Fimmtudagur 31.10.2013 - 12:58 - 4 ummæli

Gauta Kristmannssyni svarað aftur um HÍ

Gauti Kristmannsson birti nýlega annað „svar“ við pistlum mínum um íslenska háskólakerfið, og gagnrýni minni á Háskóla Íslands.  Nýjasti pistill minn um þetta er hér.
Merkilegt nokk reynir Gauti ekki að hrekja beinlínis neitt af því sem ég hef sagt, auk þess sem hann skýtur sér hjá því að svara þeirri ábendingu minni, þegar talnasamanburðurinn er annars vegar, að þrátt fyrir ónákvæmni er útilokað að útskýra þann gríðarlega mun sem er á Íslandi og öðrum löndum, og þá skiptir ekki máli hvort munurinn er tífaldur (á hlutfallslegum fjölda nemenda í rannsóknaháskólum) eða „bara“ þrefaldur.  Ég ætla ekki að fara ítarlega gegnum málflutning Gauta, en nefna nokkur dæmi um rangfærslur hans.
Eitt og annað í þessari grein Gauta sé ég ekki betur en að sé kolrangt.  Meðal annars segir hann:
„Þannig er ein grein eftir t.d. fimm íslenska fræðimenn við HÍ talin fimm sinnum í þessari töflu.“
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá  Vísinda- og nýsköpunarsviði HÍ eru greinar því aðeins tvítaldar á þessum lista að höfundar séu af tveim ólíkum sviðum.  Þannig sé grein aldrei tvítalin fyrir sama svið, og hafi því ekki áhrif á þann samanburð sem ég gerði.
Annað dæmi:  Gauti hefur eftir mér:
„Til að skilja molbúaháttinn sem einkennir raunverulega stefnu forystu HÍ og HR, sem báðir segjast ætla að verða öflugir rannsóknaháskólar á alþjóðavettvangi, er gott að hafa þetta í huga: Af þeim 10-12 manneskjum sem mynda æðstu akademísku stjórn þessara skóla [HÍ og HR] hefur ekki ein einasta neina teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.“
Og svo segir Gauti:
„Þetta eru einfaldlega ósannindi og aðdróttun að mannorði fólks sem er hámenntað víða erlendis, hefur reynslu af starfi við erlenda háskóla og mikinn rannsóknaferil að baki.“
 Einfalt hefði verið fyrir Gauta að benda á konkret dæmi um þetta, þ.e.a.s. einhverja af þessum manneskjum sem hefur „teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.“  Það gerir hann ekki.  Ástæðan er einföld.  Hver sem er getur skoðað feril þessa fólks, og niðurstaðan er sú sem ég hélt fram.  (Og hér er e.t.v. rétt að taka fram að með akademísku starfi á ég ekki við það að vera í námi, heldur að hafa starfað sem akademískur starfsmaður.)
Óskandi væri að Gauti vildi ræða þessi mál í alvöru, og reyna að hrekja beinlínis það sem ég segi, í stað þess að halda bara fram að samanburðurinn sem ég geri sé ómarktækur.  Það ætti t.d. að vera auðvelt fyrir hann að útskýra hvort það er rangt hjá mér að á Íslandi séu allir akademískir starfsmenn ríkisháskólanna í rannsóknastöðum (fái umtalsverðan hluta launa sinna fyrir að stunda rannsóknir), og hvort það er algengt í öðrum löndum að það gildi um svo gríðarlega hátt hlutfall slíkra starfsmanna.  Staðreyndin, sem Gauti hefur ekki reynt að hrekjs, er að þetta er  óþekkt í nokkru öðru landi með  hlutfallslega jafn umfangsmikið háskólakerfi.  Skýringin er varla sú að Íslendingar séu ofurmenni á þessu sviði.
Óskandi væri líka að fleiri úr háskólasamfélaginu, sérstaklega það forystufólk sem ber ábyrgð á því sem gagnrýni mín beinist að, tækju þátt í þessari umræðu á  opinberum vettvangi.  Það á jú að vera aðal háskólasamfélags að stunda opinskáa og gagnrýna umræðu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Fokið er í flest skjól hér á landi þegar íslenskir fræðimenn geta ekki stundað rökræður á opinberum vettvangi en grípa í stað til atriða sem einkenna íslenska umræðu; gífuryrði, ásakanir um að andstæðingar í rökræðum stundi lygar auk þess að nota orð eins og „einfaldlega“, „að sjálfsögðu“ og „auðvitað“ til að gefa sínum málstað aukið vægi jafnvel þó hann byggist mögulega upp á sandi.

    Mér leikur forvitni á að vita hvað veldur því að Íslendingar ræða eins mörg aukaatriði tiltekinna mála og hægt er en skilja oftast nær aðalatriðið/-atriðin eftir.

    Er það menntun fólks? Uppeldi? Fjölmiðlar? Stjórnmálamenning? Allt af þessu? Eitthvað annað?

  • Þú ert hugaður maður Einar. Þessi sannleikur hefur í raun verið ljós í áraraðir. Lagadeildin (og deildirnar fjórar) er td. á menntaskólastigi. Tímana tákn að Bifröst er leidd af manni sem er gjörsneyddur vísindalegri þekkingu. Á niðurskurðartímum á fyrst að skera niður í rannsóknarheiminum þar sem afköstin og gæðin eru sáralítil sem enginn og vísindaframlagið er ekkert eða næstum ekkert.
    Það er gjörsamlega búið að verðfella prófesorstitla og klárlega enda þarf miklu meira til að gera stofnun að háskóla en að klístra háskólamerki á byggingu og hafa malbikað bílastæði og kennslustofur.
    Leiðin er að færa fé frá „geldingunum“ sem lítið sem ekkert hafa gert jafnvel í áratugi og það litla er að birta það í íslenskum tímaritum sem eru algjörla hulin frá alþjóðlegu fræðasamfélagi. Það á hreinlega að skera þar rækilega niður leggja niður þessar einingar eða færa þennan rannsóknartíma í kennslu. Það á að stórauka samkeppnisframlög meðan þessi „dauði rannsóknartími“ verði skorinn niður en menn ætla að fara hina leiðina en alvöru vísindafólk frá „þungu“ rannsóknardeildunum fer þá burt og þetta mun án efa reka á eftir flótta úr heilbrigðiskerfinu sem og raungreinasviði þar sem alþjóðleg samkeppni er gríðarleg. Þetta mun verða enn eitt reiðarslagið að við missum þetta fólk.
    Heimalingarnir geta augljóslega ekkert farið enda vill þá enginn en afar slæmt að þeir liggi í sínum stöðum og þiggja þannig laun og enginn missir af flestum þeirra enda margir þeir allara afkastaminnstu/lötustu koma oftast verst út úr mati nemenda og nákvæmlega engin eftirsjá að þeim.

    • Einar Steingrimsson

      Já, það er einmitt þannig að „Heimalingarnir geta augljóslega ekkert farið enda vill þá enginn …“. Afleiðingarnar af niðurskurði til rannsókna, og almennt af þrengri fjárhag háskóla, verða einmitt að það verður vonlaust að laða öflugt fólk til landsins, bæði útlendinga og þá Íslendinga sem annars hefðu komið tilbaka.

      Til að sporna við þeirri óheillaþróun væri eðlilegt að hætta að greiða þeim laun fyrir rannsóknir sem enga burði hafa til þess, og nota féð til að byggja upp þær rannsóknir sem standast einhvern samanburð á alþjóðavettvangi. Það er því miður lítil von til þess, því undirmálsfólkið (í rannsóknum) hefur of sterk ítök í valdakerfinu.

  • Tek ofan hatt minn fyrir Einari.

    Það þarf alltaf kjark til að skora á hólm rótgróin og íhaldssöm kerfi hvar sem þau er að finna.

    Margt er gott í Háskóla Íslands en mjög margt jafnframt afar slæmt.

    Alls kyns hjáfræði vaða uppi í nafni vísinda.

    Sérfræðingatrú Íslendinga er svo sérstakt áhygggjuefni.

    Hún er reyndar til marks um lélega menntun þjóðarinnar og afleita fjölmiðlun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur