Sunnudagur 29.09.2013 - 11:04 - 17 ummæli

Háskóli selur sig

Eiginlega ætti ekki að þurfa að segja meira til þess að fólki sortni fyrir augum en það sem sagt er frá í þessari frétt:
Samtök atvinnulífsins og Háskólinn á Bifröst stofnuðu í dag Rannsóknastofnun atvinnulífsins – Bifröst, en á vegum hennar verður unnið að margvíslegum rannsóknaverkefnum í þágu atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að leggja Rannsóknastofnuninni lið næstu tvö árin og skapa með því sterkan grunn fyrir stóraukið rannsóknastarf í þágu atvinnulífsins.
Rannsóknastofnun atvinnulífsins mun starfa sem sjálfstæð stofnun innan Háskólans á Bifröst og vera undir forystu rektors skólans.
 Háskólinn á Bifröst fær með þessu samstarfi afar mikilvægan stuðning frá Samtökum atvinnulífsins, sem auðveldar skólanum mjög að laða góða kennara og nemendur að skólanum og bæta gæði skólastarfsins sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að mennta fólk til leiðandi hlutverka í íslensku atvinnulífi og samfélagi.
En kannski þarf, þrátt fyrir allt, að rifja upp hugmyndirnar um hlutverk háskóla (sem vilja standa undir nafni sem sjálfstæðar rannsóknastofnanir, en ekki áróðursstofur fyrir ríka hagsmunaðila):  Háskólar eiga að stunda rannsóknir, sem þýðir að leita nýrrar þekkingar, og í þeirri þekkingarleit mega engir utanaðkomandi hagsmunir leiða menn á villigötur.  Þess vegna taka háskólar með lágmarks sjálfsvirðingu ekki í mál að láta hagsmunaaðila fjármagna starf sem snýst um rannsóknir á fyrirbærum þar sem viðkomandi aðilar hafa hagsmuna að gæta, af því að hættan er augljós að þessir hagsmunir ráði för í starfinu og eyðileggi hlutlægni rannsakendanna.
Forysta Háskólans á Bifröst er með nýstárlegri hugmyndir um þekkingarleit, sem ef til vill mætti kalla þjónustulund, og þess vegna hefur hún nú undirritað þjónustusamning við Samtök atvinnulifsins.
Og hverjir undirrituðu svo samninginn?  Jú, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Vilhjálmur Egilsson, sem var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þar til Víglundur tók við, fyrir þrem mánuðum.  Vilhjálmur er nú rektor Bifrastar, þar sem hann ætlar að stjórna „rannsóknunum“ á íslensku atvinnulífi, ekki síst á fyrirkomulagi kjarasamninga.  Fyrir peninga frá Samtökum atvinnulífsins …
Háskólar sem ekki vilja láta hafa sig að háði og spotti gera sér far um að tryggja að akademískir starfsmenn þeirra njóti þess sem kallað er akademískt frelsi, og reyndar hafa allir háskólar landsins skrifað undir yfirlýsingu þess efnis.  Háskólinn á Bifröst virðist hins vegar hafa aðrar hugmyndir um hvert sé hlutverk háskólans og akademískra starfsmanna skólans.  Nefnilega að þjóna voldugum hagsmunaaðilum, sem borga pening fyrir.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

 • Flestir sem fara í Bifröst eru að mennta sig fyrir atvinnulífið.
  Til að geta fengið góða vinnu. Við hæfi.

  Þeir sem vilja fara í doktorsgráðu í heimsspeki, guðfræði eða kynjafræði geta farið i Háskóla Íslands.

 • Hvað er nýstárlegt við þetta? Aðrir íslenskir háskólar hafa verið með ýmis verkefni kostuð af einkaaðilum þar á meðal HÍ. Úttekt á þessu í Rannsóknarskýrslunni sýndi að Bifröst var þar ekki fremst í flokki. Samtök atvinnulífsins er einn af bakhjörlum skólans og bara jákvætt að þeir hafi tök á að styðja áframhaldandi uppbygginu rannsókna.

 • Olafur Jonsson

  LÍÚ sem er „eigandi“ SF hefur komist upp með að nota HÍ í yfir 20 ár til að fara með helberan lýgi áróður um þróun sjávarútvegs og „ágæti“ kvótakerfisins.
  Nú skal herða róðurinn því það gæti skeð að fólk fari eftir 5 ára kreppu að skilja að hér verður ekki bæði haldið kvótahirð og öflugu velferðarkerfi.

 • Einar Steingrimsson

  Ég ætla ekki að bera blak af öðrum háskólum sem hafi gert sig seka um sams konar hluti. En það er rangt að kalla stofnun háskóla, af því að þar með er verið að gefa til kynna að hún stundi óháðar rannsóknir, ef hagsmunaaðilar geta keypt sig inn í rannsóknastarfið eins og hér er augljóslega um að ræða.

  • Þorbjörn

   Úthlutanir fjarmuna ur opinberum rannsoknarsjodum eru heldur ekki „óhaðar“. Þar stunda menn lika pólitik grimmt til ad hylla sinu svidi, frædigrein, eda vinum. Vissulega hafa fyrirtæki sem fjarmagna rannsoknir ahrif, med þvi t.d. ad leggja fram sjalfa rannsoknarspurninguna, en þad vald gefa allir rannsoknasjodir sjalfum ser lika.
   Þu heldur einfaldlega ad folkid i stjornum sjodanna styrki „réttar“ rannsoknir, en fyrirtæki og adrir utanadkomandi styrki „rangar“ rannsoknir.

 • Sjá diagramið í meðfylgjandi slóð:

  http://leduc998.files.wordpress.com/2012/05/rulingclass.png

  Ég mundi setja Háskólann á Bifröst í kassann sem kallaður er Corporate Media.

  kk,
  Sverrir

 • Haukur Kristinsson

  Er ekki Háskólinn á Bifröst 2007 „illusion“?
  Vanhugsað og óvandað. Yfirborð, en lítið innihald. Útskrifar fólk, sem á lítið erindi í akademískt starf, í „ofsetnum“ greinum eins og og lög-, viðskipta- eða félagsfræði. Hópur, sem er þegar of stór fyrir samfélagið og endar nær undantekningarlaust á spena ríkis og sveitar.

  Ef SA eru aflögufær, því ekki að styrkja „basic research“ í raungreinum við HÍ, t.d. efnafræði, eðlisfræði, líffræði eða jarðfræði.
  Eða til tækjakaupa fyrir Matís.

 • Við hverju er að búst af stofnun sem gat útskrifað Vigdísi Hauksdóttur, sem lögfræðing?

 • Sigurður

  Þetta er ekkert bundið við Bifröst.

  Trúverðugleiki allra háskólanna er fyrir löngu kominn í ruslflokk þar sem hver sem er getur pantað sér skýrslu með fyrirfram ákveðinni niðurstöðu á spottpris.

  Hagfræðistofnun Háskólans lét sér t.d. nægja að skoða fréttatilkynningar frá fjármálafyrirtækjunum til að skila fyrverandi ríkisstjórn stimplaðri skýrslu um að svigrúm fjármálastofnanna í skuldamálum væri fullnýtt.

  Þurftu ekki eina einustu blaðsíðu af frumgögnum til að komast að niðurstöðu.

 • Stefán Ólafsson

  Ég er sammála Einari um þetta.

  Fyrsta stóra verkefnið á að vera rannsókn á framkvæmd kjarasamninga á Íslandi. Vilhjálmur Egilsson, sem áður fór með framkvæmd kjarasamninga fyrir hönd atvinnurekenda, á að stýra verkefninu. Hann er ágætur maður en ekki fræðimaður og fjarri því að vera hlutlaus, ekki síst hvað þetta viðfangsefni varðar, enda stýrði hann kjarasamningum fyrir atvinnurekendur um langt árabil.

  Þarna er eins og fjársterk hagsmunasamtök séu að kaupa sér nafn háskólans sem vettvangs fyrir hagsmunabaráttu sína á sviði kjarasamninga. Þannig hljómar í öllu falli yfirlýsingin sem birt var um þetta að hálfu aðilanna.

  Þetta er svolítið í ætt við það að háskóli á Ítalíu hefði ráðið Berlusconi til að rannsaka spillingu í ítölskum stjórnmálum, eftir að hann lét af störfum í stjórnmálunum (ef hann hefur þá gert það yfirhöfuð)!

  Tek fram að ég er þó alls ekki að saka Vilhjálm um spillingu af neinu tagi. Hann gæti bætt stöðuna með því að fá einhvern vandaðan aðila sem er tengdur hagsmunum launþega að stjórn verkefnisins með sér, t.d. verkalýðsleiðtogann á Akranesi. Svo ætti að gera út alvöru fræðimenn til að vinna verkið og færa þeim sjálfstæði.

 • Pétur Örn Björnsson

  Það er svo sem ekkert nýtt að „háskólar selji sig“ og vel þekkt að prófessorar þeirra, dósentar og lektorar séu þar vel liðtækir til þeirra verka og vart eru þeir íslensku minna breyskir en annarra landa.

  Má í þessu samhengi minna á frábær orð Chris Hedges sem sagt hefur að nú á tímum sé svo komið að margir hákólar vinni hreinlega gegn sannri þekkingarleit:

  „…lawyers destroy justice,
  universities destroy knowledge,
  governments destroy freedom,
  the press destroys information,
  religion destroys morals,
  and our banks destroy the economy.”

  • Pétur Örn Björnsson

   Afsakið það gleymdist óvart eitt s
   en vott ðe diff
   háskólar eða hákólar?

 • Sigmundur Guðmundsson

  HÁSKÓLAVÆNDIÐ breiðir úr sér !!

  Það hefur lengi verið stundað við Suðurgötuna.

  Eru menn búnir að gleyma skýrslum Tryggva Þórs Herbertssonar
  fyrir Viðskiptaráð og Olíufélögin.

  Nú eða lofsöng Snjólfs Ólafssonar um íslenska efnahagsundrið

 • Þar sem fólki hér sé nokkuð niðri fyrir er rétt að benda á það að Háskólinn á Bifröst hefur verið í miklum tengslum við atvinnulífið undanfarna ártugi og að Samtök atvinnulífsins hafa verið ein helsti bakhjarl skólans um langt skeið.
  Bifröst hefur um árabil starfrækt rannsóknarmiðstöð verslunar. Þar hefur verið unnið gagnlegt starf.

  Ég átta mig ekki á því hvort sú rannsóknarmiðstöð mun starfa við hlið þessarar nýju miðstöðvar eða þær renni í eina sæng.

  Ég vil sjá betur hvernig þetta verður útfært áður en ég fer að tjá mig mikið um þetta, en að minnsta kosti eru þessi samningar gerðir fyrir opnum tjöldum, milli skólans sjálfs og samtakanna. Það hefur nefnilega ekki alltaf verið sérlega gegnsætt hvernig hagsmunaaðilar koma að stuðningi við háskóla og rannsóknir í gegn um tíðina.

 • Áhugamenn um hagsæld og farsæld!

  Útvegum háskólanum það fé sem hann þarfnast.

  Og sjáum hann síðan í friði.

 • Doktor Samúel Jónsson

  Baular hún þar á brúnni
  í brók sem er grá:
  Taktu nú minn tuddi halann frá
  og troddu inn sem á frúnni.

 • Bjarni Kjartansson

  Eftir þjónkun HÍ við LÍ júgarana og svo síðar við banksterana, er ekki mikið eftir af viðrðingu fyrir pöntuðum niðurstöðum sem fást gegn gjaldi, líkt og fróun fæst á öðrum vetvangi.

  Vildi óska, að HÍ gæti rutt út úr sínum ranni, öllu slíku en þar þarf líklega utanaðkomandi, líkt og fyrir botni Miðjarðarhafsins forðum í Musterinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur