Það er best að taka fram strax að þær tölur sem hér eru nefndar eru alls ekki nákvæmar. En þær eru nógu nálægt lagi til að gefa raunsanna mynd af fáránleika málsins. Það er líka rétt að taka fram að þótt ég fjalli ekki um Háskólann í Reykjavík, þá er ekki allt í sómanum þar, þótt vandamálið sem ýjað er að í fyrirsögninni eigi síður við þar.
Á Íslandi er hlutfallslega álíka margt fólk í háskólanámi eins og mest gerist í heiminum. Í flestum löndum með svo stórt háskólakerfi er það gjarnan tvískipt (eða jafnvel þrískipt). Kalifornía er ágæt til samanburðar við Ísland, því þar er langstærstur hluti háskólakerfisins rekinn af ríkinu og auðvelt að finna nokkurn veginn fjölda nemenda í kerfinu öllu (og einnig í einkaskólunum).
Að vísu eru líklega hlutfallslega miklu fleiri útlendingar í akademískum stöðum í Kaliforníu en á Íslandi og hlutfallslega miklu fleiri Íslendingar sem fara í nám erlendis, ekki síst framhaldsnám, auk þess sem mikill fjöldi íslenskra háskólakennara starfar erlendis. Þannig má ganga út frá því að hlutfall hæfra akademískra starfsmanna sé miklu hærra í Kaliforníu, og hlutfall góðra nemenda (sem eiga erindi í nám í rannsóknaháskóla) líka.
Í Kaliforníu, þar sem búa 38 milljónir, eru líklega um 10-15% háskólanemanna í rannsóknaháskólum, þar sem þær kröfur eru gerðar til kennara að þeir séu líka virkir í rannsóknum. Það myndi varla samsvara nema 2.500 nemendum á Íslandi, ef Ísland væri með jafn öflugt framhaldsnám og Kalifornía, sem ekki er raunin. En, á Íslandi eru allir háskólanemar, um 18.000, í skólum sem þykjast vera rannsóknaháskólar. Af þeim eru um 15.000 í ríkisháskólunum, þar sem allir akademískir starfsmenn fá 40% launa sinna fyrir að stunda rannsóknir.
Er Ísland eitthvað sérstakt?
Það er því varla ofreiknað að 80% akademískra starfsmanna háskóla á Íslandi séu á launum við að stunda rannsóknir sem ekkert vit er að setja peninga í. Nema við göngum út frá því að þetta hafi allt verið satt sem sagt var fyrir hrun, og Íslendingar séu í raun ofurmenni í alþjóðlegum samanburði.
Hitt er svo annað mál að það þarf varla tölfræðilegan samanburð af þessu tagi til að komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað mikið sé að; það er nóg að kynna sér af handahófi rannsóknaframlag akademískra starfsmanna íslensku ríkisháskólanna. (Og þá þarf að geta þess fyrst að í þessum háskólum, aðallega HÍ, er að finna mikið af góðu vísindafólki, og talsvert af fólki sem stendur framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði. Það fólk líður einmitt fyrir það hvernig takmörkuðu rannsóknafé ríkisskólanna er varið í undirmálsfólk, á meðan umhverfi þeirra sem eitthvað geta versnar í mörgum tilfellum ár frá ári.)
En, þótt til sé talsvert af góðu vísindafólki á Íslandi hafa ansi margir starfsmanna ríkisháskólanna aldrei stundað neinar rannsóknir sem eru gjaldgengar í því alþjóðasamfélagi sem íslensku skólarnir þykjast vilja standa framarlega í. Þess vegna er líka gefinn út urmull af „ritrýndum fræðiritum“ á íslensku, á sviðum eins og menntavísindum, hjúkrunarfræði, sálfræði, verkfræði og viðskiptafræði. Það liggur í augum uppi að það er ekki hægt að viðhafa alvöru ritrýningu í svo örlitlu fræðasamfélagi sem Ísland er, því þeir örfáu sérfræðingar sem til eru á hverju sviði þekkjast allir, og starfa gjarnan í sömu háskóladeildinni. Enda dytti engum sæmilegum háskóla í hug að vera með sín eigin tímarit, sem tækju við greinum bara frá starfsmönnum skólans, sem væru svo ritrýndar eingöngu af starfsmönnum sama skóla. Hvað þá á tungumáli sem bara einn af hverjum tuttugu þúsund jarðarbúum les. Þetta er eitt af því sem er hollt að reyna að útskýra fyrir útlendingum, sem jafnan stara á mann eins og maður sé að segja mjög ófyndinn brandara.
Það er að sjálfsögðu fáránlegt að gefa út „fræðirit“ á íslensku á sviðum sem augljóslega eru alþjóðleg í eðli sínu. Tilgangurinn er auðvitað sá að akademískir starfsmenn háskólanna geti safnað sér þeim stigum sem þarf til að fá framgang og auknar launagreiðslur, fyrir ritverk sem ekki er hægt að fá birt einu sinni í lökum alþjóðlegum tímaritum, af því að verkin eru einfaldlega of ómerkileg. Það er fleira galið við stigakerfi ríkisháskólanna, því það mælir nánast bara magn, en ekki gæði, og hvetur því til framleiðslu á ómerkilegum rannsóknum. Enda er það engin furða að hvergi utan Íslands hefur nokkrum sæmilegum háskóla dottið í hug að nota slíkt kerfi.
Hvað væri hægt að gera?
Ég hef stundum velt fyrir mér að skrifa um þetta langa grein þar sem bent væri á dæmi um fáránlegar „ritrýndar“ birtingar, t.d. greinar sem byggja á skoðanakönnunum um viðhorf fólks til einhverra óljósra hluta þar sem þáttakendur eru örfáir, ekki valdir af handahófi, svarshlutfallið innnan við 50% og niðurstöðurnar segja greinilega ekki nokkurn skapaðan hlut, þótt dregnar séu ályktanir um að hlutirnir „gætu“ kannski verið svona eða hinsegin, og að rétt væri að gera „eigindlega“ rannsókn til að komast að einhverju sem engin leið er að sjá að svaraði neinum spurningum sem ættu erindi lengra en í vangaveltur um daginn og veginn í dagblaði. Eða manneskjur sem fengið hafa framgang í prófessorsstöðu án þess að hafa birt eina einustu ritrýnda grein, hvað þá að hafa lokið doktorsprófi. Eða prófessora með doktorspróf en nánast engar birtingar á alþjóðavettvangi eftir það. Ef þetta væru einstaka undantekningar væri ástæðulaust að gera mikla rellu út af því, en þetta er miklu algengara en flesta grunar sem ekki hafa kynnt sér málið.
Vandamálið við að skrifa slíka grein er að í eins litlu samfélagi og á Íslandi er ekki gott að benda opinberlega á þá einstaklinga sem um ræðir, því auðvitað er það sárt fyrir þá, og ekki við þá að sakast, heldur hina sem bera ábyrgð á sjálfu kerfinu. Auk þess er vandamálið ekki endilega þessi öfgafyllstu dæmi, heldur hitt að mikill fjöldi akademískra starfsmanna íslensku háskólanna nær ekki því máli að vera gjaldgengir á þeim alþjóðavettvangi sem þessir skólar ættu að starfa á. En, það væri hægur leikur að gera úttekt á þessum málum og manni getur fundist það skrítið að yfirvöld menntamála skuli aldrei hafa látið gera alvöru slíkar úttektir, til að fá raunsætt mat (óháðra erlendra aðila) á stöðunni. Slíkar úttektir eru gjarnan gerðar í erlendum háskólum, og ekki í þeim tilgangi að kaupa falskan gæðastimpil heldur til að fá mat á hver raunverulegur styrkur er á hinum ýmsum sviðum rannsóknastarfsins. Á grundvelli slikrar úttektar væri hægt að skipta íslenska háskólakerfinu upp í lítinn rannsóknaskóla og svo kennsluskóla sem ekki þættist vera með rannsóknir, heldur bara áherslu á góða kennslu.
Helsta ástæða þess að slíkar kannanir eru ekki gerðar er auðvitað hið undursamlega íslenska klíkusamfélag (auk skiljanlegrar hræðslu forystu HÍ við útkomu slíkrar könnunar). Undirmálsfólkið sem hefur tögl og hagldir í háskólakerfinu er nefnilega í afar góðu „talsambandi“ við þau yfirvöld sem bera æðstu ábyrgð á þessu kerfi, og þess vegna ríkir djúpur og gagnkvæmur skilningur á tilgangsleysi þess að rugga bátnum, hvað þá að benda á að hann er hriplekur.
Ef svo ólíklega vildi til að nýr menntamálaráðherra hefði aðrar skoðanir á þessu en fyrirrennarar hans ætla ég að benda honum á að lesa þessa álitsgerð, þar sem reifaðar eru tillögur um hvernig hægt væri að stórefla íslenska hákólakerfið. Það væri meira að segja hægt að gera án þess að auka fjárframlög, ef hætt væri að greiða fólki fyrir rannsóknir sem annað hvort eru engar eða svo lélegar að þær fást ekki birtar fyrir utan landsteina þessa smáríkis.
Veit ekki, það er mikið af rannsóknum sem kannski hafa ekki alþjóðlega tilvísun en geta samt verið gagnlegar fyrir samfélagið í mismunandi skilningi þess orðs. Jafnvel mætti segja sem svo að rannsókn án rannsóknarvöru geti verið gagnleg. Þannig gæti verið mikilvægt að dósent í ferðamálafræði, sé að kynna sér, lesa sér til,taka þátt í umræðu og fylgjast með faginu. Þannig að í raun væri alveg eins hægt að kalla þenna hluta starfsins fræðimennsku. Kannski má segja að vandinn sé að það er litið á sem ýmiss konar virðingarvert dútl sem framúrskarandi en önnur tímafrek og erfið starfsemi fræðimanna sé lítils metin. Og þeir sem eiga minna erindi í slík fræðastörf, gætu þá kannski verið með minni rannsóknarhluta og öfugt.
Það er augljóst að háskólar hér geta ekki ætlast til þess að allir akademískir starfsmenn séu fremstir alþjóðlega á sínu sviði (launin maður, launin!), bara alveg eins og við erum ekki með bestu íþróttamennina og besta listafólkið. Það þýðir samt ekki að maður geti ekki farið á leik eða hlustað á tónverk. Eina krafan sem hægt er að gera að þetta sé besta fólkið á Íslandi (þmt útlendingar á Íslandi).
Besta grein sem ég hef lesið lengi
Þetta er ástæðan fyrir því að maður hittir reglulega fólk með Masters gráður sem skilur ekki vísindalega aðferð.
Og líklega líka ástæðan fyrir því að fyrrverandi þingmaður sem ætlaði að láta ríkið greiða fyrir smáskammta“lækningar“ , er núna fremst í röð, um að vera ráðinn sem Formaður félags“vísinda“deildar Háskólans á Akureyri.
Pétur: Ég er ekki með svo róttækar tillögur að skera eigi háskólastarf stórlega niður (þótt ég teldi rétt að láta fara fram alvöru úttekt á gæðum þess alls, og svo yrði lokað ýmsum námsbrautum sem ekki er akademís innistaða fyrir, eins og t.d. gerist öðru hverju í Svíþjóð, af því að þeir sem bera faglega ábyrgð á þeim hafa bara engar forsendur til þess).
Það sem ég tel að væri rétt að gera er að búa till einn þokkalegan rannsóknaskóla, sem hýsti þær greinar og starfsfólk sem standa undir slíku í alþjóðlegum samanburði, en afgangurinn yrði settur í kennsluskóla þar sem ekki væri verið að halda fram að fram færu rannsóknir.
Þetta er útfært svolítið nánar í plagginu sem ég benti á hér að ofan:
http://blog.pressan.is/einar/wp-content/uploads/sites/148/2013/10/alit-med-formala-thoro-mkm-es.pdf
Hæverskan mun ríkja í Hug- og Félagsvísindadeild; lítilætið, ljúfmennskan, fölskvaleysið, vináttan. Sælir eru friðflytjendur.
Eru ekki að finna í þessari grein ágætis rök fyrir að það sé ekki bara einn háskóli á Íslandi og að samstarf við sem flesta erlenda háskóla verði eflt til muna? Eru ekki flestar rannsóknir og ritrýnd verk sem gefin eru út hér á landi líka gefin út á í það minnsta ensku?
Ég held að það sé margt rétt í þessu. Það að líkja íslenska háskólakerfinu fjársveltu með lið heimalinga og bera saman með betri háskólasamfélög miljónaþjóða sem eru með margföld fjárlög og allt aðra starfsaðstöðu. Eins og að líkja Barcelona eða Real Madrid við Fylki eða Aftureldingu.
Fámennið og agnarsmátt málsvæði gerir þetta að litlum og þröngum dal.
Ísland er eina landið sem sem grunnskólanemi kostar meira en háskólanemi og síðan er þessu dreift í litlar og veikburða einingar. Fáheyrt að verið sé að kenna lögfræði á 4 stöðum á akademísku plani á við menntaskóla. Augljóslega er hér verið að verðfella æðri nám á Íslandi. Hver útskrifar fólk með gráður á minnstu verði enda eru margar „masters ritgerðar“ ákaflega slaklegar. Það virðist vera meira lagt í bílastæði, yfirstjórn og lúxus en hina akademisku tradisjon.
Ég þekki bara rétt aðeins til Raunvísindasviðs en vel til Heilbrigðissviðs. Raunar sá ég fyrir árið 2011 eru það þessi tvo svið sem birta yfir 90% af ISI fræðigreinum sem komu frá Háskóla Íslands voru samtals yfir 600 greinar og raunar birtu 93% af „hágæðafræðigreinum“ (í þeim 10% hæstu fræðigreinum metnum út frá impact factor).
Klárlega er þetta merkilegt kerfi þar sem mat á impact factor (með kostum þess og göllum) segir til um „akademska þyngd“ viðkomani tímarits sem sýnir hversu oft er vísað í viðkomandi tímarit alþjóðlega en það má hafa hliðsjón af þessu. Raunar skilst mér að tvær greinar í Læknablaðinu (sem er með Impact factor 0,25) eða Skírn gildir jafn mikið og ein grein í New England Journal of Medicine (Impact factor 52) eða Nature. Klárlega mun hrun íslenska heilbrigðiskerfisins valda hruni á impact factor háskólans með flótta lækna og það að fólk hættir við að koma tilbaka.
Heimalingarnir sem ekkert hafa sýnt munu ala upp nýja heimalinga.
Það er alveg rétt, Gunnr, að stigagjöfin í þessu kerfi ríkisháskólanna er slík að það fást að jafnaði miklu fleiri stigi fyrir grein birta í íslensku tímariti en einhverju af þeim tímaritum sem erfiðast er að fá inni í í heiminum. Af því að það eru, í svo mörgum greinum, nánast alltaf margir höfundar á grein, þótt flestir þeirra vinni óskaplega ĺitið verk. Eitt mest sláandi dæmið um þetta er grein í Nature þar sem Freysteinn Sigmundsson er fyrsti höfundur (um lærdóma af Eyjafjallajökulsgosinu). Fyrir hana fær hann miklu færri stig en fæst fyrir tveggja höfunda grein í Tímariti um stjórnmál og stjórnsýslu eða einhverju af öllum þessum íslensku tímaritum þar sem sumar „ritrýndu“ greinarnar virðast vera skrifaðar af mistækum menntaskólanemum.
Þetta er eitt af því sem enginn trúir þegar maður reynir að útskýra þetta kerfi fyrir útlendingum.
Það verður bara að segja eins og er … Háskólarnir á íslandi eru í raun menntaskólar; Það er búið að gengisfella námið nógu mikið í flestum stöðum.
Og þessvegna eru stjórnsýsla, stjórnmál og fyrirtækjamenning eins og þau eru hérlendis.
Mjög góð og athyglisverð grein, en ég held að það sé varasamt að gera ráð fyrir að raunveruleg menntun sé eitthvað mikið betri almennt séð í erlendum háskólum. Það er orðið ótrúlega algengt að sjá fólk með Master og jafnvel PhD sem virðist ekki átta sig á vísindalegu aðferðinni, kann ekki að fara með heimildir og sér ekkert athugavert við að tjá sig um rannsóknir og málefni án þess að hafa lesið viðkomandi frumheimildir sjálft.
Til er viðtal einhverstaðar við Noam Chomsky þar sem hann kvartar yfir því að sauðheimska PhD sé jafnvel að finna við kennslu í flottustu skólum BNA.
Og fræðimenn sem sáu fyrir vandamálin við efnahagskerfið áttu alveg jafn erfitt með að fá áheyrn í BNA og hér á Íslandi, fyrir hrun. Háskólasamfélagið þar var alveg jafn mikill og vonlaus jarmandi já-kór og hér.
Símon,
Það er alltaf hættulegt að alhæfa þótt maður geri það ótt og títt. Það sem Steingrímur er að benda á að kerfið þarf að endurspegla það innra mati og þar þarf að koma gjörbreytt afstaða frá Háskólayfirvöldum. Yfirleitt fá rannsóknarháskólar margföld fjárlög kennsluháskóla en þetta er öfugt þessu farið á Íslandi þar sem HÍ liggur lang lægstur án þess að ég held að hinir séu neitt vel fóðraðir. Klárlega er það út í hött að hafa 7 háskóla í 320 þús manna samfélagi ef það er þá átt við „university“ (rannsóknarháskóla). Íslenskan gerir ekki greinarmun á „university“ og „university collage“ (sem í Svíþjóð er högskola, Noregi høyskole/høgskole/høgskule, Danmörk professionshøjskole) sem þýða má sem kennsluháskóli þar eru litlar rannsóknir gerðar og höfuðmarkmiðið er kennsla.
Akademiskur meritt Háskóla Íslands (sem er metinn í ca. 280 sæti) en hangir þar á Heilbrigðissviði og Raungreinasviði. Hinir 6 meintu háskólar á Íslandi komast ekki á blað yfir 5000 bestu háskóla heimsins. Hversu flott lógó eða húsnæði þeir eru með. 30-40% af mælikvarðanum er magn og stigun á ISI (alþjóðalega skráðum) fræðigreinum og þar vega gæði (í impact factor) þungt og það er úr hluta Læknadeildar og litlum hluta Raungreinasviðs sem næstum allur vísindalegur þungi Háskóla Íslands kemur. Spurningin er hvort menn vilja láta það endurspegla fjárfrömlög en þá er stigið á stóran hóp heimalinga sem jarma með og vilja augljóslega ekki hagga við þessu kerfi.
Gunnr, ég er sammála Steingrími og þér, og líst vel á tillögurnar til þess að bæta háskólaumhverfið hérna. Þess vegna hrósaði ég pistlinum. En þótt við förum eftir þessum tillögum þá sitjum við samt uppi með sama fílinn í herberginu og allir fínu skólarnir í útlöndum. Þessi umræða þarf sem sagt að ganga lengra en einhverstaðar verðum við að byrja..
Það má einnig spyrja sig hvort ekki sé vert að ígrunda hvar mestu vaxtarmöguleikarnir eru. Fyrirsögnin hér er forgangsröðun. Hvað eigi að kenna á Íslandi og hvað erlendis.
Raunar eru þær greinar sem best standa sig hluti læknisfræðrannsókna og jarð/jarðeðlisfræði sem draga inn erlent rannsóknarfé. Spurning hvort ekki eigi að ná nánari tengslum við einn eða fleirri erlendan háskóla. Losna við landlægan klíkuskap sem er eitt af einkennum fámennskunar.
Fjarkensla er sáralítið notuð en gæti augljóslega nýst betur bæði hvað varðar fyrirlestra frá erlendum háskólum og eins um landið sem myndi nýtast landsbyggðinni miklu betur. Hvað varðar undirbúning og að tileinka sér námsefni og ná skilningi. Sem gefur þá betri tíma til rannsókna og skapandi vísindastarfs. Rannsóknir tengdar lyfjaiðnaði og jarðhita, eldfjallafræðum, jarðskjálftum og þvílíku sem og rannsóknir í læknisfræði en fram að þessu hðfum við haft aðgang að fólki frá bestu háskólasjúkrahúsum nágrannalandanna. Íslensk heilbrigðisþjónusta hefur verið í frjálsu falli síðustu 5 árin og er í raun komin fram af brúninni og það mun augljóslega fara að bera þess merki í vísindavinnu og hreinlega mannaflskorti enda hefur kerfið byggt á innflæði fólks frá háskólasjúkrahúsum bæði Bandaríkjanna og Evrópu þar sem þetta fólk hefur þá oft lokið PhD námi til viðbótar sérhæfingu og þetta fólk hefur verið ákaflega verðmætt íslensku vísindastarfi og miklu verðmætara en við höfum gert okkur grein fyrir.
Ég veit ekki hvaða stefnu stjórnvöld eða forráðamenn þessara svokölluðu háskóla hafa. Mér finnst það vera að verja sitt og sína. Halda fólki frá atvinnuleysi með því að hrúga því inn í nám sem er meira eða minna ofgnótt og skilar í raun sáralitlu. Ástæðan, er að það kostar minnst og enda hægt að ráða stundakennara sem vinna nánast fyrir ekki neitt enda sést þetta berlega á risastórum sviðum háskólanna sem eru í raun á menntaskólastigi hvað varðar akademíu og professorar hafa vart lokið doktorsnámi og ef svo er ekki birt neitt af viti í áratugi.
Ef menn sjá framtíð Íslands sem láglaunaeyju með fiskveiðum, ferðamennsku og málmbræðslum í gjaldeyrishöfum með hrunið fjármálakerfi er það framtíð sem í raun lítl þörf er á langskólagengnu vinnuafli. Ferðamannaiðnaðurinn byggist á lágum launum og löngum vinnutíma. Klósettvarsla á Þingvöllum og að týna rusl á ferðamannastöðum og selja sælgæti, bensín og fjöldaframleitt glingur búa um rúm og önnur þjónustustörf.
Við erum á hornsteini næstu iðnbyltingar þar sem sjálfvirkni mun leysa mörg störf af. Fyrirtæki eru farin að flytjast frá löndum sem byggja á ódýru vinnuafli yfir til vestrænna landa vegna „robotics“. Við sjáum þetta í bankastarfsemi þar sem gríðarlegur niðurskurður á eftir að koma með fækkun útibúa og minni yfirbyggingu. VIð sjáum þetta í ferðamennsku hvað varðar farmiða og flug. Við eigum eftir að sjá þetta í auknum mæli í hvað varðar sjálfvirkni í almenningssamgöngum (sjálfvirkir strætisvagnar og leigubílar). Verslunin mun verða að stórum hluta sjálfvirk og það mun stærsti hluti færabandavinnu hverfa. Það er farið að selja alhliða róbota sem er hægt að nýta í minni fyrirtæki fyrir 20.000 dollara og núna er tímakaupið er komið undir 3$ sem er lægra en í láglaunalöndunum sem þýðir það að gömlu iðnaðarlöndin sem eru með tækniþekkinguna margfalda sín afköst. Þýskur bílaiðnaður er sólskynsdæmi og þetta smitast út í aðrar greinar eins og skipasmíðaiðnað þar sem hálaunaþjóðirnar eru að vinna tilbaka vinnu. Indverjar hafa byggt á „call center“ þeas aðstoð í gegnum síma vegna gríðarlegs mannafla. Þetta mun að mestu vera horfið eftir 10 ár með tölvukerfum sem byggja á tungumálaskilningi og gervigreind raunar sem eins og Siri á iPhone.
Klárlega fækkar störfum hraðara en ný myndast og hver framtíðin hér verður er erfitt að spá.
Takk fyrir góðan pistil Einar. Ég tek undir það sem þú segir og ástandið er mjög alvarlegt þegar stór hópur akademískra starfsmanna háskólanna er ekki að gefa út ritrýndar rannsóknargreinar og er þar með ekki að sinna starfsskyldum sínum. Ef slíkt myndi gerast á almennum vinnumarkaði væri viðkomandi starfsmaður látinn hætta. Því miður er það ekki raunin hér á landi og þeir sem ráða innan háskólanna skortir kjark til að taka á þessum málum.
Það þarf skilvirkara eftirlit af hálfu hins opinbera og í raun ætti allt rannsóknarframlag til háskóla að vera greitt eftir árangri, þ.e. fjölda ritrýndra greina og fjölda umsókna í rannsóknarsjóði. Það er mikið dásamað nú á dögum þessi stóri hópur sem stundar doktorsnám í háskólum landsins. Vandamálið er að stór hópur leiðbeinenda er ekki virkur í rannsóknum og þar með ekki hæfur til að leiðbeina doktorsnemum. Hefur þetta t.d. verið skoðað?. Það þarf að fara fram óháð úttekt á doktorsnámi á Íslandi og þá myndu eflaust koma í ljós margar lítt skemmtilegar staðreyndir. Það má samt ekki gleyma því að á Íslandi eru margir frábærir rannsakendur innan háskólasamfélagsins sem standa sig vel.
Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að háskólarnir fái tæpa 6 milljarða króna (þ.a. fær HÍ 4,4 milljarða króna) til rannsókna og kennsluframlagið verður rúmir 11. milljarðar króna. Ég held að það sé afar erfitt að réttlæta þessa 6 milljarða í rannsóknir ef stór hluti þeirra sem eiga að sinna rannsóknum eru ekki að sinna þeim. Eðlilegast væri að setja allt þetta fjármagn í samkeppnissjóði og úthluta eftir árangri og tryggja þannig um leið að besta rannsóknarfólkið fái styrki. Það er ljóst að það þarf að endurskoða þetta úthlutunarkerfi og vonandi koma fram á sviðið einstaklingar sem hafa kjark í þann slag.
Fyrst TAKK TAKK til greinarhöfundar, svo ber einnig að þakka Gunnarr fyrir hans innlegg, til dæmis þetta,,Akademiskur meritt Háskóla Íslands (sem er metinn í ca. 280 sæti) en hangir þar á Heilbrigðissviði og Raungreinasviði. Hinir 6 meintu háskólar á Íslandi komast ekki á blað yfir 5000 bestu háskóla heimsins. Hversu flott lógó eða húsnæði þeir eru með. 30-40% af mælikvarðanum er magn og stigun á ISI (alþjóðalega skráðum) fræðigreinum og þar vega gæði (í impact factor) þungt og það er úr hluta Læknadeildar og litlum hluta Raungreinasviðs sem næstum allur vísindalegur þungi Háskóla Íslands kemur. Spurningin er hvort menn vilja láta það endurspegla fjárfrömlög en þá er stigið á stóran hóp heimalinga sem jarma með og vilja augljóslega ekki hagga við þessu kerfi.“
Einnig þetta, sem ráðamenn og áróðurshákar vilja horfa framhjá við ákvarðanir um fjárfestingar. ,,Ef menn sjá framtíð Íslands sem láglaunaeyju með fiskveiðum, ferðamennsku og málmbræðslum í gjaldeyrishöfum með hrunið fjármálakerfi er það framtíð sem í raun lítl þörf er á langskólagengnu vinnuafli. Ferðamannaiðnaðurinn byggist á lágum launum og löngum vinnutíma. Klósettvarsla á Þingvöllum og að týna rusl á ferðamannastöðum og selja sælgæti, bensín og fjöldaframleitt glingur búa um rúm og önnur þjónustustörf.“
Endilega hafa það landsvæði,- sem best er í stakk búið til að verða alvöru framleiðsluhjarta framfara og vísinda í Tækni og Raungreina, — undir flugvöll sem þjónar ekki einusinni túrismanum, þar sem lægst hlutfall farþegar eru erlendir túristar.
Aftur TAKK!
Eitt sem oft gleymist í þessari umræðu er að það eru fjölmargir kennarar á háskólastigi sem eru einfaldlega góðir kennarar. Þeir eiga ekki auðvelt með að stunda eigin rannsóknir eða hafa kannski takmarkaðan áhuga á slíku. Þeim er enginn greiði gerður með kröfu um rannsóknarstarf en eru oft lykillinn að menntun væntanlegra vísindamanna og kvenna. Þess vegna er mikilvægt að vera bæði með rannsóknarháskóla og kennsluháskóla sem eru aðskildir.
Já, Daði, það er ein af skuggahliðunum á núverandi kerfi að fólk sem er góðir kennarar en ekki rannsakendur fær ekki möguleika á að nýta þá hæfileika sína og fá umbun fyrir það. Í kennsluskóla ætti það hins vegar sjálfkrafa að verða helsti mælikvarðinn á gæði, og grundvöllur umbunar.
Hitt er svo eitt af opinberu leyndarmálunum á þessu sviði að það er talsvert af háskólakennurum sem stunda engar rannsóknir sem ná máli, en eru líka vondir kennarar. Þeir geta hins vegar klifrað upp framgangs- og launastigann með því að framleiða einskis virði „fræðigreinar“ í íslensk tímarit.
Sko…. það að kenna á háskólasviði er talsvert krefjandi. Rannsóknarhlutinn/fræðihlutinn er nátengdur kennslunni því hann leyfir eða gerir kennaranum kleift að vera í tengslum við það sem hann er að kenna t.d. frekar en bara að lesa það upp úr bókum. Og öfugt, stundum poppar eitthvað upp í kennslu sem hægt er að vinna með frekar.
Þeir sem reynt hafa að kenna dag eftir dag í háskóla vita að það er mjög lýjandi og erfitt að halda uppi sínum eigin áhuga á viðfangsefninu við slíkar aðstæður. En eðlilega ætti að vera hægt að hvika þessum mörkum eitthvað þannig að sá sem stundar litlar rannsóknir kenni meira og öfugt.
Í stuttu máli eru kennarar í háskólum, fræðifólk/vísindamenn sem kenna, en ekki kennarar sem stunda fræðastörf/vísindi einhvern veginn auka.
Það gæti verið ágæt málamiðlun, Pétur, að hafa mismunandi kennslubyrði fyrir mismunandi kennara, þannig að þeir sem bestir eru í rannsóknum fengju betri tíma til að sinna þeim, en hinir sem lakari eru kenndu meira. Það er hins vegar vandséð að það mat sem yrði að liggja til grundvallar yrði af einhverju viti svo lengi sem yfirvöld í skólanum nota mælikvarða á gæði vísindastarfs sem meta miklu minna vinnuna á bak við grein í Nature en einhverjar menntaskólaritgerðir sem birtast í íslenskum tímaritum.
Auðvitað myndi ástandið snarbatna ef hætt væri algerlega að meta greinar í íslenskum tímaritum. En það væri ekki nóg. Það er mjög auðvelt að fjöldaframleiða nauðaómerkilegar greinar sem fást birtar í ISI-timaritum. Það sem vantar í þetta mat í íslensku ríkisháskólunum er einfaldlega það sem notað er annars staðar í heiminum: Jafningjamat.
Ég er hins vegar alveg sammála þér um að í góðum háskóla er það vísindafólk sem kennir en ekki öfugt.
Ritrýning á ofangreindu birtist á http://www.hugras.is
Gauti: Ég las grein þína. Ég sé hins vegar ekkert í henni sem mér finnst vera hægt að svara, því þú leggur hvorki fram rök né gögn sem ég sé að dugi gegn neinu af því sem ég segi. Ekki heldur sé ég að þú hrekir neitt af því sem ég segi. Ég tek eitt dæmi um það sem mér finnst missa marks hjá þér, ef markmiðið var að sýna fram á bresti í röksemdafærslu minni:
Þú telur það upp sem rök fyrir því að hægt sé að viðhafa ritrýningu á íslensku efni að hægt sé að nota Íslendinga starfandi erlendis. En þótt þeir séu margir eru þeir augljóslega örfáir á langflestum sérfræðisviðum (og þar sem þeir eru liklega fjölmennastir dettur engum í hug að birta bara á íslensku). Mikilvægast er þó að hafa í huga að allir þeir sem tala íslensku í heiminum eru nokkuð örugglega undir hálfri milljón talsins, og samanburðurinn breytist ekki svo neinu skipti við það, miðað við 300 þúsund, auk þess sem langflest slíkt háskólafólk hefur talsverð persónuleg tengsl við íslenska fræðimenn á sama sviði.
Þú nefnir líka að ég undanskilji Háskólann í Reykjavík, og þar nennti ég einfaldlega ekki að útskýra að munurinn væri sá að í HR eru akademískir starfsmenn ekki sjálfkrafa með 40% af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir. En þetta skiptir heldur engu máli í pistli mínum, því verið er að fjalla um ríkisháskólana (sem eru yfir 80% háskólakerfisins að umfangi).
Að síðustu má geta þess að ég er alveg sammála þér um að þessi „vinnubrögð“ mín væru „hláleg á hjá fyrsta árs nema“ í góðum háskóla, EF UM VÆRI AÐ RÆÐA fræðilega ritgerð. (Þú ert hins vegar illa að þér um þær kröfur sem gerðar eru víða í HÍ ef þú telur, eins og þú segir, að það eigi við um „flesta háskóla á Íslandi“.) Málið er auðvitað, eins og allir sjá, að þetta er ekki fræðileg ritgerð, heldur verið að benda á vandamál, með því að gera ýmiss konar samanburð sem er nógu nákvæmur til að vera marktækur, og með því að færa rök fyrir því, meðal annars, að birtingar á íslensku séu í langflestum vísindagreinum ekkert framlag til þess alþjóðlega vísindasamfélags sem þær tilheyra.
Hér eru fleiri svör sem ég hef póstað við grein Gauta þar sem hún birtist. Athugasemdir mínar bíða samþykkis þar:
Þegar ég tala um “undirmálsfólk” á ég við fólk sem nær ekki máli á þeim alþjóðavettvangi sem nánast öll vísindi eru. Ég tala sjálfur hvergi um “yfirburðamenn” sem þú telur óskilgreinda, þótt mér finnist hins vegar ekkert rangt við það í þessu samhengi. Í báðum tilfellum á ég við þá mælikvarða sem almennt eru notaðir í fræðasamfélaginu, þ.e.a.s. jafningjamatið. Ég benti líka á að skynsamlegt væri að gera úttekt á stöðu rannsókna við íslensku háskólana og fá til þess óháða erlenda sérfræðinga. Ég hef því ekki gefið í skyn, hvað þá haldið fram, að mat á íslenska rannsóknasamfélaginu ætti að byggjast á skoðunum vilhallra aðila, heldur þvert á móti, og ég útskýrði líka í pistlinum af hverju slíkar alvöru úttektir eru eitur í beinum þeirra sem með völdin fara í háskólakerfinu.
Síðast en ekki síst væri áhugavert að heyra skoðanir þínar, Gauti, á þeim tillögum sem hér er að finna:
http://blog.pressan.is/einar/wp-content/uploads/sites/148/2013/10/alit-med-formala-thoro-mkm-es.pdf
Og, þar sem slóðin sem Gauti setti hér að ofan leiðir ekki á sjálfa grein hans, set ég þetta hér:
http://www.hugras.is/2013/10/ritryning-a-grein-eftir-einar-steingrimsson/
Eru hugleiðingar manna hér á Eyjunni almennt ætlaðar til ritrýni og birtingar í vísindatímaritum?
(Tek fram að ég bið ekki um ritrýni á spurningu mína).
Nja, mér finnst þetta dálítið sérkennileg tilætlun sem Gauti virðist hafa. 🙂
Og, ég mun svara grein Gauta á næstunni. Á íslensku, en að vísu ekki í fræðitímariti. 🙂
Áhugaverðar umræður. Verst að þú sért ekki með facebook tengingu við kommentin. Það er svo leiðinlegt að lesa umræður þar sem menn koma ekki fram undir nafni.