Mánudagur 14.10.2013 - 11:17 - 4 ummæli

Lygasagan um gæði íslenskra háskóla

[Breytt kl. 21:55, 7. apríl 2015:  Mér hefur verið bent á að staðhæfing mín í þessum pistli um samband Háskóla Íslands og Vilmundar Guðnasonar, forstjóra Hjartaverndar, sé röng. Ég vil ekki breyta pistlinum svo löngu eftir að hann er skrifaður, en set athugasemd við þetta í honum sjálfum líka. Og biðst hér með afsökunar á þessu ranghermi mínu.]
Gauti Kristmannsson birti s.l. föstudag grein á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, þar sem hann gagnrýnir þennan bloggpistil minn.  Ég hef nú svarað gagnrýni Gauta í löngu máli, á sama vettvangi, og  þann pistil birti ég líka hér (á undan þessum).  Af því að sá pistill er mjög langur tek ég hér saman helstu atriðin úr því sem ég sagði í upphaflega pistlinum, og sem ég  skýrði ítarlega í svarinu til Gauta.
1.  Á Íslandi er umfang hákólakerfisins hlutfallslega með því mesta sem gerist í heiminum (mælt í fjölda nemenda).  Í íslensku ríkisháskólunum eru allir (fastráðnir) akademískir starfsmenn í rannsóknastöðum, þ.e.a.s. fá stóran hluta af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir.  Þetta er óþekkt í sambærilegum löndum, þar sem langt innan við helmingur háskólakennara  er í rannsóknastöðum
2.  Ef við göngum út frá því að Íslendingar séu ekki afburðafólk í alþjóðlegum samanburði, og að í öðrum löndum sé rannsóknageta ekki gríðarlega vannýtt, þá er ljóst að verið er að eyða miklu fé í rannsóknir sem annað hvort eru engar eða ná alls ekki máli á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allar vísindagreinar tilheyra, og sem HÍ (og HR) segjast ætla að komast framarlega á.
3.  Gefinn er út fjöldi tímarita á islensku sem sögð eru ritrýnd (þ.e.a.s. að farið hafi fram strangt fræðilegt mat óháðra sérfræðinga á greinum áður en þær eru samþykktar til birtingar).  Þetta er fásinna, því íslenska fræðasamfélagið á tilteknu sviði er sjaldan meira en örlítið brot af því sem alþjóðasamfélagið er, og er þó oft ærið verk fyrir ritstjóra alþjóðlegra tímarita að finna hæfa rýnendur fyrir greinar.  Auk þess er óhjákvæmilegt að ritrýnendur séu oft ekki bara úr sama háskóla heldur úr sömu deildinni, sem býður upp á hagsmunaárekstra af því tagi sem þarf að forðast í slíku ferli.
4.  Ástæða þess að gefin eru út svo mörg tímarit á íslensku er nokkuð augljóslega sú, í flestum tilfellum, að í þeim eru birtar greinar sem erfitt eða ómögulegt er að fá birtar í sæmilegum alþjóðlegum tímaritum.  Auk þess eru höfundar oft alls ekki í tengslum við alþjóðasamfélagið á sínu sviði, þótt um sé að ræða svið sem eru alþjóðleg í eðli sínu, svo sem verkfræði, hjúkrunarfræði, sálfræði, viðskiptafræði eða menntavísindi.
5.  Að það sé þjónusta við almenning að birta fræðigreinar á íslensku er fráleitt, af því að leikmenn geta sjaldan lesið fræðilegar greinar sér til gagns, af því að nánast allir sem það geta lesa ensku hvort sem er, og af því að fræðimenn eiga að þjóna þessu hlutverki með því að tjá sig á öðrum vettvangi, með hætti sem er aðgengilegur almenningi. Gott dæmi um hið síðastnefnda er Vísindavefur Háskóla Íslands.
6.  Forysta Háskóla Íslands hreykir sér af því að  hann sé kominn á lista yfir 300 bestu háskóla í heimi.  Sannleikurinn er sá að skólinn hefur aðeins komist inn á einn slikan lista, þótt þeir séu talsvert fleiri.  Það sem verra er, þetta var gert með bókhaldsbrellum, þ.e.a.s. með því að gera Kára Stefánsson og Vilmund Guðnason [<< Rangt um Vilmund; sjá aths. í upphafi pistilsins] að prófessorum við skólann.  Það þýðir að HÍ getur talið sér til tekna nánast allar fræðigreinar sem hin geysiöflugu fyrirtæki Erfðagreining og Hjartavernd birta, án þess að skólinn hafi með þessu lagt nokkuð til þeirra rannsókna, né heldur eflt rannsóknastarf á Íslandi.
7.  Ríkisháskólarnir notast við stigakerfi (vinnumatskerfi) sem hvetur beinlínis til fjöldaframleiðslu á drasli, t.d. greinum í íslensk tímarit sem eru augljóslega innihaldslaus þvæla, eða eins ómerkilegum greinum og hægt er að fá birtar í alþjóðlegum tímaritum, í stað þess að meta að verðleikum það sem best er.
8.  Ef hætt væri að greiða laun fyrir rannsóknir sem annað hvort eru engar eða langt undir öllum viðunandi viðmiðum í gæðum væri hægt að nota féð til að stórefla það sem gott er í háskólum landsins.  Það væri áhrifaríkasta leiðin til að auka styrk háskólanna á alþjóðavettvangi.
9.  Ef háskólayfirvöld á Íslandi kærðu sig um að nota það fé sem veitt er til rannsókna til að efla rannsóknastarf gætu þau veitt miklu stærri hluta þess gegnum samkeppnissjóði, þar sem fram fer strangt mat (með óháðum erlendum matsmönnum) á umsóknum, í stað þess að afhenda það háskólum þar sem engar slíkar kröfur eru gerðar um gæði.
10.  Ef ríkisháskólarnir vildu efla rannsóknir sínar til muna myndu þeir hætta að hafa fjölda akademískra starfsmanna í rannsóknum sem ekki skila neinu sem er þess virði að styrkja.  Í staðinn væri hægt að nota féð til að byggja upp rannsóknahópa sem hafa til þess burði, með því að ráða til þeirra fleira fólk, bæði fastráðna, doktorsnema og nýdoktora.
11.  Til að skera úr um það hvaða starfsemi er þess virði að hlaða undir hana er tiltölulega einfalt mál að fá hóp óháðra (erlendra) sérfræðinga til að gera úttekt á starfinu, í alþjóðlegum samanburði.
12.  Andstaðan við slíka úttekt stafar af því að hún myndi óhjákvæmilega leiða í ljós miklar gloppur í kerfinu, þar sem mikið fé hverfur til einskis.  Meðal annars myndi koma í ljós að þótt á öllum sviðum háskólanna sé til gott fræðafólk, og sums staðar afburðafólk, þá eru heilu sviðin (t.d. Félagsvísindasvið og sérstaklega Menntavísindasvið HÍ) með gríðarlegan fjölda starfsmanna sem engu skila á alþjóðavettvangi.
13.  Ein leiðin til að stokka upp kerfið er að skipta því í einn rannsóknaháskóla og nokkra kennsluháskóla.  Í þeim síðarnefndu yrði lögð áhersla á góða kennslu, t.d. á sviðum eins og kennaramenntun og viðskiptafræði, og góðir kennarar metnir að verðleikum, en ekki stundaðar rannsóknir.  Nánari útfærslu á þeirri hugmynd má sjá hér, í álitsgerð sem lögð var fram í svokölluðum „rýnihópi ráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins“ sumarið 2009.  (Skemmst er frá því að segja að þessar tillögur voru algerlega hunsaðar, og hópurinn skilaði tillögum um engar breytingar á kerfinu.)
14.  Til að skilja molbúaháttinn sem einkennir raunverulega stefnu forystu HÍ og HR, sem báðir segjast ætla að verða öflugir rannsóknaháskólar á alþjóðavettvangi, er gott að hafa þetta í huga:  Af þeim 10-12 manneskjum sem mynda æðstu akademísku stjórn þessara skóla hefur ekki ein einasta neina teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Það mátti við því búast að einhver möppudýr myndu mótmæla þegar þeim kósý forsendum, sem menn þykjast hafa til að kalla sig „fræðimenn“, er ógnað með almennri skynsemi og smá birtu.

  • Ólafur Sigurðsson

    Það er eins og allt stjórnkerfið, skólakerfið, tja, sama hvar maður kemur að hlutunum. Moldbúahátturinn ræður allsstaðar. Ætli sé ekki best að ganga í Framsókn eða XD til að fá djobb, …. gæti þá verið að svo margir hafi gert einmitt þetta! …. og flestar stofnanir samfélagsins séu allar svo sjúkar af moldbúahætti að eina leiðin sé einfaldlega sú að kjósa moldbúana til að stjórna áfram svo að allt hrynji ekki?

  • Sigmundur Guðmundsson

    Einar !

    Nú hlýtur Bessastaðabóndinn að hengja á þig svo sem eina Fálkaorðu !!

  • Bjarni Kjartansson

    Enn ber að þakka þessa samantekt.

    Sár lesning en að athuguðu máli, sönn,— of sönn.

    Okkur virðist algerlega um megn, að hyggja að stoðum framtíðar með þeim hætti sem tíðkast meðal þeirra þjóða sem lengst ná og hafa besta afkomu.

    Um þeirra kerfi ríkir ekkert þagnar samsæri, heldur eru menn þar boðnir og búnir að aðstoða okkur við uppbygginguna, líkt og reynt var við stofnun HÍ og framþróun hans allt fram eftir síðustu öld.

    Hví í ósköpunum eru menn svona hræddir við, að fá aðstoð?? Ég er þess fullviss, að sömu akademíur sem aðstoðuðu okkur fyrrum, munu glaðar gera það aftur, því okkur hefur borið mjög af leið og erum í ófærum nú um stundir. Danir og Þjóðverjar, já Kaninn líka eru auðvitað ólmir í, að aðstoða okkur.

    Við þurfum bara að vera tilbúnir til, að taka kennslu og leiðbeiningum. Til að mynda er ég nokkuð viss um, að menn myndu benda okkur á, að þétta raðir skólana og koma þeim öllum á sama svæði, nefnilega Vatnsmýrina og búa þar til mótor framtíðar landsins með raunvísinda og tækni klösum. Þannig kynnast nemendur best og þá geta myndast vinskapur og tengsl, sem dug lífstíð, líkt og hér áður í MR og HÍ.

    Enn, hafðu kærar þakkir fyrir þá vinnu sem þú settir í þessa samantekt og vonandi hlusta stjórnendur fjárins, hvernig því er sóað, engum til gagns, nema þeim sem þiggur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur