[Breytt kl. 21:58, 7. apríl 2015: Mér hefur verið bent á að staðhæfing mín í þessum pistli um samband Háskóla Íslands og forstjóra Hjartaverndar, sé röng. Ég vil ekki breyta pistlinum svo löngu eftir að hann er skrifaður, en set athugasemd við þetta í honum sjálfum líka. Og biðst hér með afsökunar á þessu ranghermi mínu.]
Eftirfarandi grein birtist í desemberhefti tímaritsins Þjóðmála, 4. hefti 9. árgangs. Greinin er ansi löng, og skiptist í fimm kafla, auk inngangsins:
Sturlað stigakerfi, Falsað bókhald, Stjórnvöld í ruglinu, Smákóngaveldið, Hvað er til ráða?
——————————————————————————-
Vondir háskólar, viljalaus stjórnvöld
Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru um 130 akademískir starfsmenn (lektorar, dósentar og prófessorar) og um 20 í slíkum stöðum við Háskólann á Akureyri. Það eru því um 150 starfsmenn í rannsóknastöðum í menntavísindum við íslenska háskóla. Allt þetta fólk fær helming launa sinna fyrir að stunda rannsóknir, og yfirlýst stefna HÍ er að komast í fremstu röð rannsóknaháskóla á alþjóðavettvangi, en það krefst þess að rannsóknastarf skólans sé hátt metið í alþjóðlegum samanburði.
Ef hlutfallslegur fjöldi akademískra starfsmanna í menntavísindum væri sá sami í Bandaríkjunum væru þar 150 þúsund slíkir starfsmenn. Í Bandaríkjunum eru um þrjú hundruð háskólar sem leggja mikla eða einhverja áherslu á rannsóknir (en bara um hundrað þeirra ná inn á lista yfir 300 bestu skóla heims). En jafnvel þótt allir þessir þrjú hundruð skólar séu taldir, og þótt gert væri ráð fyrir að í þeim öllum séu allir starfsmenn með rannsóknir sem helming vinnu sinnar (sem er fjarri lagi), þá þyrfti hver og einn þessara skóla að vera með að meðaltali fimm hundruð akademíska starfsmenn í menntavísindum. Háskóladeildir með fleiri en hundrað akademíska starfsmenn eru hins vegar sjaldgæfar, auk þess sem mikill fjöldi ofangreindra skóla er ekki með neinar rannsóknir í menntavísindum. Það er því nokkuð ljóst að á Íslandi eru, hlutfallslega, að minnsta kosti tífalt fleiri á launum við rannsóknir í menntavísindum en í Bandaríkjunum.
Þetta er ein af mörgum sláandi staðreyndum um risavaxna stærð svokallaðs rannsóknastarfs við íslensku háskólana. Þótt vissulega séu stöku hópar vísindafólks við íslensku háskólana svo öflugir að eftir þeim er tekið á alþjóðavettvangi, þá er augljóst að ekki getur allt háskólakerfið, eða einu sinni eitt stórt svið, eins og menntavísindin, verið margfalt öflugra en gildir um bandaríska háskólasamfélagið. Hvað þá ef tekið er tillit til þess að bandarískir háskólar, sérstaklega þeir bestu, eru með mjög hátt hlutfall útlendinga í akademískum stöðum, en afar fáir útlendingar eru í íslensku háskólunum, og margt af besta íslenska vísindafólkinu er erlendis.
Í stuttu máli er þetta augljóst öllum sem vilja vita, og þarf ekki nema grófan tölfræðilegan samanburð til: Fjöldi þess fólks sem fær stóran hluta launa sinna greiddan fyrir rannsóknir í íslenskum háskólum er jafn fáránlegur og stærð íslensku bankanna fyrir hrun.
Yfirvöld innan HÍ hafa hins vegar viljað að sem fæstir þekktu þennan óþægilega sannleika. Þegar illa gengur að breiða yfir hann er gagnrýni helst svarað með þögn. Þeir starfsmenn skólans sem leyfa sér að hafa í frammi hógværa, en staðfasta, gagnrýni finna fljótt að þeir eru komnir út í kuldann hjá yfirvöldum skólans.
Sama gildir um menntamálayfirvöld landsins, sérstaklega menntamálaráðherra síðustu tíu ára eða svo. Þeir hafa annað hvort ekki hirt um að kynna sér málið með samanburði við önnur lönd, þrátt fyrir stöðugar ábendingar, eða þá að þeir hafa ekki viljað rugga bátnum. Þetta er sérlega kaldhæðnislegt í ljósi þess að opinber stefna stjórnvalda (sem vikið verður að síðar) hefur allan þann tíma verið að efla samkeppnissjóði á kostnað beinna framlaga til háskóla, en sú stefna hefur ítrekað verið þverbrotin, af þessum sömu stjórnvöldum.
Ástandið er svo síst betra í litlu ríkisháskólunum en í HÍ, þar sem sömu reglur gilda um meðferð rannsóknafjár, enda er mannaflinn enn lakari í þeim flestum. Þeir verða þó ekki ræddir sérstaklega hér, enda innan við 10% af umfangi háskólakerfisins, en HÍ einn um 75%. Þótt Háskólinn í Reykjavík starfi alls ekki heldur í samræmi við yfirlýsta stefnu sína um að verða öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðamælikvarða, þá gildir annað um meðferð rannsóknafjár þar, og verður ekki fjallað um hann hér.
Sturlað stigakerfi
Árið 2006 setti HÍ sér það háleita markmið að komast í röð hundrað bestu háskóla heims, á listum sem leggja mikla áherslu á gæði og styrk rannsókna. Þessi stefna var unnin innan skólans, undir forystu rektors, Kristínar Ingólfsdóttur, og með þátttöku akademískra starfsmanna, og hlaut mikinn hljómgrunn. Forystu skólans hefði verið í lófa lagið að fylgja þessari stefnu, hefði hún kært sig um það. Hún hefur hins vegar ekkert gert til að breyta helstu hvötunum í starfi skólans, því stigakerfi sem mat á umfangi og gæðum rannsóknaframlags einstakra starfsmanna er byggt á.
Það er nógu slæmt að þetta stigakerfi ríkisháskólanna byggir nánast eingöngu á baunatalningu, þ.e.a.s. á talningu á fjölda birtra greina, ráðstefnufyrirlestra o.s.frv. Það er vissulega rétt að mjög fáar birtingar vísindamanns eru undantekningalítið merki um lítið vægi, en það er hins vegar lítil fylgni milli magns og gæða þegar komið er yfir ákveðið lágmark í birtingatíðni. Stigakerfi af þessu tagi eru nánast óþekkt í sæmilegum háskólum erlendis, af augljósum ástæðum: Gæði akademískra starfsmanna eru metin af sérfræðingum á hverju sviði fyrir sig, bæði þegar um er að ræða framgang (úr lektors- í dósents- og svo í prófessorsstöðu) og beint eða óbeint þegar laun eru annars vegar. Engu reyndu háskólafólki dettur í hug að hægt sé að meta gæði rannsóknastarfs með því einu að telja birtar greinar og annað sem beinlínis er hægt að kasta tölu á.
Það sem verra er, stigakerfið er þannig gert að það fást að jafnaði fleiri stig fyrir grein sem birt er í íslensku tímariti en í einhverju af þeim alþjóðlegu tímaritum sem mestrar virðingar njóta (eins og t.d. Nature). Það er fráleit stefna að birta á íslensku greinar sem eiga að vera framlag til vísindasamfélagsins, á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu, en það gildir um langflest fræðasvið, þar á meðal nánast öll mennta- og félagsvísindi. Staðreyndin er auðvitað sú að mikill fjöldi akademískra starfsmanna í HÍ ræður alls ekki við neinar rannsóknir sem ná máli á þeim alþjóðavettvangi sem skólinn vill gera sig gildandi á. Samt sem áður er ekki nóg með að allt þetta fólk fái stóran hluta launa sinna fyrir að stunda rannsóknir, heldur eru beinlínis sett á laggirnar tímarit sem eru úr öllum tengslum við alþjóðafræðasamfélagið, og því algerlega gagnslaus þessu samfélagi, til að hægt sé að veita undirmálsfólkinu framgang allt upp í prófessorsstöðu, og hækka laun þess umtalsvert. Enda er fjöldi prófessora við HÍ sem nánast ekkert hafa birt á alþjóðavettvangi, og þar með ekkert birt bitastætt, á áratugalöngum ferli.
Þetta stigakerfi hvetur starfsmenn annars vegar til að skrifa gagnslausar greinar sem ekki ná máli alþjóðlega, af því auðvelt er að fá þær birtar á Íslandi, og hins vegar hvetur það til framleiðslu á magni, en ekki gæðum. Það er sérstaklega kaldhæðið að færasta vísindafólkið leggur langflest áherslu á gæði, og forðast óþarfa magn, enda kostar dýrmætan tíma að framleiða slök vísindi, þótt það sé afar auðvelt fyrir sæmilegt vísindafólk að fjöldaframleiða ómerkilegar greinar og fá birtar á alþjóðavettvangi.
Ég veit ekki til að nokkurn tíma hafi verið lagt til innan skólans að leggja niður þetta fráleita stigakerfi og setja í staðinn raunverulegt gæðamat. Hins vegar hefur, á síðustu árum, verið reynt að hnika áherslunum í skárri átt. Þær tilraunir hafa að mestu verið barðar niður.
Afleiðingin er að á Íslandi er margfalt fleira fólk á launum en í nokkru sambærilegu landi við að stunda rannsóknir sem eru einskis virði, og sem margar fara beint í þá ruslatunnu sem flest íslensk tímarit eru, því þau eru ólæsileg fyrir meira en 99,9% viðkomandi vísindasamfélags.
Falsað bókhald
Þótt forysta HÍ hafi ekki reynt að breyta matskerfi skólans þannig að það styddi í raun við yfirlýsta stefnu, og ekkert gert til að byggja markvisst upp öflugt vísindastarf, hefur hún lagt sig fram um að reyna að breyta sjálfum tölunum sem eiga að lýsa styrk skólans. Þannig voru forstjórar Hjartaverndar [<<Rangt um forstjóra Hjartaverndar; sjá aths. í upphafi pistilsins] og Íslenskrar Erfðagreiningar gerðir að prófessorum við HÍ, og þarmeð getur skólinn talið sér til tekna flestallar birtingar og tilvitnanir sem tengjast þessum tveim fyrirtækjum, en þau eru bæði gríðarlega öflug í rannsóknum. Þetta breytti hins vegar engu um rannsóknastarf innan skólans, né efldi það slíkt starf á Íslandi. Trúlega réði þessi ráðstöfun úrslitum í því að HÍ tókst að komast inn á einn lista yfir 300 bestu háskóla í heimi, en reyndar sést hann ekki á öðrum slíkum listum.
HÍ hefur líka lagt mikla áherslu á að fjölga doktorsnemum. Það hefur þó ekki verið gert með því að byggja upp það rannsóknaumhverfi sem þarf til að bjóða upp á gott doktorsnám, og ekki hefur heldur verið lögð áhersla á að laða til landsins framúrskarandi nemendur í slíkt nám. Í staðinn hefur fjöldi manns verið tekinn inn í doktorsnám í deildum sem ekki hafa neina burði til að halda uppi öflugu námi. Svo langt hefur verið gengið, til dæmis í Viðskiptafræðideild, að fólk með engan raunverulegan rannsóknaferil að baki, engar birtingar á alþjóðavettvangi, hvað þá umtalsverðan slíkan feril, hefur leiðbeint doktorsnemum. Þetta er ekki bara siðlaust, heldur beinlínis brot á reglum skólans sjálfs um hæfi leiðbeinenda.
Markmiðið með ofangreindum aðgerðum HÍ er einfaldlega að fegra rannsóknabókhald sitt, að hækka hitastigið með því að halda hitamælinum í greip sinni. Skólinn vill „framleiða“ doktorspróf, en skeytir ekki um hvort nokkur raunveruleg gæði liggja að baki þeim tölum sem hann sýnir um starf sitt. Markmiðið er greinilega að reyna að komast hærra á listum yfir góða háskóla, en ekki að efla starf skólans í raun.
Það er svo annað dæmi um misskilda stærð og afl Íslands að halda að hægt sé að byggja upp umfangsmikið doktorsnám við íslenskan skóla án þess að yfirgnæfandi meirihluti nemendanna séu útlendingar. Það er sjálfsagt að bjóða upp á doktorsnám í þeim fáu greinum sem standa vel að vígi og geta boðið upp á gott rannsóknaumhverfi (með margt öflugt vísindafólk í viðkomandi grein). En Íslendingar eru ekki fleiri en raun ber vitni, og hæpið að telja þá afburðafólk miðað við aðrar þjóðir. Auk þess fer mjög stór hluti íslenskra námsmanna, ekki síst þeir bestu, tíl útlanda í doktorsnám. Það væri glapræði að reyna að snúa þeirri þróun við, og vonlaust verk að auki. Íslendingar eru einfaldlega of fáir, og of margir þeirra fara, blessunarlega, úr landi í doktorsnám, til að hægt sé að gera ráð fyrir að þeir manni margar stöður doktorsnema innanlands. En HÍ virðist ekkert reyna til að sækja fjölda doktorsnema til annarra landa, á þau svið innan skólans sem standa undir sliku, heldur er hrúgað inn fólki sem er sett í hendurnar á leiðbeinendum sem hafa sjálfir varla stundað nokkrar rannsóknir, hvað þá að þeir ráði við að leiðbeina öðrum.
Stjórnvöld í ruglinu
Nú má auðvitað spyrja hvort ástæða sé til að halda úti háskólarannsóknum á Íslandi. Burtséð frá þeirri afstöðu að sjálfsagt sé að Ísland leggi sitt af mörkum á því sviði má færa rök fyrir því að það sé jafnvel þjóðhagslega hagkvæmt (þótt sú hagkvæmni myndi líklega aukast til muna ef reynt væri að laða mikið af öflugu erlendu vísindafólki til landsins). Og ljóst er að stefna stjórnvalda hefur alltaf verið að sjálfsagt sé að slíkt starf fari fram í landinu. Í því ljósi er afar merkilegt að skoða annars vegar yfirlýsta stefnu stjórnvalda, og hins vegar framkvæmdirnar. Þar kemur í ljós sami tvískinnungurinn og hjá forystu HÍ — glæsileg stefna í orði, en þveröfugar aðgerðir á borði.
Árið 2003 var sett á stofn Vísinda- og tækniráð. Í ráðinu sitja fjórir ráðherrar, þeirra á meðal forsætis- og menntamálaráðherra, og er forsætisráðherra formaður. Það ætti því að mega taka trúanlega þá yfirlýsingu um tilganginn sem ráðinu er markaður í lögum, nefnilega að „Stefna stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum skal mörkuð af Vísinda- og tækniráði til þriggja ára í senn.“ Óhætt er að segja að yfirlýst stefna ráðsins, þau tíu ár sem það hefur starfað, hafi alltaf falið í sér að samkeppnissjóðir sem fjármagna rannsóknir skyldu efldir til muna, á kostnað beinna fjárveitinga til háskóla (en ekkert raunverulegt eftirlit hefur verið haft með notkun skólanna á því fé).
Þrátt fyrir þessa yfirlýstu stefnu hafa samkeppnissjóðirnir ekkert verið efldir, í samanburði við beinar fjárveitingar til háskólanna, öll þessi ár. Þeir sem fyrst og fremst bera ábyrgð á þessu eru menntamálaráðherrar á hverjum tíma, því þótt forsætisráðherra sé formaður Vísinda- og tækniráðs heyrir starfsemi þess að öðru leyti undir menntamálaráðuneytið, auk þess sem það er menntamálaráðherra sem ber ábyrgð á háskólakerfinu. Það er því sérstaklega athyglisvert að skoða pólitíska stefnu og yfirlýsingar þessara ráðherra, og flokka þeirra.
Í ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2005 segir:
„Samkeppni um opinbert fjármagn til rannsókna og tækniþróunar hvetur til skilvirkni og skilgreinir takmark og tilgang þeirra betur en fastar fjárveitingar til opinberra stofnana. Þó eru níu af hverjum tíu krónum af opinberum rannsóknafjárveitingum bein framlög til háskóla og stofnana. Landsfundur telur mikilvægt að auka verulega hlut samkeppnisfjár í opinberum rannsóknafjárveitingum þannig að keppt sé um rannsóknafjárveitingar samkvæmt mati á gæðum rannsóknaverkefna og væntingum um árangur og bestu verkefnin hverju sinni hljóti styrk. Tryggja þarf að samkeppnissjóðir séu nægilega sterkir til að hafa það vogarafl sem til þarf.“
Þrátt fyrir að þetta væri gildandi stefna flokksins, og í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs, ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, í byrjun árs 2007, að þrefalda framlög til rannsókna við HÍ, án þess að auka nokkuð framlög til samkeppnissjóða. Aukningin átti að nema meira en þreföldu því fjármagni sem helstu rannsóknasjóðirnir höfðu til umráða og því ljóst að þetta myndi veikja þá verulega í hlutfalli við beinu framlögin. HÍ fékk aðeins hluta þessarar hækkunar, en samt árlega aukningu sem nam meiru en öllu fé helstu sjóða sem vísindafólk HÍ sækir í.
Menntamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, Katrín Jakobsdóttir, sagði í grein í Morgunblaðinu, 15. október 2006:
„Ljóst er að efling samkeppnissjóða er lykilatriði ef við viljum að ungir vísindamenn hafi eitthvað að sækja hingað til lands. Þetta þarf að setja á oddinn á næstu árum og það er mikilvægt að stjórnvöld þori að bera ábyrgð og taka af kjarki ákvarðanir um eflingu rannsókna.“
Katrín mótmælti samt ekki þeim breytingum sem fyrirrennari hennar gerði skömmu síðar, þvert á þá stefnu sem hún hafði sjálf lýst. Þegar Katrín var svo ráðherra gerði hún ekkert með samkeppnissjóðina fyrr en í lok kjörtímabilsins, þegar gefinn var út tékki á framtíðina fyrir hækkun framlaga í Rannsóknasjóð. Sá tékki reyndist innistæðulaus þar sem „fjárfestingaráætlun“ ríkisstjórnarinnar var ekki „að fullu fjármögnuð“, samkvæmt núverandi menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, sem vill slá hækkunina af. Áætlanir hans ganga út á verulega rýrnun samkeppnissjóðanna á næstu árum. Katrín Jakobsdóttir gerði heldur ekkert til að vernda það besta í íslenska vísindasamfélaginu þegar hún var ráðherra, hvað þá nokkuð til að tryggja framtíðarmöguleika ungs og efnilegs vísindafólks. Hún setti að vísu, í upphafi ráðherratíðar sinnar, á fót svokallaðan „rýnihóp ráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins“. Vandlega var þó tryggt að í þeim hópi væru fulltrúar allra háskóla landsins, og þar á meðal staðfastir fulltrúar óbreytts ástands við HÍ, enda kom nákvæmlega ekkert út úr starfi hópsins, nema sú óbeina ákvörðun að ekki væri rétt að hrófla við neinu.
Stjórnvöld eru því undir sömu sökina seld og forysta HÍ: Þau hafa opinbera stefnu sem hljómar vel og skynsamlega, en gera svo eitthvað allt annað.
Smákóngaveldið
Sú spurning vaknar auðvitað af hverju í ósköpunum yfirvöld í HÍ, og þá sérstaklega rektorinn, beita sér ekki af alefli til að efla rannsóknastarf við skólann, í stað þess að halda áfram að ausa dýrmætu fé í rannsóknir sem eru svo lélegar að þær fást ekki birtar nema í sérstökum íslenskum tímaritum, stofnuðum til þess eins að birta slík undirmálsverk. Þetta er þeim mun sérkennilegra sem rektorinn fékk samþykkta glæsilega stefnu árið 2006, þess efnis að HÍ ætti að hasla sér völl á alþjóðavettvangi, og réttilega útskýrt að það krefðist fyrst og fremst öflugs rannsóknastarfs.
Þótt ekki sé einfalt mál að útskýra af hverju stjórnvöld innan og utan HÍ haga sér svona, þá er varla of mikil einföldun að segja að hér sjáist hið íslenska valdaklíkusamfélag smákónga í allri sinni dýrð. Af einhverjum ástæðum vilja æðstu yfirvöld HÍ ekki hrófla við því undirmálsfólki sem hefur jafnvel sölsað undir sig heilu deildirnar og hrakið í burtu besta fólkið, beint og óbeint. Eitt dæmi um það er hvernig þáverandi Tölvunarfræðiskor HÍ hrakti frá sér tvo af bestu vísindamönnum landsins á árunum 2005-2007, auk þess sem hún hafnaði tveimur öðrum slíkum um svipað leyti. Hver og einn af þessum fjórmenningum er með birtingaskrá sem er mun öflugri en skorin samanlögð, og margfalt fleiri tilvitnanir, og eftir er á þessu sviði í HÍ nánast ekkert rannsóknastarf. Forysta skólans hreyfði hvorki legg né lið, þótt þetta væri augljóst dæmi um undirmálsfólk sem hrakti burt mjög öfluga vísindamenn.
Það er svo sláandi, og minnir aftur á samsvörunina milli gorgeirs fjármálaforkólfa fyrir hrun, hvernig forysta HÍ er samsett. Sama gildir reyndar um Háskólann í Reykjavík, sem segist líka ætla að skara fram úr á alþjóðavettvangi í rannsóknum. Æðsta akademíska forysta þessara skóla samanstendur af 12-15 manns, rektorum og aðstoðarrektorum, sviðsforsetum í HÍ og deildarforsetum í HR. Ekki ein einasta af þessum manneskjum hefur nokkra reynslu sem talist getur af starfi við þá erlendu háskóla sem markmiðið er að líkjast. Allt er þetta fólk sem numið hefur erlendis, en flest flýtt sér heim til Íslands aftur, sest á valdastóla og gætt þess vandlega að halda í burtu frá öllum áhrifum þeim sem einhverja burði hafa til að leiða starf af þessu tagi.
Hvað er til ráða?
Að byggja upp góðan rannsóknaháskóla er ekki auðvelt, en það er mjög einfalt: Maður ræður öflugt vísindafólk, í sæmilega samstæðum hópum, og býr því gott umhverfi til að stunda rannsóknir sínar. Ef viljinn væri fyrir hendi til að efla HÍ verulega, þá er það vel hægt. Og þótt mikið fé þurfi til að byggja upp miklu betri skóla en HÍ er í dag, þá má komast langt án aukinna fjárframlaga, með því að nota rannsóknaféð skynsamlega. Það þýðir meðal annars að hætta verður að greiða því fólki laun fyrir rannsóknir sem ekki hefur burði til að stunda þær. Ljóst er að það gildir um yfirgnæfandi meirihluta starfsmanna á Menntavísindasviði, og stóran hluta á Félagsvísindasviði, og talsvert af slíku fólki er líka að finna á hinum sviðunum þrem. Það segir sína sögu að meðalframlag starfsmanns Menntavísindasviðs á alþjóðavettvangi er aðeins tuttugasti hlutinn af því sem gildir um Verkfræði- og Náttúruvísindasvið, og Félagsvísindasvið afkastar bara einum tíunda á við Verk og Nátt. Líklega ætti að hætta að greiða að minnsta kosti helmingi akademískra starfsmanna laun fyrir að stunda rannsóknir, og ef því fé væri skynsamlega varið mætti strax efla rannsóknastarfið til muna.
Það myndi svo efla enn frekar gott rannsóknastarf ef stór hluti fjárveitinga til rannsókna í háskólum færi gegnum samkeppnissjóði. Það breytti varla miklu um skiptingu fjárins milli skóla, en sé vel að því staðið hvetur það háskólana til að ráða til sín besta fáanlega fólk, og búa því góð skilyrði. Það er eina leiðin til að byggja öflugan háskóla.
Til þess þarf bara vilja, og kjark til að segja sannleikann.
MJÖG athyglisverð grein.
Kærar þakkir.
Það vekur athygli mína við skoðun á vefsíðu Menntasviðs að enginn karlmaður starfar á „kennsluskrifstofu Menntasviðs“. Þar eru 12 starfsmenn, allt konur.
Á hinni „almennu skrifstofu Menntasviðs“ starfa 7 konur og einn karl.
Fjórir karlmenn sjá hins vegar um svonefnda Menntasmiðju en þar er tölvuþjónustan við þetta svið.
Furðulegt að einungis konur stjórni þessu sviði.
Hvað skyldi valda því?
Og er það í samræmi við stefnu stjórnvalda?
,,Mennta-vísinda-svið“ ??
Tónninn, maður.
Pólitísk rétthugsun sér til þess að hrokafullar kvartmenntaðar kerlingar troða sér í svona stöður.
Sem eru líklega búnar til handa þeim.
Eftir að hafa starfað við HÍ og háskólatengda starfsemi í Meira en 30 ár get ég tekið undir fjölmargra sem kemur fram í þessari grein.
Greinar Einars Steingrímssonar um háskólamál eru mjög þarfar. Ég er
honum sammála um margt en ósammála um annað; t.d. er ein
meginskylda íslensks fræðafólks að skrifa einnig um sín fræði á íslensku
á þeim sviðum þar sem til eru öflug ritrýnd tímarit ( á mínu sviði
– stjórnmálafræði – t.d. Saga, Ritið og Skírnir).
Brýnt er að fjalla um þessi mál opinberlega á málþingum í háskólum
landsins og bjóða þar m.a. sérstaklega Einari Steingrímssyni að flytja
erindi.
Það er rétt að taka fram að ég tel að sum fræðirit á íslensku geti átt rétt á sér, en þau eru mjög fá, og líklega einskorðuð við örfáar greinar hugvísinda.
Ég er líka sammála því að það sé gott að vísindafólk skrifi um rannsóknir sínar á íslensku, til að fræða áhugasaman almenning. Leikmenn geta hins vegar nánast aldrei lesið rannsóknagreinar sér til gagns, og því eru skrif fyrir almenning ekki rök fyrir að rannsóknagreinar séu skrifaðar á íslensku.
Það sem er þó mikilvægast í þessu er að það eru augljósar ástæður fyrir hinum mikla fjölda „ritrýndra fræðirita“ á íslensku: Nefnilega að auðvelda punktasöfnun fyrir fólk sem ekki nær máli á þeim alþjóðavettvangi sem fræðigreinar þess eru, til dæmis í mennta- og félagsvísindum.
„Leikmenn geta hins vegar nánast aldrei lesið rannsóknargreinar sér til gagns, og því eru skrif fyrir almenning ekki rök fyrir að rannsóknargreinar séu skrifaðar á íslensku.“
Í hreinskilni sagt: Ég nenni ekki að taka frekari þátt í umræðu þessarar
tegundar eða reyna að útskýra fáránleika slíkra sjónarmiða varðandi
eðli rannsóknastarfs eða hlutverks háskóla hvort sem hér á landi eða
annars staðar.
Svanur: Hversu algengt er að leikmenn geti lesið rannsóknagreinar sér til gagns? Ég efast ekki um að það gildi um t.d. margt í íslenskri sögu, en ef við skoðum þau fræðasvið öll sem stunduð eru á Íslandi, hversu stórt hlutfall þeirra heldurðu að séu þess eðlis að leikmenn geti lesið fræðigreinar á þeim sér til gagns?
Mjög góð grein Einar, þó ég sé efins um að hún breyti miklu.