Fyrir fáum vikum hneykslaðist innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, á því að andstæðingar trúboðs ríkiskirkjunnar í skólum vildu „forða börnunum okkar frá boðskap um … kærleika“. Hanna Birna er ekki svo illa gefin að hún viti ekki að þetta eru ósannindi sem hún fór með. Hún veit líka að það er ekki í anda kristilegs kærleika að segja ósatt með þessum hætti.
Hanna Birna veit líka örugglega margt fleira um þessa kristni sem hún þykist aðhyllast, að minnsta kosti á tyllidögum. Til dæmis kann hún örugglega söguna um miskunnsama Samverjann. Og ritningargreinina „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ Samt neitaði hún að bíða með brottvísun manns sem grunur leikur á að eigi fljótlega von á barni með konu sem býr á Íslandi. Þau heita að vísu ekki María og Jósef, en ótrúlegt verður að teljast að Hanna Birna sé ekki með í huga, á aðventunni, söguna um þau og barnið þeirra.
Hún veit líka örugglega af boðorðinu um að bera ekki ljúgvitni, en samt breiðir hún út dylgjur um að aðrir beri ábyrgð á leka minnisblaðs úr ráðuneytinu þótt allt bendi til að því hafi verið lekið úr ráðuneytinu í sóðalegum tilgangi, og hún neitar að svara augljósum spurningum þegar böndin hafa nú borist að henni sjálfri og nánustu undirmönnum.
Hanna Birna þekkir örugglega allt þetta úr kristninni sem hún þykist aðhyllast. En hún aðhyllist ekki kærleiksboðskap kristninnar. Hanna Birna er ekki kristin. Hún sveipar sig bara ljóma þess sem fallegast er í kristninni þegar það hentar henni. Þegar á reynir er hún hins vegar andkristnin holdi klædd.
Hún er fyrst og síðast tækifærissinni. Og virðist fátt ef nokkuð heilagt ef hún sér tækifæri fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn. En þó fyrst og fremst sig. Svoleiðis fólk finnst mér ekki eiga heima í pólitík, hvorki konur né karlar. Þó er mikið verið að hvetja konur til þessa eiginleika sem hafa þótt karllægir. Myndi frekar vilja letja karla og konur til þessa eiginleika. Vil nefnilega kjósa fólk til að gera eitthvað merkilegt en ekki til að það fái að vera eitthvað merkilegt
Þó svo að einhver hegði sér ekki í samræmi við það sem þú kallar „kærleiksboðskap kristninnar“, þá veit ég ekki af hverju það þýðir að viðkomandi sé ekki kristinn. T.d. var fólkið sem fór í krossfarirnar og þeir sem tóku trúvillinga af lífi kristnir, þó svo að fremferði þeirra hafi verið margfalt andstyggilegra en það sem Hanna Birna er ásökuð um að hafa gert.
Hanna Birna er auðvaldssinni eins og vera ber með varaformann Flokksins. Muni ég sögurnar af Jesú rétt var hann afar lítið hrifinn af auðvaldinu.
Hjalti Rúnar: Hvað þýðir það að vera kristinn, ef ekki að fylgja í aðalatriðum boðskap kristninnar?
Einar: Efast um að fólk sem kallar sig kristið geti svarað þessari spurningu, svo vel sé. Það telur sig oftast geta sagt vera „kristið“ til að teljast gott og þetta „gott“ kemur svo bara að sjálfu sér, enda óþarfi að rækta einhverjar góðar dygðir þegar maður er „góður“ og „gegnheill“ kristinn maður.
Einar,
Er ekki komið nóg af trúar-hatrinu í þér
Líður þér eitthvað illa vinur?
Nei, Gummi minn, það ekki trúar-hatur að benda faríseunum á hræsni sína og yfirdrepsskap. Það er blátt áfram kristilegt, liggur mér við að segja.
Eitt er að segja að manneskja hafi logið. Hún hafi sagt vitandi vits ósatt til að bjarga sjálfum sér úr vandræðum eða hugsanlega að vinna sinni pólitísku stefnu brautargengi með öllum ráðum. Annað er að brjóta alþjóðlega mannréttindasáttmála og íslensk lög. Enn annað er að vera andkristinn. Andkristur er Antikristur eða Falskristur. Það að vera holdgervingur andkristninnar er býsna mikið og býsna guðfræðilegt. Það virðist vera mun meira en að vera falskur lygari. Stór hluti Íslendinga veit lítið sem ekkert um kenningar ríkiskirkjunnar. Sennilega er það erfitt að vera það sem maður veit ekki hvað er.
Pínu kjánó.
*****************************************
Ég læt hér fylgja með fyrsta vers úr nýjum rappbálki eftir sjálfan mig
um þá félagana Jésús Kr. og Helga Hó, Helga Hó.
Til stendur að ég frumflytji bálkinn í heild sinni, við léttan trommuslátt,
á Austurvelli föstudaginn langa næstkomandi kl. 14:15.
Bálkurinn er miklu lengri en frekari innihaldi hans verður haldið leyndu
þar til við frumflutninginn
Allir velkomnir !!
———————————————-
Jésús Kr. var ekki verðbréfasali
ekki frekar en Helgi Hó, Helgi Hó
Jésús Kr. var ekki útgerðarmaður
ekki frekar en Helgi Hó, Helgi Hó
Jésús Kr. stundaði ekki vafningsviðskipti
ekki frekar en Helgi Hó, Helgi Hó
Jesús Kr. var vandvirkur smiður
rétt eins og Helgi Hó, Helgi Hó
Jésús Kr. kaus ekki Sjálfstæðisflokkinn
ekki frekar enn Helgi Hó, Helgi Hó,
..
*****************************************
Einar Steingrímsson sté fram, horfði til himins og sagði: „Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður“. Og bætti við: „Og eins og ráðherrann sem er andkristnin holdi klædd og brúkar daglega fleipur og svikabrigsl“.
Og Guðdómurinn leit föðurlega til hins upphafna manns og sagði: „Einar, tunga þín sáir eitri og svo hefur verið um langa hríð. Þú ert ekki verðugur þjónn minn meðan þú með pistlum þínum á Eyjunni hagræðir sannleikanum, lýgur hiklaust í anda þess siðlausa, níðist á náunga þínum með heift og brigslyrðum og mundu það Einar að auðveldara er fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga en heiftrækinn pistlahöfund inní himnaríki“.
Takk fyrir þessa hjartnæmu hugvekju, GSS. Það fór alveg fram hjá mér að ég hefði fjallað um sjálfan mig í þessum pistli …
Á meðan Vigdís fangar athygli almenningsnets með með kröftugum kjafti festir Hanna Birna sínar krúttlegu klær í hinum raunverulegu fórnarlömbum íslensks samfélags. Hálft ár í ráðuneytinu skilur eftir sig slóð í blóði drifna, Nú reynir á að gleyma ekki! http://goo.gl/FRiZ5C
Hef ekki skilið trendið að nánast banna sunnudagsskóla og jesúmyndir og söng. Sem barn fór ég í sunnudagsskóla, söng og fékk fallega jesúmynd. Gaman! Er ekki haldin trúarofstæki í dag, né trúarhatri í dag. Bibblíusögurnar, þær voru skemmtilegar í skólanum, alveg án vandræða þá sem og nú. Hefur einhver trúarskaðabylgja gengið hér yfir á minnar vitundar? Eða er þetta það sem rífast skal um, bara almennt? :Þið sem eruð svona andsnúin trú og eruð viss um að hún sé skaðleg, bendi ég ykkur á tækifæri til að sýna það í verki með stuðningi við misnotuð börn úr Landakotsskóla til lengri tíma! Nei, þá heyrist ekki píp.