bloggurum og blaðamönnum fyrir að tortryggja snjóhengjan.is en best að taka það fram að þá er ég ekki að tala um þig.

  • Jú, mistökin voru mín. Takk fyrir ábendinguna, Einar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur